Lesbók Morgunblaðsins - 05.11.2005, Blaðsíða 10

Lesbók Morgunblaðsins - 05.11.2005, Blaðsíða 10
10 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 5. nóvember 2005 D anska skáldið Søren Ulrik Thomsen tilheyrir kynslóð danskra ljóðskálda, sem kvaddi sér hljóðs með afgerandi hætti í kringum 1980. Í fyrstu nefndu menn þá einfaldlega „nýju skáld- in“ en síðar reyndu gagnrýnendur og bók- menntafræðingar að setja á þá frumlegri merkimiða eins og „líkamsmódernistar“ eða „svartir rómantík- erar“. Í dag látum við bara duga að tala um „ljóðlist níunda ára- tugarins“ og miðum þá við frekar stutt tímabil, það er að segja frá árinu 1978, þegar foringi hópsins Michael Strunge (1958–86) sendi frá sér sína fyrstu bók, til ársins 1985, þegar ljóst var orðið að kynslóðin hafði þróast frá því að vera samstæður hópur í ein- staklinga sem fóru ólíkar leiðir. Søren Ulrik Thomsen gerði sér snemma grein fyrir þessu, að eigin sögn var það á upplestri á Louisiana-safninu, þar sem nokk- ur af skáldum níunda áratugarins lásu úr verk- um sínum ásamt eldri rithöfundum. Allt í einu var eins og ákveðnu tímabili væri lokið og menn gengju út úr tilraunastofunni. Fyrir hans parta þýddi þetta að hann tók af skarið og sendi frá sér litla, samþjapp- aða teoríubók: Mit lys brænder. Omrids af en ny poetik (Ljós mitt brennur. Drög að nýjum skáldskaparfræðum)(1985). Þegar árið 1982 líkti gagnrýnandi nokkur þeim Søren Ulrik Thomsen og Michael Strunge saman. Þeir ganga, sagði hann, út frá sömu upplifun og sömu andstæðum: Átaka milli vitneskju mannsins og hugsjóna hins villta. Fjarlægðar milli vitundar og tilfinningalífs. En fyrst og fremst bilsins á milli þess lífs, sem fyll- ir hið talandi sjálf, og þess tóms, sem umlykur það í heimi, sem í þessu tilfelli er fyrst og fremst borgin. Hjá Michael Strunge teygir sjálfið sig löngunarfullt og krefj- andi yfir umrætt bil. Hjá Søren Ulrik Thomsen verður þorstinn áfram óslökkvandi og sárin eru látin standa ógróin. Hver and- stæðan á fætur annarri opnast og verður ekki lokað. „City Slang“ Um leiksvið ljóðanna er það að segja, að það er fyrst og fremst borgin: sameiginleg, áþreifanleg, ómáluð og hrá. En eins og hjá fyrirmyndinni Charles Baudelaire breytist borgin í samanþjapp- aða myndaveröld þar sem hin nakta tilfinning ríkir og hverful- leikinn er við völd. Mannlífinu er eytt í bið, millibil og tómarúm. En eftir stendur barmafull óreiða – þ.e.a.s líkama og sálar, og ef til vill ljóðsins. Hér er ég að lýsa frumraun Thomsens City slang (Borg- arslangur) sem miðað við önnur ljóðasöfn frá níunda áratugnum hefur staðist vel tímans tönn, að hluta til vegna fallegs og öflugs tungumáls, en hin ástæðan er að um miðjan níunda áratuginn samdi vinur hans, rokktónlistarmaðurinn og söngvarinn Lars H.U.G., rokklög við nokkur ljóðanna og flutti þau á sýningu, sem skráði sig í sögubækur. Tilfinningaleg skírskotun söngvanna var áréttuð með djörfum hætti: bílhræ á sviðinu, líkamsræktartröll smellandi fingrum, baðað ljósi og reyk, forsöngvari með sígar- ettu í vélrænum dansi! Einn textanna á sýningunni var „Afsked“ (Kveðja). Snart maser nattens gletcher parkerne tomme – kroppene drejer mod kulden spredes i gadernes væv forsvinder i lygternes faldende hvidt genkender ikke hinanden i lukket november. Brátt leggst næturjökull yfir og tæmir garðana – líkamar leita í kuldann dreifast um vef strætanna hverfa í hvítt skin ljósa enginn þekkir hinn í lokuðum nóvember. Ljóðið hefst á orðinu „brátt“, sem segir að eitthvað hafi enn ekki átt sér stað, og endar á „lokuðum nóvember“ sem lýsir ástandi. Eitthvað hlýtur nú þrátt fyrir allt að hafa gerst. Og ekki fjarri lagi að álykta að það sem gerðist hljóti að hafa átt sér stað í ljóðinu sjálfu. Ljóðið skapar þannig í sínum sjö línum ör-frásögn sem færist frá fyllingu að tómi, frá nánd til fjarlægðar, frá sjálfsmynd til framandleika. Sviðið, borgin, er eftirlátið tímanum. Teoría og trú En: myndirnar sjálfar skapa einnig nánd. Textinn fyllir út í, skapar og tjáir tíma, sinn eigin tíma. Það var þessi hugsun sem Søren Ulrik Thomsen gerði að kenningu sinni þegar hann skrif- aði í Mit lys brænder að ljóð eigi fyrst og fremst að koma þeim tíma til skila sem það tekur að lesa það! Hugsun sem hann varð þó síðar að segja skilið við, eftir því sem hann með tímanum hef- ur opnað fyrir aðrar víddir í listinni en einvörðungu þær sem snúa að líkama og tíma. Þetta breytir þó ekki því að teoríubókin var allan níunda áratuginn umræðugrundvöllurinn þegar rætt var um ljóðlist, ekki einungis í Danmörku heldur einnig á öllum Norðurlöndunum. Í bókinni eru settar fram hugmyndir um ljóðlistina sem eru nátengdar hugsun ljóðskáldsins Pers Højholt frá lokum 7. ára- tugarins, en þar skrifaði hann að ljóðlistin eigi að „gera okkur kleift að lifa lífi okkar á forsendum sem við höfum ekki sett sjálf“. En á meðan Højholt var trúr þessari afstöðu allt fram í andlátið 2004, hefur Søren Ulrik Thomsen tekið upp ábyrga samræðu við hefðina. Upphaf þessa má rekja til bókarinnar Nye digte (Ný ljóð) frá árinu 1987, sem sendir kveðjur til þjóðskáldsins Oehlen- schläger og Þjóðverjans Rainer Maria Rilke, og kemur enn skýr- ar fram í síðari bókum eins og Hjemfalden (Ofurseldur) (1991) og Det skabtes vaklen (Hik sköpunarverksins) (1996) þar sem tónn Thomsens er orðinn hástemmdari og er auk þess á mörkum trú- ar og ljóðlistar, líkt og um er að ræða í öðru greinasafni hans En dans på gloser (Dans á glósum) frá 1996. Síðasta útspil Thomsens í ljóðlistinni markar enn eitt nýtt upp- haf. Með ljóðahringnum Hið versta og hið besta (Det værste og det bedste) (2002, með myndskreytingum Ibs Spang Olsen) sprengir hann ramma stakra ljóða og sendir í fyrsta sinn frá sér sjálfstæða svítu: 21 texta sem hver um sig er 27 ljóðlínur, blöndu ólíkra radda, þar sem ferðast er á milli ólíkra tilverusviða og ávallt teflt fram andstæðum, því sem er slæmt eða beinlínis illt, og því sem er indælt eða beinlínis gott, andstæðum af sið- fræðilegum og fagurfræðilegum toga. Det værste og det bedste var ekki aðeins fyrsti stóri ljóða- hringurinn frá Søren Ulrik Thomsen, heldur var þetta einnig fyrsta verkið sem unnið var í náinni samvinnu – við myndlist- armann. Þessi löngun til samvinnu hefur einnig sett mark sitt á seinasta verk Thomsens. Ásamt bókmenntafræðingnum Frede- rik Stjernfelt sendi hann í ársbyrjun 2005 frá sér bókina Kritik af den negative opbyggelighed (Gagnrýni neikvæðrar uppbygg- ingar), þar sem þeir í fjölda greina lýsa og gagnrýna það sem þeir kalla neitunar-hugsun (negationstænkning) í list- og menningar- umræðu nútímans, já, og meira að segja í stjórnmálum og þjóð- félagsumræðu almennt. Þrátt fyrir að þeir noti ólíkar aðferðir, Stjernfelt sem heim- spekilegur bókmenntamaður, Thomsen sem skáld og kirkjugest- ur (en þó ekki „kristið skáld“, en hann frábiður sér þann merki- miða), mætast þeir í andstöðunni við neitun sem hugmyndafræði, sérstaklega innan lista og í gagnrýni, en einnig á öðrum sviðum mannlífs og þjóðfélags eins og stjórnmálum, uppeldismálum og blaðamennsku. Útgangspunktur bókarinnar er staðbundinn, og sjónum beint að ákveðnum fyrirbærum, en þar sem neitun er hafin upp í neikvæðni og sett fram af fulltrúum neikvæðninnar, sem samkvæmt höfundunum tveimur gegnsýra alla okkar tíma, fer það svo að bókin verður mjög afdrifaríkt uppgjör við tíð- arandann. Með hugtakinu „neikvæð uppbygging“ eiga höfundarnir við hugsun sem áður fyrr var hugmyndafræði útvalinna og þá eink- um sérsinna heimspekinga á borð við Schopenhauer, Nietzsche og Heidegger, „nýskapandi“ listamanna á borð við Hamsun og Kerouac eða algjörra draumóramanna á útjörðum stjórnmál- anna, er þessi sama hugmyndafræði á okkar tímum skoðun fjöldans og með ýmsum tilbrigðum orðin að heimatilbúnum trúarbrögðum flestra, og Stjernfelt lýsir sem sameiginlegri upp- hafningu á að afneitun, frávísun, gereyðing, yfirkeyrsla, eyði- legging, lítilsvirðing, í stuttu máli neitun, gagnvart gefnum að- stæðum, sé, nægjanleg sönnun þess, að eitthvað áhugavert hafi gerst, að skilningur hafi komið til, listaverk hafi myndast, póli- tískur verknaður átt sér stað, allt saman sniðið eftir hinum þekktu einkunnarorðum „ég er ekki eins og aðrir, ég er alveg einstakur“, sem þrátt fyrir þversögnina má hæglega syngja í kór. Framúrstefna og „tilraun“ Søren Ulrik Thomsen talar um „fjöldahreyfingu undir mínus- merkinu“ og nefnir sem dæmi bankastjórann sem um helgar breytir um útlit, sleppir bindinu og gengur um með þriggja daga skegg, skiptir BMW-inum út fyrir Harley Davidson og svífur um í hinu eftirsóknarverða draumahlutverki sem uppreisnarmaður, útlagi, úrhrak, bóhem. Stjernfelt birtir meira að segja lista yfir eftirlætis plúsorð neitunarinnar: hið nýja, öðruvísi, annað, af- hjúpandi, hið opna, margbrotna, spyrjandi óteljandi fjöldi óræðra möguleika, sem gefa fyrirheit þegar einhverju er neitað. Á listasviðinu nýtur neitunin sérstakrar athygli í formi fram- úrstefnunnar, eða nánar tiltekið þegar sköpunarferli verksins er hafið upp til skýjanna, ekki verkið sjálft heldur „líkaminn“, ekki hin vitræna hugsun, heldur formleysi í stað forms, villt „tilraun“ í stað leitar að fullkomnun og að lokum ögrun sem tilgangur og verðmæti í sjálfu sér, sem sífellt helst í hendur við að sjónum er beint að því áður óséða. Sjálfir kynna þeir sig sem góða og gamaldags málsvara stofn- ana og áhangendur ákveðinna íhaldssamra gilda á menning- arsviðinu, og Thomsen gengur svo langt að taka afstöðu sem kristin, já, hákirkjuleg manneskja. Öldurnar sem þeim tókst að koma á hreyfingu með bók sinni, hefur, af augljósum ástæðum, enn ekki lægt! Halldóra Jónsdóttir þýddi úr dönsku. Skáld söngva og kenninga Danska skáldið Søren Ulrik Thomsen mun halda fyrirlestur á vegum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungu- málum í Háskóla Íslands 11. nóvember nk. og ber fyrirlestur hans heitið: „Kritik af negationstænkningen i kulturen“. Þar fjallar Thomsen um neitunar-hugsun í menningar- og sam- félagsumræðu nútímans en um það efni gaf hann út bók fyrr á árinu sem vakið hefur mikil viðbrögð. Fyrirlestur Thomsens verður kl. 16.15 í Lögbergi, stofu 103. Søren Ulrik Thomsen Kynnir sig sem góðan og gamaldags málsvara stofnana og áhanganda ákveðinna íhaldssamra gilda. Eftir Erik Skyum-Nielsen esn@hum.ku.dk Höfundur er bókmenntafræðingur í Kaupmannahöfn og þýðandi íslenskra bókmennta á dönsku.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.