Tíminn - 04.10.1989, Blaðsíða 10
10 Tíminn
Miövikudagur 4. október 1989
ARNAÐ HEILLA
lllllllllll.....
llllllilllllll!lll
Guðlaug Sigurðardóttir
DAGBÓK
Mér kemur í hug fegursta sagan
sem ég man í svipinn - og er eftir
Laxness. t>ar segir af konu sem
villtist í þoku þegar hún gekk út á
hlaðið frá þremur börnum sem hún
hafði gengið í móðurstað og niður
með bæjarlæknum til þess að ganga
úr skugga um að örninn hefði ekki
tekið fiskinn sem hún hafði iagt í
bleyti. Hún ráfar villt í þokunni yfir
fjöll og heiðar dægrum saman og
loksins þegar þokunni létti sá hún
yfir ókunna sveit og gekk heim að
næsta bæ. Þegar vika var liðin frá því
að hún var komin á þennan ókunna
bæ kom húsbóndi hennar, hann
yngri Jón, á hestum til þess að sækja
hana. t>ó að hann segði við hana
einslega: Við færum saman rúmin
okkar þegar þú kemur, og ef þú vilt
skal ég kalla á prestinn, þá gat hún
ekki tekið því. Á þessu nýja heimili
hennar var fáráðlingur, hann Guð-
valeníus, sem var svo erfiður að
enginn, hvorki skyldur né vanda-
laus, réð við hann nema hún.
Ég ætlaði að senda Guðlaugu
vinkonu minni kveðju og óska henni
til hamingju, en þegar hér var komið
þá fór fyrir mér eins og Hannesi
Hafstein þegar hann kvöldið fyrir
veisluna fór að hugsa um hvað hann
ætti að segja fyrir minni Matthíasar
- ekki af því að efnið væri ekki nóg,
heldur af þvf „að efnið var svo allt
of mikið. hað var svo margt sem
streymdi inn í huga minn, og mér
fannst jafnvert að minnast á, að ég
fann engan botn í því. Ég fann
hvorki upphaf né endi, og svo fór,
að ég gafst upp og sofnaði frá öllu
saman. En þegar ég var sofnaður fór
mig að dreyma og aldrei þessu vant
mundi ég drauminn“, segir Hannes.
Ég gafst upp eins og Hannes, sofnaði
og fór að dreyma:
Ég þóttist liggja í rúmi og Margíta
konan mín lá fyrir ofan mig. Guð-
laug lá í rúmi sem var hornrétt á
okkar rúm gegnt höfðalaginu en æði
bil á milli. Það var rökkur eða nærri
fullt myrkur. Allt í einu kemur hönd
og leitar uppi hönd mína. Hver er
þetta? segi ég, en enginn svarar -
líkast því að enginn heyrði. Þetta
var Guðlaug, sem hafði flutt sig og
hvíldi á stólum fyrir framan rúmið.
Þarna lágum við og héldumst í
hendur og Margíta hinu megin við
mig og fór með þulu sem hún hafði
ort einhvern tíma á jólum. Ég heyrði
jafn illa í draumnum sem í veru-
leikanum og nam aðeins einstaka
orð, en hváði ekki til þess að komast
hjá því að trufla. Ég ætlaði að spyrja
Margítu hvaða jól þetta hefði verið,
en þá eru þær horfnar og ég vakna.
Það var eitt vetrarkvöld, það
fyrsta sem ég man - kannski var það
þá sem ég man fyrst eftir mér - að
við mamma fylgdum Laugu á leið,
því hún hafði skotist inn í Keldhóla.
Við vorum trúlofuð, því ég man að
við kölluðum hvort annað kærastann
og kærustuna. Ég var stoltur yfir því
að eiga þessa ungu og fallegu kær-
ustu. Hún sveiflaði mér hring eftir
hring á litla sleðanum mínum. Þetta
var á gljánni á fitinni fyrir ofan
bæinn. Það varstjörnubjart ogglaða
tunglsljós og stirndi á hjarnið og
ísinn á blánum. Það vakti mikinn
fögnuð hjá mér að þjóta svo hring
eftir hring á svellinu. Allt í einu
hrópa ég upp yfir mig fullur undrun-
ar: Það er maður í tunglinu. En ekki
fékk ég það staðfest að mamma eða
Lauga kæmu auga á tunglbúann,
enda var þetta í fyrsta og síðasta
skiptið sem ég sá þetta góðlátlega
mannsandlit í tunglinu.
Þegar þetta var, hafði Lauga kom-
ið heim fyrir nokkrum árum eftir
skólavist niðri á Borgarfirði hjá
móðurbróður sínum Þorsteini M.
Jónssyni. Nokkrum árum seinna fór
hún í Kennaraskólann og að námi
loknu gerðist hún kennari heima í
sveitinni. Ég bar gæfu til þess að
njóta tilsagnar hennar til fullnaðar-
prófs.
En hrammur örlaganna slær blint
og vægðarlaust. Þetta ár (1926)
kvaddi sorgin dyra. Anna, móðir
Utnyröingsstöðum, Vallahreppi
veröur níræö í dag (4/10)
Laugu, og elsta dóttirin, Ólína, dóu
úr lungnabólgu sama árið. Anna frá
börnum í æsku, Þorsteini og Sigríði,
og Ólína frá kornungum börnum,
annað nýfætt. Næsta ár deyr Jónína,
næstyngsta systirin, úr heilabólgu
frá fimm mánaða gömlum syni.
Eftir þriggja ára starf rauf Lauga
kennaraferil sinn, gerðist bústýra
hjá föður sínum og gekk börnunum
í móður stað. Þá fór kreppan í hönd
og fólk hafði ekki úr miklu að spila,
hvorki til sjávar né sveita. Það voru
helst embættislaun manna sem
hömluðu gegn þessu hruni, en Lauga
lagði örugg laun auk starfsferils síns
í sölurnar til þess að sjá móðurlaus-
um systursonum sínum, Jóni og
Sigurði, farborða. Yngra barn Ólínu
var Auður, sem heiðurshjónin
Guðrún og Nikulás á Gunnlaugs-
stöðum tóku nýfædda í fóstur. Hún
miðlaði fóstursonum sínum af gæsku
sinni og ástríki þar til þeir voru
fleygir og færir. Sama var um sonar-
son Ólínu, Jón Þórodd, sem Lauga
fóstraði þar til hann fór í skóla. En
ekki var brunnur ástar hennar þar
með þurrausinn. Þau eru ófá fóstur-
börnin sem hún hefur haft hjá sér
sumar eftir sumar, ýmist nokkur ár
eða allt til þroskaára og farið var út
í lífið og gæfunnar freistað.
Ekki þótti örlaganornunum nóg
að gert þegar mömmu Laugu og
systrum var svipt burt. Lauga mátti
sjá á bak báðum systursonum sínum,
Jóni kornungum og Sigurði fyrir
nokkrum árum. Hún hefur því ekki
farið varhluta af mótlæti og sorg, en
hún hefur hlotið þau laun sem ein
eru nokkurs virði: Hugarró sem
aðeins þeim er unnað sem leggja allt
í sölurnar fyrir lítilmagnann.
Eftir 20 ár gat Lauga hafið kenn-
arastarfið að nýju og vann sem
kennari 16 ár, eða þar til nýr skóli
var reistur á Hallormsstað. Henni
stóð til boða að halda áfram við
þennan nýja og veglega skóla, en
hún sagði að best væri að nýir
starfskraftar tækju við nýjum skóla
og þar við sat.
Sjaldan fellur eplið langt frá eik-
inni. Lauga á ekki langt að sækja
elskulegheitin og umhyggjuna fyrir
öllu sem anda dregur. Ég var svo
hamingjusamur að þekkja foreldra
hennar. Oft var ég sendur patti lítill,
út í Útnyrðingsstaði. Aldrei brá út
af því að Anna gæfi mér ekki
eitthvað gott. Oft skar hún rúg-
brauðssneið af pottbrauði sem hún
hafði bakað í hlóðunum, nýtt smjör
ofan á oggjarnan stráð á púðursykri.
Aldrei hef ég fengið neitt sem jafnast
á við það, svo gott var það. Það var
meiri bókakostur á Útnyrðingsstöð-
um en öðrum bæjum sem ég þekkti
til, enda var Anna svo víðlesin og
menntuð, þrátt fyrir að hún, að
sögn, hafði aldrei dvalið langdvölum
utan heimilisins, að hún var eins og
akademía sveitarinnar. En þess nutu
aðeins þeir sem komu í Útnyrð-
ingsstaði, því hún bar ekki vísdóm
sinn á torg.
Sigurður faðir Laugu var mitt
„ídól“ (átrúnaðargoð). Ég hef aldrei
séð torfbæ og útihús svo snurfunsuð
og fín eins og á Útnyrðingsstöðum.
Þar sat aldrei steinnibba í vegg sem
gæti farið betur. Maður vildi helst
strjúka veggjunum og klappa eins og
fallegri stúlku. Það sást ekki þúfa í
túninu, a.m.k. ekki í sjónmáli.
Einn haustdag sem oftar var pabbi
að aka mykju á hólana heima.
Sigurð bar að garði, hann hafði
skroppið inn eftir einhverra erinda.
Hann greip kvíslina og dreifði úr
nokkrum hlössum. Hann skipti við
og við um hönd og dreifði ýmist til
hægri eða vinstri. Eftir svolitla stund
mátti sjá að geislarnir út frá hverju
hlassi mynduðu reglulegt munstur
yfir allan hólinn. Ég var dolfallinn,
hann var jafnvígur á báðar hendur
þegar hann handlék kvíslina. Þegar
ég var síðar meir í vegavinnu spreytti
ég mig á þessu þegar ég kastaði
sniddu. Ég varð aldrei jafnvígur og
engan hef ég séð leika þetta eftir,
enda fór saman, hjá Sigurði, leikni
og vaxtarlag, því hann var rennilegur
á vöxt og samsvaraði sér vel. Það var
samvinna og mikill vinskapur milli
heimilanná. Ég man að pabbi tók til
þess hvað Sigurður væri myndarleg-
ur þegar hann var kominn í spariföt-
in.
Ég óska kærustunni minni innilega
til hamingju á þessum merkisdegi.
Flestir kveinka sér þegar þeir ná svo
háum aldri, en ég held að það séu til
undantekningar: Konurmeðsterkan
vilja. Tvær viljasterkar konur hafa
verið ríkjandi í lífi mínu. Önnur var
til hægri við mig í draumnum sem ég
sagði í upphafi þessa greinarkorns.
Það var hjartagæskan. Hin var til
vinstri. Það var intellektið. Allt í
einu voru þær horfnar, önnur út úr
tilverunni, hin í ómælanlega
fjarlægð. Ég var einn. Yfir okkur
hvíldi húm hins háa aldurs. Megir
þú, unnustan mín, þola hann betur
en ég mun sjálfur gera.
Einar Vigfússon
Tónleikar í HAFNARBORG
í kvöld, miðvikudaginn 4. október, kl.
20:30 heldur austurþýski píanóleikarinn
Elfrun Gabriel tónleika í Hafnarborg,
menningar- og listastofnun Hafnarfjarð-
ar.
Elfrun Gabriel kom fyrst fram sem
einleikari með hljómsveit aðeins 14 ára
gömul. Hún stundaði nám í píanóleik við
Felix Mendelssohn Bartholdy tónlistar-
skólann í Leipzig, hjá prófessor Pavel
Serebryakov í Leningrad og prófessor
Halina Czemy-Stefanska í Cracow. Á
námsárunum hlaut hún tónlistarverðlaun
sem kennd eru við Carl Maria von Weber.
Elfrun Gabriel hefur leikið einleik með
þekktustu hljómsveitunum í heimalandi
sínu og farið í tónleikaferðir um Mið- og
Austur-Evrópu, einnig til Danmerkur,
Svíþjóðar, Noregs og Islands.
Efnisskrá tónleikanna er fjölbreytt.
Frá Félagi eldri borgara
Opið hús á fimmtud. 5. okt. f Goðheim-
um, Sigtúni 3. Kl. 14:00 er frjáls spila-
mennska, kl. 19:00 félagsvist, heilt kort,
og kl. 21:00 verður dansað.
KFUM og KFUK heQa vetrarstarfið:
Nýtt félagsheimili
vígt í Hólahverfi
KFUM og KFUK í Reykjavík eru um
þessar mundir að hefja vetrarstarf sitt og
taka jafnframt í notkun nýtt félagsheimili
að Suðurhólum 35 í Hólahverfi í Efra-
Breiðholti. Nýja félagsheimilið verður
vígt laugard. 7. okt. kl. 14:00.
Húsið er hæð og kjallari og þar er góð
aðstaða til félagsstarfs. f athugun er að
starfrækja þar tómstundaheimili fyrir
skólabörn, þar sem þau gætu dvalið hluta
úr degi.
Bama- og unglingadeildir KFUM og
KFUK eru að hefja starfsemi vetrarins. I
vetur verður æskulýðsstarf í félagshúsinu
við Amtmannsstíg í síðasta sinn, því
húsið hefur verið selt til afnota fyrir
Menntaskólann í Reykjavík. Auk þess
verður starf í félagsheimilinum að Langa-
gerði 1, við Holtaveg á móti Langholts-
skóla, að Hlaðbæ 2 í Árbæjarhverfi, við
Maríubakka í Breiðholti, í Seljakirkju í
Seljahverfi og að Suðurhólum 35. f Kópa-
vogi að Lyngheiði 21, í Garðabæ í
Kirkjuhvoli, í Hafnarfirði að Hverfisgötu
15, í Keflavík að Hátúni 36, í Sandgerði
í grunnskólanum, á Akranesi að Garða-
braut 1 og á Akureyri í félagsheimilinu í
Sunnuhlíð og í Lundaskóla.
KFUM og KFUK kynna æskulýðsstarf-
ið með því að senda bömum og ungling-
um bréf, þar sem þeim er boðið á fundi
félaganna á hinum ýmsu starfsstöðvum.
Ekki ná slík bréf til allra og því em nánari
upplýsingar að fá á aðalskrifstofu félag-
anna að Amtmannsstíg 2B í síma 13437.
MINNING
Jónína Guðmundsdóttir
Fædd 25. descmber 1890
Látin 24. september 1989
Höfðingskona í hversdagsklæð-
um, hlý í sinni, mild og skýr.
Þctta er ramminn um þær
minningar, sem ég geymi um móð-
ursystur mína, Jónínu Guðmunds-
dóttur, sem nú hefur lokið löngu
æviskeiði, vantaði eitt ár og þrjá
mánuði í hundrað, er hún lést í
svefni á Fjórðungssjúkrahúsi Ak-
urcyrar.
í þeim ramma, er fyrr getur, af
þessari góðu frænku minni er þó
Iíklega sú hugljúfust, þar sem hún,
ung stúlka, hampar nær ómálga
smásveini og stígur með hann dans-
spor á baðstofugólfinu á Egilsá, en
móðir mín stendur hjá og þær
hlæja og skrafa. Allt frá þcssu
óljósa Ijósleiftri í frumbernsku
minni hefur þessi hjartahlýja og á
margan hátt mikilhæfa frænka mín
verið mér sem önnur móðir og
innilegar voru bænirnar í hvert
skipti, sem við kvöddumst, einkum
þó síðari árin, þegar hún fann að
vistaskiptin nálguðust.
Foreldrar Jónínu voru hjónin
Lilja Gunnlaugsdóttir frá Nýjabæ í
Hörgárdal og Guðmundur Jónsson
frá Myrká. í þessum ættum er
margt dugmikið kjarnafólk ýmis-
legrar gerðar. Þar eru búþegnar
margir en einnig frjálslyndir heims-
menn, sem lítt sáust fyrir um
fjárhyggju en oftast hjálpsamir svo
varla máttu aumt sjá, enn fremur
skáld og bóksýslumenn í framætt-
um.
í eyfirskum byggðum sleit Jón-
ína barnsskóm sínum við fátækt en
ekki sult. Fremur ung að árum
barst hún til Skagafjarðar og þar
dvaldi hún öll sín bestu manndóms-
ár. Hún giftist Hirti Jónassyni,
albróður Hallgríms kennara og
rithöfundar og Ólínu skáldkonu.
Ekki var þar heldur auður fyrir á
veraldarvísu, þó voru þessi hjón
ávallt veitandi og á vissan hátt rík.
Eftir að vinnumennsku lauk,
bjuggu þau á fjórum jörðum í
Akrahreppi og þó að á einni væru
húsakynni með þeim hætti, að
næstum þurftu menn að skjóta sér
á ská eftir bæjargöngum og bað-
stofa litlu meira en tvö stafgólf, var
ævinlega hlýja og hjartarúm nóg,
því veisla og oftast menningarlegt
tal íbland, þegar inn var komið.
Oftast voru bækur í hillu eða
rúmshorni í góðum félagsskap við
prjóna, kamba og rokk. Þarna var
þessi notalegi heimilisylur, sem
einkenndi íslensk sveitaheimili af
betri gerð. Oftast var talsvert
margt fólk í heimili auk dvalargesta
um lengri eða skemmri tíma. Gam-
alt fólk, farið að kröftum, átti þar
oft skjól allt til endadægurs. Þar á
meðal foreldrar Jónínu. Oft var
gestkvæmt á heimili þeirra hjóna,
enda hvarvetna vel látin, og vin-
sældir nágranna brugðust þeim
aldrei, hvar sem voru. Hógvær en
laundrjúg gamansemi húsbóndans
og opinská glaðværð húsfreyju
kom öllum í gott skap. Á þessu
heimili var rætt um bækur, sagðar
sögur, lesið upphátt á kvöldvökum
og farið með ljóð.
Bæði voru þau hjón unnendur
gróanda lífs og fegurðar, þótti vænt
um skepnur sínar og fóru vel með.
Því var bú þ'eirra gagnsamt, þó
aldrei væri mjög stórt. Smám saman
rýmkaðist því efnahagurinn, einkum
þó eftir að sonurinn komst upp,
gerðist dugandi ráðdeildarmaður og
giftist ágætri konu, Svanhildi Sæ-
mundardóttur. Árið 1948 yfirgaf
fjölskyldan skagfirskar byggðir og
keypti Ytri-Brennihól í Kræklinga-
hlíð. Eftir það töldust gömlu hjónin
ekki fyrir búi. Þarna bjó fjölskyldan
við allgóðan hag í tuttugu og fimm
ár, en þá lá leiðin til Akureyrar, þar
sem sonurinn og tengdadóttirin búa
enn.
Börn þeirra Hjartar og Jónínu
voru tvö: Jónasína Þórey og Frið-
finnur Kristján. Dóttirin féll fyrir
hvíta dauðanum eftir langt og erfitt
sjúkdómsstríð. Þetta var ákaflega
þungt áfall fyrir frænku og eins og
oft vill verða um góðar og ástríkar
mæður, sem leggja eigið líf að veði
fyrir líf barna sinna, mun henni í
fyrstu hafa fundist sem allt væri
misst, þótt hún bæri harm sinn í
hljóði og héldi reisn sinni sem fyrr,
enda trúkona mikil og bjartsýni og
eðlislæg lífsorka í blóð borin.
Nú er langri lífsgöngu þessarar
konu lokið og þó margt élið hafi
gengið yfir, finnst mér þó hún hafi
verið hamingjubarn um margt. Eins
og allir góðir íslendingar var hún á
einhvern hátt samofin íslenskri nátt-
úru og alls þess, sem þjóðlegt er. í
vöggugjöf hlaut hún góða greind og
minnisgáfu, sem entist henni með
ólíkindum allt framundir níutíu og
fimm ára aldurinn. Hún hafði lesið
talsvert og kunni góð skil á ættfræði,
fólki og atburðum fyrri tíðar. Hún
var heilsuhraust og sívinnandi fram
í háa elli, gaf sér þó ávallt nokkurn
tíma til bóklesturs, sem raunar var
sá eini munaður er hún veitti sér um
dagana.
Þótt ekki væri Jónína Guðmunds-
dóttir há kona vexti, var yfir öllu
hennar fasi einhver reisn, sem vakti
athygli. Henni fylgdi jafnan ferskur
og hressandi andvari, hvar sem fór.
Þótt Jónína missti eiginmann sinn
fyrir allmörgum árum, lifði hún
lengi í farsælu hjónabandi og var alla
stund vinmörg. Mesta hamingjan
var þó trúlega að fá að dveljast
meðal fjölskyldu á heimili sonar og
tengdadóttur, sem varð henni sann-
ur viqur og sálufélagi um margra ára
skeið, því ekki dvaldi gamla konan .
nema rúmt missiri á sjúkrahúsi. Eitt
er þó ótalið og vegur líklega nokkuð
þungt. Mér fannst frænka kunna að
safna sólskinsstundum lífsins í sjóð.
Þann sjóð minninga nær engin geng-
isskráning að verðfella.
Loks þakka ég þér bænirnar þínar,
frænka mín góð, ásamt allri þinni
móðurlegu umhyggju og fel þig ljós-
inu eilífa og bið þér blessunar Guðs
á nýjum vegum. Ég veit, að þín bíða
vinir í varpa.
Guðmundur L.
Friðfinnsson.