Morgunblaðið - 23.09.2001, Blaðsíða 2

Morgunblaðið - 23.09.2001, Blaðsíða 2
2 B SUNNUDAGUR 23. SEPTEMBER 2001 MORGUNBLAÐIÐ Öskurkór dísildreka A ð koma að Manhattan er eins og að hitta kæran vin sem framtennurnar hafa verið rifnar úr og skín í skörðin. Það er komið skarð í röð skýja- kljúfanna sem skapa þekktustu borgarmynd heims, en jafnframt borgarmynd sem blasti við mér daglega í nokkur ár. Í stað þessara tveggja kónga sem gnæfðu yfir fjármálahverfinu syðst á Manhattan stígur nú reykjarmökkur upp í himininn. Þeir voru alltaf þarna þessir turnar, fullir af fólki og fyr- irtækjum, jafn sjálfsagðir og gulu leigubílarnir og öflugur taktur mannlífsins. Nú segja sumir borgarbúar að Tvíburaturnarnir hafi verið svo eðlilegur hluti umhverfisins að þeir muni ekki nákvæm- lega hvar þeir hafi staðið. En návist turnanna fer ekki á milli mála þegar niður í bæ er komið. Í hótelinu sem ég skrái mig inn á í Kínahverfinu, í göngufæri frá fjármálahverfinu, blasa þeir við á stóru vegg- málverki í anddyrinu. Þeir eru á stórri svarthvítri ljósmynd yfir innritunarborðinu og þeir eru á teikningu yfir rúminu í herberginu. Turnarnir eru líka falboðnir á ótal götuhornum, í innrömmuðum ljósmyndum götusalanna, á póstkortum, peysum, húfum. En nú stígur bara reykur upp af rústahaug og frá honum leggur daufa lykt fyrir vitin. „Þetta hefur verið skelfilegt,“ segir Escobar í innrit- uninni.„Það eru svo margir búnir að afpanta, hér eru bara fréttamenn og fólk sem tengist björgunaraðgerðunum; lög- reglu- og leitarmenn.“ Síðustu dagana hafa yfirvöld hleypt fólki nær og nær ham- farastaðnum, haugnum tröllvaxna sem var World Trade Center og næstu byggingar í kring. Íbúar hafa snúið aftur, í sumum tilvikum inn á heimili full af gráum salla og eyðing- unni merkt, og eigendur hafa opnað fyrirtæki sín. Viðskipti eru líka komin í fullan gang í kauphöllinni, þar sem menn upplifðu verstu viku í áratugi. Enginn fær samt að fara inn í fjármálahverfið og íbúðahverfin sunnan Canal Street án þess að lögregla skoði skilríki vandlega. Og einu bílarnir sem fara þar um eru opinber farartæki, lögreglubílar, hertrukkar, vörubílar með brak úr rústunum og bílar viðhalds- og við- gerðafyrirtækja en keppst er meðal annars við að skipta um símalagnir í stórum hluta hverfisins. Broadway, sú fræga gata, liggur suður eftir Manhattan og syðst fær fólk að ganga austan megin götunnar. Það er komið kvöld og orðið dimmt þegar ég geng þangað niður eftir og byrjað að rigna. Þá slær niður reykjarmekkinum og lyktin umlykur mann. Ég sé hóp fólks standa á gatnamótum, fyrir aftan girðingu sem lögreglan hefur komið fyrir, og horfa. Sumir munda mynda- vélar, aðrir benda. Tvær konur gráta. Þar blasir skelfingin við. Þessi tröllvaxni haugur úr stáli og gleri; þessi skelfingar býsn af braki, svo miklu umfangsmeiri en nokkur ljósmynd hefur náð að sýna mér. Og samt er það bara brot af heildar- umfanginu sem þarna glittir í. Kranabómur sveiflast yfir jaðri haugsins, menn sjást þar tilsýndar, skelfing smáir með hvíta hjálma, og yfir sviðinu ytra byrði neðsta hluta annars turnsins; eins og forsöguleg beinagrind. Allt í kring æpandi glerlausir gluggar og skaddaðir veggir nærliggjandi húsa. Þetta er skelfileg og yfirþyrmandi sjón. Og svo tilhugsunin um að þarna í brakinu séu lík meira en 6.000 manna – það er eins og íbúar Keflavíkur þegar ég var að alast þar upp – og jafnvel ennþá fleiri, hvísla menn. Því þá eru ekki taldir með ólöglegir Mexíkanar sem fjölskyldur þora ekki að láta vita um, og ekki vinnuveitendurnir heldur. Lögreglumenn segja fólki að vera ekki að drolla, ekki tefja umferðina, en neðar blasa bara við nýjar hliðar haugsins, og svo enn aðrar. Hverfið nötrar af öskurkór dísildreka í yfirstærðum sem útvega þá raforku sem þarf. Alls staðar eru menn að verki. Að þrífa hús og götur, að færa til tæki og tól. Hópar lög- gæslumanna og hermanna standa, horfa og tala. Morguninn eftir geng ég með straumi verkamanna og skrifstofufólks inn í hverfið. Sífellt bætast nýir í hópinn; koma með ferjunni frá Staten Island eða upp úr neðanjarð- arlestargöngum; þeim sem ekki lögðust saman þegar turn- arnir hrundu. Við Broadway, í fjármálahverfinu miðju, er skart- gripaverslunin Renaissance. Turnarnir blöstu við fyrir utan gluggann. Rúðurnar eru þaktar ljósu ryki en innan dyra er Leat Cohn að byrja að þurrka af innréttingunum, gler- borðum og skápum; allt er þakið þessum salla. „Það varð allt brjálað hérna þegar þetta gerðist. Fólk stóð fyrir utan og öskraði,“ segir Leat, tekur af sér grímuna og grettir sig þeg- ar stæk reykjarlyktin sest í vitin. „Ég leit bara upp og sá eldinn. Þegar önnur vélin kom þá vissum við að þetta var ekki slys. Allir öskruðu. Margir flýttu sér að loka búðunum. Svo hrundi fyrsti turninn. Eftir að sá seinni fór lokuðum við. Og svo var bara að hlaupa eins hratt og við gátum. Ruslið var með ólíkindum, og reykurinn. Þetta var eins og í kvik- mynd, bara verra. Ég vildi að þetta hefði verið kvikmynd. Þeir segjast ætla að endurbyggja turnana. Ég veit ekki. Mörg fyrirtæki hérna í kring ætla að hætta eða flytja annað. Við ætlum að reyna að hafa opið. Tvær verslanir hér í lengj- unni voru rændar. Nei, viðskiptin hér verða aldrei eins og áður, þetta byggðist svo á World Trade Center. Þetta var erfið vika, þangað til okkur var leyft að koma hingað í dag. Bara setið og horft á fréttir.“ Neðst á Broadway er mikið naut úr bronsi, tákn kapps og áræðni á fjármálamarkaði. Á horn þess er búið að líma bandaríska fána. Á rassinum er mynd af Osama bin Laden. Ég geng til baka og norður fyrir hamfarasvæðið, eftir yf- irgefnum götum og framhjá verslunum þar sem eigendur eru að reyna að koma hlutunum í lag. Mér er hleypt um svæði þar sem er aðsetur björgunarmanna. Sjálfboðaliðar reiða fram mat, þar er allt fullt af dósamat og drykkjarvatni, sturtuskúrar og hús sem hægt er að leggja sig í. Læknar í sjúkraskýlum, sæti sem menn hvíla sig á og spjalla. Staflar af sjúkrabörum og áhöldum sem notuð eru við björg- unarstörfin. Þarna er undarlega þögult – bara dynkir frá björg- unarstarfinu sem fer fram nokkrum húsaröðum neðar. Í hina áttina má sjá tjöld og palla sjónvarpsstöðvanna sem flytja fréttir af gangi mála. Þarna er alvarleikinn allsráðandi, því þótt enn hafi ekki verið gefin upp öll von um að fólk finnist á lífi þá gera menn sér grein fyrir að líkurnar á því eru hverf- andi. Eða eins og Kristján Tómas Ragnarsson, yfirlæknir á Mt. Sinai-sjúkrahúsinu sagði, en dóttir hans missti eig- inmann sinn í hryðjuverkinu: „Annaðhvort sluppu menn heil- ir eða sluppu alls ekki.“ Á gatnamótum við Broadway stendur fólk og starir á rústahauginn; sumir taka myndir, aðrir fella tár. Rústin New York er breytt borg. Einar Falur Ingólfsson fór aftur til borgarinnar þar sem hann bjó um nokkurra ára skeið og skráði breyttan hversdag borgarbúa í máli og myndum.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.