Lesbók Morgunblaðsins - 07.04.1984, Blaðsíða 5

Lesbók Morgunblaðsins - 07.04.1984, Blaðsíða 5
að hann væri bestur og svo varð hann bestur á endanum. Metnaðurinn og sjálfstraustið í sjálfu sér fleyttu honum ansilangt." Hver er þinn metnaður? Hefurðu sér- stakt takmark að stefna að? Neeei, í rauninni ekki. Ég ætla ekki að stoppa á neinu marki. Mér þykir ennþá mjög gaman að tefla og vonast til þess að hafa betri tíma til þess en áður eftir að ég lyki prófum í lögfræði í vor. Þá kemur væntanlega í ljós hvað maður á mikla möguleika í þessu. Ég hef aldrei verið raunverulegur atvinnumaður, þó ég hafi oftast tekið sumrin í að tefla, og miðað við það held ég að ég standi ágætlega að vígi. En það mun sem sagt reyna á það eftir að háskólanámi lýkur hvað ég á mikinn séns. Menn geta náttúrlega staðnað á hvaða stigi sem er, en svo geta menn líka tekið mikið stökk fram á við, svo að segja upp úr þurru." íslendingar gera miklar kröfur til skákmanna sinna. Virka þessar miklu kröfur hvetjandi eða letjandi? Þess er til dæmis krafist að þið náið stórmeist- araárangri í hverju móti. „Þessi blessaði stórmeistaraárangur, já. Ég er satt að segja orðinn svo leiður á því að eyðileggja fyrir mér heil skákmót með því að einblína á stórmeistaraárangurinn, að ég hef tekið þá stefnu að leiða þessa hluti sem mest hjá mér. Nú vil ég bara hugsa um að standa mig vel í mótinu sjálfu. Ég held að þessi titill hljóti að koma fyrr eða síðar, ef ég hef yfir höfuð næga hæfileika, og ætla ekki að gera mér óþarfa rellu út af honum. Ég vil líka leyfa mér að benda á að árið 1978, eða sama ár og við Helgi Ólafsson vorum útnefndir al- þjóðlegir meistarar, þá var lágmarkið fyrir stórmeistaraárangur þyngt mjög verulega. Samkvæmt gömlu reglunni hefði til dæmis frammistaða mín úti í Gausdal um daginn nægt til stórmeistaraáfanga, en nú skorti mig heilan vinning, svo það munar ansi miklu. Hitt er svo annað mál að auðvitað var tímabært að breyta þess- um reglum, það var allt að fyllast af stórmeisturum. Ef þessu hefði ekki verið breytt hugsa ég að við þrír sem höfum verið lengst í þessu — ég, Jón L. og Helgi — værum allir orðnir stórmeistarar fyrir þó nokkru. Af því sést náttúrlega að það var bráðnauðsynlegt að breyta reglunum, þó ekki væri nema til þess að vernda titil- inn fyrir svona skúnkum eins og okkur!“ Er þetta titlatog til góðs eða ills? „Það getur verið upp ofan, en það var enginn vafi á því að titlarnir fara mjög illa með suma skákmenn. Við getum tekið síð- ustu umferðina í Chicago í fyrra sem dæmi. Jóhann Hjartarson hafði náð al- þjóðlegum meistaraáfanga árið 1981 og þá fóru allir að reka á eftir honum: „Nú hlýt- ur þú að fara að ná í titilinn allan.“ Hann gat varla teflt undir þessum þrýstingi. En úti í Chicago vorum við svo uppteknir af árangri sveitarinnar í heild að við gleymd- um alveg að hugsa um titlana, eða Jóhann gleymdi því alla vega. Við kepptum við Finnana í síðustu umferð og Jóhann vann sína skák, tefldi mjög vel, og svo kom það í ljós daginn eftir að hann hafði náð þessum áfanga. Þá spurðu menn sjálfa sig hvað hefði gerst ef hann hefði vitað af því fyrir þessa umferð að hann ætti möguleika á áfanganum. Sjálfum tókst mér að eyði- leggja mína frammistöðu á mótinu í þess- ari sömu umferð, því ef ég hefði unnið efsta mann Finnanna — sterkan skák- mann sem heitir Yjölá — þá hefði ég náð þessum fræga stórmeistaraáfanga. Ég hafði svart og tók ppp úr þurru þá ákvörðun að tefla byrjun sem ég hafði aldrei teflt áður, og það endaði náttúrlega með því að ég tapaði eftir dálitlar svipt- ingar. En varðandi kröfurnar sem gerðar eru til okkar, þá geta þær verið erfiðar. Maður kemur kannski heim frá útlöndum og hefur staðið sig vel á móti, jafnvel unn- ið mótið, en það eina sem fólk spyr um er: „Jæja, ertu nú orðinn stórmeistari, hva, náðirðu ekki einu sinni áfanga? Þetta er svolítið svekkjandi." En er stórmeistaratitillinn mikils virði sem slíkur? „Já, hann er óneitanlega mjög mikils virði. Hér á landi eru náttúrlega viss hlunnindi handa stórmeisturum, þeir eru á kennaralaunum frá ríkinu, og það er ágætt vegna þess að þá hafa menn að einhverju að keppa. Ég veit að ef þessi heiðurslaun væru ekki til staöar, þá myndum við al- þjóðameistararnir ekki leggja svona hart að okkur við að ná þessum titli. Ekki endi- lega til þess að hafa það náðugt á launum hjá ríkinu, heldur er gott að vita til þess að hugsanlega er hægt að hafa framfæri sitt af skákinni. Og svo fá stórmeistarar miklu fleiri og betri boð á mót en aðrir. Alþjóð- legum meisturum standa núorðið mjög fá skákmót titl boða sem ekki eru „opin mót“, og þau eru ekki að öllu leyti heppileg." Nú ku vera algengt að skákmenn séu haldnir ýmiss konar hjátrú. Hefur þú af einhverju svoleiðis að státa? „Já, það eru til frægir siðir eins og að skipta ekki um föt meðan maður tapar ekki, eða hætta að raka sig eins og Kasp- arov gerði á tímabili. Happapenninn er líka frægur. Allir skákmenn eiga sinn sér- staka happapenna til þess að skrifa niður leikina, og það eru til margar sögur af mönnum sem gengur vel á móti þar til þeir týna pennanum sínum. Þá fer allt í steik! Geturðu sagt mér hver er erfiðasta skákin þín til þessa? „Ætli það sé ekki skák sem ég tefldi á móti Tony Miles á Reykjavíkurmótinu 1980. Þá hafði ég þrisvar teflt á móti hon- um, alltaf haft svart og alltaf tapað. Svo hafði ég svart í fjórðu skákinni líka og hann náði fljótlega frumkvæðinu. Ég var farinn að sjá fram á fjórða núllið, en var ákveðinn í að þrauka og þvældist fyrir í rúmlega 100 leiki. Þá varð hann líka að sættast á jafntefli. Þetta var ægilega erfið skák. Reyndar tefli ég gjarnan langar skákir, ég hef oft farið yfir 100 leiki.“ En áttu þér þá einhverjar uppá- haldsskákir? „í svipinn man ég til dæmis eftir tveim- ur skákum sem ég tefldi á Reykjavíkur- mótinu 1978. Þær eru tefldar í röð og mér tókst að vinna báða andstæðinga mína, Knut Helmers frá Noregi og Hauk Ang- antýsson. Um þetta leyti var ég að skerpa skákstílinn og þetta eru sóknarskákir, kannski fyrstu raunverulegu sóknarskákir mínar og því man ég vel eftir þeim. Fyrir skákina gegn Hauki fékk ég reyndar feg- urðarverðlaun. En sú skák sem ég held sennilega mest upp á var tefld á móti í Júgóslavíu 1981 — andstæðingurinn var Sznapik, sterkasti skákmaður Pólverja um árabil þó honum hafi gengið illa að ná sér í stórmeistaratitil. Ég var efstur á þessu móti framan af en undir lokin — þegar blessaður stórmeistaraáfanginn var í sjón- máli! — þá tefldi ég gegn titilslausum Júgóslava og lék mig í mát í einum leik! Þetta var hræðilegt áfall, og satt að segja í eina skiptið sen ég hef verið mátaður í kappskák. í næstu umferð mætti ég svo Sznapik. Ég kom með nýjung í 11. leik sem leiddi til þess að ég náði stöðuyfirburðum, hann tók hraustlega á móti og réðst á mig með gagnsókn, en mér tókst að hrinda henni með því að tefla mjög nákvæmt. Ég vann síðan skákina. Þessa nýjung sem ég fann notaði Timman — sem fylgist einmitt mjög vel með í byrjanafræðunum — seinna gegn Kasparov og fékk unnið tafl. Þetta var í Bugojno 1982 en eftir ægilegar flækjur slapp Kasparov með jafntefli. Ég held upp á þessa skák gegn Sznapik, ekki síst vegna þess að mér skyldi lánast að tefla svona vel eftir þetta áfall í umferð- inni á undan, ég er mjög ánægður með það. Annars er varla til sú íþrótt þar sem menn taka því sárar að tapa en í skák. Það er náttúrlega sjokk fyrir egóið ef maður finn- ur að einhver getur yfirbugað mann and- lega, þó ekki hafi verið um slíkt að ræða í þessari skák gegn Júgóslavanum." Ertu tapsár sjálfur, svona yfirleitt? „Ég var geysilega tapsár, og er það raunverulega enn, en maður reynir að láta sem ekkert sé. Það þýðir ekkert annað, því þeir sem eru óhóflega tapsárir hljóta að heltast úr lestinni, sérstaklega ef þeir bregðast við tapi með því að verða fúlir út í andstæðinginn. Ég held að ég sé nú loks- ins vaxinn upp úr þeim barnaskap. Maður verður að gera sér grein fyrir því að þegar öllu er á botninn hvolft þá eru það manns eigin mistök sem verða manni að falli. Ef maður leikur aldrei af sér tapar maður ekki skák — það segir sig sjálft." En á hinn bóginn: fylgir því ekki ólýs- anleg sæla aö standa upp frá taflborð- inu eftir aö hafa unnið góöa skák? „Jú ... ég get ekki neitað því. Það er nú meðal annars þess vegna sem maður er að þessu ...“ Hér fylgir að lokum skákin sem Margeir nefndi uppáhaldsskák sína. Hann hefur hvítt gegn Sznapik frá Póllandi og þeir sem hafa áhuga á nánari skýringum við skákina geta fundið þær í Informator nr. 32, sák nr. 689. I. d4 — Rf6, 2. c4 — g6, 3. Rc3 — Bg7, 4. e4 - d6, 5. f3 — 0-0, 6. Be3 — Rc6, 7. Rge2 - a6, 8. Dd2 — Hb8, 9. h4!? — b5, 10. h5 — e5, II. d5! — Ra5, 12. Rg3 — b4, 13. Rdl — c6, 14. Rf2 - Bd7, 15. b3! - He8, 16. Be2 - De7, 17. 0-0 — Rxh5?!, 18. Rxh5 — gxh5, 19. Hfbl! — Rb7, 20. Dxb4 — f5!, 21. Ba7! (21. exf5 — e4! og svartur hefur undirtökin.) 21. - Bh6, 22. dxc6 - Bxc6, 23. Bxb8 - Be3!?, 24. Bxd6! — Rxd6, 25. c5 (25. Hdl? - Bxf2, 26. Kxf2 — Rxe4+ og svartur hefur betri stöðu.) 25. — Dh4, 26. Del — Kh8?, 27. cxd6 — fxe4, 28. Bb5! — Dg5, 29. Bxc6 — Hg8, 30. Dfl — Dg3, 31. Hel — Bf4, 32. Rxc4 - Dh4, 33. Df2 - Dh2+, 34. Kfl - h4, 35. d7 — h3, 36. g4 1-0. Höfuðverkur plága sem mæðir á níu af hverjum tíu — Höfuðverkur stafar af truflun- um í taugum (A) og vöövum og æöum (B) í tengslum við höfuðkúp- una eða heilann. Sjálfur fínnur heilinn enga sársauka. Níutíu af hundraði okkar fá höfuðverk, og hann er algengasta þjáningin meðal manna. Það er barið og lamið í höfðinu, og fyrir dönsk áhrif tölum við um dúndrandi höf- uðverk og eyðum miklum fjárhæðum sam- anlagt árlega í kaup á aspiríni og skyldum lyfjum. Ástæðurnar fyrir höfuðverk geta verið margvíslegar og oft vandfundnar. — Það er ekki fyrr en á síðutu árum, sem við erum farnir að skilja gang sárs- aukans og við eigum ann langt í land, segir Seymour Solomon, forstöðumaður höfuð- verkjadeildar Montefore-læknastöðvar- innar í New York. En af hverju fá menn yfirleitt höfuð- verk? Vísindamenn vita, að ástæðurnar geta verið óteljandi — allt frá vöðva- spennu til heilaæxlis. Höfuðverkur vegna vöðvaspennu er meðal annars afleiðing streitu. Sé álag mikið, getur það gerzt, að vöðvar í höfði dragist fast saman. Það hefur svo áhrif á taugar, sem til þeirra liggja, og þær senda sjálfkrafa rafefnafræðileg boð til heilans, sem túlkar þau sem sársauka. Hin illræmda migrene veldur sársauka á nokkuð annan hátt: Heilaæðar ýmist dragast saman eða víkka út. Þegar þær eru þandar síast viss lífefnafræðileg efni gegnum æðaveggina inn í nærlægan vef. Og þar valda efnin bólgukenndum viðbrögðum, sem koma taugunum til að senda boð til heilans. Um tíunda hvert tilfelli höfuðverkjar er af völdum sjúkdóms. Bólgur geta þanið og ert heilahimnuna. Hiti, sem stafar af bólgu til að mynda í augum, nefi, eyrum eða hálsi, getur valdið því, að æðarnar í höfðinu þrútni. Þegar um er að ræða þrálátan (krónísk- an) höfuðverk, er talið, að sálrænar orsak- ir eigi mjög mikinn hlut að máli. Þær auka á höfuðverkinn, lengja hann og geta út af fyrir sig valdið kvölum í höfði. En hvað um þá tíu af hundraði manna almennt, sem aldrei fá höfuðverk? — Okkur er enn ekki ljóst, af hverju Ifeilinn nemur sársauka stundum og stundum ekki. En við vitum, að það eru margslungin víxláhrif milli sálarlífs sjúkl- ingsins og hins eiginlega gangs að baki sársauka, segir Solomón. Erlendar bækur Milan Kundera: THE BOOK OF LAUGHTER AND FORGETTING Translated from the Czech by Michael Henry Heim. Penguin Books 1983. Bók þessi kom fyrst út 1978 og þá á tékknesku, ári síðar var hún þýdd á frönsku og 1980 á ensku. Milan Kund- era fæddist í Tékkóslóvakíu. Hann starfaði sem verka- maður og hóf síðar að leika jasstónlist, seinna meir hrifu kvikmyndir hann, en að endingu lenti hann í bókmenntum og varð ekki aftur snúið. Eftir innrás Sovét- manna í Tékkóslóv- akíu, 1968, hurfu bækur hans úr hill- um bókasafna í Tékkó og yfirgaf hann landið og settist að í Frakklandi. Ríkisfang sitt missti hann svo seint og um síðir eða í beinu framhaldi af útkomu þeirrar bókar, sem hér er kynnt. Kundera hefur ritað margar bækur og er í hávegum hafður suður í Evrópu, einkum í Frakklandi og á Ítalíu. Verðlaun hefur hann mörg hlotið. The Book of Laughter and For- getting skiftist í sjö kafla. Við hana er aukið samtali sem rithöfundurinn Phil- ip Roth átti við Kundera árið 1979. í téðu viðtali segir Kundera að skáldsaga sé langt prósaverk, sem gengur út á leik með tilbúnar persónur, hann vill meina að þessi bók sé skáldsaga en í hana hef- ur hann fléttað upplifunum sín sjálfs og þá einkum viðureign hans við tékknesk yfirvöld. Eins og nærri má geta með bók með þessum titli kitlar hún hláturtaug- arnar oft og innilega, en hún er jú líka um gleymsku og það er nú eitt, sem svolítið ber á nú til dags. Kundera strögglar og vill halda fólki vakandi og vill að það gleymi ekki fyrir nokkurn mun atburðum, sem vöktu at- hygli, reiði og úlfúð fyrir ekki löngu en allt bendir til að lifi ekki lengur í minningu al menn- ings. Hann einskorð- ar sig ekki við Tékk- óslóvakíu, hann nefn- ir í samtalinu við Roth að á sautjándu öld hafi Litháen verið valdamikið evrópskt ríki en sé nú öllum gleymt undir hæl Sovétsins. Hann óttast að það sama hendi önnur þau ríki, sem lent hafa undir þessum sama hæl. Lýsingar Kundera á lögreglunni í Tékkó eru ískyggilegar en hann heldur alltaf húmornum á lofti og eina leiðin til að verða ódauðlegur, segir hann, er að lenda í skýrslum þeirra, þar sé minnið í hávegum haft. í lokin skýt ég svo að einni skrýtlu sem ég tek úr þessari hláturs- og gleymskubók: „Það var í miðborg Prag, Wenceslaus-torgi, aö maður einn var þar að kasta upp. Kemur þá annar að honum, horfir á hann, hristir höfuðið og segir: Eg veit við hvað þú átt.“ LESBÖK MORGUNBLAÐSINS 7. APRlL 1984 5

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.