Lesbók Morgunblaðsins - 18.08.2001, Blaðsíða 10

Lesbók Morgunblaðsins - 18.08.2001, Blaðsíða 10
10 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 18. ÁGÚST 2001 H REIN undrun og hrifning komu franskri stúlku til að hrópa, þar sem hún var stödd í Princes Street- görðunum: „...Et le chateau – perche là...“ Þessi upp- hrópun hennar minnti þá á, sem til heyrðu, að kastalinn og nánasta umhverfi hans eru í einu orði sagt hrífandi. Þetta töfrandi umhverfi hefur í ald- anna rás mótast á tilviljunarkenndan hátt, af eldgosum og margslungnu ferli nokkurra ís- alda. Kletturinn sem Edinborgarkastali er byggður á, er feiknamikil storknuð hraunfyll- ing úr ævafornu eldfjalli, sem sópað hefur ver- ið í burtu svo kjarninn einn stendur eftir. Mörgum öldum seinna kemur maðurinn til sögunnar til að móta og byggja upp þetta um- hverfi. Því er ekki að neita að hin gamla og hin „nýja“ Edinborg eru frábær vitnisburður um fjölbreyttan, alvarlegan og klassískan bygg- ingarstíl. Edinborg hefur verið kölluð Aþena norðurs- ins, líklega vegna bygginganna sem eru á Carl- ton Hill við austurendann á Princes Street, svo og stílhreinu samblandi af fornum bygging- arstílum.Walter Scott mun eitt sinn hafa sagt, þar sem hann horfði yfir Edinborg frá Sals- bury Crags: „Mine own romantic town.“ Og þannig hef ég alltaf séð miðhluta borgarinnar, þ.e.a.s. sem sérstaklega rómantíska borg. Edinborg kjörin fyrir listahátíð Gott jafnvægi milli þéttrar byggðar og blómlegra garða varðveitist ennþá, þó álagið á miðsvæði borgarinnar aukist stöðugt. Hægt er að bregða sér úr verslun í Princes Street beint yfir götuna og inní djúpliggjandi og friðsæla garða þar sem eitt sinn var stórt stöðuvatn. Sem betur fer eru þessir garðar enn frekar friðsælir því friðsæla garða í stórborginni er lífsnauðsynlegt að hafa. Það eitt að vita að þeir séu til róar manninn, sumum nægir að aka framhjá og horfa á garðana í gegnum bílglugg- ann og græni liturinn sem er okkur lífsnauð- syn, hefur sín bætandi áhrif. Sé gengið uppí brekkuna sem er fyrir neðan kastalann og sest þar á bekk þá er hægt að njóta í senn vissrar náttúrulegrar friðsældar, iðandi mannlífs úr hæfilegum fjarska í Princes stræti, útsýnis yfir stóran hluta af borginni og yfir fjörðinn fræga Firth of Forth. Handan fjarðarins sér í hið gamla konungsfylki Fife, og þegar útsýnið er gott sést í Lomond hæðirnar í fjarska. Edinborg var fyrsta erlenda borgin sem ég sá, síðla dags í júnímánuði 1960 af skipsfjölum gamla Gullfoss, hún var hálfhulin í hitamistri og voru áhrif hennar svo sterk, að borginni gat ég aldrei gleymt og árum seinna settist ég þar að og gerðist fyrsti sellóleikari í Scottish Chamber Orchestra frá 1977–1983. Hugmyndin að alþjóðlegri listahátíð sem halda skyldi í Edinborg, var fyrst rædd af alvöru yfir hádegisverði á matsölustað í Han- over Square í London í lok ársins 1944. Rudolf Bing – sem seinna varð m.a. framkvæmda- stjóri Metropolitan óperunnar í New York – var aðalhvatamaður að stofnun hátíðarinnar. Hann var þeirrar skoðunar, að varla væri sú borg til í Englandi eftir hamfarir stríðsins sem væri þess megnug, þegar á allt væri litið, að veita viðtöku og reka á viðeigandi hátt alþjóð- lega listahátíð, sem færi fram árlega, þrjár vik- ur í senn og nyti fjárhagslegs stuðnings borg- arfélags, sem væri þess megnugt að standa straum af kostnaði slíkrar stórhátíðar. Það mun hafa verið einhverntíma á árinu 1939, að Rudolf Bing – eftir óperuflutning Glyndebourne óperunnar í Edinborg – gekk um götur borgarinnar seint um kvöld, ásamt áhrifamikilli konu í borginni að nafni Audrey Mildmay, seinna Mrs. Christie, að hann sann- færðist um, að Edinborg væri kjörinn staður fyrir alþjóðlega listahátíð. Myrkvun á fyrstu hátíðinni Í glæsilegum hátíðarbæklingi fyrir fyrstu hátíðina 1947, sagði Sir John Falconer borg- arstjóri Edinborgar í formála m.a. þetta: „Tilgangurinn með þessari alþjóðlegu listahátíð í Edinborg er sá, að veita heiminum tækifæri til að njóta andlegra verðmæta í fögru og friðsælu umhverfi og endurvekja trúna á óveraldlegum gæðum.“ Háöldruð nágrannakona mín Betty Cuthill, gaf mér nýlega eftirfarandi lýsingu á fyrstu Edinborgarhátíðinni 1947. „Stríðinu var ný- lokið og þó aðeins tvær sprengjur hafi fallið á Edinborg meðan á stríðinu stóð, var borgin undir ströngum lögmælum um algera myrkv- un, hvergi mátti sjá í ljósglætu, einu ljósin sem sáust voru hin sterku og hvössu leitarljós sem skáru myrkvaðan himininn sitt á hvað. Það má skjóta því inn til gamans að önnur sprengjan sem féll á Edinborg sprengdi í loft upp brugg- hús þar sem framleitt var whisky, og nálgaðist það helgispjöll í augum margra Skota. Eftir langvarandi stríð og myrkur var Ed- inborgarhátíðin sannkölluð andleg uppörvun, það var eins og fólk fengi aftur trú á því góða og fagra í manninum. Veðrið var óvenju gott, það voru blóm allstaðar, byggingar voru upp- lýstar, þar á meðal kastalinn, leikin var ein- göngu klassísk tónlist, svo var einnig ópera, ballett og leikhúsverk. Eftir eina tónleika man ég eftir að hafa dansað af einskærri lífsgleði ásamt vinkonum mínum eftir Princes stræti, við vorum allar í síðum kjólum, en það tíðk- aðist í þá daga. Búðargluggarnir voru allir uppljómaðir, þvílík ljósahátíð eftir sex ára myrkvun. Hátíðin var hrein frelsun og upp- ljómun. Ég er núna áttræð gömul kona, en ég man þessa fyrstu listahátíð svo lengi sem ég lifi.“ Listrænn metnaður frá upphafi Það kom mörgum á óvart hve listrænn metnaður var mikill á þessari fyrstu hátíð, þar gat að heyra og sjá Orchestre des Concerts Colonne, Louis Jouvet Companíið, einleikara eins og Schnabel, Szigety, Fournier og Prim- rose, svo og Glyndebourne óperuna og Vín- arfílharmoníuhljómsveitina. Allir gagnrýnendur voru á einu máli um að hátíðin hefði tekist óvenju vel, en flestir töldu hápunkt hátíðarinnar hafa verið flutning Vín- arfílharmoníunnar á klassískum tónverkum undir stjórn Bruno Walters, sem í Edinborg endurnýjaði samband sitt við hljómsveitina, sem hann var hrakinn frá þegar nasistar lögðu undir sig Austurríki. Þegar gyðingurinn Bruno Walter stóð þög- ull eitt augnablik fyrir framan Vínarfílharm- oníuna, áður en tónlistin hljómaði, var líkt og óbugaður andi evrópskrar menningar fengi tækifæri til að sanna styrk sinn og hefna sín fyrir viðbjóðslega niðurlægingu tveggja heim- styrjalda á öllu sem siðuðum mönnum er heil- agt. Sökum þess hve glæsilega hátíðin fór af stað var strax farið að leggja drög að næstu hátíð og nú næstu daga byrjar 55. Edinborg- arhátíðin með flugeldum og meiri hátíðarhöld- um en nokkru sinni fyrr. Auðvitað hafa heyrst óánægjuraddir alveg frá upphafi og heyrast þær enn frá þeim sem horfa á heiminn í gegnum skráargat og svo frá þeim skosku listamönnum sem telja sig eiga sess á hátíðinni. Það er rétt, að heimamenn eru sjaldgæfir þátttakendur í þessari alþjóðlegu hátíð, þó er ein og ein undantekning, eins og þátttaka hins unga tónskálds James MacMill- an á undanförnum hátíðum. Þeir sem töldu sig eiga aðgang að Edinborgarhátíðinni en kom- ust ekki að, slógu fljótt upp tjöldum og stofn- uðu Fringe Festival, sem er einskonar Jað- arshátíð, þar sem öllum er frjálst að koma fram, svo lengi sem þeir hafa fjármagn til að mæta og verða sér úti um pláss, þó ekki sé annað en bílskúr til að kynna list sína. Ég sel þessa sögu ekki dýrar en hún var keypt, en sagt er að um 800 atriði fari fram á Jaðarshá- tíðinni dag hvern. Hún er undarleg þessi ár- átta mannsins, að taka magn fram yfir gæði, því þegar allt kemur til alls, eru perlurnar fáar á Jaðarshátíðinni en þegar þú finnur þær, eru þær oft hin sanna list sem við leitum að og ætti svo sannarlega skilið að eiga inni á Edinborg- arhátíðinni sjálfri. Þrjár slíkar perlur hef ég fundið og mun skrifa um lítillega í næstu grein. Morgunblaðið/Árni Sæberg „Hin gamla og hin„nýja“ Edinborg eru frábær vitnisburður um fjölbreyttan, alvarlegan og klassískan byggingarstíl,“ segir Hafliði Hallgrímsson. SÉRSTAKLEGA RÓMANTÍSK BORG Stærsta listahátíð heimsins, Edinborgarhátíðin, hófst í 55. sinn í liðinni viku og stendur fram í september. Í þessari grein rifjar HAFLIÐI HALLGRÍMSSON upp tilurð hátíðarinnar og umgjörð. Höfundur er tónskáld.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.