Morgunblaðið - 14.08.2005, Blaðsíða 11

Morgunblaðið - 14.08.2005, Blaðsíða 11
Þ að er glampandi sól en hávaðarok þegar við beygjum út af þjóðvegi 1, rétt hjá Hellu. Eyjafjallajökull er fallegur í síðdegissólinni og Vestmannaeyjar tignarlegar á hafi úti. Við nemum staðar við nokkur veiðihús við Rangárflúðir í Ytri-Rangá. Kiri te Kanawa dvelur í sumarbústað í ná- grenninu og við höfum spurnir af því að hún veiði tím- unum saman í ánni. Hún er ekki hér til að halda tón- leika heldur til að veiða lax. Tónleikarnir í Háskólabíói eru ekki fyrr en í október – nú er það laxinn. Hvernig rödd hefur heimsfræg söngkona? Klukkan nálgast fjögur og Kiri er rétt ókomin. Veiðin er að hefjast á nýjan leik. „Menn veiða á morgnana og síðan aftur á kvöldin – gera hlé yfir miðjan dag- inn,“ segir glaðhlakkalegur veiðimaður. Ég kinka annars hugar kolli og verð að viðurkenna að ég orðin spennt. Mjög spennt. Hvernig rödd ætli heimsfræg söngkona hafi? Eins gott að hún missi hana aldrei. Það er hálffurðulegt að hitta þá sem sungið hefur á öllum frægustu stöðum í heimi við bakka Rangár. Á ég að biðja hana að skila kveðju til Pavarottis? Svartur jeppi beygir inn á bílaplanið og kona í veiðigalla og með derhúfu stekkur út. Kiri te Kanawa er komin. Hún tekur veiðistöngina og gengur í átt til okkar. Brún, falleg augu virða mig fyrir sér og óperusöngkonan hefur upp rödd- ina. „Sæl,“ segir hún hressilega, lagar derhúfuna og teygir fram höndina. „Já, sæl. Velkomin. Gaman að hitta þig,“ svara ég og finnst ég skyndilega vera hjáróma. Röddin nánast fölsk. „Uuu … hvernig hefur gengið að veiða?“ „Svona sæmilega,“ svarar Kiri glettin og röltir niður að árbakkanum. „Það gengur hins vegar miklu betur hjá vinkonu minni.“ Með í för er hin breska Tracy sem er í fyrsta skipti á Íslandi. „Ég er búin að veiða samtals tíu laxa,“ seg- ir hún hlæjandi en hvíslar síðan að þetta sé byrjendaheppni. Kiri horfir athugul út yfir ána. „Áin var lituð í morgun, svo fiskurinn sá okkur ekki. Ég náði að setja í einn en hann slapp. Tracy náði öðrum,“ segir hún og sest á nestisbekk við bakkann. Ég spyr hana hvað í ósköpunum hún sé að gera á Íslandi – af öllum stöðum. Hún fer að hlæja. Skellihlæja. „Ég hélt tónleika á Íslandi fyrir tveimur árum. Ég kynntist síðan íslenskri lax- veiði og kann vel við mig hérna. Mér líka staðir eins og Ísland, þar sem er frelsi, ferskt loft og gott fólk. Áður en ég fór að koma hingað hafði ég ekki gert mér grein fyrir því að Ísland er alls ekki langt frá London. Ég veit ekki af hverju en ég hélt alltaf að það væri miklu lengra í burtu og fletti því svo sem aldrei upp á korti,“ segir hún. Hún er skýrmælt og röddin er þægileg. Falleg. En ekki hvað? Milljón dollara röddin. Til er sægur af hástemmdum lýsingum á Kiri te Kanawa. Söngur hennar er sagður guðdómlegur og hún sjálf einstök manneskja með mikla útgeislun, jarð- bundin og laus við alla stjörnustæla. Hvernig myndi hún sjálf lýsa sér? Hún hugsar málið og lagar sólgleraugun á derhúfunni. „Ég held að það sé erf- itt að lýsa sjálfum sér. Fólk sér mann á ólíka vegu. Ég geri marga hluti á mörg- um ólíkum sviðum. Börnin mín myndu lýsa mér öðruvísi en til dæmis vinirnir, þannig að það er erfitt að segja. Það mætti kannski spyrja hvað ég myndi helst vilja að mín yrði minnst fyrir,“ segir hún og bætir við: „Og veistu hvað það er? Nefnilega að vera góð móðir.“ Kiri er fráskilin og á tvö börn, dótturina Antoniu og soninn Thomas. Hún segist hitta þau oft en bætir við að þau séu orðin fullorðin og lifi sínu eigin lífi. Sjálf er hún nánast hætt að syngja í óperum en kemur stundum fram á tón- leikum. Hún varð sextug í fyrra. „Nú hef ég miklu meiri tíma en áður. Ég hef ekki getað gert nokkuð sem þetta, að koma til Íslands og veiða, fyrr en nú. Ég ætla að nota tímann eins vel og ég get,“ segir hún hugsandi. Skýtur akurhænur og fasana Kiri er frá Nýja-Sjálandi og því vön eyjalífi. „Ísland og Nýja-Sjáland eru vit- anlega ólík á marga vegu en staðirnir eiga ýmislegt sameiginlegt. Þetta eru hvort tveggja litlar eyjur úti í miðju hafi og ég kann vel við eyjur. Annar staður sem mér líkar vel er Skotland. Þar er svona villt náttúra,“ segir Kiri, lítur í kringum sig og bætir við að hún kunni ekki við borgir. Hér er á ferðinni náttúrubarn. Náttúrubarnið hvessir skyndilega augun út í ána til veiðimannanna. „Er eitthvað að gerast?“ spyr það spennt. „Já, ég er með einn!“ svarar vin- konan en kallar andartaki síðar svekkt að laxinn hafi sloppið. Kiri veifar félög- unum. „Nýsjálendingum líkar að ferðast og skoða sig um. Þeir eru alltaf fljúg- andi um allt. Þeir fara víða og dvelja lengi. Ég veit ekki af hverju þetta helgast, kannski því að við erum svo langt í burtu frá öllu, alveg á hjara veraldar.“ Og núna ertu hér á hinum enda heimsins. Við Rangá. „Já, einmitt,“ segir Kiri og hlær. „Íslensku laxveiðiárnar eru stórfenglegar. Mér var sagt að þær væru fullar af laxi og ég var hálfefins til að byrja með. Ein- mitt það já, hugsaði ég. Síðan er hins vegar krökkt af laxi í þeim.“ Kiri hefur rétt sleppt orðinu þegar lax hoppar upp úr ánni. „Sástu þennan sem stökk?“ segir hún sposk. Kiri hefur veitt alla sína ævi. Hún var alin upp við silungsveiði með föður sín- um og á Nýja-Sjálandi á hún bát og fer út á sjó. „Þá er ég úti allan daginn og sigli oft langar leiðir. Í þessum ferðum veiði ég til dæmis túnfisk. Ég veiði ann- ars víða um heim. Laxveiði er eitt af því sem er sérstaklega yndislegt á Íslandi,“ segir hún. Í þetta sinn er hún fjóra daga í Rangá og fjóra daga í Svartá. Það kemur upp úr dúrnum að hún er ekki einungis gefin fyrir fiskveiði, held- ur einnig fuglaveiði. „Ég skýt til dæmis fasana og akurhænur,“ segir hún og horfir yfir ána. Ég sting upp á íslenskum gæsaveiðum en hún segist hreinlega ÓPERUSÖNGKONA MEÐ VEIÐIDELLU Hin heimsfræga óperusöngkona Kiri te Kanawa hefur komið fjórum sinnum til landsins á tæpum tveimur árum. Konan sem söng sig inn í hjörtu heimsins sem Greifynjan í Brúðkaupi Fígarós og hefur unnið með öllum helstu óperusöngv- urum heims er með veiðidellu og hrósar íslensku laxveiðiánum í hástert. Eftir Sigríði Víðis Jónsdóttur Ljósmyndir: Jim Smart

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.