Lögberg - 07.10.1954, Blaðsíða 6

Lögberg - 07.10.1954, Blaðsíða 6
6 „Hvað svo sem átti ég að gera inn í hesthús?" spurði Lína. „Hann getur víst hugsað um hestana sína hjálparlaust“. „Það er engu líkara en að þig langi til að snúa út úr fyrir mér“, sagði Anna fálega. „Hvað tafði þig eiginlega daginn þann?“ „Siggi var við lækinn og lét eins og hann væri vitlaus, henti í mig snjó og stríddi ipér á alla lund. Ég ætlaði aldrei að fá að ná í fötuna“, sagði Lína og var hissa yfir því, hvað henni gat dottið í hug svona fljótlega. „Segirðu það satt?“ spurði Anna. „Reyndar þekki ég það ekki til þín, að skrökva. En hvers vegna viltu þá fara í burtu, ef þetta hefur ekkert verið nema einu sinni eða tvisvar?" „Það er bezt að fara. Þá er þetta búið. Þér gæti dottið þetta í hug aftur og aftur, og það gerði þig órólega. Mig langar ekkert til þess að illt hljótist af mér. Svo gæti það líka borizt út af heimilinu. En þú mátt trúa því, að þetta var ekkert annað en það, sem þú sást, ja, kannske einu sinni áður“. „Já, en mér finnst það ekki nema sanngjarnt, að þú talir við Jón og reynir að fá hann til að koma heim og vera sáttan við mig. Ekki hef ég brotið neitt af mér, líklega hefur hann fremur gert það. Og mér finnst það vera þér skyldast að koma á sættum milli okkar“, sagði Anna talsvert ströng á svip. „Hvernig á ég að geta það? Ég veit ekki einui sinni, hvert hann fór“. „Mér hefur verið sagt, að hann sé yfir á ísólfsstöðum“, sagði Anna. „Ég skal tala við hann“, sagði Lína og stóð upp. „Ég get farið yfir um, um leið og ég fer. Ég fer strax í dag, fyrst ég má það“. Anna tók ótrúlega fast um úlnlið henni. „Heyrirðu hvað ég segi? Ég ætlast ekki til þess, að þú kaupir Jón með kossum þínum og faðmlögum til að sættast við mig. Slíka fórn þigg ég ekki“. „Nei, ég skal ekki gera það“, sagði Lína. Og svo rétti hún húsmóður sinni hendina í kveðjuskyni. Hún bjóst við að hún kærði sig ekki um það, að hún kyssti hana. „Þetta er köld kveðja eftir öll þessi ár“, sagði Anna, settist upp og kyssti hana utan á kafrjóða kinnina. „Ég vona, að ég heyri það aldrei, að þú látir leiða þig út í svona vegleysur, heldur verðir alltaf vönduð og heiðarleg stúlka“. Lína gat með naumindum stunið upp þakklæti fyrir allt gott, svo þungt var henni um andardráttinn. Svo flýtti hún sér fram. Hurðin var í hálfa gátt eftir Dísu, sem hafði eitthvað verið að rápa inn fyrir, meðan þær töluðust við. En það var enginn í bað- stofunni, sem hefði getað heyrt til þeirra. Það þótti henni vænt um. Hún fór fram á dyraloft; þar var koffortið hennar og fötin. Hún lét ofan í koffortið það sem í það komst. Hitt batt hún í böggul, og ætlaði að bera hann. Það voru hversdagsfötin hennar. Nú var rifahjarn yfir allar sveitir eftir hlákublota, sem höfðu gengið um áramótin, svo að Lína þurfti ekki að vaða í ófærðinni; en leiðin var löng og dagarnir stuttir. Það var farið að skyggja, þegar hún kom ferðbúin inn í eldhúsið og sagði Borghildi að hún væri að fara heim. Mamma sín væri svo veik, að hún hefði beðið sig að koma heim og hugsa um sig. Borghildur varð alveg hissa. „Hver kom með þessar fréttir?" spurði hún. „Jón kom með bréf í gærkvöldi", sagði Lína. „En vegna hvers liggur svona illa á þér? Er mamma þín hættulega veik eða hvað?“ spurði Borghildur. Hún tók eftir því, hversu dapureyg Lína var. „Já, það er hún víst. Og svo þykir mér leiðinlegt að fara héðan“, sagði Lína lágt og hálfkjökrandi. „En þú kemur þó aftur, ef mamma þín hressist. Reyndar sé ég ekki, hvernig heimilið má án þín vera“. „Ég býst við að senda stúlku svo fljótt sem ég get útvegað hana. Lóa systir er svo ung, ekki nema sextán ára, en samt læt ég hana koma, ef ég fæ enga aðra“. Borghildur drakk kaffið hugsandi á svip. „Ætlarðu ekki að kveðja húsmóður þína?“ spurði hún þegar hún sá, að Lína gerði sig líklega til að fara inn. „Ég er búin að því“, anzaði Lína. Svo kyssti hún Borghildi og þakkaði henni fyrir allt gott, og bað hana að bera Þórði kæra kveðju sína. Hún var svo annars hugar, að hún mundi ekkert eftir því, að Þórður hafði lofað henni því að koma henni heim til mömmu hennar þetta kvöld. Hún mætti Sigga á hlaðinu og bað hann að koma koffortinu sínu ofan á Ós, ef sleðaferð félli fyrir. „Hvað er eiginlega með þig?“ spurði hann og gapti af undrun. „Ég er að fara heim, og kem líklega ekki aftur í vetur“. Hún heyrði hann þvaðra eitthvað um, að hún væri laglega vitlaus núna. Krakkarnir voru að leika sér fyrir neðan túnið; þar gæti hún kvatt þá. Ketilríður var að þvo þvott frammi í hlóða- ■ eldhúsi. Þær höfðu ekki sézt síðan frammi í búrinu. Henni datt ekki í hug að kveðja hana. Hún gekk beina leið yfir að Ásólfsstöðum og gerði boð fyrir húsbónda sinn. Það leið þó nokkur tími, þangað til hann kom fram í dyrnar. Eftir útliti hans að dæma gat hún vel ímyndað sér, að hann hefði verið að klæða sig. „Hvað er að frétta?“ sagði hann. „Þú ert þó líklega ekki að ganga í burtu; eða hefurðu kannske verið rekin úr vistinni?“ Hann færði sig út á hlaðið meðan hann talaði, svo að það heyrðist ekki inn í göngin, ef einhver forvitinn kynni að hlera eftir samtali þeirra. „Hvorugt“, anzaði hún. „Ég bað hana að leyfa mér að fara; ég ætla að útvega stúlku í staðinn minn. Ég get ekki verið lengur fyrst að þetta kom fyrir. En ég þarf að tala við þig, áður en ég fer“. „Já, auðvitað. En við getum ekki talazt við hérna. Ekkert er líklegra en að eitthvað af kvenfólkinu standi á hleri. Það er alltaf svo rækalli forvitið. Þú skalt bíða mín hérna frammi í hólunum, þar getum við talað saman í næði. Veðrið er hlýtt; ég kem strax þegar ég er búinn að drekka kaffið“. „Ég vildi heldur tala við þig hérna. Það heyrir víst enginn til okkar“, sagði hún vantreystandi sjálfri sér um að geta haldið loforðið, sem hún gaf húsmóður sinni. „Jú, veggirnir hérna á Ásólfsstöðum hafa eyru, því máttu LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 7. OKTÓBER 1954 trúa. Þú skalt bíða mín í hólunum. Þar heyrir enginn til okkar. Ég skal reyna að láta þig ekki bíða lengi“. Hann hló og gekk heim að dyrunum. En hún hélt út túnið. Það var ekki um annað að ræða fyrir hana, en að gera eins og hann lagði fyrir. En henni fannst biðin hræðilega löng, og þó var hún aðeins nokkrar mínútur. Fyrst settist hún á hólbarð, en varð fljótlega kalt, og fór að ganga fram og aftur. Líklega var ráðlegast fyrir hana að halda af stað, og hugsa ekkert um þessa sáttatilraun, sem Anna hafði falið henni á hendur. Hún var svo óánægð, að henni fannst hún aldrei hafa verið eins einmana og úrræðalaus, nema ef það hefði verið, þegar Þórður neitaði að tala við hana og brenndi bréfið fyrir augunum á henni. Hún var þess fullviss, að hefði hann ekki hagað sér eins og hann gerði, þá hefði hún ekki staðið í þessum sporum, sem hún stóð í nú. Hún var líka viss um það, að Þórði þótti enn vænt um hana, þrátt fyrir allt. Og nú mundi hún, að hann hafði lofað henni því, að koma henni heim til mömmu sinnar. Mikill asni hafði hún verið, að leita hann ekki uppi, áður en hún fór. Það yrði að hafa það; hún yrði að gista einhvers staðar utarlega í dalnum, og annað kvöld yrði hún komin heim til föðurhúsanna. Hvað átti hún eiginlega að segja foreldrum sínum? Þar komu þá ein vandræðin enn. Það leit út fyrir, að lífið ætlaði að bjóða henni eintóma vandræðaflækju, sem hún gæti aldrei greitt úr. Myrkrið seig hægt yfir. Hún mátti ekki vera að því að bíða lengur. Hann var óskaplega lengi að drekka kaffið; svo hafði hann náttúrlega þurft að leggja á hestinn, ef hann kæmi þá ekki gang- andi þennan stutta spöl. Hólarnir voru svona rétt á móti Nauta- flötum, en hinum megin árinnar. Nú heyrði hún, að komið var ríðandi fram eyrarnar. Það hlaut að vera hann. Hún fékk titring fyrir hjartað. Hann var kominn næstum því á sömu stundu og hún hafði heyrt til hans. Hann steig af baki, smeygði taumunum upp á handlegg sér og kom til hennar, þar sem hún var setzt í annað sinn á hólbarðið, og settist við hlið henni. „Þá er ég kominn, Lína mín“, sagði hann. „Var þér farin að leiðast biðin?“ „Já, ég var að hugsa um að fara að leggja af stað. Ég má engan tíma missa; myrkrið er að skella á“, sagði hún. „Hvert ertu að fara?“ spurði hann. „Auðvitað út að Háakoti“. „Þú skalt bíða til morguns, þá skal ég lána þér hest“. „ Nei, ég fer ekki heim aftur. Ég er búin að kveðja". „Hvað er að frétta að heiman?“ spurði hann dálítið glettinn. „Hvernig hefur blessuð konan það?“ „Hún er í rúminu“, sagði hún. „Já, auðvitað. Hefur hún samt ekki einhverja rænu?“ sagði hann með sömu glettninni. „Jú, sem betur fer er hún ekki rænulaus“, sagði Lína, en hún var ekkert glettin á svip, heldur fannst henni hann koma næstum því ósvífnislega fram. „Hvað sagði hún við þig, Lína? Vildi hún ekki láta þig skrifta og taka sakramenti, áður en þú færir?“ „Ég er ekki í því skapi, að gera að gamni mínu“, sagði Lína stuttlega. „Nú, jæja; hvað var það þá, sem þú ætlaðir að tala um við mig? Ég sé, að þær Borghildur og Anna hafa tekið þig rækilega til bæna. Hvað get ég gert fyrir þig, sem geri þig svolítið upplits- djarfari?“ spurði hann alltaf jafn glettnislegur á svip. „Þú verður að fara strax heim og sættast við konuna. Hún er svo hrygg yfir þessu, og ég held að hún sé jafnvel hrædd um, að þú komir ekki aftur heim“, sagði Lína og reyndi að tala hærra en venjulega. „Kannske hún álíti, að ég fari að búa með þér einhvers staðar annars staðar. Henni yrði þá heldur ekki mikið fyrir, að verða bæði bóndinn og húsfreyjan á Nautaflötum, konunni þeirri, þessum líka dugnaðar-forki. Maður gæti líka hugsað sér, að Katla yrði ekki langt frá henni“, sagði hann og hló dátt. „Svei mér, ef þú hæðist ekki að konunni þinni“, sagði Lína í vægum umvöndunartón. „Það er ómögulegt að tala við þig. Ég get ekki hugsað til þess, að hún sé hrygg mín vegna. Hún hefur verið mér svo góð. Það var von að hún reiddist. Þú hefðir sjálfsagt reiðzt líka, ef þú hefðir séð það sama til hennar“. Hann hló enn hærra. „Mér hefur aldrei dottið það í hug, að ég sæi það til hennar. Hún er ekki svoleiðis kona. En sízt af öllu hefði mér dottið í hug að fara að berja hana. Líklega hefði ég fremur barið hann. Þú ert bara skynsöm, að þér skyldi detta þetta í hug. Auðvitað sættist ég við hana strax og ég kem heim, þó að mér falli það langt frá því vel að láta berja mig. Ég er óvanur því. En þú verður að kyssa mig vel fyrir að láta svona fljótt að orðum þínum. Það hefði annars getað orðið bið á því, að ég hefði gælt mikið við hana“. „Nei“, sagði Lína og færði sig fjær honum. „Ég lofaði henni, að gera það ekki“. Hann hló skærum, dillandi hljátri. „En hvað þetta er líkt ykkur koununum. Hún sendir þig til þess að fá mig -til að vera góðan, en setur það upp, að þú kyssir mig ekki. Þetta er líkt barnaskapnum í henni“. „Annars hefði ég ekki getað fengið að fara“, sagði Lína. „Var hún ekki að yfirheyra þig, Lína?“ „Jú, en ég sagði ekki neitt“, sagði Lína. „Þó að þú hafir haft vit á að láta ekki vaða ofan í þig. En hvað sagði Borghildur?" „Hún veit ekkert“. „Það er ágætt. Hún verður alltaf svo ströng og kennimannsleg á svipinn, ef eitthvað svona lagað kemur fyrir“. Fálki sperrti eyrun og hvimaði út í loftið. Jódynur heyrðist nálgast. „Guð minn góður, það er einhver að koma“, sagði hún lágt. „Já, reyndar. Hver getur það verið? Farðu þarna á bak við strýtuhólinn, svo að hann sjái þig ekki“. Lína gerði eins og henni var sagt, en hlustaði eftir hver kæmi fram úr rökkrinu. „Hvað, ert það þú, Þórður?“ heyrði hún Jón segja. „Á hvaða ferðalagi ert þú?“ „Ég ætla hérna út á bæina“, svaraði Þórður stuttlega. Svo bætti hann við: „Yfir hverju situr þú hér?“ „Ég var að tala við mann“, heyrði hún Jón segja. „Var það ekki heldur kona?“ spurði Þórður. „Jú, en þær tilheyra nú mannkyninu", svaraði Jón og hló. „Þú komst á óhentugum tíma. Við áttum eftir að kveðjast“. „Það gerði þá víst ekki mikið til, þó að það yrði fátt um kveðjur hjá ykkur“, sagði Þórður fálega. „En hvað ertu eiginlega búinn að gera við hana; ég sé hana hér ekki?“ „Hún faldi sig einhvers staðar, þegar hún heyrði þig koma“. „Ég ætla út að Þverá. Hún getur orðið mér samferða. Mer þykir líklegt, að þú lánir henni hestinn. Nógu er það ómyndarlegt, að hún fari úr vistinni á miðju ári, þó að hún fari ekki gangandi“. „Þetta er alveg satt, sem þú segir, Þórður minn. Það er ómynd; en það er kvenfólkið, sem þessu ræður, það er alltaf svo afgerandi. Ég vil láta hana bíða til morguns, en hún vill það ekki. Ég veit ekki, hvort það er vogandi, að setja hana á folann; hann er alltaf svo glannalegur. Svo er það stytzt af leiðinni, þó að þú farir með henni út að Þverá. Farðu heldur með henni alla leið út að Háakoti. Færið er skíandi og glaða tunglsljós bráðum“. „Það getur vel verið, að ég geri það“, sagði Þórður. „Komdu, Lína mín!“ kallaði Jón. „Það er bara hann Þórður“. Lína kom til þeirra. Þórður sat á hestbaki. Hesturinn hans var brúnskjóttur. Hann hafði hann alltaf á járnum á veturna, en kom sjaldan á bak honum, fyrr en voraði og farið var að beita fénu. „Þórður ætlar að flytja þig alla leið út að Háakoti ,og ég ætla að lána þér hann Fálka, ef þú þorir að ríða honum. Svo það er ekki hægt að segja annað en að við séum heldur almennilegir við þig“, sagði Jón. „Viltu kannske að ég hafi skipti?“ spurði Þórður, „og þú ríðir Skjóna?“ „Nei, ég er ekkert hrædd við að ríða Fálka“, sagði'Lína. Jón stytti ístöðin, tók svo Línu eins og krakka og setti hana i hnakkinn. „Svona, það lítur út fyrir, að þetta ætli að fara sæmilega. Þú skalt halda þétt við hann. Ég hefði ekki vogað að setja kven- mann upp á Fálka minn, hefði jörð verið auð, en hann er ragari á ísnum“, sagði hann og rétti henni taumana. Hún rétti honum hendina, kvaddi hann og þakkaði honum fyrir allt gott. „Ég þakka sömuleiðis“, sagði hann. „Vonandi eigum við eftir að sjást aftur. Að minnsta kosti er eftir að gera upp kaupreikn- inginn. Vertu sæll, Þórður. Ég má þó líklega eiga von á því, að þú komir aftur. Vonandi fer þó ekki vinnufólkið að ganga í burtu frá mér, þó að mér yrði það á að smakka á forboðna eplinu“. „Þig langar sjálfsagt til að sjá Fálka aftur“, sagði Þórður. „Frekar vildi ég missa hann en þig. Einhver ráð yrðu með að fá sér annan reiðhest, en hitt yrði erfiðara, að útvega sér fjár- mann, sem jafnaðist á við þig. En gættu að honum, ef þið stanzið einhvers staðar, því að hann rýkur heim, ef hann er ekki bundinn við eitthvað. Svo segi ég: Góða ferð og góða skemmtun. Reyndu nú að hafa eitthvað upp úr þessu, Þórður minn“. Svo hvarf hann út í myrkrið. Þau hlustuðu bæði á fjöruga lagið, sem hann blístraði, þangað til skeifnahljóðið og fjarlægðin létu það hverfa. SÆTTIR Hestarnir geystust hlið við hlið fram eftir rennisléttum eyr- unum. Lína hresstist fljótlega. „Við verðum ekki lengi út eftir með þessu áframhaldi“, sagði Þórður í hlýjum málrómi. „Var það ekki ágætt að taka af honum hestinn handa þér?“ „Það er víst“, svaraði hún eins og úti á þekju. Á eyrunum, út og neðan við Hól, mættu þau Erlendi bónda. Hann var víst að koma handan frá Hjalla. Þau köstuðu á hann kveðju. „Hvað er nú þetta?“ sagði Erelndur spaugandi. „Ert þú kominn á kvennafar, Þórður minn?“ „Það er varla hægt að nefna það því nafni“, svaraði Þórður. „Henni liggur á að komast heim til sín“. Lína sagði honum, hvernig stæði á ferðum sínum. Mamma sín væri veik, og það væri enginn, sem gæti hugsað um hana. Anna hafi boðið sér að fara úteftir, og Þórður hafi verið svo góður að fara með sér. „Það er nú svo sem engin neyð, að fá sér reiðtúr í þessu veðri og færi“, sagði Erlendur og kvaddi. Það var komið niðamyrkur. Hestarnir fóru hægar, eftir þvi sem meira dimmdi. Þau riðu lengi þegjandi. Hann spurði hana, hvort henni væri nokkuð kalt. Hún neitaði því. Næst spurði hann hvernig henni félli við hestinn. „Hann er yndislegur — óskaplega þýður og yndislegur“, sagði hún. „Náttúrlega jafn eftirlætislegur og eigandinn“, sagði hann. Þetta var líkast því, sem Ketilríður hefði sagt þetta til þess að særa hana, en ekki Þórður. Samt var ekki vottur af gremju i málróm hans, heldur hlýleiki og vinátta, eins og vant var, þegar hann talaði um vin sinn. En Þórður heyrði, að hún saug oft upp 1 nefið, og andardrátturinn var stuttur og slitróttur. Þetta hafði komið illa við hana. Hann hafði verið ónærgætinn. „Ó, harkaðu af þér, Lína“, sagði hann. „Þetta er búið. Þú ert laus úr snörunni. Aðgættu bara, að lenda ekki í henni aftur“. Lína anzaði engu. Rétt á eftir sagði hún, og tók í taumana’ á Fálka: „Við erum víst komin út fyrir Þverá. Þú ætlaðir víst að koma þar við, heyrðist mér, kannske ekki að fara lengra“. „Þangað hef ég ekert erindi“, sagði hann. „Ég lofaði þér þvi i morgun, að koma þér heim til mömmu þinnar, og það ætla eg að efna“. „Ég var nú alveg búin að gleyma því, líklega vegna þess, að ég sá þig hvergi, þegar ég fór. Og svo varð ég svo fegin að fá að fara strax“. „Og svo sendi húsmóðirin þig beint í ginið á ljóninu", sagði hann og hló kuldahlátri. „Þvílíkur barnaskapur, sem er í þeirri vesalings manneskju“. „Hvernig vissir þú það?“ spurði hún alveg hissa. Hún þóttist vita hvað hann meinti. „Sástu mig ekki, þegar þú komst fram úr húsinu frá henni- Ég lá Uppi í rúminu mínu. Stelpan hún Dísa skildi dyrnar opnar eftir“. „Þakka þér fyrir það, Þórður“, sagði hún lágt, og fann um lei® sárt til þess, hversu leiðinlegt það var, að þau voru ósátt. Hann hafði alltaf verið henni svo góður, og þau voru búin að vera svo lengi ^amtíða. Hún vogaði sér því að bjóða honum vináttu sína a ny- „Vertu ekki reiður við mig, Þórður. Við skulum vera góðir kunningjar, þó að við verðum aldrei það, sem okkur var búið a detta í hug að við yrðum“, sagði hún, en fannst hún þó hafa komizt hálf klaufalega að orði.

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.