Lesbók Morgunblaðsins - 05.11.2005, Blaðsíða 5
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 5. nóvember 2005 | 5
Sá sem ræktar tré á Íslandi skal vera engill
Bíða þolinmóður með krosslagða vængi
hinkra vetur sumar
árum saman eftir því að þau vaxi úr grasi,
trén svokölluðu sem hann hefur þrælað í mosaþembur og mela
hinkra eftir að þau hætti að vera fóstur, eða steinbörn
verði tré með trjám.
Tré með trjám er víst of mikið sagt.
Sjálfstæðir einstaklingar kannski.
Því miður ekki alltaf rétt skapaðir.
Hlutskipti örkumlatrésins er snöggtum verra en maðurinn með öxina.
Á landi þar sem græðandi öfl snúast í andhverfu sína og ganga í lið
með eyðileggingunni. Sólin brennimerkir þau sígrænu snemma vors
með fulltingi vatns, sem læsir frostklóm um plönturnar. Þau tóra
síryðguð allt fram að falli. Ei til yndis.
*
Og kindin – ókindin snýst á sveif með náttúru-meinvættum trjánna.
Hún breytist í rándyr.
Bítur þau á börkinn.
Svelgir þau minnstu í heilu lagi.
Hefur sérstakan radar á kímblöð.
Óætu trén rífur hún upp úr sverðinum
og sveiflar í kringum sig ef stærð þeirra leyfir
eins og stríðsmenn höfuðleðrum.
Þau ár sem rollan kemst ekki í trén er maðkur á ferð
duglegur myndhöggvari trjánna
þótt deila megi um listrænt gildi verkanna.
Sama má segja um myndhöggvarann vind
sem heggur skarð í trén úr launsátri ríkjandi áttar.
Á mínu stykki sneiðir hann af þeim suðausturhornið.
**
Og limlestu trén neita að deyja
þótt ekki sé eftir af þeim annað en einn fjórði úr grænni grein.
Íslenskt bonsai nei takk.
Þá er betra að gefa alveg upp öndina
þótt þau þurfi að bærast steindauð fyrir vindum
þar til ræktandanum þóknast að fjarlægja líkið og gera úr því trjákurl
sem hjálpar lifandi plöntum að hafa veturinn af.
Einnig í trjáríkinu er eins dauði annars brauð
þótt þar sé dauðinn ekki allur þar sem hann sýnist
því séð hef ég birkið vaxa upp af rót
og heyrt hef ég um jólatré á Hverfisgötu sem var holað í garðinn
rótarlausu og vex eins og það hafi aldrei gert annað. Beint upp í loftið.
Til er upprisa trjánna.
***
Og ræktunarengillinn tæmir hugann og fyllir af trjám: lifandi,
framliðnum, heilum, hálfum.
Dularfullum trjám sem hann hefur útvegað gegnum sambönd.
Alaskasýprus.
Á fimm ára afmælinu er hann tuttugu og einn sentimetri á hæð.
Og engillinn tekur fram bókina. Nei þetta er ekki dvergur.
En svolítið seinþroska. Hægt að nytja plöntuna tvöhundruð ára gamla.
Og ræktunarengilsgarmurinn segir við sig: Þá verð ég löngu búinn að fella
vængi.
Steindauður, og ekki nóg með það, heldur líka allir sem ég þekki og
allir sem þeir þekkja sem ég þekki.
En plantan blívur lengur en hugurinn má hugsa. Og getur orðið
þrjúþúsund ára – sé hún ekki nytjuð.
Og í því er altént vissa, ef ekki hreinlega huggun.
Nytjaljóð ræktunarmannsins
Steinunn Sigurðardóttir (f. 1950) er skáld og á að baki fjölda ljóðabóka og annarra ritverka.
Eftir Steinunni Sigurðardóttur