Fréttabréf Siglfirðingafélagsins í Reykjavík og nágrenni - okt. 2012, Blaðsíða 5

Fréttabréf Siglfirðingafélagsins í Reykjavík og nágrenni - okt. 2012, Blaðsíða 5
5 Þórarinn Hannesson er upphafsmaður að Ljóðasetri Íslands á Siglufirði. Þórarinn flutti til Siglufjarðar 1993, „elti ástina“ eins og hann segir, en hann er giftur Kristínu Önnu Guðmundsdóttur, dóttur Elínar Önnu Gestsdóttur og Guðmundar Skarphéðinssonar. Þórarinn er menntaður íþróttakennari og starfar sem slíkur ásamt því að kenna fleiri fög við Grunnskóla Fjallabyggðar. Fyrir nokkrum árum blés hann til ljóðakvölds á Siglu- firði „til að lífga upp á menningarlífið á staðnum,“ segir hann. Þessi viðburður heppnaðist það vel að áfram var haldið. Næstu tvo vetur voru haldin átta ljóðakvöld þar sem ýmsir lesarar komu fram og fluttu efni úr ýmsum áttum. Ánægjulegt var þegar tvö „skúffuskáld“, þeir Páll Helgason og Sigurður Helgi Sigurðsson, lásu úr verkum sínum en þau stóðust fyllilega samanburð við útgefið efni ýmissa landsþekktra skálda. Þórarinn hefur staðið fyrir þriggja daga ljóðahátíð á Siglufirði á hverju ári frá 2007. Þar hafa ýmsir heimamenn komið fram auk þekktra skálda t.d. Þórarinn Eldjárn, Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson, Sigurbjörg Þrastardóttir (dóttir Þrastar Stefánssonar), Ingi Steinar Gunnlaugsson (sonur Gunnlaugs Hjálmarssonar) og Kristján Kristjánsson bókaútgefandi (sonur Kristjáns Rögnvaldssonar skipstjóra). Ingunn Snædal, af Fljótsdalshéraði, var ein af þeim sem sótti ljóðahátíðina heim í ár en hún er eitt af vinsælustu ungskáldum landsins. Annar góður gestur var Sigurður Skúlason leikari, sem er líklega okkar besti upplesari í dag. Hann sýndi leikþátt úr verkum Shakespears. Frú Vigdís Finnbogadóttir vígði svo Ljóðasetur Íslands þann 8. júlí 2011 og hefur það verið vel sótt og vakið mikla athygli. Þar má nú finna ýmislegt sem tengist íslenskum kveðskap sem og siglfirskum. Afkomendur Guðlaugs „Laugja pósts“ afhentu Þórarni t.d. ýmis gögn sem Laugji skildi eftir sig. Upp úr þessum gögnum samdi Þórarinn leikþátt um Laugja auk þess að semja tvö lög við ljóð hans. Leikþátturinn var frumsýndur á ljóðahátíðinni 2011. Þórarin yrkir einnig sjálfur og þriðja ljóðabók hans, Nýr dagur, kom út í sumar. Bókaforlagið Ugla gaf út en Jónas Ragnarsson var Þórarni mikil stoð og stytta við undirbúning útgáfunnar. Þórarinn kemur og les upp úr nýju bókinni á upp- lestrarkvöldi Siglfirðingafélagsins í nóvember. Þórarinn hefur líka tekið saman siglfirskar gamansögur. Komin eru út þrjú bindi með 50 sögum í hverju hefti og stefnir Þórarinn að því að mæta með fjórða heftið glóðvolgt úr prentvélunum á upplestrarkvöldið. Þórarinn vill að lokum færa Siglfirðingafélaginu og Vildarvinum Siglufjarðar kærar þakkir fyrir þann stuðning sem þessi félög hafa veitt Ljóðasetrinu. á Siglufirði Ljóðasetur Íslands Vigdís Finnbogadóttir og Þórarinn Hannesson við vígslu Ljóðasetursins 8. júlí 2011. Guito Thomas, Þorsteinn Sveinsson og Þórarinn flytja lög Þórarins við ljóð Ingunnar Snædal á ljóðahátíðinni 2012.

x

Fréttabréf Siglfirðingafélagsins í Reykjavík og nágrenni

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttabréf Siglfirðingafélagsins í Reykjavík og nágrenni
https://timarit.is/publication/627

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.