Skólavarðan - 01.02.2002, Blaðsíða 27

Skólavarðan - 01.02.2002, Blaðsíða 27
Þegar ég útskrifaðist frá Fóstruskóla Sum- argjafar í maí 1973 ávörpuðu 30 ára út- skriftarnemendur samkomuna, þá rann í gegnum huga mér: „Eru þessar gömlu kon- ur virkilega enn í starfi?“ Allir vita hvaða ár er nú og margt hefur gerst í leikskólamálum þau tæp 30 ár sem ég hef verið í starfi. Þegar horft er til baka kemur á óvart hvað margt hefur breyst á þessum tíma, flest til góðs en anað út í sumt meira af kappi en forsjá. Það sem nú er efst á baugi eru hug- myndir um skólagöngu fimm ára barna, heyrst hefur að lengja eigi grunnskólanám og einnig að tveir elstu árgangar í leikskóla verði skylda. Allar hugmyndir eru góðar og umræða er til alls fyrst. Það sem þarf að hafa í huga er hvort hugmyndirnar falli að því sem við höfum fyrir, hver sé tilgangurinn og hverj- um við séum að þjóna. Já, hverjum erum við að þjóna? Er það atvinnulífið, foreldrar, stjórnmálamenn eða börnin sem eru á ábyrgð okkar í leikskól- anum? Þegar svona hugmyndir koma upp vill aðalatriðið oft gleymast sem er leikskólabörnin. Þegar leikskólakennarar tala um skóla- skyldu elstu barna leikskólans eru þeir að tala um að okkur finnist kennsluaðferðir okkar eigi að ná til allra barna á leikskólaaldri. Mér hugnast ekki að færa kennsluaðferðir grunnskólans í leikskólann heldur vil ég að það virki í hina áttina, það er að segja að kennsluaðferðir leikskólans verði viðhafðar í yngstu bekkjum grunnskóla. Nú er nám kennara komið undir sama þak og kennarafélög- in í ein samtök svo það ættu að vera hæg heimatökin að sam- ræma vinnubrögð og koma á þeirri heild sem nám barna á að vera. Hvar er markmiðið um að börn eigi að njóta bernsku sinnar? • Er það að njóta bernsku sinnar að setj- ast á skólabekk fimm ára? Nei. • Er það að njóta bernsku sinnar að vera í leikskóla til sex ára aldurs og leikskóli og grunnskóli tengist betur? Já. Einn mikilvægur þáttur sem vill gleymast í umræðunni er umönnunin. Það hafa allir þörf á og eiga að fá umönnun. Eftir því sem börnin eru yngri er umönnunin meiri en minnkar eftir því sem þau eldast. Hvað um allt námið sem fer fram í öllum sam- skiptum í dagsins önn? Þessi þáttur hefur verið vanmetinn og það sem kom fram í fréttum nú á dögun- um, að fólk beri almennt ekki næga virð- ingu hvert fyrir öðru hér á Íslandi, er alvar- legt mál. Til að við getum lært þarf okkur að líða vel, vera í jafnvægi og umhverfið þarf að veita okkur öryggi þannig að við séum óhrædd að takast á við þau verkefni sem mæta okkur. Við hér í leikskólanum Hlíðarenda í Hafnarfirði höfum m.a. lagt áherslu á að njóta þess að vera hér og nú án þess að hugsa um allt sem á eftir að gerast í lífinu. Við höfum einnig lagt áherslu á að um- hverfi barnanna sé hvetjandi en um leið af- slappað og að við sem störfum hér, börn og starfsfólk, berum virðingu hvert fyrir öðru og öllu í kringum okkur. Ung börn læra mest og best í gegn- um leik Meinum við ekkert með því þegar við segjum þessa setningu? Ég trúi því að ung börn læri mest og best í gegnum leik, þess vegna segi ég að þegar gera á nám barna samfelldara færum þá leikskólakennsluna í yngstu bekki grunnskólans en ekki öfugt. Í leikskólum eru hóparnir minni og kennslan fer fram í daglegum samskiptum og skipu- lögðum stundum. Það er ekkert gert „af því bara“ í leikskólum frekar en í öðrum menntastofnunum, það er tilgangur með öllu sem þar fer fram. Við hugum að alhliða þroska barnanna, vinnum með einstaklinginn, erum þátttak- endur í vinnu/námi barnanna og gleymum ekki umönnuninni. Ég hef verið að gera mér það til gagns og gamans að spyrja foreldra, sem koma til mín í fyrsta viðtal, hverju þeir muna eftir frá því að þeir voru í leikskóla. Enginn hefur sagt: „Ég lærði svo mikið af söngvum, ég lærði litina, ég lærði hugtök“, o.s.frv. Foreldrar nefna dæmi sem lúta að samskiptum og umönnun. Ein móðir sagði: „Ég man alltaf eftir því þegar við vorum að þvo okkur um hendurnar og „fóstr- an“ kom með handklæðið á móti okkur. Við settum hend- urnar í handklæðið og hún þurrkaði okkur með báðum höndum.“ Þegar börnin eru spurð: „Hvað varst þú að gera í leik- skólanum í dag?“ er svarið oftar en ekki: „Bara að leika mér.“ Lífið er jú leikur sem við erum öll þátttakendur í. Leikir eru misskemmtilegir og misjafnt hverjir eru með í leiknum hverju sinni, sumum leikjum lendum við bara í, aðra veljum við sjálf. Ef við erum örugg með okkur og líður vel tökum við þátt í hverjum þeim leik sem okkur ber að höndum með glöðu geði og þannig lærum við og þroskumst best. Lífið er leikur og lotterí og leiðindi og gaman. Bernskan er ekkert „smotterí.“ Allt auðvelt ef vinnum við saman. Oddfríður Steindórsdóttir Höfundur er leikskólastjóri í leikskólanum Hlíðarenda í Hafnarfirði Smiðshöggið 30 Ég hef verið að gera mér það til gagns og gamans að spyrja foreldra, sem koma til mín í fyrsta viðtal, hverju þeir muna eftir frá því að þeir voru í leikskóla. Enginn hefur sagt: Ég lærði svo mikið af söngvum, ég lærði lit- ina, ég lærði hugtök. Hverjum erum við að þjóna?

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.