Lesbók Morgunblaðsins - 10.10.2009, Blaðsíða 3

Lesbók Morgunblaðsins - 10.10.2009, Blaðsíða 3
Eftir Einar Fal Ingólfsson efi@mbl.is Þ að þýðir ekkert að tala við mig um Ice- save. Ég er gjörsamlega búinn að fá mig saddan af því. Hef ekkert um það að segja. Hvað eigum við að tala um?“ Ég er kominn heim til Tryggva Ólafssonar úti á Granda. Hann situr við eldhúsborðið með kaffi og kleinur fyrir framan sig og kveikir í smá- vindli með krepptum fingrum. Ég segist vilja ræða um lífið og listina en kveikjan hafi þó verið sú að þrjú hundruð grafíkmyndir eftir hann hafi selst til styrktar Grensásdeildinni. „Ég áritaði hundrað og það seldust þrjú hundruð. Ég þarf að gefa út tvö ný upplög af myndinni. Ég sagði að gaman væri að selja 40, 50 stykki; 300 seldust. Svona verk má gefa út eins og bækur, í nýju upplagi, og það stendur til að gefa út tvö ný upplög.“ – Það er frábær viðbrögð. „Fyrr má nú vera, það mætti halda að ég væri Michael Jackson.“ Tryggvi glottir og spyr síð- an: „Er þér illa við að ég sé að totta vindla? Nei? Eða með kattaofnæmi? Það er lítil kisa hérna. Ég hef þá kenningu að besta anti-stress meðal sem til er sé að klappa ketti. Annars hef ég lifað við þann lúxus um mína daga að ég hef aldrei verið stressaður. Nema kannski í gamla daga út af peningamálum, hvort maður ætti fyrir húsa- leigunni. Þá kom fyrir að ég væri andvaka síð- ustu daga mánaðarins.“ Í nótt var ég svolítið andvaka „Í nótt var ég svolítið andvaka út af grein sem ég las í þessu blaði hérna,“ hann lyftir upp Weekendavisen hinu danska. „Greinin er um rannsóknir á því sem heitir tauga-fagurfræði. Heimspekin er búin að fást við það alla tíð hvað er fagurt og hvers vegna. Það er ægilega flókið mál. Allir þykjast vita hvað er fallegt. Ég hef kynnst 40, 50 hjúkrunarkonum og þær vita allar hvað er fallegt, hvaða buxur passa við hvaða peysu. En það er smekkur – og smekkur er kannski andstæða kúnstarinnar. Nú eru þeir búnir að rannsaka með heilamælingum hvers vegna eitthvað þykir fagurt.“ – Er hægt að afhjúpa það? „Það er ekki hægt,“ svarar hann snöggt. „Í heilanum eru stöðvar eins og þessi sem heitir „amygdala“; það er óútreiknanleg heila- stöð. Þar verða til að mynda til andúð og samúð. Það væri skelfilegt ef hægt væri að staðsetja listræna upplifun í heilanum. Eins og Storm Petersen sagði: Naar det ubevidste blir bevidst, sker det ubevidst.“ Af því ég get ekkert málað „Af því að ég get ekkert málað, vegna þessara fingra,“ segir Tryggvi og grípur með annarri hendi um kreppta fingur hinnar, „þá er ég að lesa og fílósófera. Og reyni svolítið að teikna.“ Fyrir nær þremur árum datt Tryggvi á hnakkann úti í Kaupmannahöfn og efstu hryggjarliðirnir brotnuðu, mænan skaddaðist. „Síðan fá lappirnar á mér og fingurnir vitlaus skilaboð,“ segir hann. „Það er mjög flókið mál að laga. Ég kom heim í júlí í fyrra. Þá var sagt að ég væri eini maðurinn sem væri svo vitlaus að flytja hingað, allir hinir væru að fara.“ Hann glottir. „Ég sagði bara já. Minn stóri lúxus í lífinu er nú sá að skulda ekki krónu. Við frúin fáum dönsk ellilaun og við klárum okkur á því. Svo á ég nokkurn lager af grafíkmyndum sem ég sel alltaf eittvað af.“ – Nærðu ekkert að mála núna? „Fyrst tók ég pillur og þá voru fingurnir held- ur betri. Nú er ég kominn með dælu sem dælir lyfjum í mænuna og eftir að hún var sett í mig í vor hafa puttarnir verið steinrunnir.“ – Er ekki erfitt að geta ekki unnið? „Það er hryllingur, ég fæ martraðir vegna þess.“ Hann hristir höfuðið og reynir að rétta úr löngutöng og baugfingri hægri handar á borð- plötunni. „Ég er búinn að mála svo mikið um dagana að það er líka samviskuspursmál, að gera ekkert. Það er djöfullegt, fer voðalega í taugarnar á mér.“ Tryggvi þagnar, réttir úr fingrum hinnar. Lítur svo á mig og segir: „Annars hafði ég hugs- að mér að við töluðum ekki um tvennt, sjúk- dóma og peninga.“ – Þú sýndir málverk í Gallerí Fold í vor. „Ég gat málað svolítið fram í apríl og þá klár- aði ég myndir hér heima sem voru langt komn- ar. Ég hef djöfulinn ekki gert neitt síðan í maí, nema ég hef teiknað svolítið. Ég teikna alltaf áður en ég mála; í meira en 40 ár hef ég teiknað og grúskað fyrir hádegi og málað eftir hádegi. Ég hef aldrei getað málað á morgnana. En þetta er bara vinna. Ég hef blinda trú á vinnu. Ég sakna þess núna, en þeg- ar maður er búinn að mála á þetta léreft enda- laust, í áratugi, þá er það líka hálfgerð þerapía. Mann vantar þetta daglega nudd. Ég á fleiri hundruð teikningar og úrklippur á lager í möppum, óhemju af hráefni – þeim mun blóðugra er að gera ekkert. Að vera svona hel- víti verklaus. Ég get skorið lauk og svoleiðis, en það er eiginlega allt og sumt.“ – Saknarðu Danmerkur? „Ég sakna Kaupmannahafnar, já … Það geri ég.“ – Hvers saknarðu í Kaupmannahöfn? Tryggvi tekur fram nýjan vindil og horfir á hann. „Til dæmis Glyptoteksins. Það er stór- kostlegt að geta gengið inn af götunni og séð list Rómverja og Grikkja þegar manni sýnist. Ís- lendingar eru svo vitlausir að þeir hafa aldrei haft vit á því að kaupa erlend listaverk. Þeir hefðu getað keypt Rembrandt eftir stríðið en gerðu það aldrei. Þeir keyptu togara í staðinn og kannski var það mjög gott …“ Hann kveikir í vindlinum. „Það er engin ástæða til að tala illa um Ás- grím, Kjarval og Svavar en það væri ómetanlegt að eiga eitthvað af klassískum verkum.“ Jónas Árnason kenndi mér „Jónas Árnason kenndi mér í skóla og eitt sem hann sagði hefur verið hálfgert mottó í mínu lífi, að íslensk menning byggist á því að góð saga er alltaf betri en sönn saga. Skáldskapurinn er grunnurinn.“ – Nær skáldskapur yfir veruleikann í dag? „Mark Twain sagði að munurinn á sannleika og skáldskap væri að skáldskapur yrði að vera trúverðugur! Raunveruleikinn fer alltaf fram úr öllu, en er háður túlkun.“ Tryggvi nuddar aftur fingurna. „Ég er með sífelldan dofa í fingrunum. Á Grensási er ég látinn gera allskonar æfing- ar með fingrunum til að fá fínhreyfingar í gang.“ Hann snýr höndunum fyrir framan sig og horfir á þær. „Þetta er það flóknasta af öllu. Svona hönd er makalaust flókið og fjölhæft tæki,“ segir hann svo, með aðdáun í rómnum. – Það er mikið til af málverkum eftir þig. „Elskan mín, ætli þau séu ekki þúsund eða fleiri. Ég málaði svona 40, 50 á ári í mörg ár. Mér líður best þegar gengur undan mér. Ég get ekki verið með svoleiðis harðlífi að vera í heilt ár að mála eina eða tvær myndir. Ég vil frekar henda mynd og byrja upp á nýtt. Ég hef málað yfir margar myndir um dagana. Ég veit ekki hvort það sé aldurinn, en nú er mér orðið alveg sama hvaða myndefni ég nota. Fyrir mér er allt opið. Ég get fengið hugmyndir í barnaherbergjum og klósettum og alls staðar.“ Margt hefur breyst „Margt hefur breyst hér. Ég fór út til Kaup- mannahafnar 21 árs gamall og kom aftur 68 ára. Þetta eru tvö ólík ríki. Í gamla daga þekkti ég marga sem eru dánir: Vilhjálmur frá Skáholti, Ási í Bæ, Flóki og Jóhannes Geir, allir þessir vinir mínir og fleiri höfðu mikil áhrif á mig. Og ég hef alltaf hugsað til þeirra. Svo kemur maður núna til landsins og þá er fyrirmyndin orðið möppudýr með háskólagráðu sem rænir bank- ana. Að vera útrásarvíkingur og stela sparifé af ensku fólki þótti voða fínt. Þetta er voðalega þreytt lýðveldi. Það sem hefur batnað er hvað Reykjavík og Ísland eru orðin græn. Ég held að fáir menn hafi séð annan eins árangur ævi sinnar og Sig- urður Blöndal og aðrir skógræktarmenn. Þeir hafa gert kraftaverk. Trén ná líka að fela mikið af þessum ljóta arkitektúr í Reykjavík.“ MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 10. OKTÓBER 2009 Lesbók 3MYNDLIST T ryggvi Ólafsson myndlistarmaður gaf á dögunum nýtt grafíkverk eftir sig, í eitt hundrað tölusettum eintökum, til söfnunarátaksins Á rás fyrir Grensás, þar sem safnað var fé fyrir endurhæfingardeild- ina, en þar hefur hann sjálfur verið í end- urhæfingu. Landsmenn höfðu mikinn áhuga á verki Tryggva því upplagið seldist upp og gott betur, alls seldust 300 eintök af verkinu og mun Tryggvi því láta prenta tvö ný upplög. Tryggvi hefur lengi verið vinsæll og virtur listamaður og hefur í gegnum árin sýnt reglulega hér heima, þótt hann hafi um ára- tugaskeið verið búsettur í Kaupmannahöfn. Hann fæddist í Neskaupstað árið 1940, nam við Myndíða- og handlistaskólann og hélt að því búnu til framhaldsnáms í Kaupmanna- höfn. Hann hefur haldið fjölda einkasýninga hér og í Danmörku og tekið þátt í samsýn- ingum víða um lönd. Verk eftir Tryggva má finna í 16 listasöfnum á Norðurlöndum. Árið 2001 var opnað safn með verkum Tryggva í fæðingarbæ hans, Neskaupstað. Þrefalt upplag seldist, 300 verk Tryggvi Ólafsson Ég hef blinda trú á vinnu Morgunblaðið/Einar Falur Málarinn „Íslendingar eru svo vitlausir að þeir hafa aldrei haft vit á því að kaupa erlend listaverk,“ segir Tryggvi. „Þeir keyptu togara í staðinn.“ Tryggvi Ólafsson mynd- listarmaður gaf á dög- unum stórt upplag graf- íkmynda í söfnun fyrir Grensásdeild. Hann er sjálfur í endurhæfingu eftir slys og getur lítið unnið – þess í stað les hann og fílósóferar. Ég er búinn að mála svo mikið um dagana að það er líka samviskuspursmál, að gera ekkert. Það er djöfullegt, fer voðalega í taugarnar á mér.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.