Morgunblaðið - 14.05.2005, Qupperneq 4
ÓLÖF María Jónsdóttir lék á
þremur höggum yfir pari í
gær á Opna spænska meist-
aramótinu í golfi en mótið er
hluti af Evrópumótaröðinni.
Íslandsmeistarinn lék því sam-
tals á 7 höggum yfir pari vall-
ar og komst ekki í gegnum
niðurskurðinn á mótinu. Þetta
er annað mótið sem Ólöf
María tekur þátt í á þessu ári á
Evrópumótaröðinni en hún
endaði í 41. sæti á móti sem
fram fór á Kanaríeyjum. Ólöf
lék fyrri níu holurnar á einu
undir pari en hún var 2 undir
pari eftir 13 holur en lék síð-
ustu fimm holurnar á fimm
höggum yfir pari vallar og
endaði eins og áður segir á 3
yfir pari.
Efstu kylfingar mótsins
voru samtals á 8 höggum und-
ir pari en að venju var skorið
niður í keppendafjöldanum að
loknum öðrum keppnisdegi.
Þeir kylfingar sem léku sam-
tals á pari vallar eftir 36 holur
komust áfram.
Ólöf úr leik
á Opna
spænska
HLYNUR Birgisson, hinn þrautreyndi leikmaður
Þórs á Akureyri, er spámaður Morgunblaðsins
fyrir fyrstu umferð efstu deildar karla í knatt-
spyrnu, Landsbankadeildarinnar, en flautað verð-
ur til leiks í deildinni á mánudaginn.
Valur – Grindavík
,,Ég sé fyrir mér nokkuð öruggan sigur Vals-
manna. Ég mætti báðum þessum liðum fyrir
nokkru og mér sýnist á öllu að róðurinn verði
þungur fyrir Grindavík en Valur gæti gert ágæta
hluti í sumar enda liðið búið að safna til sín nokkr-
um mannskap. Ég spái Val sigri, 3:0.
ÍA – Þróttur
,,Ég held að þetta geti orðið mjög jafn og spenn-
andi leikur en ég hallast þó að því að Skagamenn
hafi betur. Mér finnst ÍA-liðið svipað því sem það
hefur verið undanfarin ár. Það byggist á sterkum
varnarleik en mér finnst þó ýmislegt vanta í þeirra
lið. Þróttararnir hafa alveg burði til að halda sæti
sínu. Þeir hafa þrautreyndan mann í brúnni en ég
held að það dugi samt ekki í þessum leik. ÍA vinn-
ur, 2:1.
Fram – ÍBV
,,Ég held að Framarar byrji mótið með sigri.
Eyjamennirnir voru ekkert sérstakir þegar við
spiluðum við þá en þeir hafa verið að hrúga til sín-
um útlendingum svo ÍBV-liðið er töluvert spurn-
ingarmerki. Framararnir hafa styrkt sig töluvert
og ætla að kveðja fallslaginn og ég spái þeim sigri í
þessum leik, 2:0.
Keflavík – FH
,,Ég sé ekki annað fyrir mér en að FH-ingarnir
fari með sigur af hólmi í þessari viðureign í Kefla-
vík. Þeir eru með geysilega gott lið, betra en í
fyrra – er þeir léku mjög vel og ég sé ekki að önnur
lið geti staðist þeim snúninginn. Keflavíkurliðið
hefur að sama skapi. Ég spái tiltölulega öruggum
FH-sigri, 3:1.
Fylkir – KR
,,Líklega er þetta stórleikur umferðarinnar og
erfitt að spá fyrir um þennan leik. Ég hallast þó
frekar að því að KR-ingar fari með sigur af hólmi.
KR-liðið hefur fengið góða leikmenn til sín en þeir
hafa verið í vandræðum með meiðsli. Ef þeir geta
stillt upp sínu sterkasta liði þá eru þeir með gott
og öðflugt lið.
Ég veit ekki alveg um styrk Fylkisliðsins.
Vissulega eru til staðar hjá liðinu sterkir og
reynslumiklir leikmenn en mér fannst Fylkisliðið
ekki sannfærandi þegar við Þórsararnir spiluðum
við þá á dögunum. Í jöfnum leik held ég að KR
vinni, 1:0.“
Baráttan um Íslandsmeistaratitilinn í knattspyrnu hefst á fimm vígstöðvum
Hverju spáir Hlynur Birgisson?
ÓLAFUR Jón Jónsson, 17 ára
sóknarmaður, skoraði tvö mörk fyrir
Keflavík sem lagði ÍA, 3:1, í æfinga-
leik á Akranesi í fyrrakvöld en þetta
var lokaleikur liðanna fyrir Íslands-
mótið í knattspyrnu sem hefst á
mánudag. Reynir Leósson skoraði
mark Skagamanna.
EYJAMENN mörðu sigur á 2.
deildarliði ÍR, 4:3, í æfingaleik á gras-
vellinum við Garðskagavita í fyrra-
kvöld. Páll Hjarðar, Bjarni Rúnar
Einarsson, Magnús Már Lúðvíksson
og Sæþór Jóhannesson skoruðu fyrir
ÍBV.
FRAKKINN Zinedine Zidane,
leikmaður Real Madrid, segir í viðtali
við heimasíðu spænska knattspyrnu-
liðsins Real Madrid að hann ætli sér
að hætta sem leikmaður árið 2007
þegar samningur hans við félagið
rennur út en Zidane segir ennfremur
að það komi vel til greina að hætta
fyrr.
ZIDANE segir að hann hafi ekki
verið ánægður með eigin frammi-
stöðu í vetur með Real Madrid og
hann ætli að fara vel yfir sín mál í
sumar áður en hann taki endanlega
ákvörðun.
KIM Nörholt og Hans Mathisen
dönsku, tveir af dönsku leikmönnun-
um sem eru á mála hjá Fram, fengu
keppnisleyfi í gær og eru því klárir í
slaginn með Fram sem mætir ÍBV í
fyrstu umferð Landsbankadeildar-
innar á mánudaginn.
FABIEN Barthez markvörður
Marseille er enn að bíta úr nálinni
eftir að hafa hrækt á andstæðing
sinn. Áfrýjunarnefnd franska knatt-
spyrnusambandsins hefur lengt
keppnisbann hans úr þremur mán-
uðum í sex. Aganefnd knattspyrnu-
sambandsins úrskurðaði Barthez ný-
lega í 6 mánaða bann, þar af 3 mánuði
skilorðsbundið, og knattspyrnusam-
bandið áfrýjaði þeirri niðurstöðu.
ÁFRÝJUNARNEFNDIN komst að
þeirri niðurstöðu að bannið, sem átti
að ljúka 15. október, skyldi framlengt
til 31. desember nema Barthez fallist
á að gegna samfélagsþjónustu. Bart-
hez hefur þegar vísað niðurstöðu
áfrýjunarnefndarinnar til Íþrótta- og
ólympíunefndar Frakklands sem
tekur málið fyrir 20. maí.
FÓLK
GUÐJÓN Þórðarson er hættur þjálfun Keflavíkur-
liðsins í knattspyrnu, aðeins tveimur dögum áður en
flautað verður til leiks á Íslandsmótinu en Keflvík-
ingar taka á móti Íslandsmeisturum FH-inga í fyrstu
umferð Landsbankadeildarinnar á mánudaginn.
Í yfirlýsingu sem Borgar Þór Einarsson, lögmaður
Guðjóns, sendi frá í gær segir:
„Guðjón Þórðarson hefur ákveðið að rifta samn-
ingi við Knattspyrnudeild Keflavíkur sem kveður á
um þjálfun og stjórnun meistaraflokks Keflavíkur.
Ástæður riftunarinnar eru verulegar vanefndir
Knattspyrnudeildar Keflavíkur á fjárhagslegum
jafnt sem faglegum skyldum samkvæmt samningn-
um sem undirritaður var 16. desember síðastliðinn.
„Ég harma mjög að til riftunar á samkomulagi við
Knattspyrnudeild Keflavíkur hafi þurft að koma. Ég
gekk til þessa samstarfs af heilum hug en því miður
hafa þær forsendur sem menn gáfu sér í upphafi
ekki reynst vera til staðar, hvorki fjárhagslegar né
faglegar. Eftir að hafa ítrekað skorað á viðsemjend-
ur mína að standa við þær skuldbindingar sem samn-
ingur okkar kveður á um, án þess að það hafi borið
árangur, stóð ég frammi fyrir þeim afarkosti að rifta
samstarfinu.
Það er einlæg trú mín að stjórn Knattspyrnudeild-
ar Keflavíkur hafi gengið til þessa samstarf af heil-
um hug og í góðri trú. Því miður hefur komið á dag-
inn að félagið reyndist hvorki hafa fjárhagslegt né
faglegt bolmagn til að standa við skuldbindingar sín-
ar samkvæmt samningnum. Það eru mér mikil og
sár vonbrigði, þar sem ég hafði á grundvelli samn-
ingsins tekið ákvörðun um að setjast að á Íslandi og
einbeita mér að uppbyggingu knattspyrnunnar í
Keflavík.
Þrátt fyrir erfiðar aðstæður hef ég reynt mitt ýtr-
asta til að undirbúa liðið fyrir keppni á Íslands-
mótinu og ég tel að það mæti vel undirbúið til leiks,
leikmenn í góðu líkamlegu ástandi og leikskipulag
liðsins orðið traust, auk þess sem erlendir leikmenn
sem komið hafa til liðsins að mínu frumkvæði munu
styrkja það verulega. Þar sem keppni á Íslandsmót-
inu hefst innan fárra daga, hef ég boðið stjórn Knatt-
spyrnudeildar Keflavíkur liðsinni mitt við að koma
liði félagsins af stað í mótinu og vera stjórnendum
liðsins innan handar næstu daga og vikur.“
f.h. Guðjóns Þórðarsonar
Borgar Þór Einarsson, lögfr.
Yfirlýsing Guðjóns
Guðjón neitaði því að hann væriað stökkva frá félaginu vegna
þess að hann hefði fengið tilboð frá
enska 2. deildarliðinu Notts County.
„Það er bara ekki rétt. Ég gafst bara
upp á samstarfinu við Keflvíkinga og
taldi að það væri betra að aðrir tæku
við áður en mótið hæfist,“ sagði Guð-
jón.
Um samninginn sagði Guðjón að
löglærðir aðilar og fagfólk hefði séð
um gerð samningsins við Keflavík.
„Ég kom ekki að þeim texta sem er í
þeim samningi. En þær vanefndir
sem ég nefni eru ekki að byrja á síð-
ustu dögum. Ég átti von á launum 1.
janúar sl. en sú greiðsla barst ekki
fyrr en sextánda mars. Ég átti von á
því að fá launin mín greidd á réttum
tíma líkt og aðrir launþegar.“
Spurður hvort ákvörðunin hefði
verið erfið sagði Guðjón:
„Þetta gerir enginn að gamni sínu.
Ég átti gott samstarf við leikmenn
liðsins og ég á eftir að sakna þeirra
allra. Strákarnir í liðinu hafa lagt
mikið á sig í vetur og það er mikið af
góðum leikmönnum í liðinu. Ég vona
bara að félaginu gangi sem allra best
í framhaldinu og að stjórnarmönnum
félagsins takist að fara í þá átt sem
þeir hafa mestan áhuga á.“
Á ekki von á því að
til hans verði leitað
Guðjón á ekki von á að til hans
verði leitað um að aðstoða liðið á
næstu dögum eins og fram kemur í
fréttatilkynningunni frá Guðjóni.
„Ég á ekki von á því. Þau viðbrögð
sem lögfræðingur minn fékk er hann
tilkynnti um ákvörðun mín voru ekki
með þeim hætti að ég eigi von á því.“
Verður Guðjón Þórðarson á meðal
áhorfenda er Keflavík tekur á móti
FH í fyrstu umferð á mánudaginn?
„Ég á ekki von á því að gera mér
ferð til Keflavíkur, en ég á sjón-
varpstæki og mun eflaust horfa á
leikinn.“
Hverju svarar þú þegar menn
segja að Guðjón Þórðarson hafi ein-
faldlega verið skera á „snöruna“ til
þess að geta samið við enskt lið á
næstu dögum?
„Mér stóð til boða að taka við
Stockport á sama tíma og ég var í
viðræðum við Keflvíkinga. En ég
hafnað því tilboði og ákvað að snúa
mér að því að flytja til Íslands. Það
var mikil ákvörðun að loka dyrunum
á Englandi og fara heim. Og nú
nokkrum mánuðum síðar rifti ég
samningi við Keflavík vegna van-
efnda. Það eru gríðarleg vonbrigði
fyrir mig enda hafði ég gert ráð fyrir
að hlutirnir væru með öðrum hætti.
Ég gerði ráðstafanir varðandi eigur
mínar á Englandi með þeim hætti að
ég væri að fara til Íslands og væri
ekki á leiðinni til baka á næstunni.
En núna er ég í þeirri stöðu að vera
að veiða í gruggugu vatni. Ég þarf að
finna mér starf og það vita allir
hvernig það getur gengið.“
Ertu búinn að gefa það upp á bát-
inn að þú verðir þjálfari hér á landi
hjá öðru liði en Keflavík?
„Nei. Ég er einfaldlega í óvissu og
veit ekkert hvað bíður mín. En ég
verð að kanna mína möguleika og
ýta á þá takka sem ég tel að geti
virkað,“ sagði Guðjón Þórðarson.
Guðjón Þórðarson neitar því að hann sé á leið til Englands á ný
„Gafst upp á samstarfinu“
„ÉG tek þessa ákvörðun eftir
nokkuð langan aðdraganda.
Vanefndir stjórnar knattspyrnu-
deildar Keflavíkur gagnvart þeim
samningi sem gerður var við mig
eru með þeim hætti að ég treysti
mér ekki til þess að starfa áfram.
Það virðist sem menn hafi byrjað
á einhverju sem þeir ráða síðan
ekki við,“ sagði Guðjón Þórð-
arson í samtali við Morgunblaðið
í gær eftir að hann sagði upp
störfum hjá félaginu.
Eftir Sigurð Elvar Þórólfsson
seth@mbl.is
Guðjón Þórðarson er hættur störfum í Keflavík.