Morgunblaðið - 06.10.2004, Blaðsíða 10

Morgunblaðið - 06.10.2004, Blaðsíða 10
10 MIÐVIKUDAGUR 6. OKTÓBER 2004 MORGUNBLAÐIÐ FRÉTTIR GEIR H. Haarde fjármálaráðherra mælti fyrir fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2005 á Alþingi í gærmorgun. Að því búnu fóru fram umræður um fjárlagafrumvarpið. Stóðu umræðurnar yfir í allan gærdag. Ráðherra gerði þar m.a. grein fyrir áformum ríkisstjórnarinnar í skattamál- um, m.a. lækkun tekjuskatts. Sagði hann skyn- samlegt að ráðast í þær skattalækkanir nú „og láta heimilin njóta þess þegar mikill afgangur er á ríkissjóði“, sagði hann. Stjórnarandstæðingar gagnrýndu á hinn bóg- inn skattastefnu ríkisstjórnarinnar. Sögðu þeir m.a. að fyrirliggjandi tillögur um skattalækk- anir fælu í sér misskiptingu. „Þannig eiga þeir að fá mest sem hafa mest og þeir að fá minnst sem hafa minnst,“ sagði Jón Bjarnason, þing- maður Vinstri grænna. Fjármálaráðhera sagði m.a. í upphafi máls síns að mikill uppgangur væri nú á flestum svið- um þjóðarbúskaparins og fátt sem benti til ann- ars en að framhald yrði á þeirri þróun næstu ár- in. „Þannig eru horfur á að landsframleiðsla aukist um nær fjórðung á árunum 2003 til 2007 og kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna aukist um 15%. Verðbólga mun verða vel innan marka verðbólgumarkmiðs Seðlabankans og störfum fjölga umtalsvert. Framkvæmdir við uppbyggingu stóriðju ráða miklu um hagvöxt- inn en einnig aukin einkaneysla og íbúðafjár- festing. Við þessar aðstæður er mikilvægt að beita ríkisfjármálunum til að hamla gegn inn- lendri eftirspurn á næstu tveimur árum þegar framkvæmdirnar eru sem mestar.“ Ráðherra sagði að fjármálafrumvarpið end- urspeglaði þessar áherslur. „Þar er gert ráð fyr- ir rúmlega 11 milljarða króna tekjuafgangi eða sem nemur 1¼% af landsframleiðslu. Þetta er 3½ milljarði króna meira en síðustu áætlanir fyrir árið 2004 benda til og 17½ milljarðs króna viðsnúningur frá árinu 2003. Breytingin er enn meiri þegar leiðrétt hefur verið fyrir ýmsum óreglulegum gjalda- og tekjuliðum sem hafa ekki áhrif á rekstur ríkissjóðs, eða sem nemur 21 milljarði milli 2003 og 2005. Betri afkoma rík- issjóðs stafar annars vegar af auknum umsvif- um í efnahagslífinu sem skilar meiri tekjum og hins vegar af auknu útgjaldaaðhaldi. Ég vek at- hygli á því að í frumvarpinu er ekki að svo stöddu gert ráð fyrir sérstökum tekjum af sölu eigna umfram það sem hefðbundið er að áætla af sölu fasteigna og jarða. Hins vegar er í frum- varpinu gert ráð fyrir fyrsta skrefi í lækkun tekjuskatts einstaklinga.“ Skattalækkanir lögfestar á haustþingi Sagði ráðherra að gert væri ráð fyrir að fyrsti áfangi lækkunar tekjuskatts einstaklinga kæmi til framkvæmda á næsta ári, þ.e. skatthlutfallið myndi þá lækka úr 25,75% í 24,75%. „Ennfrem- ur er gert ráð fyrir að eignarskattur einstak- linga og lögaðila verði felldur niður á kjörtímabilinu. Annar áfangi tekju- skattslækkunar tekur gildi árið 2006 og lokaáfanginn kemur til fram- kvæmda árið 2007.“ Sagði hann stefnt að því að lögfesta allar þessar breytingar á þessu haustþingi. „Auk þess verð- ur unnið að endurskoðun virðisaukaskatts í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinn- ar,“ bætti hann við. Ráðherra gerði fyrirhugaðar skattalækkanir áfram að umtalsefni. „Sumir hafa gagnrýnt þessi áform,“ sagði hann, „og sagt þau ótímabær og að skattalækkanir geti orðið til að kynda óeðlilega mikið undir innlendri eftirspurn á næstu árum. Ég er ósammála þessu og tel þvert á móti að það sé skynsamlegast að ráðast í skattalækkanir og láta heimilin njóta þess þegar mikill afgangur er á ríkissjóði enda eru þær tímasettar með tilliti til efnahagsaðstæðna.“ Ráðherra sagði að í þessu máli, eins og svo mörgum öðrum, væri mikilvægt að menn horfðu á heildarmyndina og skoðuðu þróun ríkisfjár- málanna í heild á næstu árum. „Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að verja umtalsverðum fjárhæðum til að lækka skatta er tekin að vel athuguðu máli eftir að hafa skoðað alla þætti efnahagsmála vandlega, ekki síst hvernig megi auka aðhald í útgjöldum ríkis- sjóðs. Farið hefur verið vandlega í saumana á fjölmörgum þáttum útgjalda með það fyrir augum að hag- ræða og spara og verður hert á þeim áformum á næstu misserum. Þessi við- leitni endurspeglast glöggt í niðurstöðutölum fjárlaga- frumvarpsins sem sýna að útgjöldin muni standa í stað að raungildi milli áranna 2004 og 2005 og lækka í hlut- falli við landsframleiðslu úr 32,2%, í 30,8%. Þessi þróun heldur áfram á árinu 2006 en þá er gert ráð fyrir að hlutfall útgjalda lækki enn frekar eða í 29,8% af landsframleiðslu. Niðurstaðan af þessu er sú að skattalækkanir munu ekki hleypa öllu í bál og brand eins og sumir hafa verið að spá. Þvert á móti er niðurstaðan sú að skattalækkunar- áformin muni falla vel að áframhaldandi stöð- ugleika í efnahagsmálum. Ég tel því fyllilega tímabært að halda áfram á þeirri braut sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa markað á undanförnum árum bæði á þessu kjör- tímabili og hinu næsta á undan þegar markvisst hefur verið gripið til skattalækkana, bæði hjá einstaklingum og fyrirtækjum.“ Ráðherra hélt áfram og rifjaði upp að tekju- skattur einstaklinga hefði lækkað um 4% 1997 til 1999. Því næst hefði tekjuskattur fyrirtækja lækkað úr 30% í 18% á árinu 2002. „Afleiðing þess var sú að tekjur ríkissjóðs af þeim skatti jukust en minnkuðu ekki eins og ýmsir spáðu. Á sama tíma voru eignaskattar ein- staklinga og fyrirtækja lækkaðir um helming. Erfðafjárskattur var lækkaður um helming á þessu ári og einnig var nýtt skref stigið í átt til niðurfellingar hátekjuskattsins svo- nefnda og mun hann endanlega falla niður í lok næsta árs. Nú er röðin komin að því að stíga næstu skref í lækkun tekjuskatts einstaklinga og afnema eignarskattana.“ Kaupmáttur aukist Ráðherra fjallaði ennfremur um langtíma- áætlun í ríkisfjármálum og sagði að meginnið- urstaða hennar væri sú að áfram myndi ríkja stöðugleiki í efnahagslífinu. „Gert er ráð fyrir umtalsverðum hagvexti 2005 og 2006 en hægari vexti árin 2007 og 2008. Mikill innflutningur vegna (stóriðju)framkvæmdanna leiðir óhjá- kvæmilega til umtalsverðs halla á viðskiptum við útlönd en talið er að rekja megi meira en helming hallans til þeirra. Það dregur því veru- lega úr viðskiptahalla á nýjan leik þegar fram- kvæmdum lýkur og álútflutningur nýrrar verk- smiðju segir til sín. Búast má við að verðbólga aukist lítillega þegar framkvæmdirnar eru í há- marki en lækki aftur þegar þeim er lokið. Kaup- máttur mun aukast verulega og atvinnuleysi minnka fyrri hluta tímabilsins. Á síðari hlutan- um hægir á kaupmáttaraukningunni og atvinnu- leysi eykst lítillega. Einnig verður umtalsverður af- gangur á ríkissjóði þegar framkvæmdirnar eru í há- marki á árunum 2005 til 2006 eða sem nemur um 1¼% af landsframleiðslu. Jafnframt lækka skuldir rík- issjóðs á sama mælikvarða. Samkvæmt framreikning- unum er hins vegar gert ráð fyrir nokkrum halla árin 2007 og 2008 enda dragast þjóðarútgjöld þá beinlínis saman og verulega hægir á hagvexti.“ Ráðherra sagði þó rétt að hafa fyrirvara á framreikningum af þessu tagi, sem næðu yfir langt tímabil. „Eins er mikilvægt að hafa í huga að í for- sendum langtímaáætlunar er ekki gert ráð fyrir tekjum af sölu Landssímans. Hér ráða varfærn- issjónarmið ferðinni eins og eðlilegt er í slíkri áætlanagerð. Það verður hins vegar að teljast afar líklegt að Landssíminn verði seldur á kjör- tímabilinu, vonandi á næstu misserum. Það mun skila umtalsverðum sölutekjum í ríkissjóð og gefa færi á lækkun skulda umfram það sem hér er gert ráð fyrir. Árlegur vaxtakostnaður rík- isins mun því geta lækkað umtalsvert sem aftur bætir afkomu ríkissjóðs. Að öllu samanlögðu má því ætla að afkoma ríkissjóðs verði að jafnaði þó nokkru betri á framreikningstímabilinu en hér er sýnt, ekki síst ef ráðist verður í enn frekari stóriðjuframkvæmdir eins og ýmis- legt bendir til að geti orðið.“ Einar Már Sigurðarson, þing- maður Samfylkingarinnar, sagði í upphafi sinnar framsögu að reynsl- an sýndi að lítið mark væri takandi á fjárlagafrumvörpum ríkisstjórnar Framsóknar- flokks og Sjálfstæðisflokksins, hvort sem litið væri til ríkisútgjalda eða þess afgangs sem áætl- aður væri. „Það virðist því miður vera þannig að það sé afskaplega lítil stjórn á útgjaldaaukningu ríkisins. Það sem hefur hins vegar bjargað því sem bjargað verður er það að hagvöxturinn hef- ur verið það mikill að hann hefur skilað rík- issjóði stórauknum tekjum. Þannig hefur verið hægt að ná endum saman,“ sagði hann meðal annars. Einar Már fjallaði einnig um áform ríkis- stjórnarinnar um skattalækkanir. Hann sagði ríkisstjórnina fara í manngreinarálit í þeim efn- um. Samkvæmt tillögum hennar myndu ekki öll heimili njóta þeirra. Samfylkingin vildi fara aðr- ar leiðir. Til að mynda vildi hún lækka matar- skattinn úr 14% í 7% og þar með matarreikning íslenskra heimila um fimm milljarða króna. Slík skattalækkun kæmi öllum vel og styrkti kaup- mátt almennings án þess að ýta undir ofþenslu. Jón Bjarnason, þingmaður Vinstri hreyfing- arinnar – græns framboðs, gerði skattastefnu ríkisstjórnarinnar einnig að umtalsefni. „Skattastefna þessarar ríkisstjórnar er skýr,“ sagði hann. „Þeir sem hafa mest fá mest. Þannig er gert ráð fyrir að tekjuskattur einstaklinga lækki um eitt prósentustig á næsta ári. Ef dæmi er tekið af einstaklingi með tvær milljónir í árs- tekjur mun skattalækkun gefa þeim einstaklingi 20 þúsund krónur á ársgrundvelli. Skattalækk- unin mun hins vegar gefa einstaklingi með 6 milljónir í árstekjur sextíu þúsund krónur. Sá sem hefur sex milljónir í árstekjur mun því fá 300% meira heldur en einstaklingur með 2 millj- ónir í árstekjur.“ Spurði hann því næst hvort ekki væri sanngjarnara að allir þjóðfélagsþegn- ar fengju jafnstóra sneið af skattalækkunar- köku ríkisstjórnarinnar. Jón fjallaði einnig um skólagjöld og komu- gjöld á heilsugæslustöðvar. „Það á að leggja skólagjöld á í ríkisháskólum,“ sagði hann. „Hækkun innritunargjalda er ekkert annað en leið stjórnarflokkanna að fara bakdyramegin til að leggja á skólagjöld. Vinstri hreyfingin – grænt framboð mótmælir skólagjöldum í rík- isháskólum. Þá má nefna að gert er ráð fyrri að komugjöld á heilsugæslustöðvar hækki á næsta ári og er ráðgert að hækkunin skili tæpum 30 milljónum. Þessi hækkun þarf nú ekki að koma á óvart heldur er hún í samræmi við hækkanir á komugjöldum til sérfræðinga í fyrra og minni þátttöku ríkissjóðs í lyfjakostnaði og hjálpar- tækja.“ Magnús Stefánsson, þingmaður Framsóknar- flokksins og formaður fjárlaganefndar Alþingis, sagði m.a. í upphafi máls síns að fjárlagafrum- varpið fyrir árið 2005 bæri með sér að ríkissjóð- ur stæði vel. Sagði hann ljóst að í megindráttum hefði tekist að halda hér uppi efnahagslegum stöðugleika á undanförnum árum. Allt útlit væri fyrir að svo yrði á næstu árum. „Hagvöxtur hefur verið nánast viðvarandi, kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur aukist mik- ið og allt útlit er fyrir að þessi þróun haldi áfram,“ sagði hann. Þá sagði hann að Íslend- ingum hefði tekist að halda uppi einhverri bestu heilbrigðisþjónustu sem þekktist. Sama mætti segja um velferðarmálin almennt. Vill aðrar áherslur Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjáls- lynda flokksins, fjallaði eins og margir stjórn- arandstæðingar um áform ríkisstjórnarinnar um skattalækkanir. „Við í okkar flokki Frjáls- lynda flokknum höfum, eins og menn kannski vita og muna, lagt upp aðrar áherslur í skattamálum. Við bentum á það í kosningabaráttunni að það þyrfti að taka á persónuaf- slættinum og hækka hann, þannig að þær skattabreytingar, sem menn treystu sér til að gera, nýttust þá betur þeim sem lægri hafa launin,“ sagði hann. „Við erum algjörlega andvíg því að það sé ver- ið að fella niður hátekjuskattinn á meðan þeir sem lægstu launin hafa sitja eftir,“ bætti hann við. Guðjón gerði kjör ellilífeyrisþega einnig að umtalsefni. Sagði hann í því sambandi að ellilíf- eyrisþegar greiddu hærri skatta um þessar mundir en áður. „Þar til viðbótar er svo inni í skattkerfinu og bótakerfinu ákvæði um það að ef þetta fólk hefur tekjur úr lífeyrissjóði þá skuli skerða bætur þess. Um þetta höfum við í Frjáls- lynda flokknum flutt ákveðin mál,“ sagði Guð- jón. Geir H. Haarde fjármálaráðherra í fyrstu umræðu um fjárlagafrumvarpið „Skattalækkanir munu ekki hleypa öllu í bál og brand“ Stjórnarandstæðingar segja skattastefnu ríkisstjórnarinnar fela í sér misskiptingu Stjórnarandstaðan gagnrýndi meðal annars skattastefnu ríkisstjórnarinnar í fjárlagaumræð- unni á Alþingi í gær. Hér sjást þingmenn hlýða á umræðurnar og glugga í skjöl. Morgunblaðið/Sverrir Geir H. Haarde fjármálaráðherra mælti fyrir frumvarpi til fjárlaga á Alþingi í gær. Lítil stjórn á út- galdaaukningu ríkissjóðs Heimilin njóti afgangs hjá ríkissjóði

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.