Vísbending


Vísbending - 05.10.2009, Blaðsíða 4

Vísbending - 05.10.2009, Blaðsíða 4
4 V í s b e n d i n g • 3 9 . t b l . 2 0 0 9 framhald af bls. 1 Aðrir sálmar Þessa dagana deila menn enn um Icesave. Líf ríkisstjórnarinnar hangir á bláþræði vegna mikillar andstöðu við málið innan raða Vinstri grænna. Auk þess hafa formenn stjórnar- andstöðuflokkanna lýst því að kröfur Breta og Hollendinga séu óásættanlegar. Erfitt er að segja hvað málið snýst um því að á þessum tímum gegnsæis og upplýsingar er ekkert sagt af hálfu ríkisstjórnarinnar um kröfurnar. Allir eru bundnir trúnaði. En eins og málin líta út núna er útlit fyrir að um málið verði rætt á Alþingi fram eftir hausti. Um það þarf ekki að deila að með yfirtöku á lánum Landsbankans er ríkið að taka yfir kröfu á einkafyrirtæki. Íslendingum var stillt upp við vegg og þeir neyddir til þess að taka á sig skuldbindinguna. Sögð er saga af þekktum rithöfundi sem lenti í kvöldverðarboði með hefðarkonu og segir við hana sér til skemmtunar: „Myndirðu sofa hjá mér fyrir tíu þúsund pund?“ og hún svaraði: „Hugsanlega.“ Hann segir þá: „En myndirðu sofa hjá mér fyrir fimm pund?“ Kona brást hin versta við og spurði: „Hvers konar kona heldurðu eiginlega að ég sé?“ og fékk þá svarið: „Ég er búinn að finna út hvernig kona þú ert, nú erum við bara að semja um verðið.“ Íslendingar eru búnir að ákveða að þeir ætli að borga, þeir eiga bara eftir að semja um verðið. En um hvað er deilt? Veit nokkur hvað er líklegt að útaf standi eftir fimmtán ár? Kannski eru menn bara að leika chicken, keyra á fullri ferð á móti Bretum og Hollendingum og sjá hvor hopar. Sagt er að mestar líkur séu á því að ekkert verði eftir af skuldinni. En ef eitthvað verða það tíu milljarðar eða fimmtíu? Ef fimmtíu milljarðar eru núvirtir með 5,55% vöxtum í fimmtán ár koma út 22 milljarðar króna. Ef krónan styrkist um 20% á tímabilinu eru eftir 18 milljarðar. Er það þess virði að tapa mörgum vikum við aðgerðaleysi innanlands, einangra Ísland og lengja kreppuna fyrir þessa fjárhæð? Sama gildir reyndar hjá viðsemjendum okkar. Er ekki rétt að slíðra sverðin þegar svona lítið stendur eftir af 700 milljarða kröfu? Nú þarf stjórnmálamann sem hefur þroska og þor til þess að höggva á hnútinn. bj Ritstjóri og ábyrgðarmaður: Benedikt Jóhannesson Útgefandi: Heimur hf., Borgartúni 23,105 Rvík. Sími: 512 7575. Myndsendir: 561 8646. Net fang: visbending@heimur.is. Prentun: Heimur. Upp lag: 700 eintök. Öll réttindi áskil in. © Ritið má ekki afrita án leyfis út gef anda. Að semja um verðið framhald af bls. 3 Íslendingar eru undir þrýstingi um að greiða, ekki síst frá Norðmönnum og öðrum Norðurlandaþjóðum, sem hafa gengið í lið með AGS um að gerast innheimtumenn fyrir Breta og Hollendinga. Ólíklegt virðist að nokkur lán fáist frá þessum aðilum ef ekki verður gengið frá Icesave fyrst. Hvaða áhrif hefur það að engin lán fást? Þar er helst að leita fyrirmynda af þjóðargjaldþroti Argentínu árið 2001, en Rússar ákváðu líka að hætta að greiða af lánum árið 1998. Reynsla Argentínumanna var eitthvað á þessa leið skv. skýrslu hagfræðinefndar Fulltrúadeildar Bandaríkjanna: Í nóvem- ber árið 2001 var hægt að treysta samn- ingum að mestu leyti, bankainn stæður voru tryggar, allir gátu selt og keypt gjaldeyri að vild og ríkið virti samninga sína við fyrirtæki, meðal annarra útlend fyrirtæki sem höfðu byggt upp nýja atvinnustarfsemi í landinu. Þremur mánuðum síðar voru samningar ekki pappírsins virði, innstæður í bönkum höfðu verið frystar, mönnum var varpað í fangelsi fyrir að kaupa eða selja gjaldeyri á markaðsverði, verð á mörgum vörum var ákveðið af verðlagsnefnd og ríkið hafði brotið samninga sína við erlenda fjárfesta. Sumt af þessu er þegar komið fram hér á landi. Gjaldeyrishöft og sviknir samningar við útlendinga blasa við. Fleira gæti komið fram ef vantraust á bankakerfinu vex. Líklegt er að lánstraust Íslendinga verði lítið erlendis. Til dæmis gætu erlendir birgjar neitað að afgreiða hingað vörur nema gegn staðgreiðslu. Mörg íslensk fyrirtæki urðu fyrir þessu í fyrra og enn eru samskipti erfið við útlenda viðskiptavini. Bankalínur gætu lokast eins og í fyrrahaust. Gjaldeyrishöft gætu fest sig í sessi. Erlendir fjárfestar myndu fyllast vantrausti. Útilokað yrði að fjármagna stórframkvæmdir með lánum. Erfiðleikar gætu skapast við kaup á nauðsynlegum hlutum til viðhalds, ef þeir eru mjög dýrir. Atvinnuleysi jókst mikið í Argentínu, verðbólga varð mikil og gengi pesósins varð varanlega aðeins um þriðjungur af því sem áður var. Lífskjör stórversnuðu og fátækt jókst til muna. Hins vegar er ólíklegt að þetta ástand myndi vara mjög lengi. Ekki liðu mörg ár þangað til Argentína var aftur búin að rétta úr kútnum Hagvöxtur var að meðaltali 8% í fjögur ár eftir fjögur samdráttarár. Allir virðast furðufljótir að gleyma, meira að segja bankar sem hafa tapað. Mjög hefur dregið úr fátækt aftur. Þetta hefur gerst á aðeins sjö til átta árum. Pólitískar afleiðingar? Því er ekki víst að efnahagslegar afleiðingar yrðu mjög miklar til lengdar. En ekki er ólíklegt að pólitískar afleiðingar yrðu talsverðar. Íslendingar hefðu gengið á bak orða Davíðs og Árna um að þeir ætluðu að borga. Með gjaldeyrishöft er Ísland ekki virkur meðlimur í Evrópska efnahagssvæðinu. Kannski yrði landinu vísað þaðan út. Bretland og Holland myndu eflaust leggja sig í líma við að spilla fyrir Íslendingum á öllum sviðum. Bandamönnum Íslendinga myndi enn fækka frá því sem nú er. Líklegt er að landinu yrði stefnt vegna vangoldinna skulda, en það er alls ekki víst að það mál tapaðist, þó að hin afdráttarlausa yfirlýsing frá nóvember sl. og neyðarlögin veiki eflaust varnir Íslendinga. Það er því líklegt að kreppan yrði mun dýpri en ella fyrst um sinn ef Íslendingar borga ekki. Hún myndi eflaust endast í þrjú til fimm ár hið minnsta. Á þeim tíma gætu margir tapað aleigunni, fyrirtæki orðið gjaldþrota og menn flutt úr landi. Hins vegar gæti leiðin upp úr kreppunni verið hröð eftir það erfiða tímabil. Íslendingar stæðu þó eftir með veikan gjaldmiðil og óstöðugan. Á sama hátt getur heilahagfræði aukið skilning á því hvernig fólk tekur ákvarðanir. Í framtíðinni má sjá fyrir sér að rekstrarhagfræðin muni byggja meira á því hvernig menn taka ákvarðanir sem aftur byggja á heilastarfseminni. Þannig má styrkja og endurbæta þann fræðilega grunn sem þegar er fyrir hendi, en heilahagfræðin mun líkast til ekki kollvarpa hugmyndum okkar. Mun hún bæta þau líkön sem eru notuð? Það fer eftir því hvort líkönin sem byggð eru á niðurstöðum heilahagfræðinnar passa betur við raunveruleg gögn en fyrri líkön og hvort sú betrumbót verður nógu mikil til þess að réttlæta meiri kostnað. Rétt eins og lögmál Newtons eru í langflestum tilfellum fullnægjandi fyrir verk- og eðlisfræðinga, gæti verið að hefðbundin hagfræðilíkön eða hegðunarhagfræði verði í flestum tilfellum fullnægjandi fyrir hagfræðinga.

x

Vísbending

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vísbending
https://timarit.is/publication/281

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.