Norðurslóð - 28.01.1988, Blaðsíða 2

Norðurslóð - 28.01.1988, Blaðsíða 2
NORÐURSLÓÐ Útgefendur og ábyrgðarmenn: Hjörtur E. Þórarinsson, Tjörn, Svarfaðardal Jóhann Antonsson, Dalvík Afgreiðsla og innheimta: Sigríður Hafstað, Tjörn Sími 96-61555 Ljósmyndari: fíögnvaldur Sk. Friðbjörnsson Prentun: Dagsprent hf. Breyttar áherslur í umræðu manna um byggðastefnu undanfarin ár hefur átt sér stað ákveðin breyting frá því talið var nægjanlegt að tryggja örugga og mikla atvinnu á landsbyggðinni, þá myndi annað svo sem þjónusta fylgja á eftir, svona nánast af sjálfu sér, til þeirrar umræðu sem nú rís hæst, að landsbyggðin verði sjálf að hafa meira yfir sín- um málum að segja og að vandi einstakra byggðarlaga verði ekki leystur með skýrslugerð í Reykjavík. Það er Ijóst að sú hugmynd að næg atvinna nægði til eðlilegrar byggðafestu hefur beðið skipbrot. Þó svo næg atvinna sé ein af forsendum þess að byggð haldist á ákveðnum svæðum er nú að renna upp fyrir flestum að ýmislegt fleira þarf til að koma. Undanfarin ár hafa íbúar landsbyggðarinnar skynjað æ ríkar valdaleysi sitt og þær takmarkanir sem þeim eru settar varðandi að hafa áhrif á þróun atvinnu og þjón- ustu heima fyrir. Akvarðanir sem varða landbúnað og sjávarútveg eru í vaxandi mæli teknar syðra og lands- byggðin njörvuð niður við ákvarðanir pólitískt kjörinna aðila eða hagsmunasamtaka. Þjónusta við atvinnuveg- ina og þróunarstarf er sömuleiðis víðsfjarri og afleidd störf í þeim greinum því ekki nema í litlum mæli á landsbyggðinni. Varðandi stjórnsýsluna má segja að sama hafi verið upp á teningnum. Þar eru þó mál örlítið að komast í hreyfingu þar sem á dagskrá er komin frekari verkefna- skipting ríkis og sveitarfélaga. Það er mikil nauðsyn að sveitarstjórnir út um landið geri sér grein fyrir sinni ábyrgð hvað það varðar að axla breytt hlutverk í stjórn- sýslunni ef sú verkefnaskipting kemst á sem nú er á döf- inni. Margt af því er þess eðlis að það verður best leyst fyrir íbúana með aukinni samvinnu þeirra sveitarfélaga sem saman eiga atvinnu- og félagslega og nauðsynlegt að þar hafi sveitarstjórnirnar sjálfar frumkvæði en bíði ekki eftir skrifborðslausnum að sunnan. Það gengur ekki upp lengur að kvarta undan valdaleysi heima ef menn skirrast við að taka þær ákvarðanir sem nauðsyn- legar eru heima fyrir svo vel fari. I atvinnumálum þarf einnig að sýna frumkvæði og krefjast eðlilegrar hlutdeildar í því bákni sem byggst hefur kringum það syðra. Auðvitað á þróunarstarf og skipulag í þeim efnum að vera sem næst framleiðslunni svo nýsköpun og frumkvæði fái notið sín og fólkið sem vinnur í undirstöðuatvinnuvegum þessarar þjóðar finni að þekking þess og reynsla sé einhvers metin. Það er jafnframt forsenda þess að sérstaða hvers byggðarlags komi fram og að á þeirri sérstöðu verði byggt en „pakkalausnum“ hafnað. Maðurinn lifir ekki af brauð- inu einu saman og þegar talað er um sjálfsákvörðunar- rétt byggðarlaganna er jafnframt verið að tala um sjálf- svirðingu hvers íbúa og þörf fyrir það að fá að hafa áhrif á mótun eigin lífs og umhverfis. J.A. Viöskiptavinir athugiö Svarfdælabúð Þorramatur í miklu úrvali. Byggingavörudeild Verðlækkun á ýmsum rafmagnsvörum, hreinlætistækjum, hitastýrðum ofnkrönum, gólfdúkum og teppum vegna breytinga á tollalögum. Ú.K.E. Dalvík. Dagbók Jóhanns á Hvarfi - Anno 1889 - 1. janúar. Kom Porgils á Sökku á áliðnum degi, fullgerðum jafnað- arreikning Sparisjóðs. 2. janúar. Komu 3 skólapiltar frá Hólum, úr Þingeyjarsýslu á leið vestur, voru í nótt. 5. janúar. Kom Sigurður á Tungufelii (Sigurðsson). Færðum inn í gjörðabók Sparisjóðs. 16. janúar. Komu Skíðdælir úr kaupstað og margir fleiri. Afla- laust alls staðar. Fór í Böggvis- staði og tók kú blóð, var þar um nóttina. Komu piltar þá úr fisk- flutningsferð norðan frá Lax- mýri, fóru þaðan að morgni 15. í gær. 23. janúar. Reif af eldhúsi í nótt, versta veður, stórhríð, fjarska veður, reif af annan strompinn. 24. janúar. Tekið nokkuð af því sem dreif í nótt, reif af skekkla í Skriðukoti. 25. janúar. Gerði Gísli á Hvarfi við eldhússtrompinn, við settum hann á. 11. febrúar. Fundur á Völlum, nokkuð fjölmenni, rætt um ómaga. Ráðið að kaupa salt. 21. febrúar. Kom Friðleifur í Háagerði, færði mér selskinns- skæði (F. Lækjarbakka). 22. febrúar. Kom Oddný á Urðum, verður í nótt (O. Syðra- Hvarfi). 24. febrúar. Norðan þoka, dreif lognsnjó, klessti í jörð. Fylgdi Leifa (sami Friðleifur) í Gerði yfir ána í skinnsokkum ofan á ís. 26. febrúar. Kom Valla- madaman fór í Syðra-Hvarf (Val- gerður Þórunn Jónsdóttir madama séra Tómasar á Völlum Hallgrímssonar). 2. mars. Lokað bréfum Jónas- ar (barnakennara) og Sigfúsar til Ameríku. 15. mars. Róið bæði á Ár- skógsströnd og hér á Böggvis- staðabát 30 í hlut á B-bát 50 á Árskógsströnd. Ekki fengist neitt teljandi úr sjó síðan í nóvember fyrra ár. Kom Jón á Upsum og margt fleira. 19. mars. Fór ég og Jóhannes ofan á Sand, fékk Pál á Skálda- læk til að róa á bátnum næstkom- andi dag. Ég réri hjá Anton (A. Árnason Hamri). 21. mars. Réri á sama stað. 28. mars. Sumir eru að hætta vegna beituleysis og fiskrýrðar. 30. mars. Farið ofan, fékk Tryggvi litli að fara með (Jó- hannsson), róið 16 í hlut á mín- um bát, komu piltar ofan, flutt- um fiskinn heim. 31. mars. Sunnudagur. Fór ég og fleiri til kirkju. Fóru Jóhann á Böggvisstöðum og Þorgils á Sökku yfir í Nes með sauðalof- orð, 170, og vörupöntunarlista. 1. apríl. Piltar fóru ofan til róðra. Kom margt manns. 5. apríl. Fórum við Jón á Hreiðarsstöðum ofan að gera við skut og stýri á bát okkar. Fengum Jón Stefánsson til þess (Nýjabæ). Vorum nótt á Sandinum 17 í hlut á Hrísabát, þar réri Jóhannes. 6. apríl. í fyrradag fékk Bald- vin sel. Fórum við Jón á Hreið- arsstöðum ofan á Sand og gjörð- um að bátnum, það sem eftir var. Bárum koltjöru innan í bátinn. 9. apríl. Fórum á Syðra-Holts bát 8-rónum á Hjalteyri: Hjörtur á Urðum, (Sigurhjörtur Jóhann- esson), Jón Hreiðarsstöðum, og ég. Tókum síldartunnu á 7 krón- ur og blakkfernis. Skófum bátinn utan og bikuðum með blakkfern- is, málað grátt efsta borðið. 10. apríl. Selur kominn, hefur náðst. 13. apríl. Tryggvi á Látrum varð var við íshroða fram við Grímsey og Mínerva sá 1 jaka á sömu slóðum. Ekki róið á dalnum, allir hættir. Hlutir orðn- ir svo hundruðum skiftir. 17. apríl. Kom Jón á Hnjúki (Nonni) innan frá Selárbakka, sagði húsbrunasögu eftir sjón frá Nesi 14.-15. þessa mánaðar. 20. apríl. Kom Jóhannes frá Möðruvöllum var í nótt á Hallgils- stöðum. Sannfrétt að brann í Nesi nýtt timburhús og mestöll önnur bæjarhús, fjós og eitt fjárhús, öll föt og búslóð utan sængurföt það sem í baðstofu var. Eldspýta féll hjá barni í tré- spæni. Komið kaupskipið Rósa til Ákureyrar með alls konar vörur. ar vörur. 22. apríl. Kom Jónki á Hnjúki (Nonni) frá Selárbakka, réðist hér til fulls næsta vinnuár. 24. apríl. Sumardagurinn fyrsti. Fórum í hús að skoða skepnur (hann og Sólveig). Ær mínar 60, þar af tvær lamblausar, sjálfsagt önnur, sauðir fullorðnir 30, tvævetur 20, alls 50, 3 hrútar, 1 3ggjavetra og tveir tvævetra. Lömb heimafóðruð: Geldingar 24, hrútar 3, gimbrar 11, alls 38. Mínar sauðskepnur: ær 60, sauð- ir 50, hrútar 3 fullorðnir, og lambgemlingar 38. Alls til sam- ans 151 kind. Svo á ég 3 geldinga í fóðri, 1 hjá Jóni á Þverá, 2 hjá Sigurði á Þverá, er þá 154 alls. Kom í orð að ég keypti einn geld- ing í Klængshóli sem séra Tómas á í prestsfóðri og einn á ég hjá Jóni Fr.s. á Grund fyrir afgjalds- skuld. Svo eru kýr 4 og 2 kvígur með kálfi, hross tamin 4 og 1 trippi. Kom séra Tómas og fólk úr Hofsárkoti og tafði lengi. 27. apríl. Sást Lukkan, skip Gránufélagsins. Sigldi hér upp að Sandi. 28. apríl. Fór útlent skip inn, óþekkt. 29. apríl. Fór ég, Jóhannes og Jón á Syðra-Hvarfi ofan á Sand til skipsins - farið ofan að vestan með 12 hesta - fram að austan. Keypti hálfan sel af Sigurði í Árgerði (Sigurðssyni). 30. apríl. Frétti til hákarla- skipa, afli 60-100 tunnur. Fisk- laust hér nú. 3. maí. Klofið vetrartað. Byrj- að vinna á. Sagt er nýtt skip Ingi- björgu hafa komið til faktora (á Akureyri) í dag. 4. maí. Járnaðir hestar, rakað af hrossum, stungið út, marið sundur og dreift vetrartaði. Logn og hiti. 5. maí. Farið að sjást hér lambagras og ljónslumma og sprungið út á víði. Kom Sigurður á Urðum, fékk hér býtti á 10 kr. gulls í silfur. 9. maí. Kom Hallur (Gíslason) og byrjaði á kálgarði suður og niður á velli. 10. maí. Enti Hallur við garð- hleðsluna og fór heim. 13. maí. Ent við að mylja, og öllu á suðurvelli ausið, þaktir ofan sáðgarðsveggir. 15. maí. Kom Jón á Jarðbrú með landskuldir gemlinga, vænt. Borið saman tað úr ærhusum, þar með lokið eldiviðar hirðing. Rek- ið saman og rúið geldfé, kom þoka að kvöldi og norðan átt og regn skúr mikill, gaf öllu geldfé mínu hey, og beið það til næsta morguns inni. 22. maí. Rekið geldfé, ráku Páll og drengir. Stunginn garður suður og niður það sem eftir var. Björn Snorrason hér. 23. maí. Stungið og hresst uppá garða út og upp. Kom Baldvin í Höfða (Gunnarsson) ræddum um pöntun. Gert við myllu. Lagaður og þakinn fjós- veggur að austan, skorið torf í það. Sett ofan í garð kartöflur. Kom Sigurður búfræðingur og trók ofan af þúfum með Nonna milli sauðhúsa (Jón Þórðarson Hnjúki, Hlíð, Þóroddsstöðum . Nonni kominn í stað Jóhannesar sem flutti í Hrísa, Hof, Skriðu- kot). 28. maí. Rist um 90 af heytorfi suðurfrá, þakinn hjallur. 30. maí. Kom Þorsteinn smiður, ætlar til Ameríku. Kom síld, reyndir róðrar. 5. júní. Kom Þorsteinn smiður frá Hvarfi (var að kveðja), verð- ur hér í nótt, kom Þorsteinn á Urðum úr kaupstað (Jóhannes- son). 7. júní. Fór Þorsteinn smiður héðan alfarinn með því áformi að flytjast til Ameríku. Réru bátar hér í dag, 30 í hlut. 10. júní. Annar í hvítasunnu. Margt til altaris, héðan 5. var far- ið á stað með Þorstein smið (Þ. Þorsteinsson smiður Upsum faðir Þ.Þ.Þ. rithöfundar og Freyju á Hrísum) meðfram eftir síld (til Akureyrar). 11. júní. Fórum ofan, var dreg- ið fyrir fengum 12 bröndur í hlut (silungur) ekki róið, bálveður að kvöldi, lágum í búðinni. 12. júní. 30-50 í hlut á silung sem fékkst í gærkvöldi. Kom J.V. Hafsteen (Jakob Valdimar faktor og konsúll Akureyri). 17. júní. Dregið fyrir við sandinn, fékkst silungur, róið á 4 bátum, 50-80 í hlut. Fór ég ofan og Gústi á Hvarfi og Nonni. Dregið fyrir, fékkst silungur. 22. júní. Víseteraði prófastur á Völlum, fór eg þangað af Sandin- um. 26. júní. Róið almennt, rérum með sjóbeitu og saltaða síld, 35 í hlut. Rérum út hjá Forvaða, gekk í rok, börðum heim. Kom jakt Gránufélagsins með korn- vörur sótti ull. Ég verslaði ekki í kvöld en var að yndirbúa. 29. júní. Rekin lömbin. Ég átti 56, þar af 24 geldingar, 4 hrútar, 28 gimbrar, 2 eftfr yndir ám, hrútur og gimbur, alls til í dag 58 mín. Ær hafa mjólkað ágætlega þessa viku. Byrjað að slá. 30. júní. Lagði séra Kristján (K. Eldjárn Þórarinsson Tjörn) á stað ásamt Þorbjörgu systur sinni suður í Borgarfjörð, til fylgdar Árni Sölvason (bóndi Hverhóli). Framhald í næsta blaði. Vtra-Hvarfsbærinn fyrir aldamót. Stafnhúsið næst á myndinni stendur enn. 2 - NORÐURSLÓÐ

x

Norðurslóð

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Norðurslóð
https://timarit.is/publication/1253

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.