Akranes - 01.08.1947, Blaðsíða 9
Ingimundur gamli og Hrolleifur
inn mikli.
Þið vitið það öll, að sögurnar um for-
feður okkar eru kallaðar Islendingasögur.
Þær segja frá því, þegar forfeðurnir hurfu
frá átthögum sínum í Noregi og víðar,
fluttust til Islands og námu þar land.
Þeir voru harðfengnir menn, aldir upp
við vopnaburð og sjómennsku. Þeir voru
heiðnir og þekktu ekki kristna trú. Samt
voru flestir þeirra drenglyndir menn og
heiðarlegir. En trú þeirra var að mörgu
leyti miskunnarlaus og þeir töldu það yfir-
leitt skyldu sína að hefna grimmilega fyrir
misgerðir.
Þó var þeim ekki öllum þannig farið.
Og nú skal ég segja ykkur sögn af einum
fornmanni, sem ekki vildi, að sin yrði
hefnt.
Maður hét Ingimundur og var kallaður
hinn gamli. Hann var fæddur i Noregi og
var í bardögum, þegar hann var ungur.
Seinna fluttist hann til íslands og nam
land í Vatnsdal í Húnavatnssýslu. Það er
fallegur dalur, gyrtur tigulegum fjöllum.
Bær Ingimundar hét Hof.
Ingimundur varð mikill höfðingi, góður
og friðsamur. Synir hans voru gervilegir
menn, en kappsamir.
Fóstbróðir Ingimundar hét Sæmundur
og átti heima í Skagafirði. Bróðursonur
Sæmundar hét Hrolleifur hinn mikli. Ljót
hét móðir hans. Þau voru bæði mesta
vandræðafólk, en Sæmundur hélt verndar-
hendi yfir Hrolleifi meðan hann sá sér
fært, og gerði hann það vegna frændsem-
innar, en fornmenn voru mjög frænd-
ræknir.
En svo fór að lokum, að Hrolleifur kom
sér svo illa í Skagafirðinum, að hann var
rekinn úr héraðinu. Sæmundur fór þá til
Ingimundar fóstbróður síns og bað hann
taka við þeim mæðginum. Ingimundur var
tregur til, en gat þó ekki neitað fóstbróður
sínum um þetta.
Nú fóru þau að Hofi, en þau komu sér
þar svo illa við heimilisfólkið, sérstaklega
syni Ingimundar, að hann neyddist til að
vísa þeim burt og setti þau niður á næsta
bæ.
Þeir Hrolleifur og synir Ingimundar
stunduðu hvorir tveggja laxveiðar í Vatns-
dalsá. Hrolleifur vildi aldrei þoka fyrir
þeim úr ánni, og þótti þeim það illt.
Eitt sinn komu húskarlar Ingimundar
til árinnar og báðu Hrolleif og rýma fyrir
þeim. Hrolleifur svaraði illu til. Þeir sögðu
akranes
hann gera illa, eins vel og Ingimundur
hefði reynzt honum. Þá varð Hrolleifur
reiður og kastaði steini í einn þeirra, svo
að hann féll í rot.
Húskarlarnir komu heim að Hofi, þegar
aðrir menn sátu að máltíð. Ingimundur
spurði, hvers vegna þeir færu svo óðslega.
Þeir sögðust vera reknir úr ánni með
meiðingum og illum orðum af Hrolleifi.
Jökull Ingimundarson var stórlyndur og
bráður, enda varð hann bálreiður við þessa
frétt. Ingimundur reyndi að stilla hann,
en Jökull hljóp út í skyndi og til árinnar.
Ingimundur bað þá Þorstein elzta son
sinn, að fara með bræðrum sínum, því að
liann treysti honum bezt að stilla til friðar.
En þegar að ánni kom sló i bardaga. Þeir
Jökull og Hrolleifur skiptust fyrst á stór-
yrðum og skömmum og börðust síðan og
börðust bræður Jökuls með honum.
Nú kom maður heim til Hofs hlaupandi
og sagði Ingimundi, að i óefni var komið,
og þeir börðust um ána þvera.
Ingimundur bað að leggja á hest sinn
og kvaðst mundu ríða að ánni. Hann var
þá gamall og nær blindur. Drengur var
látinn fylgja honum. Ingimundur var i
blárri kápu. Drengurinn teymdi hestinn
undir honum, og þegar þeir komu á ár-
bakkann, þá sjá synir hans hann.
Þorsteinn bað bræður sína, einkum
Jökul, að láta undan síga, því að föður
þeirra mundi geðjast illa að bardaganum.
Ingimundur reið fram í ána og mælti:
„Gakk úr ánni, Hrolleifur, og hygg að
hvað þér hæfir.“
Og er Hrolleifur sá hann, skaut hann
til hans spjóti, sem kom á hann miðjan.
Þegar Ingimundur fékk spjótslagið, reið
hann aftur að bakkanum og mælti:
„Þú, sveinn, fylgdu mér heim!“
Hann hitti ekki sonu sína, og er þeir
komu heim var mjög liðið á kvöldið. Og
þegar Ingimundur ætlaði af baki þá mælti
hann:
„Stirður er ég nú, og verðum vér lausir
á fótum hinir gömlu mennirnir.“
Þegar sveinninn tók á móti honum af
hestbaki, sá hann, að spjótið stóð í gegn-
um hann. Ingimundur mælti: „Þú hefir
mér lengi trúr verið, gerðu nú sem ég segi
þér, enda má búast við, að ég biðji þig
ekki um margt eftir þetta.“ Síðan bað
hann sveininn að fara til Hrolleifs og
segja honum hvernig komið væri og skyldi
hann flýja, áður en dagur kæmi, því að
hann teldi víst, að synir hans mundu vilja
hefna sín. „Mín er ekki betur hefnt, þótt
Hrolleifur deyi,“ sagði Ingimundur, enda
kvað hann sér ekki sæma annað en lilífa
honum, úr þvi að hann hefði einu sinni
tekið þennan mann að sér.
Hann braut skaftið af spjótinu og gekk
inn með hjálp sveinsins og settist í öndvegi
sitt og bað að kveikja ekki áður en synir
hans kæmu heim.
Sveinninn gerði eins og fyrir hann var
lagt, þótt ekki væri honum það ljúft, því
að hann unni húsbónda sínum.
Þegar Ingimundarsynir komu heim, var
kveikt ljós, og sást þá að Ingimundur sat
í öndvegi sínu og var dáinn, stóð þar spjót-
ið i gegnum hann.
Þorsteinn Ingimundarson sagði þá:
„. . . . við það megum vér huggast, að
mikill manna munur er orðinn með Hrol-
leifi, og njóta mun faðir minn þess frá
þeim, er sólina hefir skapað og allan heim-
inn, hver sem sá er.“
Svo fór að vísu, að Hrolleifur slapp ekki
við hefnd þeirra Ingimundarsona. Þeir
urðu honum að bana.
En svo göfugur maður var Ingimundur
gamli, hann vildi láta hlífa banamanni
sínum, sem launað hafði honum illa góð
verk. Slíkir menn voru til þá, þótt þeir
væru heiðnir kallaðir.
★
Hvorum megin er brenni-
steinninn?
Geturðu sagt í hvorum endanum á
lokuðum eldspýtnastokk brennisteininn
er? Þú skalt biðja einhvern viðstaddan að
reyna það. Hann má auðvitað ekki opna
stokkinn, svo að hann reynir líklega að
hrista hann eða þreifa á honum. Svo skalt
þú reyna. Þú lætur stokkinn vega salt á
fingurgómi og muntu þá sjá, að annar
endinn er þyngri og leitar fremur niður.
Þeim megin er brennisteinninn.
★
Allur er varinn góður.
Palli reiddist oft við litla bróður sinn
og hætti þá til að vera harðhentur á snáð-
anum. Móðir hans bað hann því að reyna
telja alltaf upp að fimmtíu, þegar hann
reiddist við bróður sinn. Palli lofaði þessu.
Dag nokkurn heyrði hún gauragang
mikinn inni í herbergi bræðranna. Hún
flýtti sér því þangað. Nonni litli lá á gólf-
inu, en Palli sat ofan á honum og hélt
honum rammlega.
„Manstu, hvað ég bað þig að gera, þegar
þú reiddist?“ hrópaði móðirin.
„Ég er að telja,“ svaraði Palli, „og ég sit
ofan á honum, til þess að hann hlaupi
ekki burtu, áður en ég er búinn að telja
upp að fimmtíu.“
★
9Z