Lögberg - 18.10.1956, Page 6

Lögberg - 18.10.1956, Page 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 18. OKTÓBER 1956 GUÐRÚN FRÁ LUNDI: DALALÍF „Það hefur víst verið óskemmtilegt fyrir þig að hafa þann mann á heimilinu“, sagði Þóra, „enda hef ég heyrt, að þið Borghildur hafið ekki verið neitt sérlega ánægðar yfir komu hans“. „Allt fréttist“, sagði Anna. „Víst vorum við óánægðar, en samt held ég, að ég hafi haft gott af ráðleggingum hans, einkanlega því, sem hann sagði við mig, þegar hann var að fara. Það var fallegt. Hann var skynsamur, þó að hann væri orðinn svona geðstirður. Ég var alltaf á glóðum um að þau færu í hár saman, Borghildur og hann, þau héldu ekkert hvort af öðru. Ég var alveg að verða hugsjúk út af því. En ég hefði ekkert þurft að óttast. — Séra Hallgrímur sagði, að það væri konunnar að fyrirgefa. En finnst þér karlmenn- irnir vera of góðir til að fyrirgefa? En það er bara þannig, að þeir hafa svo lítið að fyrirgefa. Ekki högum við okkur þannig, að kjassa aðra menn en þá, sem við eigum“. „Ekki ég og þú“, sgaði Þóra, „en sjálfsagt eru þær konur til, sem ekki taka það nærri sér. En nú skulum við ekki tala meira um þetta. Ég fer að koma með kaffið — og þú sættist við mann þinn í kvöld. Það hefði reyndar átt að vera fyrr. Ósköp hlýtur barninu ykkar að hafa liðið illa að sjá þessa fáþykkju á milli ykkar“. „Ég hef forðazt að láta hann skilja það á mér, að mér væri ekki eins hlýtt til pabba hans og áður“. „Hann hefur sjálfsagt orðið var við tómlyndið eins og aðrir á heimilinu, svona gamalt og skyn- samt barn. Þú hefur nú líklega æði oft gleymt að taka tillit til hans — líklega oftar en þegar þú faldir þig uppi í fjallinu". „Hver hefur sagt þér það?“ spurði Anna hissa. „Heldurðu virkilega, góða mín, að allt vinnu- fólkið þitt sé svo þagmælskt, að það geti ekki um annað eins og þetta? Þú mátt vera viss um, að það er komið nokkuð víða, hvernig heimilislífið hefur verið á þínu heimili síðustu misserin“. „Ég sá mikið eftir því uppátæki, þegar ég varð þess vör, hvað drengurinn var hræddur. Ég gerði þetta til þess að kvelja Jón. Það var svo hræðilegt að heyra hann kalla og hlæja niðri á stekknum, þegar hjarta mitt var í sárum af hans völdum. Þess vegna faldi. ég mig. Það er svo margt, sem maður hugsar ekki út í, þegar geðsmunirnir eru svona æstir. Það er ekki von að þeir skilji það, sem ekki hafa komizt í slíkar raunir. Ég veit að ég breytti ekki rétt, en samt fannst mér ég ná mér þó nokkuð niðri á honum“. „Þú hefðir bara átt að láta það bitna á honum einum að leita, en ekki Jakobi eða Borghíldi“, sagði Þóra og brosti ánægjulega. „Það var seinna, sem hann fékk einn að leita. Ég skal segja þér það áður en ég fer. En eitt er það, sem ég er mest hissa á, og það er að ég skyldi ekki verða brjáluð af þessu öllu“. „Og þetta er allt liðið, góða mín“, sagði Þóra hughreystandi. „Nú skaltu bara taka fasta ákvörð- un og hika ekki. Mér finnst þessi draumur ískyggilegur“. „Hann var voðalegur“, sagði Anna. „Ég þarf ekki annað en að loka augunum, þá sé ég, hvernig hestur og maður bárust niður ána með straumnum“. Þóra fylgdi vinkonu sinni fram á grundirnar. Þær gengu báðar. Þóra teymdi hestinn og hélt á reiðpilsinu á handleggnum, alveg eins og þegar hún fylgdi Lísibetu húsfreyju úr hlaði í síðasta sinn. Anna sagði henni frá öllum deilum og stríði, sem henni og manni hennar hafði farið á milli. Henni virtist Þóra hafa gaman af þeirri frásögn. „Ég vona, að þú gerir alvöru úr sættunum, þegar þú kemur heim“, sagði Þóra, þegar þær kvöddust. „En ef hann vildi nú bara engar sættir?“ sagði Anna. „Það hefur mér aldrei dottið í hug, að hann myndi hafna þeim“, sagði Þóra, „en ef hann gerir það, á hann ekki skilið að þú búir saman við hann lengur. Þú kemur þá aftur á morgun og talar við mig eða gerir mér orð“. „Hvað ætlarðu þá að gera?“ spurði Anna forvitin. « „Ég reyni að tala við hann sjálf. En það kemur ekki til þess. Ég veit, að hann vill sættast". Þær kvöddust enn einu sinni. Þóra stóð kyrr dálitla stund og horfði á eftir nágranna konunni eins og í fyrra skiptið. En nú skeði ekkert uggvæn- legt. Stjarni skeiðaði án þess að detta. Þegar hann var kominn fram yfir merkjalækinn sneri hún heimleiðis. Eiginlega væri það mátulegt handa Jóni að stríða við þetta ögn lengur. En það er hún og drengurinn. Þau eru búin að líða allt of mikið. Ég er hissa á, hvað aumingja Anna litla hefur þó getað. Honum hefur þó stundum hlotið að svíða. Þannig hugsaði Þóra á heimleiðinni. Anna reið heim glöð í hjarta sínu. „Sælir eru þeir, sem friðinn semja“, stendur í biblíunni. Hún vonaði, að allt gengi vel. En ef hann vildi nú ekki neinar sættir — flýtti sér kannske í burtu, svo að hún gæti ekki talað meira við hann? Stór lóu- hópur flaug upp úr merkjaholtinu rétt fyrir fram- an hestinn. Það heyrðist lágur þytur frá litlu vængjunum, en Stjarni var orðinn of gamall til að láta sér bregða við svona lítilræði. „Aumingj- arnir litlu“, sagði Anna, „nú eruð þið að búa ykkur til ferðar úr dalnum mínum og farið langt í burtu, þar sem sólin er heitari. Ykkur fylgir alltaf sólin og sumarið. Hversu margar af ykkur skyldu nú koma næsta sumar? Einu sinni datt mér í hug að gerast farfugl og fara til annars lands, en nú til- heyrir sú umhugsun ömurlegri fortíð. Ég ætla að lifa og deyja í dalnum mínuni“. Lóurnar flugu í sveig út fyrir merkin og komu svo aftur. Hún minntist þess ekki að hafa tekið eftir lóum í dalnum fyrr á þessu sumri. Brosandi veifaði hún svipunni í áttina til litlu sumargestanna: „Verið þið sælar, litlu vinkonur, og komið þið allar aftur. Þá vona ég, að verði bjartara yfir og ég taki fyrr eftir ykkur“. Sjálfsagt var langt til snjóa, fyrst lóurnar voru ekki farnar ennþá. Það hafði fóstri hennar sagt, að slíkt vissi á góða tíð fram að sól- stöðum. En ef þær hyrfu fyrir göngur, boðaði það að veturinn legðist snemma að. SÆTTIR Jón hreppstjóri kom út á tröðina á móti konu sinni og tók hana úr söðlinum. Hún heilsaði honum með hlýjum kossi. „Þú hefðir átt að taka þér þennan reiðtúr fyrir löngu; hann hefur haft góð áhrif á þig“, sagði hann brosandi. „Það hefur náttúrlega verið gaman að heimsækja Þóru eins og vant er“. „Já, það mátti nú segja. Það var indælt. Ég borðaði hjá henni heit svið“, svaraði hún brosandi. Hann hló. „Fórstu til þess að fá að borða svið? 'Ég hélt að það væri nóg til af þeim mat heima“. „Ó, að þér skuli detta í hug, að ég hafi farið á bæi til þess að fá mér mat. Ég fór bara svona —“. „Að gamni þínu náttúrlega“, botnaði hann, „og það hefðirðu átt að gera mikið oftar“. „Já, Þóra var bæði að sjóða svið og líka að svíða og krakkarnir með henni. Það var svo gaman að sjá þau koma krímótt í framan. Mér datt í hug, hvernig Jakob myndi taka sig út, ef hann ætti að halda á fæti yfir glóð og verða svona í framan. Það er nú meiri dugnaðurinn í þeirri konu“, sagði hún og gekk við hlið manns síns heim að skemmu- dyrunum. Jón samþykkti með einu „jái“. Hann þekkti. að það var ekki heppilegt að hæla Þóru mikið í áheyrn konunnar. Sízt mátti koma henni úr þessu sólskinsskapi, sem hún var komin í svona allt í einu. Anna strauk Stjarna yfir makkann, meðan hann spretti af söðlinum. „Þóra sagði að Stjarni færi að verða allt of gamall, ég yrði að eignast ungan reiðhest. En mér finnst Stjarni minn alltaf svo elskulegur“. „Það eru líka til nóg hestsefni handa þér, ef heilsan fer að batna svo mikið, að þú komir á hestbak oftar en einu sinni á ári“, sagði hann um leið og hann tók söðulinn af hestinum og beizlið, strauk aftur hrygginn og klappaði honum á lend- ina. Þetta gerði hann alltaf, þegar hann spretti reiðtygjum af hesti. Hún hafði svo oft dáðst að því, hvað hann var góður við hestana. Stjarni rölti út í varpann og greip niður. Anna horfði á eftir hestinum, en hélt áfram að masa eins og kátur krakki: „Þóra ætlar að láta Björn fara í skóla. Þeir verða skólabræður, hann og Jakob. Við höfum oft talað um það áður, hvað við yrðum þá hreyknar af drengjunum okkar. Hún segir alltaf að sér þyki vænst um Björn. Náttúrlega þykir henni vænt um þau öll. Skyldi okkur ekki hafa þótt jafnvænt um öll börnin okkar, ef þau hefðu lifað hjá okkur?“ „Það er eðlilegt að henni þyki vænst um Björn, hann er svo líkur henni og gamla mannin- um, afa sínum“, sagði hann. Hinu svaraði hann ekki. Þau skildu við bæjardyrnar. Hann fór eitt- hvað suður fyrir bæ, en hún inn. Stúlkurnar voru önnum kafnar í slátrunum. Borghildur var að hita miðaftanskaffið. Hún sagði Önnu, að Doddi á Jarðbrú hefði komið, meðan hún var í burtu. Það væri búið að skíra litlu stúlkuna hans. Hún héti Hildur. Anna var hissa á því, að Lína skyldi ekki láta skíra hana í kirkjunni. „Ó-nei, hann er nú óðum að leggjast niður, sá siður“, sagði Borghildur. „Hún hefur heldur ekki komið hingað á heimilið síðan hún fór úr vistinni, nema þegar hún hefur mátt til“. Anna jánkaði dauflega. Borghildur hélt áfram með fréttirnar: „Nú er Siggi okkar búinn að eignast aðra litla stúlku — hún fæddist í fyrrinótt“. „Nú er ég alveg hissa. Mér finnst svo stutt síðan ég sá Lísibetu nýfædda“, sagði Anna. „Jón talar sjálfsagt við þig í kvöld“, bætti Borghildur við brosandi. „Ég ætla ekki að segja meira“. „Hvað heldurðu að hann tali við mig? Líklega ekki nema þetta vanalega um veðrið“, sagði Anna. Önnu fannst kvöldið aldrei ætla að líða. Hvað gat það verið, sem Jón ætlaði að tala við hana? Hún brann af forvitni eins og krakki. En þegar þau loksins voru komin inn og Jakob var háttaður og farinn að lesa, settist Jón við skriftir. Hún f°r að hekla til þess að sitja ekki aðgerðarlaus. Hann spurði hana, hvort hún ætlaði ekki að fara að hátta, án þess þó að líta upp úr skriftunum. „Jú, bráðum“, sagði hún og hélt áfram hekla. Jakob lagði bókina bráðlega frá sér, bauð góða nótt og var sofnaður eftir stutta stund. Nú var tækifærið komið. Hún var hálfkvíðandi, en herti þó upp hugann. „Ætlarðu alltaf að vera að skrifa?“ spurði hún- „Ég þarf að klára þennan reikning", svaraði hann og hélt áfram. „Ég þurfti að tala við þig“, sagði hún. „Skyldi hann meta skriftirnar meira?“ spurði hún sjálf3 sig. Hann lagði frá sér pennastöngina og sneri ser að henni. „Var það eitthvað sérstakt — eitthvað, sem ekki má bíða?“ spurði hann og brosti glettms- lega. „Eitthvað líklega, sem Þóra hefur sagt. Hva var það?“ „Það er ekkert eftir Þóru“, sagði hún. Þetta yrði erfitt — það fann hún. En samt hélt hun áfram: „Mig dreymdi hræðilegan draum í nótt- •Eiginlega fór ég út eftir til þess að láta Þóru ráða hann“. „Nú, er hún orðin góð að ráða drauma?“ grelP hann fram í glettnislega. Þetta varð allt erfiðar^ fyrir önnu, vegna þess að hann gat ekki teki þessu alvarlega. „Sá var munurinn, að m1^ dreymdi fallegan draum“, bætti hann við.

x

Lögberg

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.