Lögberg - 06.01.1955, Blaðsíða 6
6
LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 6. JANÚAR 1955
J ^
GUÐRÚN FRÁ LUNDI:
DA LALÍF
...... —r
„Nú fer að verða hver seinastur með það, að ég fái að sofa
hjá mínum pilti“, sagði hún í gæluróm við drenginn hálfsofandi.
„Ég er hrædd um, að hann minnist einhvern tíma á Línu sína.
Það hefur engin stúlka, sem hjá mér hefur verið, hænt börnin
eins að sér og þú“, sagði Þóra. „Það er auðséð, að þú hefur verið á
Nautaflötum, því að þar eru allir svo góðir við börnin“.
Lína hélt áfram að raula. Þóru fór að syfja. „Það er þó líklega
enginn næturgestur væntanlegur hingað í kvöld?“ sagði hún.
„Ég er alveg að detta út af. Það er líklega af því, að þú ert að
söngla þetta, Lína“.
„Legðu þig bara; ég ætla að gera það líka“, sagði Lína“.
Þóra lagði sig út af hjá nýja syninum. Raulið í Línu varð eins
og kvarnarhljóð eða veðurþytur í fjallinu í eyrum hennar. Seinast
dó það út með öllu, og hana fór að dreyma. Það var koldimmt
þagar hún vaknaði. Hún hafði víst sofið lengi. Hún reis upp. Það
hlaut að vera farið að líða að fjósatíma, og allir sváfu víst? Lína
hafði alltaf eldspýtur í vasanum. Hún staulaðist fram að rúmi
Línu til að fá eldspýtur, en Lína var ekki í rúminu. Hún var
heldur ekki vön því, að sofa í rökkrinu. Náttúrlega var hún að
hugsa um þvottinn, aumingja stúlkan, sem alltaf var sívakandi
yfir því, sem hún þurfti að gera. Hún þreifaði á eldavélinni ^ftir
týrunni, en hún var hvergi finnanleg. Lína hlaut að vera með
ljós frammi. Hún fór fram í dimm og köld göngin. Dauf ljósrák
gaf til kynna, að ljós væri í eldhúsinu, en hurðin var klemmd
fast aftur; ljósrákin skein gegnum rifu á hurðinni. Hún færði sig
nær dyrunum, en þó varlega. Henni fannst hún þurfa þess, vegna
þess að hurðin var svona vandlega látin aftur. Hún heyrði líka
lágt samtal innan úr eldhúsinu. Það var ekki að efa, að þarna var
maður og kona — elskendur. Þórður var sjálfsagt kominn til að
kveðja. Hún mátti ekki trufla; en hvernig átti hún að fara að
þessu með eldspýturnar. Hún var rétt að snúa við til baðstofu,
þegar hún heyrði gestinn hlæja. Hún fékk hjartslátt og stanzaði.
Gat þetta átt sér stað? Það var ekki Þórður, sem átti þennan
hlátur, svona fjörugan hlátur. Og nú heyrði hún hann aftur.
Hún þekkti hann of vel til þess að efast lengur um það, að Þórður
var ekki gestur Línu. Hvað átti hún að gera? Það var ekki vel
við eigandi, að ryðjast inn til þeirra, en hitt var líka alveg ómögu-
legt, að láta þau afskiptalaus. Og hún, sem var búin að „forsvara“
þessar manneskjur. Hvað átti hún eiginlega að gera? Hún réð það
síðast, af að leika grunlausa manneskju, nývaknaða, og þó bjóst
hún við, að sér tækist það ekki vel. Hún opnaði hurðina hægt,
nefndi nafn Línu og sagðist hvergi finna eldspýturnar. Ekkert
svar. Gesturinn sat á kassanum, sem notaður var sem sæti við
hlóðirnar, og sneri baki að dyrunum. Hann var í dökkum jakka
með loðhúfu á höfði. Utan um hálsinn á honum lágu handlegg-
irnir á Línu, hnýttir saman með grönnum höndum hennar. Hann
sneri sér við, þegar hann heyrði til Þóru. Lína grúfði sig inn í
barm hans eins og feimið barn, og óskaði þess auðsjáanlega, að
hún væri orðin ósjáanleg.
„Sæl húsfreyja!“ sagði hann brosandi.
„Sæll vertu“, sagði Þóra. Svo bætti hún við: „Ég bið af-
sökunar; mér datt ekki í hug, að hér væri gestur. Mér finnst
þetta hreint ekki vel við eigandi fyrir helzta mann sveitarinnar,
að sitja hér frammi í köldu eldhúsinu við ósandi týruljós“.
„Þetta er ágætt. Mér líður ágætlega, eins og þú sérð, og
strompurinn sér um, að ósreykurinn skaði mig ekki, enda hef ég
hraust brjóst“.
„Lína hefði átt að bjóða þér inn í baðstofuna, þar er hlýrra“,
sagði Þóra.
„Nei, það var engin þörf á því, enda var nú erindið við hana
eina“, svaraði hann og hagræddi Línu í fangi sér, eins og honum
fyndist ekki fara nógu vel um hana.
„Og hún hefur líka tekið vel á *móti þér“, sagði Þóra og
glotti háðslega.
„Já, hún tekur vel á móti gestum sínum, stúlkan sú. Ef þú
hefðir tekið eins vel á móti mér, hefði hagur þinn verið annar en
hann er nú“.
„Þá hefði ég líklega verið orðin hálfvitlaus yfir auðnuleysi
mínu og ræfilshætti“, sagði Þóra og kastaði nú algerlega frá sér
þessu leikaragervi, sem hún hafði vefið reyna að klæðast, en
kom fram í eigin mynd, svipstór og óblíð í máli.
„Ég hef verið þér þakklát fyrir það, að þú bentir mér á Línu,
einmitt þegar mér lá mest á“, byrjaði hún. „En nú þykist ég sjá,
að það hafi ekki verið af eintómum kærleika við mig, sem þú
hefur gert það. Þú hefur eins og fyrr verið að fara svolítið fyrir
sjálfan þig“.
„Þú værir nú meira en lítið vanþakklát, ef þú virtir það ekki
við mig, að útvega þér aðra eins stúlku. Hvar skyldirðu hafa fengið
hennar líka? Þvílíkur þvottur, sem hún hefur þvegið í gær.
Borghildur og Manga hefðu varla þvegið meira báðar tvær. Svo
er engu líkara en að þú sért hálf gröm yfir því, að hún taki sér
nokkrar frímínútur meðan þú sefur sjálf inni í rúmi. Það er ekki
ofsögum af því sagt, að þú sért vinnuhörð kona“.
„Það var eins og það var vant, að tala við hann, manninn
þennan“, hugsaði Þóra, en upphátt sagði hún:
„Þú getur svo sem látið það eftir þér, að líta utan hjá konunni,
þó að þú kjassir hana nóg og strjúkir, svo að allir álíti þig þennan
indæla eiginmann“.
„Það má vera góð vist, svo að ekki sé hægt að þiggja góð-
gerðir hjá nágrönnunum“, sagði hann, alltaf jafn brosleitur. „En
satt að segja finnst mér þetta vera mál, sem kemur þér ekkert við,
nema ef þú ert ergileg yfir því, að ég er að reka erindi mitt í
þínum húsum. En við getum farið út, ef þú færir þig svolítið
frá dyrunum".
„Ég hefði víst ekki farið að skipta mér af þínu skammarlega
framferði, ef Anna hefði ekki beðið mig að líta eftir ykkur“, sagði
Þóra og færði sig inn að hlóðunum.
Lína sat alltaf í sömu stellingum, með lokuð augun, og líktist
helzt sofandi barni.
„Jæja, svo að þú ert að reka hennar erindi. Þú hefur alltaf
verið Önnu góð vinkona“, sagði hann. „Nú færðu þó erindi út af
heimilinu næsta dag, enda sé ég það, að þú ert orðin stálhraust,
gætir farið á skautum fram eftir. Allt er það okkur Línu að
þakka. Alltaf er það munur, að hafa góða ráðskonu á heimilinu".
„Því gleymi ég heldur ekki, að Lína hefur verið einstök stúlka
þessar vikur, sem hún hefur verið hér“, sagði Þóra svo hlýlega,
að hún var sjálf hissa á því.
„En ég er hissa á blessaðri konunni, að láta sér detta það í hug,
að þú gætir passað „flær á skinni“ og leitað að saumnál í heysátú*,
því að það þarf þó nokkra þolinmæði við það hvorttveggja; en um
hana hefur þér nú alltaf verið heldur lítið gefið, vinkona góð“.
Þóra greip skörunginn, sem lá á hlóðarsteinunum — það var
brotinn Ijábakki — og handlék hann nokkuð hranalega, ekki
ólíkt því, að hana langaði til að gefa fornkunningja sínum högg
með honum. Hann kannaðist við þetta frá fyrri tíð. Henni hafði
alltaf verið nokkuð laus hendin, ef til sundurlyndis kom. Hann
horfði á hana hvetjandi augnaráði:
„Ég klaga þig, Jón, hvað sem af því hlýzt“, sagði hún hásum,
óstyrkum rómi.
Hann hló meira: „Það er nokkuð undarlegt, að kvenfólkið
missir alltaf stjórn á höndunum á sér, ef því þykir fyrir, og ein-
hver bardagahugur kemur yfir það, jafnvel þó að það séu stilltar
konur“, sagði hann.
Hún kastaði skörungnum á gólfið, rétt við fæturna á honum.
„Þetta var ágætt. Ég var ekki óhræddur um, að þú ætlaðir að
berja mig upp á gamlan kunningsskap“.
„Ég klaga þig fyrir Ketilríði næst þegar hún kemur“, sagði
Þóra. „Það getur vel verið, að þú hlæir minna, eftir að hún hefur
komið því til konu þinnar“.
„Já, einmitt. En ég get nú sagt þér það, Þóra mín, að það
getur orðið bið á því, að Ketilríður komi að heimsækja þig, því
að hún liggur nú þungt haldin í lungnabólgu. Ég sótti meira að
segja lækni handa henni í dag. Ef þetta verður nú seinasta legan
hennar, sem ég vona að verði, þá reiknast það þér til syndar, að
þú skyldir ekki klæða hana í einhverja skjólflík í gær, svo að hún
yrði ekki innkulsa. Hún átti það þó að þér, eins og hún hefur borið
þig og heimili fyrir brjóstinu þennan tíma, sem þú hefur legið á
sæng. Mér hefur þótt reglulega vænt um að sjá alla þá hugulsemi,
sem hún hefur komið Öniíu til að sýna þér, og því vænna um að
þú skulir hafa verið svo lítillát, að þiggja hana. Stórlætið hefur
svo oft verið ríkt í fari þínu“.
„Hugsaðu um þínar syndir, en ekki mínar, þær eru víst ekki
svo fáar“, sagði Þóra.
„Það eru breyskleikasyndirnar, sem tilheyra mér. En þetta
tilheyrir vanrækslusyndinni, býsf ég við“.
Þá heyrðist heldur óþýðleg rödd húsbóndans innan úr bað-
stofunni: „Hvað er þetta, kona? Hvar ertu eiginlega? Barnið
grætur í myrkrinu, og ég finn engar eldspýtur. Hvað eruð þið
svo sem báðar að gera frammi?“
„Ekki finnst mér nú maðurinn kalla beint blíðlega til frúar-
innar“, sagði Jón.
Þóra greip eldspýtustokk, sem lá hjá týrunni á hlóðarsteinin-
um, og sneri til baðstofu. Hún sendi gesti sínum sams konar svar
| og hún var vön að gefa honum fyrir svona tuttugu árum: „Haltu
þér saman, ef þú getur! Þér kemur það ekkert við!“
Hann hló jafnhátt og glaðlega og hann gerði þá. Og hún
heyrði hann segja, þegar hún var komin inn í baðstofudyrnar:
„Hún er ágæt núna — alveg eins og í fyrri daga“.
Þóra var fljót að kveikja og gera barnið rólegt.
„Það var naumast, að það lá vel á ykkur þarna frammi“,
sagði Sigurður. „Var einhver gestur hjá ykkur?“
„Við Lína getum nú hlegið, þegar við erum tvær einar; það
þarf engan gest til þess að kæta okkur“, sagði Þóra.
Hún hafði tekið eftir því, þegar hún fór að kveikja, að
stokkurinn tilheyrði ekki hennar heimili. Hann var hálffullur af
smápeningum. Slíkt var ekki haft á glámbekk í Hvammi. Hún
hugsaði sér að skila honum aftur, og svo hafði hún líka átt margt
ósagt, þegar kallað var til hennar. Það var vanalegt, að þegar
senna er afstaðin, að þá rifjaðist margt upp, sem þurft hefði að
segja. Þóra sá, að það hafði aðeins verið skurnin, sem hún hafði
kastað framan í hreppstjórann; sjálf hafði hún haldið á kjarnanum.
Hún ætlaði aftur fram til að minnast dálítið á Þórð, og vita hvort
ekki væri hægt að láta Línu opna augun. En þegar hún kom aftur
fram, var eldhúsið galopið, og fuglarnir flognir burtu. Á kassanum
stóð aðeins tóm hálfflaska; það var sama flaskan, sem Lína hafði
gefið þeim úr út í kafflð, Ketilríði og henni, daginn áður. Þóra lét
gremju sína í ljós með því, að henda flöskunni á hlóðasteininn.
Hún tvístraðist í ótal smáagnir með háu brothljðði. Svo kastaði
hún eldspýtustokknum þar sem hann var áður, á steininn, hjá
ósandi týrunni.
Sigurði fannst svipur konu sinnar vera nokkuð stór og ekki
neitt í samræmi við þann háværa hlátur, sem hann hafði heyrt
framan úr eldhúsinu þegar hann opnaði baðstofudyrnar.
Það leið langur tími þar til Lína kom inn með fullt fangið af
þurrum þvotti. Hún braut hann saman og sléttaði með bláum,
köldum höndunum og bað Björn að hjálpa sér við að brjóta
lökin og sængurverið. Henni leizt víst ekki á að ávarpa Þóru.
Þær forðuðust að líta hvor á aðra.
Þegar Lína var farin í fjósið til að mjólka, talaði Sigurður til
konu sinnar:
„Þú hefur haft illt af því, að fara út í fjósið í gærkvöldi. Þú
ert ekki eins frísk og þú hefur verið“.
„Hvaða vitleysa er þetta“, sagði hún. „Ég er eins frísk og
vant er“.
„Svo, það er gott, en mér sýndist þú eitthvað öðruvísi en
þú hefur verið".
Lína bað Björn að reyna að útvega sér pappírsblað og skrif-
færi, ef hann gæti, þegar þau voru að brynna. Hann beið þess,
að faðir hans sofnaði. Þá fór hann að leita í borðskúffunni; þar
voru umslög og bréfadrasl; mest voru það samt reikningar. Eftir
langa leit fann hann hálfa óskrifaða örk.
Lína kepptist við að skúra gólfið, eins og hún var vön, en
Þóra prjónaði sokk, sem hún ætlaði að ljúka við fyrir háttatíma.
Hún spurði Björn, hvað hann væri eiginlega að rífa þarna.
„Það var ekki mikið, sem ég reif til, mamma mín. Ég er búin
að finna það, sem ég leitaði að“, sagði drengurinn.
Þóra hugsaði um það, hvað baðstofan liti betur út, síðan Lína
hefði tekið við heimilinu. Gremjan smáminnkaði í huga hennar.
Hún hafði verið búin að hugsa sér að fara fram að Nautaflötum
daginn eftir og segja Önnu satt og rétt frá því, sem hún hafði
orðið áskynja, síðan hún talaði við Ketilríði, og þó var ekki nema
rúmur sólarhringur síðan. Það gat margt breytzt á stuttum tíma,
það hefði hún átt að vera búin að sjá fyrir löngu, en samt var
hún hissa á þessu öllu saman. Það var ekki Anna ein, sem átti
að heyra það. Borghildur og Ketilríður skyldu líka fá að heyra það.
Og ekki mátti gleyma Þórði. Þvílík skömm, hvernig farið var
með hann, eins almennilegan mann. En nú, þegar henni var að
mestu leyti runnin reiðin, sá hún, að það yrði líklega allt annað en
þægilegt fyrir sig, að komast frá öllum krökkunum. Því að engin
manneskja gæti þó í hennar sporum beðið Línu að hugsa um
krakkana á meðan hún færi að klaga hana. Og svo var það þessi
stóra og þýðingarmikla spurning: Hvað skyldi það hafa í för með
sér, að færa Önnu Friðriksdóttur slíkar fréttir? Því var vand-
svarað. Skyldi hjónaband Jóns verða hlýlegra en hennar, ef hún
segði eftir honum? Allt var mátulegt handa honum, fannst henni,
þegar hún minntist hlátursins, sem hún hafði heyrt á eftir sér
inn göngin. Hún hafði fyrr ætlað sér að segja Önnu sannleikann,
en séð það seinna, að þögnin hafði verið gullvæg eins og oftast.
Aumingja Anna! Nú var hún sjálfsagt háttuð og sofnuð, róleg og
áhyggjulaus vegna fullyrðinganna, sem hún hafði sagt Ketilríði.
Var ekki bezt að þegja? Hún var alveg í vandræðum og braut
heilann um þetta aftur og fram.
Lína hvítskúraði gólfið, og Björn leitaði í sendibréfaskúffu
föður síns þangað til hann fann hálfa örk. Sjálfur var hann svo
ríkur, að eiga stóran rauðan blýant, sem Siggi á Nautaflötum
hafði gefið honum. Hann var geymdur uppi undir sperru í bað-
stofunni. Þessi skriffæri færði hann Línu fram í búr, þegar hún
hafði lokið við gólfþvottinn.
„Þakka þér fyrir, Hjörn minn. Þú ert alltaf sami góði piltur-
inn“, sagði Lína.
En Þóra gekk hljóðlega fram í eldhúsið, meðan þau voru að
tala saman í búrinu. Það var dálítið þar í myrkrinu, sem henni
fannst of gott handa Línu að h'afa í fórum sínum. Hún þreifaði
eftir hlóðasteinunum og fann það, sem hún leitaði að. Það var
eldspýtustokkur, hálffullur af smápeningum. Þess vegna var hann
sjálfsagt svo dýrmætur í augum og huga þessarar stórlyndu konu.
Hún vafði um hann blað og lét hann ofan í kommóðuskúffu.
Hún fann það, að hún var alveg eins og í fyrri daga. Þegar sennan
var afstaðin þótti henni jafnvænt um hann og áður, og jafnvel
þessi ómerkilegi stokkur var henni kær, af því að höndur hans
höfðu svo oft snert hann. Hún var kona, sem elskaði heitt og lengi,
og engan nema hann. Þó að hann félli snöggvast í augum hennar,
reis hann fljótlega upp aftur, jafn eftirlætislegur og áður. Þannig
er hin sanna ást konunnar.
Lína settist á kassann við hlóðirnar með blaðið og blýantinn.
Hún ætlaði að skrifa Þórði fáein kveðjuorð. Hún var staðráðin í
því, að fara morguninn eftir. Þau gætu því ekki kvaðzt öðruvísi,
enda varð hún að játa það fyrir sjálfri sér, að hana langaði lítið
til þess. Hún byrjaði: „Elsku vinur“. Lengra varð það aldrei.
Stafirnir hurfu í blágráa vatnsmóðu. Hún reyndi að strjúka hana
frá augunum, en hún kom aftur, og svo mundi hún ekkert af því,
sem hún hafði ætlað að skrifa. Loks tók hún blaðið, sem hafði
kostað Björn litla svo mikla fyrir höfn að útvega, og stakk því
í eldinn.
Þóra var háttuð, þegar hún kom inn. Hún sneri sér frá
stokknum. Ungbarnið var fyrir ofan hana. Lína var vön að segja
„góða nótt“ við litla drenginn síðan hún hætti að hafa hann hjá
sér á nóttunni. Hún laut yfir Þóru og kyssti barnið á silkimjúkt
ennið. Þóra fann sterka vínlykt af vitum hennar.
„Góða nótt, kubbur minn“, sagði hún glaðlega. „Nú fer ég í
fyrramálið frá mínum piltum; líklega verður nokkuð langt þangað
til ég sé þá næst. Kvenfólkinu verður víst orðið mál á því, að ég
fari úr augsýn“.
„Það var gott að þú fórst ekki, fyrr en ég var búin að sjá,
hvað þú ert sannorð“, sagði Þóra.
„Heldurðu að þú hefðir orðið sannorðari í mínum sporum?“.
spurði Lína.
„Mér hefði víst aldrei dottið í hug að standa í þínum sporum.
Þvílík skömm og heimska, að vera í ástamakki við giftan mann,
og vera trúlofuð öðrum eins gæðapilti og Þórður er. Hvar skyldi
þetta lenda annars staðar en í einhverri dauðans ógæfu. Ég vona,
að þú sjáir sóma sinn og drífir þig eitthvað langt í burtu frá þessu
öllu, svo langt, að þú sjáir „hann“ aldrei aftur — helzt til Ameríkú1.
„Ég verð þar, sem forlögin hola mér niður“, sagði Lína í
óviðfelldnum kæruleysistón. „Það er nú svona með mig, eins og
ritningin segir, að „andinn er að sönnu reiðubúinn, en holdið er
veikt“. Ég veit, að þú ert reið við mig, og finnst ég vera ójálf-
stæður ræfill; og líklega sérðu ekki eins mikið eftir mér og þú
bjóst við að þú myndir gera í dag. Það verður að hafa það. Þeir
eru fallnir, sem fótanna missa. En Iiafirðu einhvert tíma fundið
hvað faðmlög hans eru hlý og atlot hans yndisleg, þá skaltu ekki
kasta stórum steini á mig. Það munu nógu margir gera það samt,
ef allt kemst upp. Manstu hvað ég sagði þér um gjafirnar, sem
Katla var að koma með? Ég vissi hvað þær áttu að þýða? Þær
áttu að gera þig tunguliprari“. Hún var setzt á rúmstokkinn fyrir
framan Þóru. Málrómurinn var hálfóskýr og augun vot og flóttaleg.
„I guðsbænum, farðu að hátta, Lína“, sagði Þóra. „Því í
ósköpunum ertu að drekka vín, manneskja. Gefur hann þér þetta?“
„Þetta er ekkert, góða Þóra. Ég fékk um daginn flösku neðan
af Ósi, til þess að gefa honum að smakka á, þegar hann kemur.
Nú þýðir ekkert að þræta lengur, þú veizt það allt. En mér leiddist,
að þú skyldir sjá þetta, svo að ég saup meira á en venjulega,
svo að nú er ég hálf full. Svo ætlaði ég að skrifa Þórði, en gat það
ekki. En þú klagar okkur ekki, Þóra mín, þó að þú segðir það.
Hann sagði, að ég mætti reiða mig á, að þú gerðir það ekki“.
„Við getum talað um þetta á morgun, Lína mín. Nú verðurðu
að fara að hátta og sofa, því að þú þarft að fara snemma af stað í
fyrramálið“.
Lína reri fram og aftur í sætinu, hélt höndunum fyrir anlitið
og kjökraði.
„Það er vanalegt“, snökti hún, „að heimurinn gleymir þeim
sem hrasa, að öðru leyti en því, að kasta í hann steinum“.
„Já, já, það er alveg satt, en þú reisir þig við aftur, Lína mín.
Þegar þú hefur sofið, verðurðu hugrakkari. Farðu bara að sofa“.
Og hún fór hálfgrátandi að hátta. Eftir nokkrar mínútur var
hún steinsofnuð, en Þóra vakti lengi.