Tíminn - 12.12.1986, Blaðsíða 16

Tíminn - 12.12.1986, Blaðsíða 16
16 Tíminn JÓLABLAÐ II Jón R. Hjálmarsson: Orfevs og Evrydike Sagan um Erfevs og Evrydike gerðist í fyrndinni, en þótt langt sé um liðið, hefur sögn þessi lifað góðu lífi öld fram af öld og heldur enn velli sem einhver hugljúfasta ástar- saga, er um getur. Orfevs þessi var sonur konungsins í Þrakíu og söng- gyðjunnar Kalliópe. Sumir sögðu þó að Appollon sjálfur hefði getið hann við gyðjunni og má það vel vera. Þessi ungi maður ólst upp við hirð föður síns og gerðist með aldri og þroska hinn mesti kappi og fullhugi. En það sem merkilegast var í fari hans var þó, hvílíkur afbragðs söngvari hann var og hversu snilldar- lega hann lék á hörpu sína. Hafði slíkt aldrei heyrst áður og svo mikill töframáttur fylgdi söng hans og hljómlist, að hann laðaði til sín villidýr merkurinnar, svo að þau fylgdu honum sem lambahjörð, og steinar og eikur fluttu sig úr stað til þess að geta betur notið þessara himnesku hljóma. Jafnvel vinda loftsins lægði og öldur hafsins kyrrði, þegar hann upphóf rödd sína og hljóðfæraleik, því að höfuðskepn- urnar tóku einnig þátt í hinni al- mennu hrifningu og aðdáun yfir list hans. En Orfevs var ekki aðeins frábær og óviðjafnanlegur sem listamaður, heldur var hann líka hugmikill kappi, sem lét sér mannraunir og svaðilfarir lítt fyrir brjósti brenna. Því til staðfestingar má minna á, að hann var einn í kappaliði því, sem Jason fékk með sér á skipinu Argó í ævintýralegan leiðangur til Koikis við Svartahaf, er hann fór tii að sækja gullna reifið og frægt er í sögum. Var þetta hin mesta glæfra- för og munaði oft mjóu, hvort menn kæmust af. Sérstaklega stóð þetta tæpt, er skipið sigldi milli hamra þeirra, sem Skellidrangar kallast og eru við innsiglinguna inn í Svartahaf- ið. Örmjótt sund lá milli þeirra og þegar skip fóru þarna um, áttu drangarnir það til að skella saman og granda þá bæði skipi og mönnum. Höfðu margir sæfarendur fengið að kenna á þessu. En er Jason og menn hans komu að þessum hættulega stað, greip Orfevs hörpu sína og söng af svo mikilli snilld að hamrarn- ir gleymdu sér og stóðu á öndinni áf hrifningu og hrærðust hvergi. Sumir segja að gyðjan Aþena hafi átt þátt í þessu með Orfevs og eitt er víst, að upp frá þessu hafa Skellidrangar ekki bifast, þótt siglt væri um sundið. Einnig bjargaði Orfevs förunaut- um sínum, er þeir sigldu fram hjá sírenunum. En þær voru sérlega raddfagrar söngmeyjar í fuglslíki og með kvenhöfuð. Seiddu þær karl- menn með undurfögrum söng sínum svo að þeir gleymdu stund og stað og gáðu einskis annars en að hlusta. Brutu því margir skip sfn og fórust við Klettaeyju þá, þar sem sírenurn- ar sátu. Orfevs sá við þessari hættu, því að hann hóf upp rödd sína, áður en sírenurnar höfðu áttað sig, og við það glcymdu þær fyrri iðju sinni og hugsuðu um það eitt að fá að hlusta á hann sem lengst. Þannig bjargaði Orfevs félögum sínum hvað eftir annað með undurfögrum söng og heim sneri Jason með gullreifið frá Svartahafinu ásamt Argóarförunum frægu. Eftir þessa hetjulegu ferð settist Orfevs að um kyrrt heima í Þrakíu og varð þar víðfrægur sem farandsöngv- ari. Skömmu eftir heimkomuna kvæntist hann Evrydike, sem var goðborin og yndisfögur ung stúlka. Tókust með þeim svo góðar ástir að hvorugt mátti vart af öðru sjá stund- inni lengur. En óvænt og skyndilega dró ský fyrir þessa hamingjusól. Dag einn gerðist sá sorglegi atburður, að Evrydike var bitin af eiturslöngu og andaðist áður en nokkur gæti komið henni til hjálpar. Við þetta þyrmdi svo yfir Orfevs að hann leit ekki framar glaðan dag fyrir sorg og söknuði. Vildi hann þá ekki um- gangast fólk lengur og leitaði einveru á fáförnum og óbyggðum stöðum, þar sem harmur hans fékk útrás í dapurlegum söngvum, en hamrar fjallsins og tré skógarins voru einu áheyrendur og þátttakendur í sorg hans. Að síðustu var hann svo yfirbugaður, að í örvæntingu ákvað hann að stíga niður í ríki hinna dauðu í Hades til að biðja máttar- völdin þar að gefa sér Evrydike aftur. Leiðin til undirheima var bæði löng og ströng. Fyrst varð Orfevs að klifra niður klettótt einstigi og ganga síðan eftir myrkum neðanjarðar- göngum. Eftir langa mæðu kom hann að ánni Styx, sem rennur á landamærum lifenda og dauðra. Ferjumaðurinn Karon flutti hann yfir á báti sínum og síðan varð hann að ganga enn um skeið. Loks náði hann þó til bústaða goðanna þar neðra og í sal einum miklum hitti hann þau fyrir Hades og Persefóne, konu hans. Sátu þau hljóð og alvar- leg í hásætum sínum og ríkti djúp þögn umhverfis þau. Eftir drykk- langa stund rauf Hades þögnina og spurði hranalega hversu það mætti vera að Orfevs dirfðist að koma til ríkis hans án þess að dauðinn hefði kallað hann þangað. Orfevs svaraði ekki, en greip í staðinn til hörpu sinnar og gaf sorg sína og söknuð til kynna með angur- værum samhljómum. Því næst hóf hann upp goðumlíka rödd sína og túlkaði tilfinningar sínar á svo fagran og átakanlegan hátt að jafnvel hinir harðsnúnu stjórnendur dauðaríkis- ins viknuðu við. Sögðu þau hjónin þá, að þau skyldu leyfa Evrydike að snúa með honum til jarðarinnar aftur gegn einu skilyrði. En það var að Orfevs liti aldrei um öxl á leiðinni frá undirheimum og ekki fyrr en hann hefði bláan himin yfir höfði sér. Ef hann af ótta eða ástarþrá bryti þetta bann, þá væri Evrydike honum að eilífu glötuð. Orfevs varð himinlifandi og lagði þegar af stað aftur áleiðis til lands lifenda. Var hann fastákveðinn að láta ekkert glepja sigoglítaaldrei um öxl. Hann slapp léttilega fram hjá helhundinum Kerberos, sem var þríhöfðuð ófreskja er gætti hliðsins inn að höll Hadesar. Þurfti hann ekki annað en að slá á strengi hörpu sinnar til þess að kvikindið hætti að urra og gelta og legðist niður. Alla leiðina þóttist hann heyra létt fótatak Evrydike að baki sér og allt virtist ganga eins og í sögu. En þegar hann kom í námunda við útganginn úr dauðaríkinu og hann greindi dags- birtuna koma á móti sér, fannst honum allt í einu að hann heyrði ekki fótatak hennar lengur. Sár angist nísti hjarta hans og í fáti leit hann um öxl. Þar stóð þá konan hans yndisfagra, en við hlið hennar var Hermes, leiðsögumaður sálnanna, og hafði þegar gripið um hönd hennar til að leiða hana aftur inn í ríki hinna dánu. í örvæntingu rétti Orfevs fram armana og vildi grípa konu sína og hrifsa hana úr greipum dauðans. En þá fálmaði hann aðeins í loftið tómt. Konan hans elskuleg leið burt í fjarska og langt að heyrði hann kveðjuorð hennar eins og hvísl. Hann starði lengi á eftir henni stjarfur af vonbrigðum og sorg. Loks vaknaði hann til vitundar á ný og lagði aftur af stað niður til dauðarík- isins. En þá komst hann ekki yfir landamærafljótið Styx, því að nú neitaði Karon með öllu að ferja hann í annað sinn til Hadesar, hversu sárlega sem Orfevs bað hann. Yfirbugaður af sorg sneri hann aftur heim til ættlands síns, þar sem hann flakkaði um næstu ár eins og skuggi af sjálfum sér. Gleði og hamingju megnaði enginn að veita honum framar. Eftir missi Evrydike hataðist hann líka við allar konur og af þeim sökum, fylltust þrakverskar stúlk- ur mikilli reiði og afbrýðisemi. Einu sinni söfnuðust þær margar saman og gerðu aðsúg að honum. Varðist hann fimlega lengi vel, en enginn má við margnum. Fór þessi harða viður- eign svo að þær bókstaflega rifu hann í tætlur, svo að ekkert var heilt eftir nema höfuðið, sem hélt áfram að syngja. Gripu þær þá höfuðið og hörpu listamannsins og köstuðu á haf út. Öldur sjávarins báru hvorttveggja um síðir að landi á eyjunni Lesbos. Upp frá því varð þessi eyja frægasta miðstöð skáldskapar, söngs og hljóðfæraleiks, því að listin fylgdi Orfevs lífs og liðnum og listin er ódauðleg. Kökuhús úr hrökkbrauði Það er í desember sem fjölskyldan sameinast um jólaundirbúninginn, eins og til dæmis að búa til kökuhús. En kökuhús þarf ekki endilega að vera úr piparkökudeigi. Hér kemur hugmynd um hvernig hægt er að búa til kökuhús úr hrökkbrauði. Það er tilvalið að láta hvert barn búa til sitt eigið kökuhús. Til að búa til kökuhús þarf 17 stk af hrökkbrauði, hvítan og mislitan glerung, sælgæti til skreytingar, kók- osmjöi og poppkorn. Látið börnin skreyta kexið sem á að nota í hliðar og gafla hússins. Það þarf tvær kexkökur í hvern gafl og þrjár kexkökur í hliðarnar. Hjálpið þeim nú við að líma saman hliðar og gafla hússins. Skerið út þríhyrning til að setja efst á gaflinn. Þekið hann með glerungi og þar yfir er þakið með poppkorni. Þegar það er orðið þurrt er þríhyrn- ingurinn límdur efst á gaflinn. Límið saman með glerungi þrjáróskreyttar kexkökur í hvern þakhluta. Límið síðan þakhlutana á sinn stað. Þegar þeir eru orðnir þurrir er glerung smurt yfir allt þakið og kókosmjöli stráð þétt yfir.

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.