Lesbók Morgunblaðsins - 29.04.2006, Síða 16

Lesbók Morgunblaðsins - 29.04.2006, Síða 16
16 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 29. apríl 2006 S ú hugsun verður æ áleitnari að við séum að færast aftur á 19. öldina. Fyrir nokkru hitti ég konu sem sagði farir sínar ekki sléttar. Hún vinnur í fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu og ég tók eftir að hún hafði lagt mikið af. Skýr- ingin var sú að yfirmenn hennar hlaða á hana vinnu og hún þorir ekki að neita af ótta við að missa starfið. Hún var bók- staflega að vinna sér til húðar. Í þjóðfélagi þar sem óöryggi starfsfólks er svo mikið að það hættir jafnvel heilsu sinni fyrir yfirboðara sína, þar er lýðræðið ekki virkt. Nýlega sá ég kvikmyndina V for Vendetta í bíói. Þar var England orðið einræðisríki. Allt var eins og í dag nema stjórnarfarið hafði færst í það horf sem elur af sér tóman hrylling. Á skjám landsmanna birtist ein- valdurinn og bar lygar og blekkingar á borð fyrir þá. Hann krafðist auðvitað skilyrð- islausrar hlýðni. Í skjóli valdsins höfðu stjórnvöld unnið mikil ódæði, en kenndu andófsmönnum um og ofsóttu þá miskunn- arlaust. Þessi mynd er dálítið merkileg. Hún er í senn ævintýraleg og raunsönn og í henni er bent á þá hættu sem þegar er orð- in sýnileg í vestrænum samfélögum, þ.e. til- hneiginguna til gerræðislegra stjórnarhátta. Athygli mína vakti að hetjan sem leysir landslýð úr dróma deyfðar og vanþekkingar sver sig í ætt við karakter frá 19. öldinni, siðfágaðan hugsjónamann sem jafnframt kann skil á ofurkrafti tæknilegra hermd- arverka. Þannig endurspeglar 19. öldin bæði gott og illt fyrir okkar tækniöld; í henni var við lýði grimmileg áþján verkafólks í ört vaxandi iðnaðarsamfélagi, en jafnframt mestu hugsjónir mannsandans. Þær leiddu síðan til stórfelldra lýðréttinda á Vestur- löndum, langt fram á 20. öldina. Í byrjun þessarar aldar virðist eiga að senda það allt til baka, eða hvað? Tilfinningagreind í stað hörku Harka er ekki vænleg aðferð í stjórnun. Rannsóknir sem stundaðar hafa verið und- anfarið sýna að það eru einmitt andstæðir eiginleikar í fari stjórnanda sem gera hann að mikilhæfum leiðtoga. Þar kemur til fyrst og fremst tilfinningagreind: að geta hlustað á aðra og metið heildarmyndina rétt. Þar er lykilorðið: félagsleg færni. Óhætt er að fullyrða að stjórnandi sem beitir mikilli hörku (ruthless action) sé að flestu leyti skaðlegur. Í versta falli geta að- gerðir hans leitt til fullkomlega fjar- stæðukennds ástands. Í einkareknu fyr- irtæki tæki slíkur stjórnandi þá áhættu að eyðileggja starfsemina og kollvarpa fyr- irtækinu. Jafnvel þar yrði stjórnandinn að gæta ýtrustu varfærni og „leggja líkn með þraut“ ef hann hygðist framkvæma stór- felldar breytingar á rekstri fyrirtækisins. Aðeins þannig yrði blóðtakan ekki rekstr- inum ofviða. Sama gildir ef í hlut á ríkisstofnun, nema þar er stjórnandinn í skjóli stjórnvalda landsins. Ef eitthvað er ber stjórnandanum þar að sýna enn meiri aðgæslu í athöfnum sínum. Í menningarstofnun á borð við Landsbókasafnið, sem geymir verðmæti margra alda, er samfellan í starfi óslitin og má ekki rofna. Það viðhorf að gera sér mat úr gömlum dýrgripum án þess að hirða um núlifandi verðmæti er rustaháttur sem leiðir á endanum til glötunar allra verðmæta. En kannski „nútímalegir“ stjórnendur hugsi sem svo að sýna megi starfsfólkinu hörku ef maður hefur bakhjarlinn til þess og þarf ekki sjálfur að taka neina fjárhagslega áhættu? Ef svo er eiga ríkisstarfsmenn þess engan kost að vera með múður ef þeir vilja halda starfi sínu, enda eiga þeir í mörgum tilfellum ekki í önnur hús að venda þar sem þeir vinna oft sérhæfðustu störfin í sinni grein. Þeir verða þá að sæta fullkominni undirokun. En í því ríki þar sem undirmenn þora ekki að bera fram gagnrýni, hvorki í þögn né heyranda hljóði, þar er ekki lýð- ræði. Nafn tækninnar Fyrir Landsbókasafn-Háskólabókasafn urðu skipulagsbreytingarnar árið 2003 mikil blóð- taka. Þá flæmdust burt ýmsir yfirmenn og starfsfólk sem lengi hafði starfað við stofn- unina og öðlast mikla reynslu í starfi sínu. Allt í einu var sú reynsla ekki nógu góð og þeir starfsmenn ekki lengur æskilegir þar innandyra. Meðal þeirra sem látnir voru fara var for- stöðumaður handritadeildar, Ögmundur Helgason, sem nú er látinn. Ég minnist þess hve tilhlökkun hans og eftirvænting var mikil á sínum tíma, eins og margra annarra á Landsbókasafni, þegar safnið flutti í nýtt og glæsilegt húsnæði í Þjóðarbókhlöðunni. Þá komu menn saman úr tveim fjársveltum stofnunum, Landsbókasafni og Háskóla- bókasafni, og sáu fyrir sér blómlegri tíð með stórum bættri aðstöðu og margvíslega möguleika í starfi. Raunar var því lofað. En fyrir marga brugðust þær vonir hrapallega. Samruni safnanna heppnaðist ekki sem skyldi og mikil óánægja starfsfólks náði að festa rætur. Við skipulagsbreytingarnar 2003 gafst tækifæri til að bæta úr því, en fyrirætlanir yfirstjórnenda voru á annan veg. Í stað þess að vinna með þeim sem höfðu mikla reynslu og þekkingu á starfsemi þjóðbókasafnsins og háskólabókasafnsins, í eðlilegri samvinnu til að tryggja framþróun á tæknisviði og um leið að gera safnið að bærilegum vinnustað þar sem margvísleg menntun og hæfileikar manna fengju að njóta sín, réð blikandi harður sjálfsmetn- aður yfirstjórnenda. Og ég spyr: Hvernig má það vera að ein- um mesta sérfræðingi landsins í hand- ritafræðum var þröngvað úr stöðu sinni á safninu aðeins fáum árum áður en hann færi á eftirlaun? En þá var honum gefinn kostur á öðru starfi við útgáfumál en sú staða síðan lögð niður ári seinna. Allt það ár á enda bjó hann við fullkomna óvissu um afdrif sín því landsbókavörður mælti hann ekki máli. Og nú er enginn þar fyrir sem getur svar- að jafnmörgum spurningum um handrit og bækur fyrri alda og hann gerði af sinni víð- tæku þekkingu, í þessu mesta „rannsókn- arbókasafni“ landsins. Hvað er eiginlega menning? Það er meðal annars vit og mennska, það er alúð, ást og tími, mikill tími. Hvers vegna í ósköpunum samþykkti menntamálaráðherra þessa ráð- stöfun, eða stjórn safnsins? Hvílík regin- heimska, hvílík sóun á verðmætum! Ekkert réttlætir það, ekki sókn eftir tæknilegum framförum (sem hér þýddi stórkostlega aft- urför), ekkert! Það land sem fer hraklega með afburðafólk sitt á sviði menningar verð- skuldar ekki nafngiftina „lýðveldi“. Síðasta athugasemd mín í þessu skrifi varðar gagnagrunn myndefnis úr handritum (við erum enn stödd á handritadeild) sem Ásrún Kristjánsdóttir vann að um nokkurt skeið á safninu, upphaflega í fullu samþykki og með stuðningi fyrrverandi lands- bókavarðar. Henni var síðan vísað á dyr eft- ir að stór hluti gagna hennar „hvarf“ spor- laust og skýringarlaust og henni hótað málsókn vegna „óleyfilegrar“ notkunar hennar á efni handritadeildar. Nýverið hef- ur svo núverandi landsbókavörður tilkynnt að safnið ætli að skanna inn handrit sem hafa að geyma þetta sama myndefni. Hvað er hér á seyði? Heyrir þetta undir: „Mission ruthless“? Hefur mennta- málaráðherra lagt blessun sína yfir þetta? Orð sem heitir „lýðræði“ Ofurkraftur „Athygli mína vakti að hetjan sem leysir landslýð úr dróma deyfðar og vanþekkingar sver sig í ætt við karakter frá 19. öldinni, siðfágaðan hugsjónamann sem jafnframt kann skil á ofurkrafti tæknilegra hermdarverka.“ Verkið er eftir Salvador Dalí. „Hvernig má það vera að einum mesta sér- fræðingi landsins í handritafræðum var þröngvað úr stöðu sinni á safninu aðeins fáum árum áður en hann fór á eftirlaun?“ segir í þessari grein sem fjallar um málefni Landsbókasafns-Háskólabókasafns. Eftir Berglindi Gunnarsdóttur Höfundur er bókavörður og rithöfundur.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.