Lesbók Morgunblaðsins - 03.05.2003, Side 9

Lesbók Morgunblaðsins - 03.05.2003, Side 9
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 3. MAÍ 2003 9 samstæður úr galvaniseruðum járnteinum sem standa opnar, eins og refabú þar sem dýrunum hefur verið sleppt. Sjálf lýsir listakonan þeim sem tæmdum hænsnabúum eða tilraunastöð. Milli samstæðnanna skín sterkt ljós og varpar skuggunum af víravirkinu upp um alla veggi og loft salarins. Talíuvél lækkar ljósið þar til það nemur við gólf. Þá dregst það lárétt áður en það togast upp á við með nokkrum sveiflugangi svo flökt kemur á drungalegar skuggamyndanir grindanna á veggjum og lofti salarins. Það er ekki auðvelt í skæru ljósinu og öllu skugga- spilinu að bægja frá sér þeirri hugsun að járn- vírasamstæðurnar séu staðgenglar mannabú- staða, staðlaðra, flóðlýstra fanga- eða flóttamannabúða, og þar með táknmyndir ástandsins fyrir botni Miðjarðarhafs, enda er haft eftir listakonunni að hana hafi langað að skapa óbærilegt öryggisleysi. Undirritaður man vel hve erfitt var að standa í flenniljósinu og henda reiður á grindaskápunum með skært ljósið skínandi beint framan í sig. Sömuleiðis má heimfæra undarlegt og áleitið kaldaljósið upp á bælingu vonarinnar með því að það byrg- ir þeim sýn sem reyna að eygja eitthvað fram- undan, eða handan blindandi bjarmans. Þegar Monu Hatoum var boðið að sýna „Light Sentence“ í New York, árið 1996, bjó hún til nýtt tilbrigði af hugmyndinni sem hún nefndi „Current Disturbance“, eða Truflun eins og stendur. Eins má líta á heitið sem orða- leik og túlka það þá sem Rafmagnstruflun, eða Truflun á straumi. Í staðinn fyrir járngrind- arverkið, sem þegar hafði verið sýnt í Nútíma- listasafninu í New York, komu nú þéttar raðir af viðarbúrum með vírneti, sem mynduðu risa- stóran tening, sem nánast fyllti út í salinn. Búr- in voru lýst upp af draugalegum tírum svo þessi risakubbur virtist loga í rökkrinu. Ekki varð hjá því komist að sjá skyldleika þessarar sér- kennilegu grindabyggingar við húsagerð New York-borgar. Var listakonan ef til vill að ýja að því að þar byggi fólk eins og dýr í búrum? Fullkomin andstæða „Light Sentence“ leit dagsins ljós fáeinum mánuðum síðar, þegar Hatoum lauk við verk sitt „Socle du monde“, eða Sökkull heimsins, 1992–93. Um var að ræða ferhyrning, 1,64 metra háan og tveggja metra breiðan, úr tré, lagðan málmplötum, segulstáli og járnþjölum. Utan frá séð virðist þessi þétti svartleiti ferhyrningur vera torkennilegrar náttúru líkt og væri hann fallinn til jarðar af fjarlægri plánetu eða jafnvel geimskipi. Yfir- borðið er ullarkennt, en minnir jafnframt á heilabörkinn með öllum sínum skorum og hnyklum svo að það gæti hvarflað að áhorfand- anum að þessi dularfulli strangflatarstrending- ur byggi yfir innri vitsmunum. Margt býr í ferningi Á það hefur margoft verið bent að heitið á verkinu fái Hatoum beint frá samnefndu tíma- mótaverki ítalska listamannsins Piero Manzoni (1933–63), sem stendur í höggmyndagarði Listasafnsins í Herning á Jótlandi. Ferhyrn- ingur Manzoni frá árinu 1961, úr Corten-stáli, er áritaður á haus með frönsku heiti sínu, því þar með er hægt að skoða hann sem sökkulinn undir hnettinum okkar, sjálfri jörðinni. Fer- hyrningur Manzoni er helmingi minni en verk Hatoum, þótt hlutföllin séu nákvæmlega hin sömu, eða 0,82 x 1 x 1 metri. Tilvísun sem þessi í verk þekkts listamanns sem hefur haft áhrif á hana sýnir að Mona Hatoum gerir sér fulla grein fyrir mikilvægi fyrirrennara sinna og þess sem á undan er gengið. Þannig kannast hún mætavel við stöðu sína í miðri framvindu listasögunnar. En tilvísunin í verk Manzoni er ekki sú eina sem finna má í verki Hatoum, þótt eflaust megi segja að hún sé augljósust. Það má ekki gleyma því að ferningur er táknmynd jarðar í Ismael Samani-grafhýsinu í Bukhara í Úsbekistan, meðan hvelfingin yfir ferningnum táknar him- ininn. Enn þekktara dæmi um ferning í ísl- ömskum sið er vitanlega kubburinn stóri, tákn- gervingur Kaaba, sem umlykur svarta steininn í sjálfri Mekka og milljónir pílagríma ganga kringum á hverju ári. Þá hefur Hatoum sjálf bent á það að jörðin með pólum sínum, fyrir sunnan og norðan, er risastór segull. Reyndar telur hún að segulaflið sé undirstaða heimsins og fer það álit hennar ekki alls kostar í bága við framsækin vísindaleg viðhorf. Þótt verk henn- ar séu stundum með eindæmum einföld að gerð og efniviði eru þau hlaðin táknrænni merkingu. Það greinir þau meðal annars frá minimalískri list sjöunda og áttunda áratugarins, en sú teg- und listar hafði sagt skilið við alla táknræna merkingu. Það er því beinlínis varasamt að skoða list Monu Hatoum sem einfalda fram- lengingu á naumhugulli vestrænni list, því formgerð hennar, efniviður, áferð og útfærsla tekur ekki síður mið af þeirri miklu og æva- fornu hefð sem ríkt hefur órofa í Mið-Austur- löndum og byggist á einföldu útliti en marg- flókinni túlkun. Hafi Mona Hatoum ætlast til að áhorfendur fyndu til ónotakenndar frammi fyrir járngrind- arbúrunum í „Light Sentence“, hvað má þá segja um „Corps étranger“ frá 1994? Enn not- ar hún frönsku til titilgerðar og aftur er á ferð- inni orðaleikur, því bæði má þýða heitið sem „Framandi líffæri“, „Meinvarp“, „Aðskota- hlut“, „Ókunnan líkama“ eða „torkennilegt lík“, svo aðeins nokkuð sé nefnt af ómældum túlk- unarmöguleikum. Um er að ræða sívalan, hvítan turn sem hægt er að ganga inn um á tvo vegu. Þegar inn er komið birtist hringlaga myndband í gólfinu af undarlega nöktu auga sem gúlpast til og frá og virðist með því taka á sig þrívíða mynd sem bólgnar upp og þenur sig sem slímug blaðra. Svo andstyggilegt er þetta auga að undirritaður hefur séð sýningargesti hrópa upp yfir sig og taka dauðskelkaða til fót- anna þegar glyrnan skáskýtur sjáaldrinu fram og aftur um gólfið. Heima og heiman Varla verður hjá því komist að setja þetta áleitna verk í samband við skrif franska rithöf- undarins og súrrealistans Georges Bataille (1897–1962), einkum hina umdeildu frásögn hans „Sögu augans“, sem út kom í íslenskri þýðingu Björns Þorsteinssonar fyrir tveimur árum. Líkt og höfundarverk Bataille vekur verk Monu Hatoum blendnar tilfinningar svo vægt sé til orða tekið. En með óvenjulegri efn- ismeðferð sinni, útsjónarsemi, formrænum skilningi og fáguðum, einföldum frágangi bregst henni ekki bogalistin. Því sterkari sem tilfinningarnar eru að baki verkunum, þeim mun nákvæmar brýnir hún hárbeitta egg fram- setningarinnar. Af ofangreindu mætti ætla að verk Monu Hatoum væru öll einn langur og strangur harmur, en öðru nær. Mörg af veigaminni verk- um hennar búa yfir fínlegri gamansemi og glettni. Hún tekur gjarnan hversdagslegustu hluti, svo sem eldhúsáhöld og húsbúnað, og færir í nýtt og óvænt samhengi. Hún á það einnig til að taka slíka nytjahluti og stækka upp í risastærðir, svo sem „La grande broyeuse (Mouli-Julienne x 21)“ – Risakvörn (Mouli-Juli- enne, stækkaða 21 sinni) – en flestir þekkja þetta þrífætta rasptæki. Þá vitnar hringlaga, vélknúinn skjöldur á gólfi, „Continental Drift“, eða Flekarek, frá 2000, um gagnstætt áhuga- svið listakonunnar, nefnilega umheiminn og fallvaltleik plánetunnar okkar. Flekarek Hat- oum er á stöðugri hreyfingu, rétt eins og meg- inlönd jarðar og skorpan undir þeim. Um leið má skynja í verkinu ákveðna vísun til pólitísks óstöðugleika í heimi þar sem jafnvægi hefur aldrei komist á vegna yfirgangs og forréttinda ákveðinna afla andspænis kúgun og réttinda- leysi annarra. Óbeina útlegðardóma mætti kalla mestu ör- lagavaldana í lífi Monu Hatoum, sem hefði ef til vill farið aðra leið ef hún hefði ekki orðið strandaglópur í Lundúnum hið örlagaríka ár 1975. „Homebound“, frá 2000, byggist enn og aftur á orðaleik, því heitið getur bæði merkt „Heimakær“, „Heimabundin(n)“ og „Varðandi heimilið“. Í þessu samsafni af eldhúsgögnum, fuglabúrum og rúmstæðum er eins og listakon- an viði að sér í einu verki fjölmörgu af því sem áður hafði birst sem einstök atriði í list hennar. Lýsing með ljósaperum er um allt verkið en flöktir vegna spennufalls hér og þar í samsafn- inu. Gestum er takmarkaður aðgangur með voldugum rafvírum sem strengdir eru framan við húsgögnin. Rafhljóðið er magnað upp til fælingar hverjum þeim sem vogar sér að ganga of nærri skipaninni. Þetta magnaða verk stafar kaldri og ógnandi fegurð sem um leið dregur að áhorfendur sem segull. Þegar verkið var sýnt á Documenta 11, í Kassel, síðasta sumar, stóðu gestir frammi fyrir því sem bergnumdir. Það er erfitt að geta sér til hvað það er í einstökum at- riðum sem veldur þessum töfrum. Eitt er þó víst að reynsla Monu Hatoum sem palestínsks flóttamanns, sem sviptur hefur verið æsku- stöðvunum, bráðabirgðaheimilinu í Beirút, og beinum tengslum við fjölskyldu sína, á drjúgan þátt í þeirri undirliggjandi ólgu og tilfinninga- þrungnu áru sem umlykur list hennar. EIMAN Í TVÖFALDRI ÚTLEGÐ „Socle du monde“ – Sökkull heimsins – frá 1992–93, er persónuleg útfærsla Monu Hatoum á frægu verki Piero heitins Manzoni. Breidd verksins er tveir metrar. „Homebound“, frá 2000, lýsir því hve erfitt er að komast heim, eða að heiman. Rafmagnsvírar varna sýningargestum aðgengi að hlutunum. Í „Under Siege“ – Umsátri – frá 1982, spólaði Mona Hatoum nakin í volgum leir. Höfundur er lektor við Listaháskóla Íslands.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.