Norðurslóð - 28.01.1988, Side 4
Lausn Ijóðaþrautar
Að venju hafa margir spreytt sig á ljóðagetraun Norðurslóðar
og sumir náð ágætum árangri eins og sagt er á íþróttamálinu.
Hér birtum við lausnirnar og feitletrum orð og setningar, sem
innifela nákvæmt svar við spurningunum.
1. Hvenær er viðsjált að ríða vötnin?
En viðsjált, viðsjáft er á vetrardegi vötnin að ríða.
Grímur Thomsen.
2. Hver safnar allri frónskri drótt?
Minning hans, Jóns Sigurðssonar safnar allri frónskri drótt.
Hannes Hafstein.
3. Hver lýsir sem leiftur um nótt?
Stund þíns fegursta frama lýsir sem leiftur um nótt.
4. Hvað stynur sem strá í næturkulda blæ?
Undir þér bergið sterka stynur sem strá í næturkulda blæ.
Kristján Jónsson.
5. Hvar óx dugur, þrek og dirfskan mín?
Dugur þrek og dirfskan mín/drjúgum óx við brjóstin þín.
Matthías Jochumson.
6. Hver leiðir ljúfan blæ á lífið?
Hin ljúfa sönglist leiðir á lífið fagran blæ.
Steingr. Thorsteinsson.
7. Fyrir hvað yrði margur sæll og elska landið heitt?
Mætti hann vera í mánuð þræll/og moka skít fyrir ekki neitt.
Páll J. Árdal.
8. Ur hverju má jafnvel sjóða sverð?
Og jafnvel úr hlekkjunum sjóða má sverð/í sannleiks og frelsisins
þjónustugerð. Steingr. Thorsteinsson.
9. Hver gréri í skúta inn í gljúfrum grám?
I skúta inn í gljúfrum grám/ þar gréri burnirót.
Páll J. Árdal.
10. Hver er sjónarsteina unun ein?
Sjónarsteina unun ein/ertu Skíðadalur.
Haraldur Zóphóníasson.
11. Hvar er ekki rótt að eiga nótt?
Ekki er rótt að eiga nótt/undir Gróttutöngum.
Draumvísa.
12. Hvar hef ég þegið þyngsta magafylli?
I Bárðardal. Bárðardalur er besta sveit/þó bæja sé langt á
milli. Pegið hef ég í þessum reit/þyngsta magafylli.
Látra-Björg.
13. Hver hringir Líkaböng?
Arason með ægimítur/ystur hringir Líkaböng.
Matthías Jochumsson.
14. Hvað er beint í norður? (Ekki norðri.)
Beint er í norður fjallið fríða/Fákur eykur hófaskell.
Jónas Hallgrímsson.
15. Hvar náið þið háttum/þótt þið hjarið á meðan þið getið?
Og háttum þið náið í Helvíti þó þið hjarið á meðan þið getið.
16. Hver skeiðar fljótur, frár?
Jarpur skeiðar fljótur, frár/fimur reiðaljónið.
Eggert Ólafsson.
17. Hvað vinnur aldrei neinn?
Pað varð til einskis, veldur stuttri töf./Pað vinnur aldrei
neinn sitt dauðastríð. Steinn Steinarr.
18. Hvað er ungum allra best?
Ungum er það allra best/að óttast guð sinn herra.
Hallgrímur Pétursson.
19. Hvað vefja hreinar píkur um hár á sér?
Hárauð bönd um hár á sér/hreinar vefja píkur.
Sigurður Breiðfjörð.
20. Hvað stóð sem klettur úr hafinu?
Reykurinn glóðþrunginn gaus upp úr kafinu./gaflhlaðið eitt
stóð sem klettur úr hafinu. Hannes Hafstein.
21. Fyrir hvað hefur hún gefið mér hörpudisk?
. Hún hefur gefið mér hörpudisk/fyrir að yrkja um sig bögu.
Jónas Hallgrímsson.
22. Hver er best af blómunum mínum öllum?
Og hún (maríuklukkan) er best af blómunum mínum
öllum./Pað borðar hana dalakindin svöng.
Halldór Laxness.
23. Hvað brosir mér mót í björtum hvammi?
Bær í björtum hvammi/mér brosir á mót.
Matthías Jochumsson.
24. Hvað er hér í þessu dragi?
Sjá, skjól og hestahagi/er hér í þessu dragi.
Páll J. Árdal.
25. Hvað kemur með fjörgjafaljósinu skæra?
En sumarið blítt kemur fagurt og frítt/meður fjörgjafaljós-
inu skæra. Jónas Hallgrímsson.
Eftir á að hyggja verður að viðurkennast, að spurning 10 er
svo sérsvarfdælsk, að hún hefði ekki átt að vera með. Þó hafa
furðu margir utansveitarmenn fundið rétta svarið
einnig við þessari spurningu.
Eftirtaldir hafa sent lausnir og yfirleitt eru þær alveg hárréttar
og hjá sumum mjög vel útfærðar með tilvitnun í heiti kvæðis og
höfund:
1) Björn Þórðarson Akureyri, 2) Stefanía Jónasdóttir og
Sigurður B. Sigurðsson Brautarhóli, 3) Aðalgeir Egilsson Mán-
árbakka, 4) sr. Stefán Snævarr og fjölskylda Seltjarnarnesi,
5) Dagbjört Ásgrímsdóttir, 6) Friðrika Guðjónsdóttir og Frið-
jón Kristinsson Dalvík, 7) Helen Ármannsdóttir og Stefán Jón-
mundsson Dalvík, 8) Sigrún Dagbjartsdóttir Neskaupstað,
9) Pálmi Jóhannsson Odda Dalvík, 10) Kristjana Ásbjarnardótt-
ir, Álftagerði Mývatnssveit, 11) Páll Helgason Akureyri, 12)
Freygarður og Kristján Þorsteinssynir Uppsölum og 13) Jónína
Kristjánsdóttir Klængshóli.
Verðlaunin fá að þessu sinni þeir Uppsalabræður Freygarður
og Kristján. Það er bókin Aldnir hafa orðið 16. bindi, gefið af
bókaforlaginu Skjaldborg.
Kristínn á Hnjúkí 75 ára
Afmælisrabb
Erna og Kristinn.
Mér barst til eyrna, að Kristinn
bóndi á Hnjúki í Skíðadal ætti 75
ára afmæli einhvern daginn sein-
ast í janúar. Þá varð mér næst
fyrir að grípa til hjálparhellunnar
milku, Svarfdælinga, fyrra bindi,
og fá frekari staðfestinug á frétt-
inni. Mikið rétt. „Jón Kristinn
Rögnvaldsson f. 26. jan. 1913 í
Dæli o.s.frv." Að kvöldi 25.
hringdi ég í Kristin og rabbaði
við hann drjúga stund í síman-
um. Árangurinn er það senr nú
skal greina í lauslegum útdrætti.
Fyrst er þó gaman að láta þess
getið, að Hnjúkur er sú jörð í
Svarfaðardalshreppi þar sem
sama ætt hefur einna lengst búið
og býr enn. Allir kannast við
Hnjúksættina, sem sprottin er út
af þeim hjónum Þórði Jónssyni
og Halldóru Jónsdóttur, sem þar
bjuggu frá 1872 og vel fram á
þessa öld. í þeim fjölmenna hópi
úir og grúfir af merkismönnum
bæði búsettum hér á heimaslóð-
um ættarinnar og víðar um
Eyjafjörð og svo að sjálfsögðu
fyrir sunnan þangað sem úrvals-
fólk úr öllum ættum landsins hef-
ur streymt alla öldina. En rætur
ættarinnar á Hnjúki ná þó miklu
lengra aftur en til þessara hjóna,
því Jón faðir Þórðar og Þórður
(eldri) faðir hans bjuggu báðir á
Hnjúki, sá síðarnefndi frá alda-
mótum 1800. Svo það fer a.m.k.
að nálgast 200 árin sem þeir ætt-
menn hafa setið óðalið, þó þann-
ig að nokkur stutt tímabil hafa
aðrir og óskyldir búið á jörðinni.
En hvað um það, Rögnvaldur í
Dæli hafði eignast jörðina eftir
föður sinn, en kaus að búa í
Dæli, senr hann eignaðist með
kvonfanginu, eins og segir í
Svarfdælingum, en leiguliðar
bjuggu á Hnjúki. Þegar hann var
orðinn hálfsjötugur vildi hann
losna frá búskaparumstanginu og
hafði á orði að hann vildi selja
báðar jarðirnar, Dæli og Hnjúk.
Þau Dælishjón áttu 11 börn þar
af 7 syni og nú varð það að ráði
að tveir synirnir, Kristinn og
Gunnar, skiptu liði og tóku hvor
við sinni jörðinni, Kristinn
Hnjúki og Gunnar Dæli. Þetta
var árið 1947 og nú 40 árum
seinna og einu betur er þá báða
að finna á þessum stöðum þótt ný
kynslóð sé tekin við búskapnum.
Reyndar byrjuðu þeir Dælis-
bræður að búa á Hnjúki nokkru
fyrr sem leiguliðar föður síns
fyrst Kristinn og Árni og þegar sá
síðarnefndi fór í Kennaraskól-
ann, þá Kristinn og Gunnar 1942-
’47. Er þetta kannske svolítið
ruglingslegt?
En hvað um æskuár Kristins,
voru þau kannske engin eða þá
námsár. Jú, jú, æskuárin voru
ágæt þarna í Skíðadalnum,
mergð af ungu fólki á bæjunum
og félagslíf ágætt. Það var einmitt
þá sem þeir stofnuðu ungmenna-
félagið Skíða. Það var laust fyrir
1930 og blómaskeið félagsins var
4. áratugurinn og fram á þann 5.
Dalurinn var fullur af rímantík
og fögrum fyrirheitum. Dóri á
Völlum (Þverá) orti gamanbrag
um Skíðafélagana, þegar Krist-
inn var um tvítugt og hann fékk
þessa vísu:
Margt er það sem Kristinn kann,
kevrt á bíl hann getur.
Einhver stúlka eignast hann
og eina rollu betur.
Þetta með bílinn var ekki alveg
út í loftið. Kristinn varð nefni-
lega einhver með fyrstu Svarf-
dælingum til að fá bíla- og véla-
dellu, eins og það heitir á gullald-
armáli. Hann fékk föður sinn til
að selflytja sig ríðandi inn í
Fagraskóg, það hefur verið
skömmu eftir 1930, þar sem hann
náði svo í mjólkurbíl til Akureyr-
ar. Þar fór hann á bifreiðanám-
skeið og kom heim með próf upp
á vasann, enda keypti hann sér
fljótlega Vi tonns vörubíl og var
þá orðinn aldeilis boðlegur, ung-
ur efnismaður, smanber vísuna.
Ryndar var hann farinn að
keyra tragtor fyrr. Það var gamli
Surtur Búnaðarfélagsins, sem
Kristinn vann með í 9 sumur, oft-
ast með öðrum t.d. Sveini Gam-
alíelssyni í Skeggstöðum.
Þarna vann hann sem sé fyrir
beinhörðum peningum á kreppu-
árunum og var því ekki í vand-
ræðum að kosta sig í skóla, því í
skóla vildi hann fara. Ekki fór
hann þó í bændaskóla, eins og
títt var þó með unga menn, og
varð aldrei búfræðingur (það er
rangt frá sagt í Svarfdælingum)
heldur dreif hann sig suður á land
og fékk inngöngu í héraðsskól-
ann á Laugarvatni, þar sem hann
sat í tvo vetur, 1937-’39, lærði
mikið og kynntist mörgu, ungu
fólki úr öllum landshlutum. Þetta
var nú að mörgu leyti fegursti
tími æfi minnar, segir Kristinn.
Má láta konuna heyra þetta spyr
blaðamaður. Ég held nú það,
hún hefur svo oft heyrt mig segja
þetta.
Nú datt Kristni í hug að kom-
ast í hinn nýstofnaða gerðyrkju-
skóla í Hveragerði, því hann
hafði mikinn áhuga á allri
ræktun, þ.á.m. ræktun trjáa og
matjurta. En liann fékk ekki inn-
göngu þegar til kom. Nú var
landið hernumið og Svarfdæl-
ingurinn ungi gekk í lið með
breska heimsveldinu og fór nt.a.
að vinna við flugvallargerð í
Kaldaðarnesi á bökkum Ölfusár.
Þá hélt hann til á Eyrarbakka hjá
Hönnu uppeldissystur sinni sem
þar bjó. (Jóhanna Hallgrímsdótt-
ir) Þar fór hann út í kartöflurækt.
Samtímis átti hann kartöflur í
jörð heima í Dæli, þar sem nú er
skógarreiturinn við veginn norð-
an tungirðingar. Það hefur víst
verið haustið 1940 eða ’41 að hann
tók upp kartöflur sínar fyrst
heima í Dæli og síðan suður á Éyr-
arbakka. Á þessum árunr hefur
líklega munað litlu að Kristinn
gerðist Sunnlendingur. Hann
kunni svo afskaplega vel við sig í
Árnesþingi og fann mæta vel til
munarins á góðsveitum Suður-
landsundirlendis og blessaða,
snjóþunga afdalnum heima.
En röm er sú taug, sem rekka
dregur o.s.frv. Og í einu gat
Skíðadalur jafnað sig við Suður-
landið. Þar voru ekki síður fríðar
og föngulegar bændadætur
nálega á hverjum bæ. Og auðvit-
að fór það svo sem fara hlaut, að
Kristinn, sem nú hafði búið á
Hnjúki aftur síðustu árin, krækti
sér í eina þeirra eða hún í hann,
eða þau hvort í annað, það er
aldrei að vita hver krækir í hvern
í þessu lífi. Nema hvað, í fyllingu
tímans setti Hnjúksbóndinn heit-
mey sína, Ernu Kristjánsdóttur á
Klængshóli, upp í vörubílinn
góða og þau óku niður í Velli 17.
september 1948 þar sem séra
Stefán Snævarr gaf þau saman í
heilagt hjónaband. Svo þarna
voru þau orðin hjón í allri hóg-
værð og yfirlætisleysi og hafa lif-
að í sátt og samlyndi allar götur
síðan. Má ég ekki segja það, kall-
ar hann frá símanum fram til
konunnar og fékk, að gefnum
skýringum, fullt og afdráttarlaust
umboð til að endurtaka þessa
staðhæfingu. Þau eiga því 40 ára
hjúskaparafmæli á næsta hausti
hvað sem það nú heitir.
Þarna rættist sem sé spásögnin
í vísunni:
„Einhver kona eignast hann
og eina rollu betur. “
Þetta síðasta hefur einnig ræst
margfaldlega, því Kristinn og
Erna hafa allan sinn búskap haft
ágætt sauðbú, ásamt með
kúabúinu, og enn í dag er þar eitt
af sárafáum sauðbúum, sem eru í
góðu gengi hér í þessari riðu-
sveit. Nú er þar 120-130 fjár, sem
gefur góðan arð eins og annar
peningur á bænum þeim, því
heimilisfólkið er samhent og
leggur alúð við búskapinn. Sjálf-
ur er Kristinn aðalfjármaðurinn
og sinnir gegningum á hverjum
degi. Þann mikla og ómetanlega
kost hefur sveitabúskapurinn, að
bændurnir geta unnið störf, sem
þeir kunna til hlítar, fram á elliár
og meðan heilsan endist. Þessu
má ekki gleyma, þegar rætt er um
kosti og ókosti sveitalífsins.
Hér hefur verið farið æðihratt
yfir sögu. Kristinn bóndi segist
vera vel sáttur við hlutskipti sitt í
lífinu. Hann hefur stundað
búskapinn með ánægju og áhuga,
þótt hann væri sem unglingur
meira fyrir vélagrúsk og þesshátt-
ar. Hann hlaut líka að lífsföru-
naut konu, sem ekki hefur unnið
við búskapinn með hangandi
hendi. Það skiptir nokkru máli.
Og svo hafa þau hjón haft
barnalán í besta lagi. Börnin eru
Snorri, bóndi á Hnjúki, Margrét
á Skeiði og tvíburarnir Ingibjörg
á Hæringsstöðum og Kristjana á
Dalvík þ.e.a.s. öll í heimabyggð
og það er ekki svo algengt á vor-
um dögum. Og svo eru blessuð
barnabörnin á öllum þessum
heimilum.
Auðvelt væri að teygja þennan
lopa miklu, miklu lengur, en við
látum hér við sitja. Hinsvegar vil
ég koma á framfæri við afmælis-.
barnið bestu kveðjum og heilla-
óskum mínum og sveitunganna
(ég tek mér það bessaleyfi) með
von um að Kristni endist enn um
sinn líf og heilsa til að vinna við
búskap og lesa góðar bækur, sem
er ein af ástríðum hans. Og öll
óskum við þess, að Hnjúksættin
sitji enn í nokkrar kynslóðir á
ættaróðalinu og auðgi Svarfdæla-
byggð af kjarnafólki hér eftir sem
hingað til.
HEÞ.
4 - NORÐURSLÓÐ