Morgunblaðið - 11.01.2006, Side 41

Morgunblaðið - 11.01.2006, Side 41
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 11. JANÚAR 2006 41 MENNING BREYTINGAR á rótgrónum nöfnum byggðarlaga eru hvim- leiðar og geta tíðum valdið rugl- ingi og vandræðum, ekki síst í söguritun. Í þessari bók er sögð saga byggðarlagsins, sem lengi vel hét Mosfellssveit en nú Mos- fellsbær. Í titli bókarinnar er yngra nafnið notað og sjálfsagt með réttu, ef fullnægja skal öllum formsatriðum, en að minni hyggju hefði farið betur á að nota hið eldra eða reyna að finna eitthvert hlutlaust en lýsandi heiti. Eldra nafnið er mörgum enn tamt á tungu og í bókinni er fjallað um byggðarlagið Mosfellssveit, sem náði yfir mun stærra svæði en nú- verandi Mosfellsbær. Að efni og uppbyggingu er þessi bók næsta dæmigerð byggð- arsaga. Hún hefst við landnám og síðan er saga byggðarlagsins og fólksins er það byggði sögð öld fram af öld, allt fram á okkar daga. Höfuðþættir sögunnar eru raktir í meginmáli frá upphafi til loka en frá ýmsum merk- isatburðum, minnisverðum tíð- indum og sögufrægum ein- staklingum, sem mótað hafa sögu byggðarlagsins eða sett á hana svip með einum eða öðrum hætti, segir í fjölmörgum innskots- og rammagreinum. Þar er einnig að finna ýmislegt smælki og efni sem bætt er inn svo sem til að krydda frásögnina. Margvíslegan fróðleik um menn og málefni er einnig að finna í mörgum og ýtarlegum myndatextum. Mosfellssveitin (ég kýs að nota það heiti) er sögufrægt hérað. Á fyrri öldum skar hún sig lítt úr í hópi byggðarlaga við innanverðan Faxaflóa. Þar bjuggu bændur bú- um sínum, yrktu jörðina, sóttu sjó og nýttu hlunnindi eftir föngum. Á 20. öld varð hins vegar tíðinda- samt í sveitinni og þá varð saga hennar um margt einstök. Nýting jarðvarma til ræktunar hófst þar fyrr og varð um hríð meiri en víð- ast hvar annars staðar, iðnaði í stórum stíl var komið á fót á Ála- fossi, stórbúskapur að útlendum hætti var rekinn á Korpúlfs- stöðum og skömmu fyrir miðja öldina var tekið að hita hús í höf- uðstaðnum með heitu vatni sem dælt var upp úr jörð- inni í Mosfellssveit og síðan áfram til borg- arinnar. Aðeins litlu síðar hófst rekstur vinnuheimilisins á Reykjalundi en stofn- un þess og starfsemi er eitt farsælasta og mesta ævintýri í ís- lenskri heilbrigð- issögu. Af öllum þessum þáttum og mörgum fleiri er mikil saga sem bókarhöfundar segja með ágætum. Þeir greina einnig frá fjölmörgum ein- staklingum, háum sem lágum, bregða upp skemmtilegum svip- myndum af mörgum þeirra og lýsa starfsferli. Margir koma oft við sögu en þó virðist mér sem enginn sé jafnoft til sögu nefndur og nóbelsskáldið Halldór Kiljan Laxness. Þetta er fróðleg bók, byggð á áralöngum rannsóknum. Enginn efi er á því að Mosfellssveitin hef- ur á 20. öld bæði notið og goldið nábýlisins við höfuðborgina og nú munu margir líta á Mosfellsbæ sem eins konar afleggjara frá Reykjavík enda má segja að byggðin í þessum tveimur sveit- arfélögum hafi vaxið saman á undanförnum árum. Engu að síð- ur á Mosfellssveit (og Mosfells- bær) sér sögu sem er um margt sérstök og forvitnileg og ágætlega sögð á þessari myndarlegu bók. Sveitin varð bær BÆKUR Sagnfræði Bjarki Bjarnason og Magnús Guðmundsson. Pjaxi ehf. (án útgáfustaðar), 2005. 504 bls., myndir. Mosfellsbær. Saga byggðar í 1100 ár Jón Þ. Þór Bjarki Bjarnason Magnús Guðmundsson SIRRA – Sigrún Sigurðardóttir er ung myndlistarkona sem hefur verið áberandi á samsýningum undanfarin ár, s.s. í Nýlistasafninu, Norræna húsinu, Klink og Bank, Listasafni Ár- nesinga, svo dæmi séu nefnd. Í kjall- ara Kling & Bang gallerís stendur nú yfir einkasýning Sirru sem nefnist „Hreyfingar“. Þetta er tvískipt inn- setning sem þó kallast á í listrýminu. Á hægri hönd við innganginn er fáni sem blaktir í vindi. Skjávarpi varpar svo skuggamynd fánans á vegg ásamt myndskeiði sem sýnir aðra skugga- mynd af fána sem blaktir úr takti við raunmyndina. Samspilið gefur manni bjagaða mynd af tíma og ýtir undir sjálfstæði hverrar myndar fyrir sig, skuggamyndar, eftirmyndar og raun- myndar. Fáninn sem táknmynd virk- ar á mig sem einskonar landnám listakonunnar. Þ.e. að hún eignar sér listrýmið á meðan sýningin stendur yfir með fána sínum. Myndin á fán- anum sýnir eitt auga. En eitt auga merkir jafnan hið alsjáandi auga eða þriðja augað, tákn andlegs innsæis og þekkingar. Á vinstri hönd við innganginn er innsetningin öllu litríkari. Tölvumynd hreyfist í takt við hvínandi vindinn og gifsfígúra klædd skrautlegum legg- ings-buxum reynir að renna saman við myndskreyttan kassa líkt og strútur í sandi eða kameljón sem samræmir hörund sitt umhverfinu til að „fitta inn“. Verklegur þáttur sýningarinnar er vandaður hjá listakonunni að fígúr- unni undanskilinni. Ég er alls ekki að ætlast til einhvers ofurraunsæis eða þjáningarfullra Rodin-stellinga held- ur kunnáttu til að gæða efnið lífi. En fígúran er stíf, dauð og gervileg og stangast þar af leiðandi á við aðra þætti sýningarinnar sem eru raunsæ- ir og lifandi. Eflaust er hverfandi handverkskennsla í myndlistarnámi hérlendis farin að segja til sín því að sýning Sirru er alls ekki eina tilfellið þar sem að slíkt hefur gerst á síðustu mánuðum eða árum. Meiri áhersla er lögð á rýmið sjálft og þar blómstrar Sirra svo sannarlega. Allt herbergið iðar, togast og teygist, og þótt vel megi lesa í tákn til að seðja forvitni huga manns þá er sýningin fyrst og fremst skynræns eðlis. Kraftmiklar hreyfingar með hljóði, myndum og vindum sem hrífa mann með sér þannig að rýmið þenst útfyrir hlut- lægan ramma sinn. Innvortis jafnt sem útvortis. Með myndum og vindum MYNDLIST Kling & Bang gallerí Opið fimmtudaga til sunnudaga frá 14–18. Sýningu lýkur 22. janúar. Sirra – Sigrún Sigurðardóttir Hreyfingar Sirru Sigrúnar Sigurð- ardóttur í Kling & Bang galleríi. Jón B.K. Ransu

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.