Lögberg - 22.01.1959, Blaðsíða 7
LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 22. JANÚAR 1959
7
BÓKAÞÁTTUR:
Ofsóttir höfundar
SKAPANDI andar hafa frá
fyrstu tíð verið hættulegustu
þegnar hvers þjóðfélags. Þeg-
ar Platon, sá mikli andi, samdi
rit sitt um fyrirmyndarríkið
lagði hann til að skáldum
væri útrýmt, þar sem þau
röskuðu ró og undirgefni
þegnanna og riðluðu skipu-
laginu. Allar götur síðan hafa
skapandi andar verið ofsóttir
í stærri eða minni mæli.
Menn eins og Galileo, Dante,
Spinoza, Huss og Zola, svo
nefndir séu nokkrir hinir
frægustu, urðu að sæta afar-
kostum af því þeir voru taldir
hættulegir hinu kirkjulega
eða veraldlega valdi.
Örlög Pasternaks eru þann-
ig ekki ný bóla, en hitt er at-
hyglisvert að ofsóknir á hend-
ur andans mönnum hafa al-
drei verið skæðari né víðtæk-
ari en á tuttugustu öld, þó
kynlegt megi virðast.
Hitler, Mussolini, Franco
og Stalin gengu í heilagt
bræðralag um þá meginstefnu
að útrýma frjálsri hugsun og
kæfa alla viðleitni til sjálf-
stæðrar sköpunar. Þeir gerðu
lendur sínar að bókmennta-
legum eyðimörkum. Thomas
Mann og Albert Einstein flúðu
Þýzkaland, Ignazio Silone
var gerður útlægur frá Italíu,
Arturo Barea var landflótta
frá Spáni og falangistar Fran-
cos myrtu García Lorca, kunn
asta ljóðskáld Spánverja á
þessari öld. I Sovétríkjunum
sviptu tvö mestu ljóðskáld
þjóðarinnar sig lífi, þeir Maja-
kovskí og Esenín. Maxim
Gorkí lifði tíu ár í útlegð frá
Sovétríkjunum, en sneri svo
heim til þess eins að láta lífið
nokkrum árum seinna fyrir
e i n u m helzta blóðhundi
Stalins, J a g o d a yfirmanni
pólitísku leynilögreglunnar.
Þannig mætti lengi halda á-
fram að rekja blóðferil ein-
ræðisríkjanna, sem eiga öll
óskiptan hlut að máli, enda
hafa rithöfundar með óselda
samvizku jafnan verið skæð-
ustu bölvaldar hvers konar
kúgunar.
En það hörmulega er að lýð
ræðisríkin hafa ekki heldur
farið varhluta af þessum ó-
fögnuði. í sumum þeirra hef-
ir orðið vart svipaðrar
hræðslu stjórnarvaldanna við
frjálsa hugsun, enda þótt
segja megi að aðgerðir þeirra
hafi verið vægari og mann-
eskjulegri. Frakkland og
Bandaríkin eiga að þessu
leyti hvað stærsta sök meðal
vestrænna lýðræðisríkja. Þar
hafa valdhafarnir hvað eftir
annað orðið berir að fáránleg-
um tilraunum til að hefta hið
frjálsa orð.
Síðan múgdrápin í Alsír
hófust hefur frönsk ritskoðun
einatt borið ískyggilegan
keim af sovézkri tízku. Öll
þau rit sem af hreinskilni og
sanngirni fjölluðu um atburð-
ina í Alsír voru miskunnar-
laust bönnuð og fordæmd.
Blöð og tímarit voru umsvifa-
laust gerð upptæk ef þau birtu
greinar, sem á einhvern hátt
gátu talizt óhliðhollar þeirri
aldagömlu tízku að murka
lífið úr fólki sem hafði það
eitt til saka unnið að biðja
um frelsi.
Frægasta dæmið um ger-
ræði franskra stjórnarvalda
var málsóknin á hendur Jean-
Jacques Servan-Schreiber fyr
ir greinar hans í „L’Express“,
sem síðar voru birtar í bókar-
formi undir nafninu „Liðs-
foringi í Alsír“.
En það sem gerir gæfumun-
inn milli lýðræðisríkis og ein-
ræðisríkis er sú meginstað-
reynd, að í lýðræðisríkinu
stendur hinn hundelti og of-
sótti höfundur ekki uppi einn
og yfirgefinn. Franskir rithöf-
undar hafa sem einn maður
andmælt ofbeldi stjórnarvald-
anna og heimtað óskorað
frelsi til að gagnrýna allt sem
þeim finnst miður fara hjá
þjóð sinni. Þessir höfundar
bera það mikla virðingu fyrir
sannleik og heiðarleik að
þeim kemur ekki til hugar, að
svokallaður heiður Frakk-
lands eða franska hersins vegi
þar upp á móti.
I Bandaríkjunum hafa á
síðari árum gerzt svipaðir at-
burðir, og er þeim lánlausa
ofstopamanni Joseph Mc-
Carthy kennt um þá flesta,
þótt hitt sé sönnu nær að
nótar hans séu enn fjölmennir
á æðstu stöðum í Ameríku.
Arthur Miller er tvímæla-
laust þekktasta dæmið um of-
sóttan höfund í Bandaríkjun-
um, þó hann hafi nú fengið
fulla reisn æru sinnar. Honum
var um langt skeið neitað um
vegabréf til að ferðast úr
landi á þeim forsendum, að
hann ræki and-bandarískan
áróður í Evrópu og víðar.
Eftir langvinn málaferli og
einróma mótmæli bandarískra
rithöfunda kvað bandarískur
dómstóll loks upp þann úr-
skurð, að Miller væri sýkn
saka. Negrasöngvarinn Paul
Robeson, sem er yfirlýstur
kommúnisti, sætti um langt
skeið svipaðri meðferð og
Miller, en einnig hann hefur
nú aftur fengið frelsi gerða
sinna vegna almennra mót-
mæla menntamanna í Banda-
ríkjunum og víðar.
Ljóðskáldið Ezra Pound er
ekki hliðstætt dæmi við þau
sem nefnd voru hér að fram-
an, en samt er mál hans vert
íhugunar. Á stríðsárunum
gerðist hann þjónn Mussolinis
og barðist í ræðu og riti gegn
ættlandi sínu. Þegar hann
var handtekinn og dreginn
fyrir rétt, kom upp úr kafinu
að han var ekki heill á geðs-
munum, og var hann því sett-
ur á vitfirringahæli, þar sem
hann var geymdur í 13 ár.
Hann er nú aftur frjáls og
kominn til ítalíu. Það sem er
athyglisvert í máli Pounds er
sú staðreynd, að skömmu eftir
að hann hafði verið fangelsað-
ur sem landráðamaður voru
honum veitt einhver virðu-
legustu bókmenntaverðlaun
Bandaríkjanna fyrir nýút-
komna ljóðabók hans. Það
voru m. a. rithöfundar í opin-
berri þjónustu, sem stóðu að
þessari verðlaunaveitingu. —
Um þessa ráðstöfun urðu
geysiharðar deilur vestan
hafs, eins og vænta mátti, en
langflestir rithöfundar vörðu
verðlaunaveitinguna og bentu
á, að skáld ætti ekki að dæm-
ast eftir pólitískum verðleik-
um sínum eða asnastrikum,
heldur ætti sjálfur skáldskap-
urinn að ráða úrslitum. Póli-
tískur mælikvarði væri öllum
listum lífshættulegur.
Ég hef nefnt dæmin hér að
framan til að árétta það sem
vinur minn Þórbergur Þórðar-
son sagði við mig um daginn,
þegar ég spurði hann um álit
hans á Pasternak-málinu. —
„Það er nú ekki allt í lukk-
unni hjá okkur heldur“, sagði
hann. „Eða hvað segirðu til
dæmis um Paul Robeson?“
Ég er mér fyllilega meðvit-
andi um vankanta vestrænna
lýðræðisríkja þegar um and-
legt frelsi ræðir og skal verða
fyrstur manna til að játa þá,
en þegar menn benda á þá í
því skyni að bera blakið af
austrænum einræðisseggjum,
til dæmis í sambandi við
Pasternak, þá er þolinmæði
minni satt að segja ofboðið, og
það af þéirri einföldu ástæðu
að örlög Pasternaks eiga sér
alls enga hliðstæðu í neinu
lýðræðisríki.
Sovézkir valdamenn hafa
stokkið upp á nef sér út af
skáldsögu, sem Pasternak
samdi og gerði sér jafnvel
vonir um að fá útgefna í
heimalandi sínu. Látum það
vera. Þetta hefur líka gerzt
vestan járntjalds og heldur
eflaust áfram að gerast með-
an valdhafarnir eru hræddir
við ókúgaða hugsun.
Þessir óttaslegnu valda-
menn í austri hafa beitt
skáldið níðingslegum þving-
unum, hótað að gera hann
landrækan eða svipta hann
lífsviðurværi, enda þótt hann
hafi að eigin sögn og margra
samlanda sinna gert rússnesk-
um bókmenntum mikið gagn.
Slíkar þvinganir þekkjum
við líka vestan tjalds, þó þeim
verði aldrei beitt ti llengdar í
lýðræðisríkjum, eins og dæm-
in sanna.
Nei, það eru ekki viðbrögð
valdhafanna sem fá manni
mestrar furðu og egna mann
til réttlátrar reiði, heldur eru
það viðbrögð sovézkra rit-
höfunda, þeirra manna sem
ættu að standa fremstir í
fylkingu til að vemda starfs-
bróður sinn, manninn sem er
þeim að flestu fremri og hefur
gengið fram fyrir skjöldu til
að biðja um olnbogarúm
handa sovézkum bókmennt-
um.
Það er þetta sem á sér enga
hliðstæðu neins staðar þar
sem mönnum er unnt að
hugsa eina heiðarlega og sjálf-
stæða hugsun til enda. Þegar
rithöfundafélög um gervöll
Sovétríkin kalla saman fund
og lýsa yfir einróma fordæm-
ingu á skáldinu og manninum
Boris Pasternak, er þá ekki
von menn spyrji: Hefur það
þá tekizt austrænum valdhöf-
umum að þurrka út hvern
snefil af heilbrigðum metnaði
og mannlegum skilningi hjá
þeim mönnum sem helgað
hafa líf sitt þeirri stóru köllun
að skrifa bókmenntir? Getur
það átt sér stað að hver ein-
asti penni í Sovétríkjunum sé
leigupenni, eftir að Pasternak
hefur verið þvingaður til að
hætta að skrifa?
Þetta eru áleitnar spurn-
ingar, og maður á erfitt með
að finna nema eitt einasta
svar við þeim: Já, þannig er
nú komið fyrir þeirri þjóð
sem samdi einna merkastar og
manneskjulegastar bókmennt
ir á síðustu öld.
Halldór Laxness sagði í
samtali fyrir skömmu, að allir
þeir sovézkir rithöfundar,
sem hann hefði átt tal við,
hefðu talað um Pasternak af
mikilli virðingu. Hvað varð
um alla þessa virðingu? —
Hvaða sovézkur rithöfundur
hefur risið upp til að mót-
mæla því, þegar helzti leið-
togi rússnesks æskulýðs lýsir
því yfir um yfirburðarmann-
inn Pasternak, að hann sé
„svín, ef það er þá ekki móðg-
un við svínið?“
Já, hver er ávirðing Paster-
naks þegar öllu er á botninn
hvolft? „Vinur Ráðstjórnar-
ríkjanna", „hugsjóna-sósíal-
istinn“ Halldór Laxness segir
umbók hans: „Ég get ekki séð
að þetta hafi verið nein sér-
stök ádeila á Sovétríkin . . .
Þessir hlutir eru sagðir
hundrað sinnum á dag hér
vestra og kippir sér enginn
upp við það . . . Þetta er að
ýmsu leyti krítísk bók, en
hún er mjög mannleg í hugs-
unarhætti, mikil tragík í
henni.“ Sjálfur hefur Paster-
nak neitað því að skáldsaga
hans sé fordæming á sovét-
þjóðfélaginu. Hún er aðeins
„lýsing á reynslu einnar fjöl-
skyldu, ein hlið á lífinu.“
Framhald á bls. 8
VETURINN
er tíminn að nota
LÁN TIL HÚSA EÐA HEIMILIS AÐGERÐA
sem stjórnin stendur að baki
og fáanleg eru nú hjá bönkum.
Breyting eða viðgerð á heimilum utan sem innan
að meðtöldum bílskúr eða útibyggingum.
Einnig kaup, innsetning, viðgerð eða endurbætur
hitunarkerfisins; af rafljósum og orkukerfum, og
vatnsleiðslum; Septic tanka og sambands við af-
rennsli; af stormhurðum og gluggum, vírneta-
gluggum og gluggahlífum.
Einnig málning, veggfóðrun og venjuleg skreyting,
gröftur grunna, eða umbætur á brunnum og öðru
heima við.
LÁN TIL HEIMILISUMBÓTA eru fáanleg með
lágum vöxtum, upp að $4,000.00 og til 10 ára af-
borgunar.
Til frekari skýringa — Leitið upplýsinga hjá banka
yðar um það, að hafa verkið unnið að vetrinum,
þegar menn og efni er fáanlegt.
BÆNDUR
Spyrjið um þessi umbótalán sem stjórnin stendur
að baki og fáanleg eru í banka yðar, að upphæð
$5,000.00 og til 10 ára að endurgreiða. Lán fyrir
áhöld og gripi eigi síður en umbóta á heimilinu.
Hví að bíða til sumars
GERIÐ ÞETTA N0 ÞEGAR!
Issued by Authority
Hon. Michael Starr, Minister of Labour