Barnablaðið - 25.05.2013, Page 4
BARNABLAÐIÐ4
Leikhópurinn Lotta stígur nú á grasgrænt svið í sjöunda
sinn með sýninguna Gilitrutt en þau frumsýndu sýningu
sína miðvikudaginn síðasta í Elliðaárdalnum. Hægt er
að fylgjast með komandi sýningum á heimasíðu hópsins
leikhopurinnlotta.is eða á fésbókarsíðu þeirra. Gott er
að kíkja aðeins á veðurspána og klæða sig eftir veðri
áður en haldið er á leiksýningar hjá Lottu þar sem allar
sýningar eru sýndar úti. Barnablaðið fór á stjá og hitti
þrjá leikara úr sýningunni, þau Andreu Ösp Karlsdóttur
sem leikur Klaufa-Bárð, Sigstein Sigurbergsson sem
leikur Gilitrutt og Rósu Ásgeirsdóttur sem leikur bæði
geitamömmu og Þóru vinkonu hennar Búkollu.
Nú blandast þrjú ævintýri svolítið saman hjá ykkur, Gilitrutt, Búkolla og
Geiturnar þrjár. Hvernig ákveðið þið hvaða sögur þið ætlið að taka fyrir í
leikritum ykkar?
Sigsteinn: „Það er alltaf undirliggjandi tröllaþörf hjá okkur. Okkur langaði að
taka fyrir íslenskar þjóðsögur í ár og fjarlægja okkur svolítið frá dæmigerðum
Disney-ævintýrum. Eftir margar yfirlegustundir urðu síðan þessi ævintýri fyrir
valinu.“
En hvernig ákveðið þið hver á að leika hvað?
Sigsteinn: „Það er leikstjórinn sem ákveður það, Ágústa Skúladóttir. Hún
leikstýrir okkur í ár og gerði það líka í fyrra. “
Rósa: „Hlutverkin í ár komu samt mjög á óvart. “
Sigsteinn: „Já, öllu var snúið á hvolf. Bárður er leikinn af konu og Gilitrutt og
húsfreyjan af karli. “
Voruð þið spennt fyrir tröllasögum þegar þið voruð börn?
Rósa: „Ég átti tröllabók þegar ég var lítil og man vel eftir henni.“
Andrea: „Ég hafði rosalega gaman af tröllasögum og las mikið af þeim.
Ég ferðaðist mikið um landið með foreldrum mínum og þau lásu mikið af
þjóðsögum fyrir mig og ég hafði svo gaman af því að ímynda mér að einhverj-
ir klettar hefðu verið einhver ákveðin tröll úr þessum sögum. Svo var ég líka
stundum að búa til sögur með vinum mínum í kringum skrítna kletta sem ég
sá. “
Sigsteinn: „Ég fékk tröllasögurnar frá afa mínum, maður lá oft í sófanum hjá
afa og hann sagði manni sögur af tröllum og alls konar skrítnum fyrirbær-
um.“
Finnst ykkur aldrei ósniðugt að vera með útileikhús?
Sigsteinn: „Stundum er þetta algjör bilun en yfirleitt er þetta eintóm gleði.
Við lendum stundum í því á sömu sýningunni að fá sól, rigningu og snjókomu,
allt á sama klukkutímanum. Þá stundum hugsar maður; Ji minn eini hvað
er maður að pæla en það er svo sjaldan. Svo koma stundum stormar og
þá gerum við gott úr þessu. Við sýnum í öllum veðrum. Rigning er til dæmis
ekkert mál, við bara blotnum en versti óvinur okkar er rokið. Ef það er mikið
rok þá týnast leikmunirnir okkar, þeir fjúka út í skóg og við finnum þá ekki.“
Verður ykkur aldrei kalt?
Rósa: „Stundum fyrir sýningu en um leið og við stígum inn á sviðið gleymist
það. Maður hefur um svo mikið annað að hugsa.“
Sigsteinn: „Við lentum einu sinni í því á Bolungarvík þegar við vorum að leika
í Mjallhvíti þá sýndum við í tveimur gráðum. Fólk mætti og horfði á í kraftgöll-
um. Þá fengum við næstum kul en þegar við fórum inn á sviðið fór einhver
innri hitapumpa í gang.“
Ef þið væruð tröllskessur hvað mynduð þið vilja heita?
Rósa: „Kannski Graslaug.“
Andrea: „Geirþrúður, það verður samt að vera eitthvað sem tröllanafnanefnd
samþykkir. Ekki eitthvað sem mannanafnanefnd samþykkir.“
Sigsteinn: „Ég myndi vilja heita Trunti.“
Er Gilitrutt vond?
Sigsteinn: „Já, Gilitrutt er vond og ljót og ógeðslega skítug en inn við beinið
þá er hún drottning. Svolítil dramadrottning en hana langar rosalega mikið að
vera fræg.“
Andrea: „Hún er alltaf rosalega góð við Bárð en hún er alltaf að halda því
fram að hún eigi að vera vond og gera eitthvað vont en svo er hún í raun
góð.“
Sigsteinn: „Já, innst inni er hún góð. Hitt er meira til að sýna sig og standa
undir nafni.“
Gilitrutt
Einu sinni bjó ungur bóndi austur undir Eyjafjöllum. Hann var
ákafamaður mikill og starfsamur. Þar var sauðganga góð, sem
hann var, og átti bóndi margt fé. Hann var nýkvæntur, þegar þessi
saga gjörðist. Kona hans var ung, en duglaus og dáðlaus. Hún
nennti ekkert að gjöra og skipti sér lítið af búinu. Þetta líkaði bónda
mjög illa, en gat þó ekki að gjört. Eitt haust fékk hann henni ull
mikla og bað hana að vinna hana til vaðmála um veturinn, en
konan tók ekki líflega undir það. Leið svo fram á vetur, að konan
tók ekki á ullinni, og ámálgaði þó bóndi það oft.
Einu sinni kemur kerling ein heldur stórskorin til konunnar og bað
hana að greiða eitthvað fyrir sér. „Geturðu unnið nokkuð fyrir mig í
staðinn?“ segir konan. „Til er það,“ segir kerling, „eða hvað á ég að
vinna?“ „Ull til vaðmála,“ segir konan. „Fáðu mér hana þá,“ segir
kerling. Konan tekur þá ákaflega stóran ullarpoka og fær henni.
Kerling tekur við sekknum, snarar honum á bak sér og segir: „Ég
skal koma með voðina á sumardaginn fyrsta.“ „Hvað viltu hafa í
kaup?“ segir konan. „Það er nú ekki mikið,“ segir kerling; „þú skalt
segja mér nafn mitt í þriðju gátu, og erum við þá sáttar.“ Konan játti
því, og fer nú kerling burtu.
Líður nú fram veturinn, og spyr bóndi hana oft, hvar ullin sé. Hún
segir hann það engu skipta, en hann skuli fá hana á sumardaginn
fyrsta. Bóndi lét sér fátt um finnast, og líður nú fram á útmánuði.
Þá fer konan að hugsa um nafn kerlingar, en sér nú engin ráð til
að komast eftir því. Varð hún nú áhyggjufull og hugsjúk af þessu.
Bóndi sér, að henni er brugðið, og bað hana segja sér, hvað að
henni gangi. Hún sagði honum þá upp alla sögu. Var þá bóndi
hræddur og segir, að nú hafi hún illa gjört, því þetta muni tröll vera,
sem ætli að taka hana.
Einu sinni seinna varð bónda gengið upp undir fjallið, og kom
hann á grjóthól einn stóran. Hann var að hugsa um raunir sínar og
vissi varla af sér. Þá heyrist honum högg í hólnum. Hann gengur
á hljóðið og kemur að smugu einni. Sér hann þá, hvar kona ein
heldur stórvaxin situr að vef. Hefur hún vefinn milli fóta sér og
slær hann mjög. Hún kvað fyrir munni sér þetta: „Hæ, hæ og hó,
hó. Húsfreyja veit ei, hvað ég heiti; hæ, hæ og hó, hó. Gilitrutt heiti
ég, hó, hó. Gilitrutt heiti ég, hæ, hæ og hó, hó.“ Þetta lét hún alltaf
ganga og sló vefinn í ákafa. Bóndi varð glaður við og þóttist vita,
að þetta mundi vera kerling sú, sem hafði fundið konu hans um
haustið. Hann fer síðan heim og ritar hjá sér á miða nafnið Gilitrutt.
Ekki lét hann konu sína heyra það, og kom nú hinn síðasti vetrar-
dagur. Þá var húsfreyja mjög angurvær, og fór hún ekki í klæði sín
um daginn. Bóndi kemur þá til hennar og spyr, hvort hún viti nafn
vinnukonu sinnar. Hún kvað nei við og segist nú ætla að harma sig
til dauða. Bóndi segir, að þess þurfi nú ekki við, fékk henni blað
með nafninu á og sagði henni upp alla sögu. Hún tók við blaðinu
og skalf af hræðslu, því hún óttaðist, að nafnið kynni að vera rangt.
Biður hún bónda að vera hjá sér, þegar kerling komi. Hann segir:
„Nei, og varstu ein í ráðum, þegar þú fékkst henni ullina, svo það er
best að þú gjaldir ein kaupið.“ Fer hann burtu síðan.
Nú kemur sumardagurinn fyrsti, og lá konan ein í rúmi sínu, en
enginn maður annar var í bænum. Heyrir hún þá dunur miklar
og undirgang, og kemur þar kerling og er nú ekki frýnileg. Hún
snarar inn á gólfið vaðmálsstranga miklum og segir: „Hvað heiti
ég nú, hvað heiti ég nú?“ Konan var nær dauða en lífi af ótta og
segir: „Signý?“ „Það heiti ég ekki, það heiti ég ekki, og gettu aftur,
húsfreyja,“ segir kerling. „Ása?“ segir hún. Kerling segir: „Það heiti
ég ekki, það heiti ég ekki, og gettu enn, húsfreyja!“ „Ekki vænti ég,
að þú heitir Gilitrutt?“ segir þá konan. Kerlingunni varð svo bilt við
þetta, að hún datt kylliflöt niður á gólfið, og varð þá skellur mikill.
Rís hún upp síðan, fór burtu og sást aldrei síðan. Konan varð nú
fegnari en frá megi segja yfir því, að hún slapp frá óvætti þessum
með svona góðu móti, og varð hún öll önnur. Gjörðist hún iðjusöm
og stjórnsöm og vann æ síðan sjálf ull sína.