Lesbók Morgunblaðsins - 21.11.1992, Blaðsíða 3

Lesbók Morgunblaðsins - 21.11.1992, Blaðsíða 3
l-ESBflg 11 @ 11 @ Bfl M H E ® @ ® [fl II ® Útgefandi: Hf. Árvakur, Reykjavík. Framkvstj.: Haraldur Sveinsson. Ritstjór- ar: Matthías Johannessen, Styrmir Gunn- arsson. Ritstjórnarfulltr.: Gísli Sigurðs- son. Ritstjórn: Aðalstræti 6. Sími 691100. Forsíðan Norski myndlistarmaðurinn Odd Nerdrum þykir afar sérkenilegur og málar með aðferð fyrri alda meistara, sem er svo tímafrek, að hann málar aðeins örfáar myndir á ári. Odd tengist íslandi með þeim hætti, að hann kemur oft hingað og fer þá gjaman inn á öræfin, sem heilla hann mjög. Þar finnur hann bakgrunn fyrir harla einkennileg- ar sviðsetningar, svo sem þessa hér, sem heitir „Nafngefendur" og er frá árinu 1990. Völvuleiði -það eru leiði, þar sem völvur hafa verið jarðaðar og finnast slík leiði einkum um landið sunnan- og austanvert. Völvur sáu fyrir óorðna hluti og vissu um örlög manna og sagt var að þeim hlotnaðist happ, sem annaðist völvuleiði. Um þetta efni skrif- ar Sigurður Ægisson, prestur í Bolungavík. Istor-O-IMal er nafn á 7397m háu fjalli norðanvert í Pakistan. Þýzkur leiðangur reyndi að klífa tindinn seint í sumar og Ari Trausti Guðmundsson, sem er vanur fjallaklifrari, slóst í förina. Þetta varð ævintýraför með erfiðleikum, óvæntri hríð ogveikindum, en „allir komu þeir aftur og enginn þeirra dó...“ Vágestur Skrúfuflugan grefur sig inn í hold dýra, tímgast þar og leiðir dýrin til dauða. Nú hafa vísindin snú: ist gegn þessum vágesti með góðum árangri: í verksmiðjum er framleiddur aragrúi flugna, sem síðan er geltur með geislun og sleppt á sýktu svæð- in. Um þetta skrifar Bjöm Sigurbjörnsson, sem starfar hjá FAO í Vínarborg. ILYA EHRENBURG Barnabörnin okkar Magnús Ásgeirsson þýddi Þau munu undrast, barnabörnin okkar, sem blaða í söguriti um liðna tíð: „1914... ’17... ’19... Að nokkur skyldi lifa þvílíkt af!“ Börn nýrra tíma læra um orustuúrslit og herforingja og mælskumanna nöfn, um tölu hinna drepnu, daga og ártöl. En ekki um hitt: hve undarlega milt gat angað rós á skotgrafanna barmi, hve ljúft var múrsvölunnar káta kvak á milli stórskotanna þrumuþyta, hve fagurt var þá liðnu daga, Lífið. Aldrei skein, aldrei, sól með sömu dýrð og sú er skein á eydda borg, er fólkið úr kjöllurunum skreið á fjórum fótum og sagði hissa: Sólin skín þá enn! Eggjunarræður hlumdu. Herir eyddust. En liðsmennirnir lærðu að meta ilm af litlu blómi, rétt fyrir árásina. Menn voru í dögun dregnir út og skotnir. . . En aðeins þeir fengu öðlast vissu um það, hversu aprílmorgunn getur verið fagur. Vorliljur glóðu í veikum morgungeislum. Vindurinn bað: eitt augnablik, eitt enn! Þeir kysstu og gátu ei slitið munn frá munni. Þeir kvöddu og gátu ei losað mund úr mund. Ástin var þeim: Ég á að deyja, hverfa! Ástin var þeim: að brenna, fara í súg! Ástin var þeim: Hvar ert þú? ó, hvar ertu? Þeir unnu eins heitt og hjörtum manna er unnt á þessum hnetti, stjörnu stríðs og blíðu. Þau ár báru engir garðar gullin aldin. Þá greru blóm og dóu hið sama vor. Þá var ei kveðjan: Vertu sæll á meðan! Þá var hún, bergmálandi og stutt: Far vel! Lesið og undrizt! Ykkur voru ei gefin þau ár til lífs og dauða — og harmið það! En yfir blikuðu eilífheiðar stjörnur, og undir þeirra ró við gátum börn. Af okkar þrám þið berið bjarma í augum. Af byltingu okkar málið fékk sinn hljóm. Langt fram í myrkur áranna, aldir og víddir, eldgneistum sínum stökkti okkar kulnaða líf gegnum tíma og tóm! Ilya Ehrenburg var rússneskt skáld, f. 1891' í Kiev, af gyðinglegum uppruna. Hann lifði stormasama tíð i föðurlandi sínu, tók bæði þátt í byltingunni 1905 og 1917, var hnepptur í fangelsi, reyndi sult og seyru, kennari um tíma og striösfréttaritari, en dvaldist líka i París og víðar í Vestur-Evrópu. Rekstrarskilyrði fjölskyldulífsins Oft er talað um að skapa þurfi atvinnulífinu hag- stæð rekstrarskilyrði. Á þessu staglast stjómmála- menn og athafnamenn stanzlaust í fjölmiðlum og frasinn er orðinn alkunnur. Atvinnulífið er vissulega undirstaða efnahagslegrar velferðar og nauðsynlegt að skapa því sem beztar aðstæður. Sjaldnar heyrist hins veg- ar talað um að skapa þurfi hagstæð rekstr- arskilyrði fyrir fjölskylduna, sem þó er álit- in homsteinn samfélagsins, eða gengur að minnsta kosti undir því nafni í ályktunum stjórnmálaflokka. Fjölskyldulífið á, eins og allir vita, rekstr- arlega hlið og þess er skemmst að minnast að bandaríski hagfræðingurinn Gary Becker fékk Nóbelsverðlaun fyrir hagfræðikenning- ar sínar um það hvers vegna fólk giftir sig, skilur, eignast börn og fleira í þeim dúmum. Að undanförnu hefur ýmislegt komið fram, sem sýnir fram á að hið opinbera velferðarkerfi leiði af sér að hefðbundið fjöl- skyldumynztur sé á ýmsan hátt óhagkvæm- ara en aðrir kostir. Þannig njóta einstæðir foreldrar margháttaðra hlunninda umfram hjón eða sambúðarfóUc, til dæmis forgangs að dagheimilisplássi, niðurgreiddra dagvist- argjalda, aðgangs að félagslegu húsnæði og hærri barnabóta. Þetta er auðvitað til þess ætlað í upphafi að hjálpa upp á sakirn- ar vegna þess að ein fyrirvinna geti ekki séð fyrir fjölskyldu. Hins vegar em veruleg brögð að því að fólk misnoti kerfið og kom- ist upp með það. Hjúskaparfólk getur aukið tekjur sínar og réttindi að mun með því að skrá sig sem skilið, að því er kom fram hjá nefnd, sem fór ofan í þessi mál. Hætt er við að fólk, sem fær skilnað af fjárhagsástæðum eða lætur vera að skrá sig í sambúð eða ganga í hjónaband til að auka tekjur sínar til skamms tíma litið, horfi framhjá ýmsum kostum, sem fylgja hjónabandi eða skráðri sambúð. Þannig á sambýlis- og hjónafólk erfðarétt og rétt til makabóta og lífeyrisgreiðslna við fráfall maka síns. Fólk, sem skráir sig sem ein- stæða foreldra hefur engin réttindi af þessu tagi og býr því við meira öryggisleysi, komi eitthvað upp á. Mergurinn málsins er þó að kerfið, eins og það er í dag, veikir fjölskylduna sem grunneiningu samfélagsins. Göt í kerfinu, sem bjóða upp á misnotkun, eru eitt, annað er sú tilhögun að gera óvígðri sambúð og hjónabandi á margan hátt jafnhátt undir höfði. Óvígð sambúð skapar ekki sama ör- yggi í fjölskyldulífi og hjónaband gerir. Hjónaband er ótvíræð yfirlýsing um að fólk hyggist fylgjast að, hvað sem á bjátar. Því miður tekst fólki ekki alltaf að standa við þá yfírlýsingu, eins og fjöldi hjónaskilnaða sýnir, en það ætti þá að minnsta kosti ekki að kosta meira að vera giftur en skilinn. Fólk hleypur heldur ekki fyrirvaralaust frá hjónabandi; skilnaður krefst ákveðinna formsatriða og sáttatilraunir eru lögboðnar. í óvígðri sambúð — að ekki sé talað um óskráða — er hins vegar veikara bindiefni, ef svo má segja. Börnum hlýtur til dæmis að þykja meira öryggi í því fólgið að foreldr- ar þeirra séu giftir, heldur en að þeir búi bara saman eða að jafnvel megi ekki segja frá því að foreldramir búi saman, af því að það er svo ópraktískt! Heilbrigðisráðherrann hefur viljað taka á málunum og koma í veg fyrir misnotkun velferðarkerfisins. Meðal tillagna hans er að tengja barnabætur og barnabótaauka ekki við hjúskaparstöðu heldur tekjur, og væri slíkt áreiðanlega til bóta. Hins vegar mætti gjaman ganga lengra og haga því til dæmis þannig til, að veruleg skattaleg hlunnindi fylgdu því að ganga í hjónaband. Gerðir fólks ráðast að miklu leyti af fjár- hagslegri afkomu þess, og ef hægt er ýta undir festu í fjölskyldulífinu með því að skapa því hagstæð rekstrarskilyrði, ættu stjórnmálamenn ekki að hika við að taka þann kost. , ÓLAFUR Þ. STEPHENSEN LESBÓK MORGUNBLAÐSINS 21.NÓVEMBER 1992 3

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.