Morgunblaðið - 12.02.2006, Page 19

Morgunblaðið - 12.02.2006, Page 19
En að öllu gríni slepptu, tískan í París er langt frá því að vera munaður á fárra færi. Coco Chanel orðaði þetta eflaust best þegar hún sagði: „Tíska er ekki eitt- hvað sem við klæðumst. Tískuna er að finna í himinblámanum, á götunum, í hug- myndum fólks, lifnaðarháttum okkar og í núinu.“ Þessi orð einkenna einmitt tískuna og lífið í París, einhverri fallegustu borg heims. Árlega flykkjast hingað milljónir ferðamanna og allir finna eitthvað við sitt hæfi. París er suðupottur tísk- unnar, hér varð hún til. Flestir sem sækja sér innblástur til Parísar vita að borgin hefur þann sérstaka hæfileika að geta sífellt endurnýjað sig, hún er aldrei eins og kemur sífellt á óvart. Því fylgir líka sérstök tilfinning að versla í depôt-vente búðum. Sumir fara í Kolaportið og fá sér um leið eina með öllu og kók. Þetta er svipað því en hér svífur fólk um með kampavínsglas í hönd. Búðirnar eru eins og fataskápurinn hennar ömmu, fullar af heimsins fallegustu fötum. Hér er klassískur jakki frá YSL og minkapels frá Jean-Paul Gaultier. Silkikjóll frá Versace hangir á herðatré og yfir honum búi úr ekta minkaskinni. Inn á milli má finna dýra skó frá Jimmy Choo og Louis Vuitton. Christian Dior, Givenchy og Paco Rabane stendur á öðrum fatn- aði. Úrvalið er mikið en það fer í raun eftir því hvað skvísurnar í París hafa viljað losa sig við, tískunni í fyrra og svo hugsanlega misdýrum smekk elskhuganna. Elskar hann þig nógu mikið til að splæsa í fjólubláu Dior-kápuna? Faldir fjársjóðir | Það er freistandi að borga minna fyrir meira. Í depôt-vente- búðum má oft detta niður á vel falda fjársjóði. Stundum eru þó vörurnar mjög dýrar, jafnvel þótt þær kosti aðeins brotabrot af því sem þær hefðu átt að kosta. Síðast þegar ég leit við í depôt-vente-búð upplifði ég þetta. Búðin er ein sú al- vinsælasta í París, nánar tiltekið í rue de Buci-Bourbon í sjötta hverfi. Ég opnaði glerhurðina að þessum ævintýraheimi. Þægileg lykt af gömlum fötum og dýru ilm- vatni tók á móti mér. Hér ægir saman dýrum fatnaði, skóm, fylgihlutum, töskum og fallegum postulínsmunum. Eftir að hafa skannað svæðið á fagmannlegan hátt var ljóst að nokkrir hlutir freistuðu. Til dæmis útsaumaðir, uppháir leðurhanskar frá Jean-Paul Gaultier og flott kápa. Eftir smá umhugsun sá ég að ég myndi aldrei nota þetta. Um það bil sem ég var að ganga út rak ég svo augun í Chanel-tösku úr stungnu leðri. Þessa flottu sem Sienna Miller gekk með allt síðasta sumar. Hún lá þarna í einu horninu, svo vel falin að enginn hafði tekið eftir henni. Hjartað tók nokkra aukakippi og á svipstundu var ég flogin óravegu í huganum. Ætli ég hafi ekki verið sest inn á Café de Flore með töskuna – óaðfinnanlega „chic“! Loks þegar ég rankaði við mér bað ég afgreiðsludömuna um að fá að skoða töskuna betur. Jú, það fór ekkert á milli mála. Þetta var ekta gripur, innan á leðr- inu var greypt með gulli: Chanel. Hún var svolítið snjáð en það gaf henni bara ennþá meiri karakter. Á þessu stigi var ég orðin svo spennt að ég átti bágt með mig. „Combien?“ spurði ég æst. Afgreiðsludaman sneri sér að mér yfirveguð og sagði brosandi; „Þessi er æðisleg og ekki svo dýr, 2.500 evrur.“ (um 190.000 kr.) Svarið kom eins og blaut tuska í andlitið. Ég vissi að taskan kostaði helmingi meira í búðum en mér var sama. Þetta var rán um hábjartan dag. Ef ég léti freistast yrðu svartir tímar framundan. Ég yrði bókstaflega að svelta til að láta enda ná saman. Ég lokaði því glerhurðinni á eftir mér og reyndi að gleyma þessu. Það var erfitt, mér leið eins og ég hefði misst af tækifæri sem kæmi aldrei aftur. Löngu seinna rakst ég eftirlíkingu af sömu tösku. Hún var ekki svipur hjá sjón en kostaði skitnar 12 evrur svo ég keypti hana. Ég setti það ekki fyrir mig, hver ætti svo sem að sjá muninn? Eins og þær frönsku brosti ég bara ef einhver minntist á hvað þetta væri falleg taska. Ég var orðin „chic“. | osiris0904@hotmail.com ✼ Fifty-Fifty, 4 rue Corvetto, 75008 Paris. s: 01 45 61 05 65 ✼ Depôt-Vente de Buci-Bourbon, 6 rue de Bourbon-le-Château, 75006 Paris. s: 01 4634 45 05 ✼ Mouton à cinq Pattes, 138 bd St-Germain, 75006 Paris. s: 01 43 26 49 25 Einn kunninginn átti til dæmis fjórar yfirhafnir frá Dior og tvær frá Chanel. Innandyra er sannkal- aður ævintýraheimur.

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.