Lesbók Morgunblaðsins - 05.11.2005, Síða 3
Séra Birgir Snæbjörnsson
fer á kostum og sér
tíðum hinar spaugilegri
hliðar tilverunnar.
Bóndinn og presturinn,
söngmaðurinn og
veiðimaðurinn.
Lífsstefin eru mörg.
Bók sem yljar og lýsir
upp í skammdegis-
myrkrinu.
Stórkostleg skemmtun.
Hann var goðsögn í lifanda
lífi. Einstæð saga manns
sem þoldi ekki lygina.
Kristján Hreinsson segir
sögu Péturs af hreinni
snilld og er trúr minningu
popparans, ekkert er
dregið undan, engar
málamiðlanir gerðar.
Saga Péturs Kristjáns-
sonar lætur engan
ósnortinn.
Jón úr Vör fluttist úr litla
þorpinu fyrir vestan og
gerðist brautryðjandi.
Hann var atómskáld og
öreigaskáld, hæddur og
útskúfaður fyrir vikið, og
kallaður kommúnisti.
Þorpsskáldið, einstök
viðtalsbók sem
Magnús Bjarnfreðsson
hefur fært í letur.
GÓÐA SKEMMTUN!
BÓKAÚTGÁFAN HÓLAR
XI
Þar sem hann aftur sama sundið þræðir
á svelli hljóður, Mussju í hug sér veltir
því velgjukennda volæði sem glæðir
ei veröldina neinu. Dante eltir
hann þögull, lætur kvöldsins kulda einan
um kveðskapinn á milli þeirra. Sveltir
af spakri fæðu flykkjast þeir með hreinan
fimbulkuldann í andlit sér og dvelja
þar lengi þöglir. Því er ei um seinan
að þylja upp hugarangur Mussju og telja
hans raunir enn: „Til hvers að lifa í landi
sem liggur í hýði, frosið í gadd, og velja
sér næturstað í næðingi og hlandi
sem niður rann úr manni í þessu sundi?
Til hvers að lifa í landi þar sem vandi
það litinn er að útlendingar stundi
þar aðra vinnu en úrbeiningu á fiski
og allsberingar á súlum? Væri hundi
ei betri skiptum deilt? Af hvaða diski
drægju þeir lífsbjörg? Hverjum fyndist svo,
öðru en vondu og illa rættu hyski?
Hvers vegna leggur enginn tvo við tvo
og tvöfaldar fólkið hérna með nýjum lögum
í stað þess að ætla endanlega að þvo
með innflytjendahafti á vorum dögum
þjóðina af allri fjölbreytni og fjöri?“
Svo mælti hann í þögn við sig að þvögum
og þrengslum gengnum, heftum skvapi og möri
á ýmsum stöðum, innblásinn af dvölinni
á salsastaðnum, þar sem smurðu smjöri
af smekkleysu að vísu sumir í hár, en kvölinni
af deyfð og íslenskum drunga aftur á móti
dreifðu á glæ. Hvað var gaman að búa á mölinni
ef mölin var aðeins dreif af dauðu grjóti
og döprum þumburum sem hötuðu allt
það hugumstóra sem heimurinn geymdi? „Ljóti
og takmarkaði skríll þú að lokum skalt
skilja að lífið er meira en ógn og vörn
gegn öðrum.“ Og honum enn í huga valt
ógeðfellt magn af töðu: „Hvílík börn
fá vaxið upp í veröld sem nöpur hatar
hið hugumstóra líf? Þeim er kennt í kvörn
að kasta allri draumhygli – hvert ratar
sá flokkur þegar fasteignaverðið hrynur
og veggjatítlur tæta upp húsin – hvað matar
metnaðinn þegar allsherjar yfir dynur
verðbréfagjaldþrot og jökullinn hlunkast til helvítis
og enginn veit hver er annars í heimi vinur
og talað verður um tafir til norðurhvelvítis
í talkerfum flugvalla og Madrid verður norræn?
Hví ekki að slappa af og láta sér lynda vel vítis
logana og hirða ekki um þegar viðbjóðsleg, gorræn
og sjarmalaus fer á sjálfstýringu rulla
um sígandi gróða. Megi hún ógeðsleg, horræn
og herfileg þagna. Hellum nú alla fulla
og hættum að lifa greiðslustýrð, dáleidd af ótta
um að missa allt. Kennum öllum að þrugla og bulla
og egnum með brosi skynsemina á flótta
svo ólgandi geðveiki greiðslustöðvana og lokana
og grámygluð talandi kíghósta og hitasótta
í símsvörum stofnana þagni og kláði kokanna
karlægra fái útrás á breyttum tímum
og túnfisksstorkið og pastalegt innihald pokanna
panti sér tíma á haugum og Nokiasímum
strax verði gefið frelsi á föstudagskvöldum
til fundaskrafs og mökunar. Neglum, límum
upp strætisvagna á stjörnurnar svo í tjöldum
við starað getum á Karlsvagninn á leið fimm
með viðkomu á Suðurgötu, gerum það, höldum
svo heiðríka fest undir himninum, störum grimm
á Skildinganes verða hluta af sindrandi sólkerfi
í sjöþúsund milljóna ljósárafjarlægð, svo dimm
verði ljósfælin Suðurlandsbrautin á daginn og bólkerfi
bílsstjórans taki mið af stjörnunum; lifum
með dropateljara og dreymum um fjarlæg pólkerfi
og himneskt kynlíf vagnstjóra í sömu svifum
og kyrjum við fréttaskot fyrir næstu máltíð
standandi ei lög eða líf eða neitt fyrir þrifum
í vergjarni hagsæld, á hamingjuþrunginni áltíð,
með skepnurnar allar af skynleysi og kjarnorku dauðar.
Er það ekki draumurinn, breyta þessu öllu í báltíð
og brenna upp að lokum svo skorpnar, kalkaðar, rauðar
afsteypur herptra andlita votti um hve frábært
við áttum vort magnaða líf og deyjandi, blauðar
og bitlausar vofur vitni um að nú sé dábært,
og vit að hrökkva upp af því tæplega lengur
sé óhætt að lifa, líkömum allra sé nábært
og leiðinlegt hversu skjótt allt tók af en fengur
nú samt að dauðanum, betri en ekkert? Æ! Æ!
Æ, auma tilvera! Hvílík pest og kengur
í póstlögðum, tollskráðum pilsfaldi margsniðnum! Fræ
skyldi falla úr skaparans hendi svo heilt upp á nýtt
risi hugsandi mannkyn um annað en sjálft sig – í blæ
af ólgandi samruna allra, svo framar ei grýtt
yrði mölin af dauða, en dapra þumbara hræ
yrðu einu merkin um andlátssinnað og lítt
aðlaðandi malbik við nyrsta sæ.
Samt gerist það aldrei því lífið er lánlaust og skítt.“
Svo hugsaði hann lengi en lét ekki orð af vörum
því lífið er flókið í hjarta, en einfalt á börum.
Gleðileikurinn djöfullegi
Sölvi Björn Sigurðsson (1978)hefur gefið út skáldsöguna „Radíó Selfoss“ (2003), ljóða-
bækurnar „Ástog frelsi“ (2000) og „Vökunætur glatunshundsins“ (2002) auk þess sem
hann þýddi sonnettur Keats sem Mál og menning gaf út 2000. Hann ritstýrði einnig
„Ljóðum ungra skálda 2001“.
Eftir Sölva Björn Sigurðsson