Morgunblaðið - 18.12.2002, Blaðsíða 4

Morgunblaðið - 18.12.2002, Blaðsíða 4
4 D MIÐVIKUDAGUR 18. DESEMBER 2002 MORGUNBLAÐIÐ BÆKUR 1 Skáldið hefur brugðið sér í frísktloftsgöngu og er ókominn til baka, þegar ég renni í hlað. Í stað þess að taka á móti honum á hans eigin tröppum þigg ég boð Margrétar konu hans Indriðadóttur um að koma inn og bið hana að leyfa mér að randa um stofuna og skoða myndir á veggjum. „Þeir hafa verið okkur góðir margir lista- mennirnir,“ segir Thor Vilhjálmsson á bak við mig, rétt þegar ég er að skoða Hafís Kjarvals, sem hann hefur fengið gegn um móður sína frá afa sínum Thor Jensen. Kjar- val er þarna í fleiri myndum; ein er skondin andlitsmynd af Thor, sem Kjarval málaði á plast og kallaði flaututóninn. Myndina málaði Kjarval eftir að hann hafði hlustað á útvarpið í leigubíl austur á Borgarfirði og heyrt Thor lesa upp úr nýútkominni bók um meistarann. Austankominn hringdi hann í skáldið og sagðist hafa málað af honum mynd í tilefni bókarinnar. Aðra andlitsmynd af Thor málaði Kjarval á glugga í vinnustofu sinni og eign- aðist Thor rúðuna að Kjarval gengnum. Nú stendur þessi rúða innkörmuð í borð- stofuglugga Thors og Margrétar. Og Thor leiðir mig áfram um húsið. „Þetta er Svavar. Sjáðu hvað hann er fínn í vatnslit- unum hérna. Og svo sterkur í litunum þarna.“ „Þessi er eftir Gunnlaug Scheving. Ynd- islegur maður, Gunnlaugur. En ef það voru fleiri en þrír í kring um hann, þá þagnaði hann.“ „Þessa höggmynd af ömmu minni setti Sig- urjón Ólafsson í fangið á mér, þegar við höfð- um setið hjá þeim kvöldstund og sötrað bjór- inn,sem hún Birgitta bruggaði svo vel.“ Það er hér sem ég tek í taumana og minni skáldið á, að ég sé kominn til að tala við hann um nýja skáldsögu hans. „Jæja, góði. Þú ræð- ur auðvitað ferðinni!“ 2 Sagan heitir Sveigur; segir af Guðmundi skálda, sem á 13. öld elzt upp með munkum en lendir í slagtogi með helztu höfðingjum, þar á meðal Sturlu Sighvatssyni. Fyrir fjór- um árum kom út skáldsagan Morgunþula í stráum, þar sem Thor sagði frá Sturlu Sig- hvatssyni, ævi hans og örlögum. Í þeirri bók kom Guðmundur skáldi við sögu. – Ertu bara seztur að á Sturlungaöld? „Ekki er það nú alveg. Kannski má segja, að ég hafi verið þar með annan fótinn og svona reynt að glenna mig eitthvað yfir þetta. En satt að segja er Sturlungaöldin anzi nærri okkur. Ég vitna stundum í pólskan mann; Jan Kott, sem skrifaði bók um að Shakespeare væri okkar samtíðarmaður. Ég skáka í því skjólinu, að þeir séu okkar samtíðarmenn, þeir Sturlungar. Þetta eru svipuð öfl, sem byltast innra með mönnum og sömu öfl, ef þú kemst nógu djúpt inn í manneskjuna. Ég byrjaði að velta fyrir mér Morgunþulu í spurn um það, hvers vegna Sturla Sig- hvatsson tapaði lokaorrustunni. Þessi glæsi- legi maður, sem komst ekki hjá því sem lauk- ur ættarinnar að vera borinn til konungs á Íslandi og berjast til valda. Kannski langaði hann til þess að vera skáld, eins og hinir. En það mátti ekki vera hans hlutur. Hann varð að vera hetjan og tapa. Guðmundur skáldi er andhetja; hógvær andans maður, sem þráir það helzt að vita meira og meira og þrauka af. Og þótt hann sé minni fyrir mann að sjá en Sturla Sighvatsson, þá tekst honum sitt með- an Sturla tapar.“ 3 – Varstu farinn að sjá Sveig fyrir, þegar þú vannst Morgunþulu ? „Mér fannst ég þurfa að svara vissum spurningum, ekki bara um þann tíma; Sturl- ungaöldina, heldur okkar tíma líka. Ég þreifaði fyrir mér í Morgunþulu og hélt satt að segja, að hún yrði haffær af sjálfri sér – og treysti því. En svo fór hitt að leita á mig. Ég fór að spyrja mig, hvers konar maður hann hefði verið, þessi Guðmundur skáldi. Lítill útávið og ekki áberandi maður. Svona jamm og jæja, víst vænsti karl. En þeir, sem minna fer fyrir en hetjunum, eiga líka sinn innri mann. Og þegar til kast- anna kemur, er hann alls ekki svo lítill. Ég trúi á fólk sem vinnur það, sem það fæst við til ítrustu hluta, án þess að hafa hátt um það. Það er líka nokkurs virði að skilja, hvernig svona manneskjur fá þrifizt á ógnaröld.“ – Að Sveigur sé þroskasaga andhetjunnar eins og Morgunþula hetjunnar. „Þú segir það! Ég hugsaði fyrst og fremst um að skrifa nútímaverk fyrir mitt samtímafólk. Þetta er minn skáldskapur, ekki sagnfræði Sturlu. Svona karlar, eins og Sturla Þórð- arson. Ég lýt þeim í virðingu. En ég er alls ekki að skrifa þá upp. Ég reyni bara að ráða við það, sem mér vitrast.“ 4 – Þú leggur áherzlu á líkindi manna nú og fyrr. Er okkar tími enn ein Sturlungaöldin? „Mér finnst okkar tími einkennast af óvirð- ingu við manneskjuna. Það er ekki fagurt mannlíf. Ég er nú að vona, að sumir rati til sjálfra sín og komist þangað heilu og höldnu, þrátt fyrir þessa grimmd. Lykillinn að þeirri heim- komu er fólginn í því að komast inn í sínar eigin launhelgar.“ – Eru þá átök um kvóta og verðbréf í sagnaspegli þínum okkar Bæjarbardagar? „Þetta snýst allt um völd; að verða kóngur Íslands. Það gerði það þá. Það gerir það nú. Margir halda, að peningar séu allt og geta sperrt sig um stund með þá milli handanna. En svo springur allt undir þeim, því hetju- ljómi peninganna er bara loftbóla. Má ég minnast á þessa afþreyingu, sem gefur okkur ekkert. Hún tekur okkur frá sjálfum okkur og skilur okkur blásnauð eftir. Þetta er þeim mun þyngra sem okkur býðst svo margt stórkostlegt í okkar arfi og umhverfi. Vandinn er að laða menn til þess að hlusta á leyniskáldið í sjálfum sér, að skynja þá kviku, sem lífið er og hemja það.“ Það er þessi lykill, sem Thor Vilhjálmsson vill hafa fengið okkur með Morgunþulu í stráum og Sveigi. Það er svo undir okkur sjálfum komið hvernig við mætum til okkar Örlygsstaðabardaga. 5 Útgangan er ekki síður löng, en inngangan að samtali okkar. Thor hefur aftur hellt sér út í sögurnar og segir þær af miklum móð. Nú eru það ekki nafntogaðir listamenn, sem sögurnar snúast um, heldur nafnlausir karlar og kerlingar, sem Thor hefur hitt á lífsleið- inni og hirt andrúm þeirra í minningasarpinn. Eitt sinn sigldi Thor með Írafossi. Þeir voru að koma með 5.000 jólatré frá Hauga- sundi. Honum varð vel til áhafnarinnar. Þetta voru saltir karlar, teprulausir snillingar. Fyrsta kvöldið eru þeir eitthvað að sötra bjór. Þá segir einn þeirra við Thor. Ég var nú einu sinni að reyna að lesa bók eftir þig; Komdu, komdu fugl.¹ En ég skildi ekkert í henni og henti henni út í horn. Ég held að hún sé þar ennþá si svona. Og hann myndar bæjarburst með höndunum. Þegar kynnin eru lengra komin segir sami maður, að nú sé hann til í að lesa bók eftir Thor. En ekki þá sömu og hann henti út í horn. Hefurðu ekki skrifað eitthvað auðveld- ara en hana? Og Thor bendir honum á Fuglaskottís, sem var þá nýkomin út. Ekki segist hann vita, hvort þessi sjóferð- arvinur hans lagði í Fuglaskottís. En að skilnaði gaf hann Thor klúbbskírteini, sem opnaði honum leið að færeyskum næt- urklúbbi, ef skáldið vildi láta svo lítið að bregða yfir sig nafni hans! 1) Bókin heitir Fljótt fljótt, sagði fuglinn og kom út 1968. Ég reyni bara að ráða við það sem mér vitrast THOR VILHJÁLMSSON: Satt að segja er Sturl- ungaöldin anzi nærri okkur. Eftir Freystein Jóhannsson  Mál og menning hefur gefið út skáldsöguna Sveig eftir Thor Vilhjálmsson. HALLDÓR Laxness er þvílík stærð í íslenskum bókmenntum að allt, sem um hann er skrifað, vekur eftirtekt. Gildir þar einu hvort menn hrífast af verkum hans eða horfa á þau gagnrýnum augum. Því vekur það forvitni er forleggjari hans í mörg ár, Ólafur Ragnarsson, sendir frá sér bók sem hann byggir öðrum þræðinum á viðtölum við skáldið enda kemur í ljós að hér er á ferðinni ritverk sem vel er þess virði að blaðað sé í því. Halldór Laxness – líf í skáldskap nefnist verkið. Ólafur segir sjálfur í inngangi að bókin sé hvorki ,,hefðbundin ævi- saga né samtalsbók, heldur ekki bókmenntaleg úttekt á verkum Halldórs Laxness. Ef til vill má segja að hún sé blanda af öllu þrennu“. Þetta er nokkuð góð lýs- ing á verkinu. Ólafur byggir það upp eins og krónólógíska ævisögu en í raun er um að ræða þríþætta byggingu og þríþætt sjónarhorn. Í fyrsta lagi leggur Ólafur hér fram sýn sína á ævi og verk Halldórs Laxness framan af starfsævi. Í öðru lagi hefur hann unnið mikið verk við að tína saman heimildir úr ýmsum bréfum Halldórs og sam- tímamanna hans, dag- bókum, minnisbókum og verkum Halldórs sem túlkar ágætlega viðhorf og lífsskilning Halldórs á þessum ár- um. En ef til vill er þó mikilvægast að með- fram starfi sínu sem forleggjari hefur Ólaf- ur aldrei gleymt sinni fyrri iðju sem frétta- maður og því hefur hann safnað saman ýmsum viðtalsbrotum sem hann átti við Halldór jafnhliða því að hann gaf verk hans út. Þetta virðist hafa verið sam- komulag þeirra á milli og skilað góðum árangri. Það er til að mynda skemmtilegt þegar Ólafur fær Halldór á gamalsaldri til að gera athugasemdir um æskuskrif sín op- inber og óopinber og teflir þannig saman æskumanninum og öldungn- um. Umfjöllun Ólafs er rituð af yf- irgripsmikilli þekkingu á viðfangs- efninu og ást á því. Hún er fyrst og fremst ævisöguleg. Ólafur hefur ekki svo mikinn áhuga á bók- menntasögulegri stöðu eða hug- myndafræðilegum einkennum verka Halldórs enda má segja að mikið hafi verið um þau atriði skrif- að að undanförnu. Hins vegar hef- ur bókin töluvert bókfræðilegt eða skjalfræðilegt gildi því að Ólafur tínir fram hvert handritið af öðru, hvert bréfið af öðru auk samtal- anna góðu. Texti hans er því mikill samtíningur sem þó er ekki sagt honum til lasts heldur byggir Ólaf- ur textann mikið á tilvitnunum héð- an og þaðan en tekst með þessum brotakennda hætti að skapa heild- stæða mósaíkmynd af skáldinu. Verkið er nokkuð fyrirferðamik- ið, hátt í fimm hundruð blaðsíður. Margt fróðlegt kemur því fram, stórt og smátt. Þannig hafa vakið athygli vísbendingar um eldri drög að því verki er síðar varð að Sjálf- stæðu fólki en áður var vitað um. Þá er það skemmtilegur fróðleiks- moli þeim sem ekki muna blaða- skrif Halldórs Laxness frá því 1927 að einn frægasti káboj Hollywood þess tíma, Bill Cody, hafi verið skagfirskrar ættar. Ótalmargt smátt kemur þarna fram, jafnvel hverjir skírnarvottar voru við fyrri skírn Halldórs, þeir Guðni Guðna- son og Magnús í Melkoti sem seinna átti eftir að verða fyrirmynd að Birni í Brekkukoti. Einhverjum kann að finnast slíkir fróðleiksmol- ar léttvægir. En í íslenskri vitund skipta þeir máli. Við búum í smá- gervu samfélagi þar sem smáatriði vega þungt. Samt er ekki laust við að sú spurning verði ásækin þegar á líð- ur hið rismikla verk hvort algjör nauðsyn hafi verið að endursegja og fjalla í töluverðu rými um ýmsar greinar og sögur Halldórs Laxness sem annars staðar eru aðgengileg- ar. Sá þáttur þykir mér raunar full- ítarlegur og lengir bókina óþarf- lega mikið. Ekki þar fyrir að það sé leiðinlegur lestur. Textar Halldórs eru sjaldan leiðinlegir. Bókin er aukinheldur þægileg lesning hafi menn nægan tíma og áhuga. Mikilvægasta framlag Ólafs er í raun tvíþætt. Grúsk hans hefur leitt til þess að auðveldara er að staðfesta hvar og hvenær Halldór hóf sinn feril og hvernig hann vann og viðtölin skerpa línur í því mál- verki sem samtíðin hefur dregið upp af skáldinu. Því tekst Ólafi í senn að auka fróðleik okkar um skáldið og draga upp af honum per- sónulega mynd. Halldór Laxness Ólafur Ragnarsson FRÁSÖGN Halldór Laxness – líf í skáldskap ÓLAFUR RAGNARSSON 488 bls. Vaka – Helgafell. 2002 Skafti Þ. Halldórsson Mósaíkmynd af skáldi Um lög og lög- fræði – grund- völlur laga – rétt- arheimildir er eftir Sigurð Lín- dal. Í ritinu er leitast við að skýra nokkur grundvallaratriði í lögskipan þjóð- félagsins með megináherslu á helstu réttarheimildir. Þau fræði sem hér er fjallað um og kalla má inngangsfræði hafa þá sérstöðu að ná með einum eða öðrum hætti til allra sérgreina lögfræðinnar og hafa að auki náin tengsl við greinar utan hennar svo sem guðfræði, heim- speki, þar á meðal rökfræði, sið- fræði og túlkunarfræði, við sagn- fræði, félagsfræði, stjórnmálafræði og sálfræði; er þó engan veginn allt talið. Höfundurinn, Sigurður Líndal, var prófessor við lagadeild Háskóla Íslands 1972–2001. Kennslugrein- ar hans voru almenn lögfræði, rétt- arsaga og vinnumarkaðsréttur. Auk þess kenndi hann um skeið stjórn- sýslurétt í viðskiptadeild. Sigurður Líndal hefur gegnt fjölmörgum trún- aðarstörfum á ferli sínum og verið forseti Hins íslenska bókmennta- félags frá 1967. Hann hefur ritað greinar um margvísleg efni og rit- stýrt bókum og tímaritum. Viða- mikla ritaskrá Sigurðar er að finna í Líndælu, afmælisriti honum til heið- urs, gefin út á sjötugsafmæli hans í fyrra. Útgefandi er Hið íslenska bók- menntafélag. Bókin er 408 bls. Verð: 5.500 kr. kilja, 5.990 kr. ib. Lög

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.