Norðurslóð - 30.04.1990, Side 5

Norðurslóð - 30.04.1990, Side 5
NORÐURSLÓÐ - 5 Haraldur Guðmundsson sjötugur Rafvirki og lífsiistamaður Það verða margir mcrkismenn sjötugir á þessu ári hér um slóðir. Hann er góður árgang- urinn frá 1920. Einn þeirra heitir Haraldur Ingvar Guð- mundsson rafvirkjameistari á Dalvík, öðru nafni Halli raf- virki í Grundargötu 1. Ekki þarf að hafa fleiri orð um það, allir vita hver maðurinn er. A dögunum kom hann fram í sveit að líta á bilað sjónvarps- tæki. I leiðinni var honum boðinn kaffisopi og á meðan var skrafað urn gamla daga, en Haraldur er allra manna skemmtilegastur í samræðum og hefur frá mörgu að segja frá viðburðaríkri ævi. Allra best lætur honum þó að segja frá útilífi og sambúðinni við náttúr- una til sjós og lands. Hér er meiningin að festa á blað örfá atriði af því sem bar á góma yfir kaffinu, en alls ekki rakin nein ævisaga. Hún gæti komið síðar. Haraldur fæddist 28. apríl 1920 á Hnappsstöðum í Stíflu í Fljótum. Það er kirkjustaðurinn neðst í Stíflu austanmegin og liggur akvegurinn (Ólafsfjarðar- vegur nr. 82 ) milli kirkju og vatns. Jörðin er í eyði. en kirkj- unni vel við haldiö upp á síðkast- ið. Haraldur var elsta barn þeirra hjóna Guðmundar Guðmunds- sonar Fljótungs og Sigurbjargar Hjörleifsdótur, sem var svarf- dælsk. bcgar Haraldur var 2-3 ára fluttu ungu hjónin sig um set og settust að á Húnsstöðum, en það var smábýli norðar og nær Stífluhólunum en Hnappsstaðir eru. Nú liggur vegurinn yfir bæjarrústirnar og Stífluvatnið, sem hækkaði um marga metra við gerð Skeiðsfossvirkjunar, er nú skammt fyrir neðan gamla hlaðvarpann rétt eins og á Gauta- stöðunr beint handan við vatnið eða í Tungu innan við vatnið að vestan. En á bernskudögum Haraldar var þctta allt öðruvísi, ef ekki endilega fallegra þá a.m.k. fjöl- breytilegra. Áin liðaðist fram um sléttan dalbotninn í stórum sveig- um, starar- og valllendisengjar, víðihólmar og hæfilega lítið stöðuvatn eða tjörn kennd við Tungu og Gautastaði, sem áttu aðliggjandi lönd. Á Húnstöðum óx Haraldur upp til 8 ára aldurs, á þessum unaðslega stað í skjóli Stífluhólanna nteð grasi- og lyngiyaxna hlíðina að baki og árbakka og mýrar framundan. allt vafið gróðri og iðandi af lífi á landi. lofti og vatni. Þessi róm- antíska lýsing á reyndar við sumardýrðina. Veturinn í Stíflu er harður og snjóþungur, ekki síður en hér, en þá birtist fegurð- in bara í öðrum búningi, snævi- þakin háfjöll með svörtum hamrabeltum og svell um renn- sléttan dalbotninn. Þessi mynd af bernskuslóðum býr óafmáanleg nreð Haraldi og hefur haft varanleg áhrif til að skapa manngerðina. Vorið 1928 urðu kaflaskil í lífi fjölskyldunnar, sem raunar hafði stækkað drjúgum á Húnsstaðaár- unum og taldi nú foreldra og 6 börn. Þau fluttu þá um vorið hingað á heimaslóðir húsmóður- innar og settu sig niður í Gull- bringu, þar sem foreldrar henn- ar, Hjörleifur og Rósa, höfðu búið unt hríð. Haraldur man vel eftir búferlaflutningnum inn yfir Lágheiði niður í Ólafsfjarðar- horn og þaðan á báti til Dalvíkur. Ein mjólkurkýr var með í för, en hestar og kindur sótt síðar. Síð- asta spölinn frátn í Gullbringu ók Sigurður Jónsson kaupmaður fólki og farangri á Fordinum sínum. Það var allt mikið ævin- ýri, fyrsta sjóferðin og fyrsta bíl- feröin í einni lotu. Stórkostleg lífsreynsla. I Gullbringu bjó fjölskyldan í 19 ár og óx um helming. Það bættust 7 börn í hópinn og urðu þar með 13 að tölu (13 er ekki alltaf ólánstala). Hér þarf að fara fljótt yfir sögu. Börnin uxu upp í náinni snertingu við náttúruna í fjalli og mýri, gengu í skóla á Grund og urðu hraust til sálar og líkama. Síðan hélt hvert sína braut við nám og störf eins og örlögin bjóða hverjum og einum. Þetta voru góð ár, þótt ekki væri auður í búi. Hluti af uppeldi Gullbringu- barna, a.m.k. strákanna, fór fram í smiðjunni, þar sem Guð- mundur stóð margan daginn við smíðar og í framhússtofunni þar sem liann sat löngum stundum og rýndi í biluð úr og klukkur og fleira þess háttar. Þar kviknaði í ungum sálum áhugi á tækjum og vélum og alls konar „mekanikk", ef leyfist að nota slíkt orð. Þegar Haraldur var 10 ára, haustið 1930, bar nokkuð nýrra við í sveit vorri. sem varð undanfari meiri breytinga en flest annað í 11 hundruö ára sögu byggðar í dalnum. Það kviknaði á gríðarstórri rafmagnsperu nið- ur á Dalvík, reyndar fleirum en einni. Þá tóku til starfa vatns- virkjanirnar á Brinrnesi og hjá KEÁ á Dalvík, báðar knúðar sama vatninu úr Brimnesánni. Þetta voru stórkostieg tíðindi í haustmyrkrinu og blöstu því bet- ur við Gullbringufólki sem bær- inn stendur hærra en aðrir. Og ekki nóg með það. Tveimur árum seinna kviknaði á stórum perum beint á móti Gullbringu, hinum megin í dalnum. Það var vatns- virkjuyn Péturs Eggerz Stefáns- sonar í Hánefsstöðum. Þetta hefur verið mikil ögrun fyrir ungan dreng í Gullbringu. sem var hneigður fyrir mekanikk og tækjagrúsk. Rafmagnið, það var framtíðin. Nú fer Haraldur að rifja upp fyrstu kynni sín af raftækni, sem áttu reyndar eftir að gera hann frægan á ungum aldri, svo frásagnir af galdraverk- um hans birtust jafnvel í blaði í höfuðstaðnum og sköffuðu hon- um viðurnefnið „Edison" sem margir þekktu hann undir um skeið. Fyrst var það hjá Jóhanni í Sogni, sem passaði Kaupfélags- stöðina undir kolabakkanum. Hann lol'aði forvitnum sveita- strák að komá mcð sér þangað niður og þar leit hann fyrst galdraverkið og fékk skýringar á fyrirbærinu. Næst komst hann yfir gamlan dínamó hjá Sigurjóni móðurbróður sínum. Hann hafði verið notaður á reiðhjól. Dína- mórinn fékk fyrir ferðina, því rafvirkinn tilvonandi reif hann sundur stykki fyrir stykki og átt- aði sig í stórum dráttum á gang- verkinu. Hér veröur að sleppa að segja frá kynnum Haraldar við sýrubatterí og útvarpstæki og nefna aðeins kynni við rafstöðina í Hánefsstöðum, scm Guðmund- ur var fenginn til að gera við þeg- ar vatnsrörin og túrbínan stífluð- ust af aðskotahlutum. Það var allt mikill lærdómur. Fljótlega fór sá ásetningur að setjast í piltinn nýfermdan. að það ætti ekki að vera neinn vandi að framleiða rafmagn í Gull- bringulæknum og fá Ijós í bæinn. Heimarafstöð í Gullbringu Og nú fer Haraldur að lýsa til- færingunum með fyrstu „virkjun- ina“ í bæjarlæknum. Þar koma við sögu hinir sundurleitustu hlutir, langi skilkarlinn úr gömlu skilvindunni á Tjörn til að mynda góða bunu á vatnshjólið, gamall dínamór og nokkrar 25 vatta per- ur frá Tona Antons, „jöklakap- all“ ofan af Heljardalsheiði frá Ármanni á Urðunt ásamt gadda- vír, sem leiddi strauminn frá stöð í bæ o.fl. o.fl. Nema hvað, þetta gekk og það kviknaði á einum 4-5 perum hér og þar um gamla torf- bæinn í Gullbringu og í framhús- inu, þar sem Guðmundur m.a. hafði úraverkstæði sitt. Og það var mikil dýrð í kotinu. Þetta mun verið hafa á því herrans ári 1935, þegar viðmælandi vor var á 16. árinu. Síðar á þessu ári og því næsta endurbætti Haraldur raf- stöð sína svo, að hann hafði að lokum ein 200 vött og hafði ljós í öllum vistarverum m.a. yfir vinnuborði föður síns og m.a.s. hjá kúnum í fjósinu. Spennan var 32 volt og hann varð sér úti um sýrurafgeymi til að mæta álags- toppum. Hann veitti saman lækj- arseyrum í fjallinu m.a. volgrun- um undir Tjarnarhrauninu og gerði „damm“ upp við girðing- una fyrirofan bæinn. Þessi mann- virki sjást enn í landslaginu. Stöövarhús meö vindinum Stöðvarhús fékk hann ódýrt. Þannig var, að fyrir ofan Sund- skálann var á þessum árum útikamar einn ágætur. í einu sunnanrokinu fauk kamarinn af sínum stað langt út á Gullbringu- tún. Það varð að samningi á milli Kidda sund og Haraldar að hann fengi „húsið“, sem var vel heil- legt gegn því að hann sæi um miðstöðvarkyndinguna í Skálan- Haraldur og Ingibjörg Helgadóttir kona hans ásamt dótturinni Sigríði Björg og dótturdótturinni Uagnýju, dóttur Helgu. Önnur börn þeirra eru Helga, Ingvar, Guðmundur, Hjörleifur og Haraldur Örn. Haraldur sjötiigur. Ljósm.: SH um það árið. Síðan lagaði hann húsið til þannig að það þjónaöi með prýði sem stöðvarhús fyrir Gullbringuvirkjun í 10 ár eða allt þar til næsti þáttur hófst í lífi ljöl- skyldunnar. Karlsá I stríðslokin mun Guðmundur hafa tekiö að líta í kringum sig eftir heppilegra og stærra jarð- næði. Hann fékk augastað á Karlsá á Upsaströnd, en þar hafði ábúð veriö stopul undanfar- ið og jörðin föl til kaups. I lún var í eigu Þorsteins kaupmanns, sem byggði hana upp á sínum tíma og raflýsti frá lítilli heimastöð við Brunnána. Guðmundur keypti Karlsá 1947 og þangað flutti fjölskyldan um vorið, þ.c.a.s. hjónin mcð þau af börnunum, sem enn voru í foreldrahúsum. í kaupunum var árabátur á Karlsárnausti og gamli Chevroletbíllinn, gamli Gráni kallaður. Kaupin á Karlsá voru vel ráðin. Fjölskyldan tók strax ást- fóstri við staðinn. Þar er stórbrot- in náttúran allt um kring á sjó og landi, víðsýni mikið fram í dal, inn með firði upp til fjalls, yfir um fjörð og út á haf, fagurt og hreinlegt livert sem augaö lítur. Raffræöingurinn Hér hefur verið hlaupið fram fyr- ir sig í tímanum. Haraldur fór í læri. sem kallað er, til Akureyr- ar. fyrst í bílaviðgerðir. Þar var hann hætt kominn af kolsýrings- eitrun, sem varð þess valdandi, að hann sneri bakinu við þeirri iðngrein, en réð sig nokkru síðar sem lærlingur til Samúels Krist- bjarnarsonar rafvirkjameistara á Akureyri, líklega var það 1942. Hann lauk námi í þeiri grein og varð meistari í fyllingu tímans. Þar erum viö komin að ævistarf- inu, sem alls ekki er ætlunin að ræða hér. Karlsá aftur Þau Guömundur og Sigurbjörg bjuggu hefðbundnum búskap á Karlsá fram undir 1960. Börnin aðstoðuðu foreldrana eftir getu, en tækifærin til þess urðu smám saman færri eins og að líkum lætur. Svo fór aldurinn að merkja sér gömlu hjónin. Þau vildu, að eitthvert barnanna tæki við bú- skapnum. Það varð að ráði, að Haraldur kom frá Akureyri með fjölskyldu sína og flutti í Karlsá. Það var frá upphafi hugsað sem tímabundin ráðstöfun meðan gömlu hjónin gætu og vildu búa þar. Guðmundur andaðist 1965, Sigurbjörg 10 árum síöar. Haraldur flutti suður á Dalvík 1965 og hefur búiö þar síðan og starfað við iðngrein sína við fágætar vinsældir jafnt í bænum sem sveitinni. En Karlsá er ekki auð og afrækt þrátt fyrir það. Systkinin hafa haldið húsum og mannvirkj- um við með sóma þ.á m. rafstöð- inni. sem sent hefur vinarkveðju sína lengst fram í dal og inn með firði allar götur frá 1932 og gerir enn í dag. Þarna una sér systkini Harald- ar og nú hin nýja kynslóð, börn þeirra löngum stundum, einkum á sumrin. Þau hafa gcrt jörðina að nokkurs konar óformlegu friðlandi, þar sem ekki er leyfð áníðsla á náttúruna, hvorki gróð- ur né fuglalíf. M.a.s. Haraldur, annáluð skytta og veiðimaður, lætur sér ekki detta í hug að skjóta á rjúpu í heimalandinu. Birkikjarr er í Karlsársetanum frá fornu fari. Það er á uppleið nú í sauðleysinu. Og fyrir neðan veg er veriö að koma upp birkiskógi í stóru, lokuðu hólfi. Nýr Karlsár- skógur er í uppsiglingu. Með þeim orðum Ijúkum við þessu afmælispjalli og óskum Haraldi Guðmundssyni til ham- ingju á sjötugsafmælinu og árn- um honum og fjölskyjdu hans allra heilla. “ HEÞ. Aðalfúndur Sparisjóðsins 1990 Sparisjóður Svarfdæla hélt 105. aðalfund sinn laugardag- inn 14. apríl. Hagnaður var á rekstrinum kr. 3.071.570 og er þá búið að draga frá opinber gjöld að upphæð kr. 5.643.788. Ennfremur að leggja í afskrift- areikning útlána tæplega 9 milljónir króna. Á árinu 1989 varð 33,2% inn- lánsaukning og eru heildarinnlán í árslokin kr. 418.499.636, þar af á trompreikning rösklega 210 milljónir. Eigið fé í varasjóði er 75.392.803 sem er 10,15% af niðurstöðu efnahagsreinings og er það langt fyrir ofan tiískilið lágmark Tilkynnt var á fundinum fjárveit- ingar úr Menningarsjóði Svarf- dæla. Veittar voru kr. 500.000 til Leikfélags Dalvíkur, kr. 300.000 til útgáfu kynningarrits unr Dal- vík/Svarfaöardal og kr. 100.000 til Félags aldraðra á Dalvík. Fúndurinn samþykkti að veita í sjóðinn kr. 800.000 af tekjuaf- gangi liðins árs. Nýr maður var kosinn í stjórnina, Bragi Jóns- son, sem kom í stað Baldvins Magnússonar. Hestamenn í húsakaupum Hvað er nafnið? Hringver, Hringsholt? Fyrir skemmstu sömdu hesta- menn á Dalvík við Landsbank- ann á Akureyri um kaup á Ytraholtsskála fyrir kr. 8,5 milljónir. Formið inun vera þannig, að einstaklingar kaupi hver sitt hólf í skálanum, 100 fermetra og sumir meir og inn- rétti hver fyrir sig. I slíkt pláss eru sagðir rúmast básar fyrir allt að 7 hross. IVIilli 20 og 30 einstaklingar hafa gefið sig fram sem væntanlegir kaup- endur og er búist við fleirum. Samt er búist við, að helming- ur skálans verði eftir til annarra nota og mun Hestamannafélagið Hringur verða eigandi hans. Þar verður félagsaðstaða, kaffistofa, snyrting fundarsalur, en auk þess verður afgangspláss fyrir stórt „reiðgerði“ til, nota við tamn- ingastörf. Með þessum kaupum er hestamannafélagið búið að eignast einhverja bestu félagsað- stöðu, sem þekkist í landinu til slíkrar starfsemi. Er full ástæða til að óska félaginu til hamingju með þessa þróun mála. Enn er óvíst hver verða örlög Ytraholts- lands, en líklegt má telja, að Dal- víkurbær verði að lokum eigandi þess.

x

Norðurslóð

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Norðurslóð
https://timarit.is/publication/1253

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.