Skessuhorn


Skessuhorn - 05.09.2007, Blaðsíða 14

Skessuhorn - 05.09.2007, Blaðsíða 14
14 MIÐVIKUDAGUR 5. SEPTEMBER Nýir eigendur, þau Heimir Jónasson og Helga Dís Daníelsdóttir og fyrrverandi eigendur, Nína Áslaug Stefánsdóttir og Daníel Daníelsson. Umhverfisráðuneytið kvað sl. föstudag upp úrskurð vegna starfsleyfis Laugafisks ehf. á Akranesi. Eins og Skessuhorn hefur greint frá barst ráðuneytinu þann 3. apríl sl. bréf frá 17 íbúum á Akranesi þar sem þeir krefjast þess að ráðuneytið beiti sér fyrir því að starfsemi Laugafisks verði stöðvuð og að starfshættir Heilbrigðisnefndar Vesturlands verði teknir til athugunar vegna útgáfu á starfsleyfi til fyrirtækisins 1. nóvember 2006. „Þykir verða að virða umrætt erindi sem stjórnsýslukæru,“ segir m.a. í úrskurði ráðuneytisins 31. ágúst sl. Í úrskurðarorðum umhverfisráðuneytisins segir orðrétt: „Ákvörðun Heilbrigðis­ nefndar Vesturlands um endurnýjun starfsleyfis Laugafisks ehf. frá 1. nóvember er hér með felld úr gildi. Krafa kærenda um stöðvun atvinnurekstrar Laugafisks ehf. er ekki tekin til greina.“ Athugasemdir þeirra 17 kærenda sem skrifuðu ráðuneytinu um að endurnýjun leyfisins hafi ekki verið í samræmi við gildandi lög og reglur, lúta að lyktarmengun frá starfsemi fyrirtækisins. Var starfsleyfi Laugafisks upphaflega veitt til fjögurra ára en nokkrum mánuðum áður en gildistími þess starfsleyfis rann út, tók heilbrigðisnefnd ákvörðun um endurnýjun þess. Töldu kærendur að þeir stjórnsýsluhættir heilbrigðisnefndarinnar að auglýsa ekki til athugasemda þá leyfisendurnýjun, standist ekki gildandi lög og reglugerðir og kröfðust þess að starfsemi fyrirtækisins yrði stöðvuð og vinnubrögð heildbrigðisnefndar tekin til athugunar. Bráðabirgðaleyfi veitt Í niðurstöðu ráðuneytisins er vísað í 1. grein laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir þar sem fram kemur að markmið þeirra laga sé að búa landsmönnum heilnæm lífsskilyrði og vernda þau gildi er felast í heilnæmu og ómenguðu umhverfi. Telur ráðuneytið að gögn málsins upplýsi að starfsemi Laugafisks sé líkleg til að hafa í för með sér áhrif á loftgæði og hafa lyktarmengandi áhrif, sbr. skilgreiningu á hugtakinu mengun. Telur því ráðuneytið að endurnýjun starfsleyfisins varði hagsmuni íbúa í nágrenni verkunarinnar. Telur ráðuneytið að heilbrigðisnefnd Vesturlands hafi ekki gefið íbúum kost á að koma að athugasemdum fyrir endurnýjun starfsleyfisins og tekur því kröfu um ógildingu starfsleyfisins gilda. Ráðuneytið snuprar því heilbrigðisnefnd og gerir nefndinni að taka nýja ákvörðun í málinu. Slíkt mun vafalaust fela það í sér að heilbrigðisnefnd þarf að auglýsa eftir athugasemdum við nýtt starfsleyfi Laugafisks á Akranesi, telji nefndarmenn að nægjanlegar forsendur séu til staðar fyrir að slík lyktarmengandi starfsemi verði áfram til staðar á Neðri Skaga á Akranesi, nærri íbúðabyggð. Ráðuneytið telur loks skorta á lagaskilyrði til að unnt sé að taka kröfu kærenda um stöðvun atvinnurekstrar Laugafisks til greina. Fyrirtækið hefur sótt um undanþágu frá starfsleyfi og hefur umhverfisráðuneytið fallist á að veita þá undanþágu eða þar til ný ákvörðun heilbrigðisnefndar Vesturlands um starfsleyfi Laugafisks ehf. liggur fyrir. Hljóta að þurfa að færa starfsemina Guðmundur Sigurbjörnsson, einn hinna 17 sem sendu ráðuneytinu kæruna, sagði í samtali við Skessuhorn að hópurinn muni gera allt sem í hans valdi standi til að fyrirtækið fái að óbreyttu ekki endurnýjun starfsleyfis. „Við erum fyrir löngu síðan búin að fá upp í kok af lyktarmengun frá Laugafiski og munum nú beina spjótum okkar að heilbrigðisnefnd. Ég trúi því ekki að óreyndu að kjörnir fulltrúar og embættismenn fólksins, sem sitja í heilbrigðisnefnd Vesturlands ætli áfram að taka hagsmuni þessa fyrirtækis fram yfir hagsmuni hundruða íbúa á Neðri Skaga sem geta ekki opnað glugga á híbýlum sínum vegna ólyktar. Heilbrigðisnefndin fékk núna rækilega ofanígjöf frá ráðuneytinu og niðurstaðan hlýtur að verða sú í málinu að starfsleyfi Laugafisks verði ekki endurnýjað og því gert að flytja út fyrir íbúðabyggð,“ sagði Guðmundur Sigurbjörnsson í samtali við Skessuhorn. mm Byggðaráð Borgarbyggðar hefur ákveðið að áfrýja dómi sem felldur var í Héraðsdómi Vesturlands 8. júní síðastliðinn þar sem sveitarfélaginu var gert að greiða bætur vegna landamerkjadeilu er varðar jörðina Búrfell annars vegar og sameign Steindórsstaða og Borgarbyggðar hins vegar sem nefnt er Búrfell fjalllendi. Forsaga málsins er sú að eigendur Búrfells höfðuðu mál vegna þess að þeir töldu að landamerki væru ekki í samræmi við það sem þeir töldu sig vera að kaupa og því ekki stærð jarðarinnar. Þeir gerðu aðallega þá kröfu að viðurkennt yrði að landamerki milli jarðarinnar Búrfells annars vegar og Búrfells fjalllendis hins vegar lægi um beina línu frá Merkjafossi að Moskeldubotni. Borgarfjarðarsveit var í upphafi aðili að málinu en við sameiningu hefur Borgarbyggð tekið við. Eigendur og ábúendur Steindórsstaða voru sýknaðir í dómi héraðsdóms en Borgarbyggð gert að greiða eina og hálfa milljón til eigenda Búrfells sem bætur fyrir meint tapað land. Byggðaráð hefur, eins og áður sagði, ákveðið að áfrýja málinu til Hæstaréttar. bgk Tónlistarskóli Borgarfjarðar fagnar nú 40 ára afmæli, en 7. september árið 1967 var skólinn stofnaður. Í tilefni afmælisins verður skólinn með ýmsa atburði í vetur og verður sá fyrsti á afmælisdaginn sjálfan. Að sögn Theodóru Þorsteinsdóttur, skólastjóra verður opið hús að Borgarbraut 23 í Borgarnesi á föstudaginn frá klukkan 14 ­ 18. Gestum verður þá velkomið að fylgjast með kennslu, ganga um skólahúsnæðið og fá upplýsingar um starfsemina. „Við verðum með heitt á könnunni og gestum verður boðið að taka lagið með okkur. Vonum við að Borgfirðingar og aðrir gestir hafi tök á að kíkja á okkur og fá andlega næringu fyrir helgina,“ sagði Theodóra. mm Verslunin Nína skiptir um eigendur Nína Áslaug Stefánsdóttir, kaupmaður og eiginmaður hennar Daníel Daníelsson eru að láta af störfum sem eigendur og rekstraraðilar verslunarinnar Nínu á Akranesi. Verslunin helst þó innan fjölskyldunnar því nýju eigendurnir eru dóttir Nínu og Daníels, Helga Dís og eiginmaður hennar Heimir Jónasson. Verslunin Nína var stofnuð þann 20. ágúst 1982. Aðspurð um hvernig henni hafi dottið það í hug að hefja verslunarrekstur segir Nína að henni hafi bara langað til þess að prófa þetta og sjá hvort hún gæti þetta ekki sjálf. Hún segist hafa skipt við Gulla í Karnabæ fyrst um sinn en fljótlega farið að vinna að því að koma upp sínum eigin samböndum erlendis. Nína segist hafa farið í sína fyrstu verslunarferð á öðru ári verslunarinnar og hafi verið að koma sér upp fínu neti viðskiptavina síðan þá og í dag séu flestar vörur í búðinni fluttar inn milliliðalaust. Dóttir Nínu, Helga Dís, byrjaði snemma að fara með í slíkar verslunarferðir og á sýningar með móður sinni, þannig að hún tekur við góðu búi og hefur nú þegar góð sambönd erlendis. Engar grundvallarbreytingar Nína segir að hún hafi engar áhyggjur af dóttur sinni í þessum rekstri, Helga Dís hafi í raun alist upp í búðinni, en hún var sex ára þegar Nína stofnaði verslunina ásamt Daníeli eiginmanni sínum. Helga Dís tók svo við rekstrinum af foreldrum sínum um mánaðamótin ágúst/september og eru hennar börn í raun að alast upp í búðinni eins og mamma þeirra. Heimir og Helga Dís segjast ekki ætla að vera með neinar grundvallarbreytingar á rekstri fyrirtækisins en þau byggi á mjög góðum grunni og eigendaskiptin leggist vel í þau. Heimir segir þó að það verði náttúrulega erfitt að fylla skó Nínu í þessu, en þau komi til með að gera sitt besta. Á innsafnað orlof Nína segist fara ánægð frá rekstrinum. Hún hafi starfað í 25 ár í verslunarrekstri, segist aldrei hafa leiðst að fara í vinnunna og hafi alltaf haft mikinn áhuga á tísku. Hún segir einnig að þegar aðrir hafi minnkað við sig, t.a.m. með komu Hvalfjarðarganganna, hafi hún alltaf bætt í. „Þegar ég byrjaði í þessu vorum við í um 35 fermetra húsnæði en núna er þetta eitthvað um 600­700 fm,“ segir Nína. Þegar blaðamaður spyr hvað taki við hjá henni er fátt um svör. „Veistu ég hef ekki hugmynd um það,“ segir Nína, „ætli maður dundi sér ekki meira í hestunum.“ Nína segist vonast til þess að geta slitið sig frá rekstrinum og látið hina nýju eigendur um hann. En nú er Nína að minnsta kosti opinberlega hætt í verslunarbransanum. „Já, núna um mánaðamótin verður maður bara Nína í orlofi,“ segir hún og hlær dátt. Helga Dís bætir við og beinir orðum sínum til móður sinnar: „Já, þú átt nú sennilega orðið eitthvað inni.“ hög Húsnæði Tónlistarskóla Borgarfjarðar í gamla apótekshúsinu við Borgarbraut 23 í Borgarnesi. Tónlistarskóli Borgar­ fjarðar fertugur Borgarbyggð áfrýjar landamerkjamáli Umhverfisráðuneytið fellir úr gildi ákvörðun heilbrigðisnefndar um starfsleyfi Laugafisks á Akranesi

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.