Morgunblaðið - 20.12.2004, Qupperneq 4
4 MÁNUDAGUR 20. DESEMBER 2004 MORGUNBLAÐIÐ
FRÉTTIR
Skógarhlíð 18, sími 595 1000
www.heimsferdir.is
Þökkum ótrúlegar viðtökur. Nú bjóðum við síðustu sætin í sólina til Kanarí-
eyja í 2 vikur á hreint ótrúlegu verði. Beint flug til Kanarí. Þú bókar ferðina
og tryggir þér síðustu sætin og 4 dögum fyrir brottför færðu að vita hvar
þú gistir. Á Kanarí nýtur þú þjónustu reyndra fararstjóra okkar allan tímann.
Bókaðu strax á www.heimsferdir.is
Munið Mastercard
ferðaávísunina
Stökktu til
Kanarí
11. janúar
aðeins kr. 49.990
Verð kr. 49.990
Verð á mann, m.v. 2 í íbúð/stúdíó.
Innifalið flug, gisting í 14 nætur
og skattar. Netverð. Ferðir til
og frá flugvelli kr. 1.800
Tryggðu þér ferð til Kanarí á lægsta verðinu
11. janúar - 2 vikur
SKIPT verður um brú, ýmis tæki og búnað í varðskipinu
Ægi á næsta ári auk þess sem vistarverur áhafnar verða
endurnýjaðar. Þá verður dráttarvinda endurnýjuð og vél-
arrúm gert mannlaust. Ári síðar verða síðan gerðar sams
konar breytingar á varðskipinu Tý.
Í útboði sem Landhelgisgæslan hefur auglýst kemur
fram að samningstími vegna breytinga á Ægi sé frá
miðjum apríl og fram til miðs ágústs 2005 og sama tímabil
vegna breytinga á Tý árið 2006. Verður varðskipið Óðinn
notað á meðan hin varðskipin eru í slipp.
Ægir kominn vel á fertugsaldurinn
Hafsteinn Hafsteinsson, forstjóri Landhelgisgæslu Ís-
lands, segir þetta vera miklar breytingar sem gerðar verði
á varðskipunum. Hann segir vistarverur skipverja hafa
verið farnar að gefa sig eftir langa notkun, Ægir sé orðinn
36 ára gamall og Týr verði 30 ára á næsta ári og ljóst hafi
verið að gera þurfti við þær.
„Þetta er úr sér gengið og á þeim tíma sem þetta var
gert voru auðvitað aðrar kröfur gerðar til vistarvera um
borð í skipum. Við erum að færa þetta í þann búning sem
gerðar eru kröfur um í dag.“
Spurður um brúna í Ægi segir Hafsteinn að komið hafi í
ljós tæring í henni og niðurstaðan hafi síðan verið sú að
það myndi frekar borga sig að skipta um brúna í heilu lagi
og nota þá tækifærið og stækka hana dálítið í leiðinni. Þá
verði rýmra um tól og tæki og mannskapinn líka.
Hafsteinn segir að með því að bjóða út breytingarnar í
bæði varðskipin í einu eigi menn að fá miklu betra verð en
ella; varðskipin séu systurskip og afskaplega lítið sem
skilji þau að og það sé því mikið hagræði fyrir alla aðila.
Hafsteinn segir kostnaðaráætlun vitaskuld vera trúnaðar-
mál, breytingarnar séu kostnaðarsamar en þó ekki eins og
halda mætti enda hagræði að því að vera með tvö eins skip.
Skipt um brú í varð-
skipunum Ægi og Tý
Morgunblaðið/Golli
Hafsteinn Hafsteinsson, forstjóri Gæslunnar.
HJÁ stóru leikhúsunum tveimur í borginni er svo sann-
arlega allt á fullu við undirbúning og æfingar á einhverjum
viðamestu sýningum vetrarins sem frumsýndar verða nú
um jólin og í byrjun næsta árs.
Í Þjóðleikhúsinu er verið að leggja lokahönd á jóla-
frumsýninguna sem er leikgerð Hilmars Jónssonar á skáld-
sögu Ólafs Gunnarssonar Öxinni og jörðinni í leikstjórn
Hilmars.
Í verkinu er eitt mesta átakatímabil Íslandssögunnar til
skoðunar, þ.e. siðaskiptin. Það er Arnar Jónsson sem fer
með hlutverk Jóns Arasonar Hólabiskups.
„Við erum í stríðinu miðju og erum vonandi að fara að
vinna þessa orrustu,“ segir Arnar aðspurður hvernig æfing-
ar gangi. „Á þessum síðustu dögum fyrir frumsýningu er
allt undir og fyrstu rennslin eru að bresta á. Þegar verið er
að setja svona stóra og flókna sýningu saman er auðvitað
að mörgu að huga og það eru allir á tánum. Menn bara
gera sitt besta.“
Aðspurður jánkar Arnar því að lítið fari fyrir jólaund-
irbúningi þegar hugurinn er bundinn við leikhúsið. „Við
hjónin erum náttúrlega bæði á kafi við að undirbúa upp-
setningar, ég hér í Þjóðleikhúsinu og Þórhildur í Borgar-
leikhúsinu. Ætli það verði ekki bara litlu jólin hjá okkur
þetta árið,“ segir Arnar kíminn og bætir við að leiklistin sé
ekki alltaf mjög fjölskylduvæn atvinnugrein.
Ferðalag í eiginlegri og óeiginlegri merkingu
Í Borgarleikhúsinu leikstýrir Þórhildur Þorleifsdóttir Hí-
býlum vindanna, leikgerð Bjarna Jónssonar eftir vestur-
farasögum Böðvars Guðmundssonar. Spurð hvernig gangi
og hvernig stemningin sé segist Þórhildur ekki kvarta.
„Ég held að ég geti sagt með sanni að ég hafi aldrei
fundið annan eins stuðning hjá leikhópi við verkefni og þá
er þeirra innlegg auðvitað þeim mun meira. En þetta er
langt ferðalag, það eru mörg þúsund mílur í áfangastað og
það er líka mörg þúsund mílur eitt æfingaferli þar sem
reynt er að ná áfangastað. Þannig að við erum í miklu
ferðalagi í óeiginlegri og eiginlegri merkingu,“ segir Þór-
hildur.
Nokkur hópur ungra krakka tekur þátt í sýningunni,
þeirra á meðal er Gylfi Þorsteinn Gunnlaugsson sem er sjö
ára. Hann er að taka þátt í sinni fyrstu uppfærslu og segir
það afar skemmtilega reynslu. Aðspurður segist hann lítið
stress finna þegar hann stígur á leiksviðið, en segist þess
fullviss að hann muni finna fyrir smáfiðrildum í maganum
þegar kemur að sjálfri frumsýningunni.
Frumsýningar undirbúnar
Morgunblaðið/RAX
Arnar Jónsson verður í hlutverki Jóns Arasonar Hólabiskups í Þjóðleikhúsinu um jólin.
Saumakonurnar á saumastofu Þjóðleikhússins leggja nótt við dag til þess
að klára búningana í tæka tíð fyrir frumsýningu.
Gylfi Þorsteinn Gunnlaugsson ásamt Mána Magnúsarsyni, Helenu Kjartansdóttur, Þorbjörgu Ernu Mímisdóttur,
Árna Beinteini Árnasyni og Ívari Elís Schweitz Jakobssyni er öll leika í Híbýlum vindanna.