Lesbók Morgunblaðsins - 29.09.2001, Blaðsíða 7

Lesbók Morgunblaðsins - 29.09.2001, Blaðsíða 7
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 29. SEPTEMBER 2001 7 mjög áhugavert.“ Rannsókn Ólafs beinist því að öllum þeim þáttum sem áhorfandinn ber með sér, auk þess sem fellur þar á milli; skynjunar- sálfræði, félagsfræði og mannfræði. „Þessar hugmyndir hafa átt upp á pallborðið í kjölfar hugmynda um afbyggingu þar sem reynt er að skoða hlutina utan frá og greina þá í sundur,“ segir hann. „Minn áhugi beinist því að upplausn skilgreininga á borð við „viðfang“ og „hlutur“. Einnig eru hugmyndir er varða uppbyggingu valds, í umheiminum, listheiminum og verkinu sjálfu, orðnar fastur þáttur í minni vinnu. Á undanförnum 50 árum hefur akademísk hefð byggst á neikvæðu viðnámi við ríkjandi gildi. Þegar ég hóf nám, í lok 1989, var Foucault efst á baugi með einskonar uppbrotshugmyndir sem byggðust á því að heimurinn væri að sundr- ast. Módernisminn var liðinn undir lok og póst- módernismi tekinn við. Í kjölfarið fylgdi upp- lausn og hugmyndafræðilegt gjaldþrot. Sjálfur hef ég alltaf verið ótrúlegur bjartsýnismaður og fannst ekkert erfitt að átta mig í þeirri tákn- fræðilegu óreiðu sem ríkti. Mér fannst Mtv frá- bært.“ segir Ólafur hlæjandi. „Ég sá að sjálfsögðu að það byggðist á auglýs- ingaskrumi eins og allt hitt, en hafði samt rosa- lega gaman af því, í það minnsta var það langt frá því að marka heimsendi. Ég vildi vera bjart- sýnismaður og þannig tókst mér að vera óút- reiknanlegur,“ útskýrir hann. „Vegna þess hve gagnrýni er algeng í dag í samfélaginu, er hægt að hafa meiri áhrif með því að vera ekki í and- stöðu við allt. Það er auðvitað langt síðan frum- kvöðlar í viðskiptaheiminum uppgötvuðu þetta, en akademísk þróun er í eðli sínu íhaldsamari. Maður verður að gera sér grein fyrir hve listin er orðin margþætt fyrirbrigði og hversu langt hún er komin í sinni þróun, - það er í raun ekkert eftir nema strúktúrinn sem hún sprettur úr.“ Til þess að átta sig á hvaða hlutverki menn-ingin gegnir í þjóðfélaginu segir Ólafurað maður verði að vita hvaða kraftar eruvirkir innan þess, enda öðlast þátttaka manns þá annað vægi. „Ef maður lítur á þessa virku krafta sem hreyfingu í tíma eða rúmi; sem fólk, bíla og hús, er koma og fara, vörur sem eru keyptar og seldar, o.s.frv. – þá er menningin einn þessara krafta. Væntingar fólks eru líka hreyfiafl eða kraftar, og sömuleiðis minnið. Og þegar ég gerði þessa uppgötvun fékk ég aftur trúna á að það væri þess virði að vera listamað- ur, þar sem listin væri hluti af samfélaginu. Og það á sama tíma og maður trúir því að listaverk- ið sem hlutgerving sé ekki til.“ Hann nefnir til útskýringar á þessum hug- leiðingum sínum að mynd á vegg sé ekki dýna- mísk lengur, „en þegar fólk upplifir listaverk og verkið breytir einhverju eða varpar ljósi á eitt- hvað, þá er það dýnamískt ferli sem hefur þýð- ingu. Myndin sjálf er ekkert nema strigi og málning.“ Hvað íslensku samfélagi viðkemur finnst Ólafi þær hugmyndir sem hann er að reifa tengjast þeim vanda sem við blasir í listum hér. „Íslendingar eru ekki enn farnir að hugsa um menningu sem hluta af veru sinni. Hér er menn- ingunni haldið fyrir utan einstaklinginn, sem áþreifanlegu fyrirbrigði eins og ég útskýrði áð- an. Það er því afar mikilvægt að negla niður hvað menning er, svo fólk sé ekki að misskilja hlutverk hennar. Fyrir mér snýst menning fyrst og fremst um þessa virku krafta sem ég hef ver- ið að tala um, eða hreyfiafl lifandi samfélags eins og það birtist sem kerfi. Hlutverk menningar er að veita þessum kröftum hugmyndafræðilegt viðnám. Vegna smæðar samfélagsins hefur Ísland töluverða sérstöðu. Það er auðvelt að leysa virka krafta úr læðingi á Íslandi þannig að eftir því sé tekið. Það er auðvelt að hafa áhrif á svona lítið land. – Að vísu finnst mér líka að það sé stund- um einum of auðvelt að hafa áhrif á fólk hérna. Ein jólabók eða skandall á Kaffibarnum getur gert mann heimsfrægan á Íslandi, sem er dálítið sérstakt en gæðir samfélagið að sjálfsögðu lífi. En þegar allt kemur til alls er ekki litið á menninguna hér sem virkt afl, heldur fremur sem einhverskonar eftirmynd af okkur sjálfum. Þannig var listin í gamla daga alls staðar í heim- inum. Hún miðaðist þá við að koma auga á til- tekinn vanda og tjá hann t.d. á striga. Þannig var vandinn negldur niður eða öllu heldur festur á strigann, – búið var að skapa ákveðna mynd af honum sem fólkið gat virt fyrir sér. Og um leið var vandinn kominn út fyrir áhorfandann, sem mynd af einhverju sem þó bjó oftast innra með honum. En að mínu mati er myndin ekki til og því getur menningin ekki verið fólgin í henni sem slíkri, né heldur einhverjum öðrum hlut sem þjónar sama hlutverki og mynd. Menningin liggur í huglægu sambandi á milli áhorfandans sem virðir myndina fyrir sér og myndarinnar sjálfrar,“ útskýrir Ólafur, og það er greinilegt að þessi grundvallar viðhorfsbreyting til listar- innar er honum mjög hugleikin. Að sjálfsögðu má ekki gleyma hve hug-takið menning er ennþá nýtt hér álandi og sömuleiðis tilfinningin fyrirþýðingu þess,“ viðurkennir Ólafur. „En það sem er svo sérstakt við nútímalistina er að þar mætum við algjörri blöndu af öllu því sem telst til félagslegra vísinda; svo sem arkitektúr, skipulagsfræðum, náttúrufræðum og heimspeki – auk andstæðnanna sem felast í þessu öllu. All- ir þessir þættir eru til staðar hér á landi og því er mjög mikilvægt að átta sig á mikilvægi þess að geta rannsakað þá á háskólastigi. Ég veit að það er búið að berjast mikið fyrir því að breyta Listaháskólanum hér í þá veru að hann geti staðið undir nafni, en bjóði ekki bara upp á kynningu á flestum sviðum. Hann þarf að verða raunveruleg akademía sem hefur vægi í sam- félaginu, Íslendingar þurfa ekki síður á slíkri stofnun að halda en aðrar þjóðir.“ Ólafur brosir og segir að það megi spyrja sig hvort orðræða af því tagi sem hann er að fjalla um geti átt sér stað í skóla þar sem nemendur fara í fjögurra mánaða sumarfrí. „Það er lýsandi dæmi um hugarfarið sem hér ríkir. Þó alls ekki sé hægt að kenna skólanum um, verður engu að síður að breyta þessu. Annars nota Íslendingar það oft sem afsökun að þeir séu svo lítil þjóð að það taki því ekki að hafa kennslu í þessu eða hinu, en það má ekki hugsa þannig. Við erum fjórða ríkasta þjóð í heimi og hér er mjög hár standard á öllum hlutum. Það mætti alveg eins spyrja af hverju Íslendingar eigi ekki færri tölv- ur fyrst þjóðin er svona lítil. Einmitt vegna þess hve þjóðin er lítil, er svo auðvelt að breyta hlut- unum hratt. Það er miklu minna mál að leysa þau vandamál sem við höfum verið að ræða hjá lítilli þjóð en stórri. Hugsaðu þér hvað það tæki langan tíma í New York. Á tíu til fimmtán árum væri hægt að gera Ísland frægt fyrir að skara fram úr varðandi hugmyndafræði á sviði menn- ingar og tækni. Tæknin virkar ekki ein og sér, menningin verður að fylgja með.“ Þegar vikið er að starfi listasafnanna á Ís- landi segist Ólafur gera sér fulla grein fyrir því hve þau hafi úr litlu fjármagni að spila. „En ég held að söfnin geti glímt við þann vanda með því að skilgreina hlutverk sitt og stöðu í þjóðfélags- kerfinu betur. Þær spurningar sem stjórnendur safna þurfa að spyrja sig, varða þýðingu þess að reka safn í samfélagi. Vill safnið t.d. vera utan við samfélagið og einskonar smækkuð mynd af því, eða vill það vera virkur þáttur í lífi allra í samfélaginu á sama hátt og barnaskóli eða lög- reglustöð. Söfnin geta tekist á við hlutverk sitt, spurt sig af hverju þau eru að sýna það sem þau sýna, og endurnýjað stefnu sína í samræmi við það sem þau komast að með slíkri naflaskoðun. Þjóðfélagið staðnar ekki, það er stöðugum breytingum háð og listumhverfið ásamt menntastofnunum verður að bregðast við þeirri þróun. Það sama á við um alþjóðlegt umhverfilistanna. Stofnanir á borð við British Council og DCA [Stofnun danskra sam-tímalista] í Danmörku, styðja innlenda listamenn sína á erlendum vettvangi vegna þess að þær líta á þá sem fulltrúa sína í alþjóðlegri orðræðu, þar sem þeim finnst nauðsynlegt að láta að sér kveða. Þær líta ekki á listina út frá sjónarmiðum þjóðernis og sætta sig ekki við að nota hana sem staðnaða táknmynd landsins. Ef við notum DCA sem dæmi, þá senda þeir ekki listsköpun til útlanda til þess eins að auglýsa Danmörku, heldur til þess að vera þátttakendur í stærri umræðu en á sér stað heima fyrir. Það er því mjög mikilvægt að vera ekki of þjóðern- issinnuð í þessum efnum og þá ekki síður að átta sig á því að það sem þátttakendur bera með sér til baka, skilar sér sem margfaldur ávinningur inn í listheim viðkomandi lands. Sá ávinningur hefur síðan bein áhrif á samfélagið sem heild. Listheimurinn er áhugaverðastur þegar hann snýst um grundvallarspurningar tengdar þroska, hæfileika og frelsi einstaklingsins til að skilgreina sig, en ekki frelsis í þjóðernislegum skilningi. Í því samhengi verður hann heillandi og virkur kraftur í þjóðfélaginu – kraftur sem togar og ýtir,“ segir Ólafur Elíasson. Ice Pavillion/Ísskáli, 1998. Stál, vatn, úðari, ø 3m, hæð 2,5m. Fivefold-eye/Fimmfalt auga, 2000. Stál, spegill. Þvermál 150x75 cm. 360 degree expectation/360 gráðu von, 2001. Halógen ljós, vitalinsa. fbi@mbl.is

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.