19. júní


19. júní - 19.06.2011, Blaðsíða 2

19. júní - 19.06.2011, Blaðsíða 2
Flestir vita hvað venjulega liggur í orðinu kvenfrelsi: lögheimilað jafnrétti karla og kvenna. En í orðinu frelsi liggur önnur og dýpri merking en lögheimiluð réttindi. Í því felst að vera frjáls andlega og líkamlega, og lítið þýðir að hafa frelsi í orði en ekki á borði. Til lítils er að hrópa hátt á frelsið, en binda sjálfan sig jafnframt á klafa tildurs og tízku. Er það að vera frjáls, að geta ekki lyft svo hendi eða fæti, að ekki fljúgi í hugann: „Ætli það sé kvenlegt?” Er það að vera frjáls, að geta ekki hnýtt á sig slifsi eða klætt sig í fat, án þess að spyrja sjálfa sig, hvort það sé í samræmi við tískuna? Eg neita því fastlega. Enginn er frjáls, sem lætur gamlar venjur og hleypidóma stjórna hverju sínu fótmáli. En furða er það ekki, þó að við íslenzku stúlkurnar breytum svona. Um aðra tala eg ekki. Þekki að eins Ísland og Íslendinga. Frá því að við vorum svo ungar, fyrst, þegar við munum eftir okkur, hefir verið sagt við okkur: „Þú mátt ekki fljúgast á við strákana. Það er svo ókvenlegt! “ „Ósköp var á þér að koma ríðandi berbakað heim í hlaðið. Þú áttir að fara af baki ofan við garðinn, svo gestirnir sæju það ekki; það er svo ókvenlegt“ o. s. frv. En hvað er þá kvenlegt? Er kvenlegt að vera sá aumingi, að komast ekki á bak á hest, eða bæjarleið, án karlmannshjálpar? Er kvenlegt að hrópa: „Guð almátt­ ugur!” ef barn rekur upp org eða fluga eða mús — þessi hræðilegu dýr(!) — sjást einhverstaðar nærri? Það er blátt áfram uppgerð og tepruskapur, hverjum heiðarlegum manni, karli og konu til stórskammar og svívirðu. Enn vitum við ekki, hvernig alþingi og stjórn verða við kröfum okkar um kosningarétt. Enginn óskar innilegar en eg, að svörin þau verði góð og engin kona mundi fúsari hagnýta sér þann rétt en eg. En eg vil hafa meira frelsi, andlegt frelsi, svo við verð um færar um að hrinda af okkur þeim böndum, sem hinda okkur við gamlar kreddur; kreddur, sem aldrei hefðu átt að vera til. Byrjum með því að kenna stúlkubörnunum, að þær sjeu menn fyrst og fremst; hugsandi, frjálsar verur, á jafnháu stigi og karl­ menn; „neisti af guðs lifandi sál“. Kennum þeim, að þær geti gengið óstuddar, þurfi ekki að standa undir verndarvæng karlmanna. Þá rís upp hið sanna kvenfrelsi á Íslandi. Og þá getur enginn sagt, að við höfum ekkert við kosningarétt að gera. Þar vildi eg vera, sem kvenþjóðin hefði fundið sálu sína, – allar konur. Væri búin að grafa hana upp úr dýki prjáls og uppgerðar. Því við erum engir hugleysingjar. Við þorum að reyna, að „vogun vinnur og vogun tapar“, ef við gætum einungis allar trúað, að það sé kvenlegt. Hefðum ætíð hugfast, að teprudrósin, sem ekki getur riðið yfir áarsprænu eða hoppað yfir læk óstudd, er þúsundfalt minna virði en hin, sem leggur alla krafta sína fram til þess, að stríða og sigra, án þess að hugsa um, hvort það sé ókven legt eða ekki, þó hin fyrnefnda sé ef til vill álitlegri sýnum eða betur búin. Renni sú öld yfir Ísland, að tízkubrúðan og teprudrósin verði athlægi allra! þá er kvenfrelsi í landi. Fyr ekki. Þingeysk sveitastúlka. Fyrir ofan borðstofuborðið heima hjá mér hangir innrammað plakat sem útgefið var þann 19. júní 1915. Fyrir þann sem ekki þekkir sögu þess mætti halda að hér væri á ferð þjóðrembingsleg lofgjörð um landið enda er á því mynd af Þingvöllum umlukt einum átta eintökum af ís lenska fánanum. Það er ekkert á myndinni sem gefur til kynna að hún sé gefin út í tilefni þess að þennan dag fengu konur, 40 ára og eldri og vinnuhjú, kosningarétt til Alþingis. Þrátt fyrir umdeilanlegt fegurðargildi myndarinnar fær hún að hanga sem inspirerandi minnismerki um allt sem hefur áunnist í jafnréttisbaráttunni og allt það sem enn þarf að berjast fyrir. Því þrátt fyrir að lagalegu jafnrétti hafi verið náð er kvenfrelsi varla í augsýn. Baráttukonur fyrir 100 árum höfðu það að markmiði að ná grundvallar­ mannréttindum í lög. Þær dreymdi um að fá að segja skoðun sína til jafns við karla í kosningum og margar þurftu jafnvel að berjast fyrir því að fá að ganga í buxum við vinnu. Í dag hefur lagalegu jafnrétti verið náð og því ber að fagna. Það er skylda okkar sem samfélags að gleyma ekki þeirri baráttu sem háð var og hve ótrúlega stutt er síðan áfanganum var náð. En baráttusystur mínar fyrir 100 árum óraði ekki fyrir þeim hindrunum sem eru í vegi kvenna í dag. Skýr skilaboð um hlutverk kvenna og atgervi sem þeim sæmir hamra á hinu vestræna samfélagi nú sem aldrei fyrr. Í dag þykir sjálfsagt að breyta útliti sínu með róttækum hætti til að þóknast fyrirfram ákveðnum stöðlum tískuheimsins. Auglýsingar miða allar að því að fólk þurfi að finna hamingjuna með hinni klassísku breytu X = sjálfstraust = hamingja. Í stað þess að X standi fyrir andlegt jafnvægi, sátt eða heilbrigði hefur markaðsöflunum tekist að láta ham ing juna snúast um sig og þar af leiðandi peninga; X = stór brjóst X = stærri brjóst X = mjórra mitti X = engin sjáanleg ummerki um að þú, kona, hafir gengið með barn. Það eru þúsund atriði sem kona getur látið breyta í fari sínu og líkama í nafni aukinnar hamingju. Karlar eru ekki undanskildir útlitskröfunum þó minni áhersla sé lögð á þá í auglýsingum og dægur­ menningu. Staðreyndin er sú að markaðsöflin hæfðu okkur þar sem við erum veikust fyrir, með stans­ lausum áróðri um að við séum ekki að sinna frumhvöt okkar, kynlífi, á nægilega réttan og flottan hátt. Klámið hefur búið til staðal sem Kvenfrelsi Ritstjórnarpistill x(brjóst) = hamingja enginn, sem ekki hefur aðgang að förðunarfræðingum, ljósameisturum og jafnvel klippiforriti sem gerir þér kleift að taka pásur á milli stellinga, getur staðið undir. Með tilkomu internetsins hefur klámið orðið ótrúlega aðgengilegt og rannsóknir sýna að flest ungt fólk hefur séð klám áður en það upplifir sína fyrstu kynlífsreynslu. Það þarf ekki snilling til að átta sig á brengluninni. Hin hefðbundna klám­ mynd niðurlægir konur með mjög markvissum hætti og þar liggur hundurinn grafinn. Við búum í sam félagi þar sem börn sjá konur niðurlægðar í dægurmenningu og á götum úti – það er normið og við verðum að horfast í augu við það. Stöðugar kröfur miðlanna og markaðsaflanna kalla fram gagnkvæma óánægju og ákveðna brenglun á því sem eðlilegt er. Þar af leiðandi er ómögulegt að verða hamingjusamur í samfélagi dagsins í dag nema maður hefji sig yfir tilætlunarsemina og horfist í augu við að fullkomnun náist aðeins í ófullkomnun. Fæst börn hafa þróað með sér hæfileikann til þess. Ef við sem samfélag getum viður­ kennt að klámið og auglýsingarnar eru vandamál og erum tilbúin að taka á því er hægt að koma í veg fyrir stórslys. Ef við tökum ábyrgð og erum upplýst er aldrei að vita nema að eftir önnur hundrað ár skrifi tvítug stelpa grein um þann sigur sem íslenskar konur og íslenskir karlar, sameinuð, náðu á kostnað þeirra sem vildu brengla hugsanir okkar og hamingju. Það sakar ekki að vona. Jafnrétti og virðing = hamingja. Reykjavíkurdama Svafa Þórleifsdóttir skrifaði þessa grein árið 1907. Þá var hún 19 ára gömul. Hún starfaði sem kennari og skólastjóri næstu áratugina og var ávallt virk í kvenfélögum landsins. Hún sat í stjórn Kvenréttinda- félagsins 1946-1965. 19. júní kom fyrst út árið 1951 og var Svafa ritstjóri þess fyrstu sjö árin. Snærós Sindradóttir er 19 ára mennt- skælingur sem er varaformaður Ungra Vinstri Grænna og varakona í Mannréttindaráði Reykjavíkurborgar fyrir Vinstri hreyfinguna, grænt framboð. Texti: Snærós Sindradóttir Ljósmynd: Gréta Guðmundsdóttir Texti: Ritstjórnin Ljósmynd: Dröfn Nikulásdóttir Texti: Svafa Þórleifsdóttir Ljósmynd: Þjóðminjasafn Íslands Nú eru liðin 100 ár síðan samþykkt var á Alþingi Íslendinga að konur skyldu hljóta jafnan rétt til náms, styrkja og embætta. Árið 1911, sem seinna var gjarnan nefnt kvenréttindaárið mikla, var samþykkt á þingi að konur skyldu fá kosningarétt. Raunar neitaði Danakonungur að samþykkja kosningaréttinn að því sinni, þar sem sambandsmál Íslands og Danmerkur voru í miklum ólestri. Þetta frumvarp lagði þó grunn­ inn að lögunum sem sett voru þann 19. júní fjórum árum síðar, þegar íslenskar konur fengu loks kosningarétt. Sextíu ár eru liðin síðan fyrsta tölublað 19. júní, tímarits Kvenréttindafélags Íslands, kom út. Margt hefur gerst í kvenréttindabaráttunni síðan Svafa Þórleifsdóttir ritstýrði fyrsta tölublaðinu. Í ár er blaðinu dreift ókeypis til allra landsmanna og vildi ritstjórnin leggja áherslu á söguna, baráttu okkar fyrir jafnrétti síðustu öldina og á samstöðu og vinskap kvenna sem við teljum vera lykilinn að raunverulegu jafnrétti í framtíðinni. Í greinum blaðsins er minnst fyrstu baráttu­ kvennanna sem ruddu brautina í lok nítjándu aldarinnar og kynnt til sögunar sú kynslóð sem mun marka sporin næstu áratugina. Í blaðinu eru m.a. birtar myndir af konum úr mismunandi öngum stjórnmálanna sem þrátt fyrir ólíkar skoðanir eru vinkonur og starfa saman á jafnréttisgrundvelli við að hlúa að fram tíð þjóðarinnar. Samstaða kvenna sem er okkur svo mikilvæg núna á óvissutímum birtist í vinnslu þessa blaðs, þegar fjöldamargar konur lögðu fúslega hönd á plóg. Við þökkum öllum þessum konum fyrir vinnu sína, og óskum lesendum okkar til hamingju með 19. júní! Frá vinstri: Fríða Rós Valdimarsdóttir, Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir, Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir, Guðrún Margrét Guðmundsdóttir 1907 birtist stutt grein í Kvennablaðinu undir titlinum „Kvenfrelsi“. Höfundur greinarinnar, titluð „Þingeysk sveitastúlka“, var hin 19 ára Svafa Þórleifsdóttir. Hér fyrir neðan er greinin prentuð í heild sinni ásamt grein skrifaðri af annarri 19 ára stúlku, Snærósu Sindradóttur, rétt rúmum hundrað árum síðar. Margt hefur áunnist í kvennabaráttunni á þessari einu öld, en enn er margt óunnið. 19. júní, tímarit kvenréttindafélags íslands. 60. Árgangur Bls. 2

x

19. júní

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: 19. júní
https://timarit.is/publication/671

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.