Fréttabréf Ættfræðifélagsins - 01.01.1992, Blaðsíða 1

Fréttabréf Ættfræðifélagsins - 01.01.1992, Blaðsíða 1
FRETTABREF ÆTTFRÆÐIFELAGSINS 1. tölublað 10. árgangur. Félagsfundur var haldinn í Ættfræðifélaginu lO.desember 1991 á Hótel Lind. Formaður setti fundinn og stjórnaði honum. Ræðumaður var Inga Huld Hákonardóttir, sem vinnur að yfirlitsriti þar sem lýst er á breiðum grundvelli opinberum viðhorfum til hjónabanda, ástamála og barneigna frá þjóðveldisöld fram undir okkar tíma með Stóradóm í brennipunkti. Hún rakti nokkrar sögur um meinleg örlög frá fyrri öldum. Meðal annars sagði hún frá frægu sifjaspellamáli sem leiddi til aftöku Þórdísar Halldórsdóttur, Sólheimum í Sæmundarhlíð í Skagafirði. Hún ól barn árið 1608 og hélt því fram fullum fetum að það væri eingetið, enda hafði hún fáum mánuðum áður svarið opinberan eið að því að hún væri ósnortin af nokkrum karlmanni. Þórdís var ógift og bjó hjá systur sinni Bergljótu og manni hennar, Tómasi Böðvarssyni, í Sæmundarhlíð. Voru þær systur skyldar og tengdar helsta fyrirfólki landsins. Málarekstur stóð í tíu ár, en loks komst upp að Þórdís hafði átt barnið með systurmanni sínum. Hann flúði land, en Þórdís var ein af fyrstu konunum sem endaði líf sitt á botni Drekkingarhyls. Einnig sagði hún frá Þórði Vídalín og kvennamálum hans. Þórður var bróðir ræðuskörungsins Jóns Vídalíns, og skólameistari í Skálholti, hámenntaður í ýmsum greinum, en vegna drykkju hrökklaðist hann austur í Hornafjörð. Hann gekk aldrei í hjónaband, en ýmsar konur kenndu honum börn. Tregur var hann að meðganga, ýmist sór fyrir börnin eða hummaði málin fram af sér. Því fór sem fór fyrir Helgu Magnúsdóttur frá Þórólfsdal í Lóni. Hún var ráðskona hjá Þórði sem var fimmtán árum eldri en hún og miklu menntaðri, sigldur og heimsvanur. Þegar hún varð barnshafandi af hans völdum fór gamanið að grána. Svo virðist sem hann hafi ekki viljað styðja hana í einu né neinu. Hún ákvað að leyna fæðingunni og bera barnið út, án þess að nokkur fengi um það að vita. Þetta játaði hún á héraðsþingi að Holtum í Hornafirði 31. maí 1709, og var henni drekkt á Alþingi sama sumar. Enginn veit hvað Þórður hafðist að á meðan barnsmóðir hans tók síðustu andköfin í hrollköldu vatninu. Máski sat hann í hlýjunni heima á bæ sínum í Skaftafellssýslu og saup á strandreknu koníaki sér til hugarléttis. Formaður þakkaði fyrirlesara, og í kaffihléi spunnust fjörugar umræður um efnið. ÆTTFRÆÐIFÉLAGIÐ ÓSKAR FÉLÖGUM SÍNUM ÁRS OG FRIÐAR.

x

Fréttabréf Ættfræðifélagsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttabréf Ættfræðifélagsins
https://timarit.is/publication/885

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.