Feykir


Feykir - 22.12.2010, Side 22

Feykir - 22.12.2010, Side 22
22 Feykir 48/2010 ( ÁSKORENDAPENNINN ) Veturinn 1997-1998 dvaldi ég sem skiptinemi á eyjunni Margarítu úti fyrir ströndum Venezuela. Ég bjó þar hjá konu að nafni Maria de los Angeles en sonur hennar var skiptinemi í Bandaríkjunum á sama tíma. Það er ekki laust við að ég hafi verið pínu kvíðin að eyða jólunum fjarri fjölskyldu minni í fyrsta sinn. Ég get ekki sagt að mér hafi fundist sérstaklega jólalegt um að litast þegar ég vaknaði á aðfangadagsmorgun í þrjátíu stiga hita og sól. Dagurinn byrjaði á því að ég fór niður á strönd með “frænkum” mínum og við lágum í sólbaði og spiluðum strandblak, ekki beint það sem ég geri vanalega á aðfangadag. Ég man að ég spurði “mömmu” hvort það klæddu sig ekki örugglega allir í sparifötin á jólunum því að mér var mikið í mun að haga mér rétt en mig langaði auðvitað að vera í mínu fínasta pússi. Ég var með einn sparikjól með mér sem ég á enn þann dag í dag þó að ég passi engan vegin í hann. Þessi kjóll er í sérstakur í mínum huga því að hann er eina flíkin sem pabbi hefur valið á mig og gefið mér. Á aðfangadagskvöld hittumst við stórfjölskyldan heima hjá Juan “frænda”. Ég fékk pínu sjokk þegar ég sá að við myndum borða jólamatinn af pappadiskum þar sem það átti náttúrulega enginn að þurfa að vaska upp á aðfangadag. Ég bauðst til að vaska allt upp því að ég gat ekki hugsað mér að borða jólamatinn af pappadiskum enda vön því að fínasta sparistellið sé tekið fram á jólunum en allt kom fyrir ekki og jólamatinn snæddi ég af bestu lyst þó að hann væri borinn fram á pappadiskum. Í Venezuela er það Jesúbarnið sem kemur með gjafirnar og þær eru opnaðar á miðnætti á aðfangadag. Ég fékk margar fallegar gjafir þetta árið sem ég geymi enn þann dag í dag. Áramótin voru ekki síður skrýtin en skemmtileg. Ég skildi ekkert í því hvað “afi” var að vesenast með pott og sleif rétt fyrir miðnættið og hvað þá hvað við áttum að gera við öll þessi vínber. En þegar klukkan var tólf á miðnætti hóf “afi” að slá inn árið og á sama tíma áttum við að borða 12 vínber. Það sem ég saknaði mest þessi áramótin voru flugeldarnir. Það skaut enginn upp flugeldum en þeim mun meira af kínverjum voru sprengdir. Þetta voru frekar litlaus en hávær áramót. Þetta eru einu jólin sem ég hef dvalið fjarri fjölskyldu minni og þó að þessi jól séu mjög eftirminnileg þá jafnast ekkert á við jólin í Mosfellsbænum hjá mömmu og pabba. - - - - - - Ég skora á stórvinkonu Skagastrandar, hana Di Ball, fjöllistakonu frá Ástralíu, að skrifa næsta pistil. Ólafía Lárusdóttir skrifar frá Skagaströnd Jól í Karabíska- hafinu 30 Í síðasta tbl. Feykis árið 1983 eru birtar miklar hrakningarsögur Tryggva í Lónkoti í Sléttuhlíð í Skagafirði, sem skráðar voru af Hjalta Pálssyni að ósk ritstjóra sem þá var Guðbrandur Magnússon. Ein sagan segir frá örlagaríkum degi þann 20. janúar 1915 þegar Tryggvi er á 12. aldursári og sýnir að enginn forðast örlög sín. Gefum Tryggva orðið. Vorið 1914 þegar ég var á ellefta árinu, fluttust faðir minn og fóstra búferlum frá Skálá að Mýrum. Þar bjuggu þá fyrir Konráð Sigurðsson og kona hans Indíana Sveinsdóttir ásamt dætrum sínum tveimur, Sölvínu Baldvinu 16 ára og Guðnýju Herdísi 12 ára, og heimafólki öðru. Um þetta leiti var risið skólahús á Skála, og fóstra mín, sem annars var hin mesta dugnaðar- og ágætiskona, var svo biluð til heilsu eftir slys nokkrum árum áður, að hún treysti sér ekki til að taka á sig allt það umstang sem skólahaldi fylgdi, taka kennara á heimilið og börn frá fjarlægari bæjum eftir atvikum. Þetta atriði mun ein helsta orsök til þess að við fórum frá Skálá. Um haustið höfðu foreldrar mínir ákveðið að koma mér fyrir á Arnarstöðum yfir skóla- tímann, töldu of langt og áhættusamt að ganga daglega alla þessa leið frá Mýrum að Skálá, af því ég var ekki eldri en þetta. Þar sem Herdís var á sama reki og ég og þurfti einnig að sækja skólann, hafði hún farið fram á það við foreldra sína, að þau kæmu sér einnig fyrir á Arnarstöðum eða Skálá, en faðir hennar þvertók fyrir það og sagði, að hún gæti líklega hlaupið þetta og blásið einhvern veginn. Stúlkan var mjög dauf útaf þessu og bað mig að vera með sér, svo hún þyrfti ekki að fara ein þessa leið. Það var því úr, að hætt var við að koma mér fyrir á Arnarstöðum, og við gengum bæði í skólann heimanað. Fór svo fram tíðindalítið til jóla. Nú hefst kennsla aftur að liðnum áramótum og brátt rennur upp hinn 20. janúar. Þennan morgun fórum við eins og venjulega upp í Skálá. Loft var þungbúið og mikið lognsnævi nýfallið á jörð. Skíði höfum við engin, en plömpuðum snjóinn, Feykir á þrítugasta aldursárinu Enginn forðast örlögin Tryggvi Guðlaugsson frá Lónkoti. Mynd: Stefán Pedersen sumstaðar í hné, og þetta var versta færi. Kennarinn talaði um, að sér litist illa á veðurútlitið og vildi ekki hafa skólann lengi frameftir vegna okkar, sem áttum langt heim að sækja. Ég hugleiddi þá að fara í Arnarstaði, en einhvern veginn fór það samt svo, að ég ákvað að fara heim, því það var líka ósk stúlkunnar, að ég yfirgæfi hana ekki í þetta skiptið. Nú er það, að við leggjum af stað klukkan líklega um tvö og göngum sem leið liggur út eftir Sléttuhlíðarvatni að Keldum. Þar bjó þá Ólöf, systir Herdísar, þá nýgift kona, með manni sínum Ásgrími Halldórssyni. Þennan dag stóð svo á, að Ólöf var að ala fyrsta barn sitt. Þetta vissum við ekkert um, höfðum ekki komið þar við um morguninn. Herdís hefur nú orð á því, að sig langi til að koma í bæinn og hitta systur sína og segir við mig: „Þetta er allt í lagi, ég kem ekkert heim í kvöld.“ Ég lét það gott heita, hélt áfram og fór að hlaupa, ætlaði bara að flýta mér heim. Ég er ekki kominn nema nokkuð hundruð metra áleiðis ofan að Mýrum, þegar ég heyri einhver óskapleg læti í loftinu eins og brimgný og á augnabliki er brostinn á ofsabylur, svo að ekki sá út úr augum og veðrið illstætt. Á einhverri hundaheppni tókst mér að ná svarðarhlöðum sem voru þarna frá Mýrum og Keldum, og þar fór ég að reyna að átta mig á, hver væri stefnan á Mýrar. Ég tók svo þá stefnu, sem ég áleit rétta, og heppnaðist að krafla mig heim í veðurofsanum. Þegar þangað kemur, segi ég náttúrulega þá frétt, að Dísa hefði orðið eftir á Keldum. Móðir hennar og systir fóru þá að spyrja mig nánar út í þetta og það var eins og slægi óhug á alla við þessi tíðindi. Ég skildi það sjálfur ekki og hef aldrei getað skilið, hvernig á þessu stóð. Það var eins og fólkið fengi eitthvert hugboð um, að ekki væri allt með felldu. Þarna var þá staddur Jón nokk-ur Þorsteinsson, eldri maður, en léttur á fæti og hreyfanlegur, og er hann sendur eins og skot að Keldum til að vita, hvort Dísa væri þar, eða hefði lagt af stað út í hríðina. Þegar hann nær Keldum, kemur í ljós, að hún hefur lagt af stað skömmu á eftir mér og aldrei komið inn. Hafði hún hitt ljósmóðurina úti fyrir, sem tjáði hversu ástatt var hjá systur hennar, svo hún ákvað að halda áfram heimleiðis. Jón hefur sig svo aftur niður að mýrum við illan leik og er náttúrulega brugðið við og allir vinnufærir menn búa sig til leitar. Það voru víst ekki nema 5-6 menn, sem hægt var að ná til, en það er leitað alla nóttina í stórhríðinni, farið meðfram sjónum og vestur í Höfðann. Menn héldu, að hún hefði helst lagt leið sína þangað, en það var raunar furðuleg ályktun að halda að hún hefði farið þannig hálfgert á móti veðrinu. Daginn eftir var svipuð stórhríð og þá var enn leitað en árangurslaust. Þar næsta dag var komið sæmilegt veður og þá fannst lík stúlkunnar liggjandi á grúfu inn í svokölluðum Fjallsteigum, innundir Hrolleiðsdalsá. Hafði hún þá farið framhjá Melkoti. Fjárhúsum frá Felli, í svo- sem 50-100 metra fjarlægð í stórhríðinni. Hefði hún hitt á þessi hús, er líklegt að hún hefði lifað, þó er það óvíst. Þannig er sagan af þessu slysi. Hún er hörmuleg og þetta kom svo illa við mig andlega, að ég var lengi að ná mér. Mér fannst eins og ég gæti sjálfum mér um kennt. En hún sagðist ekki ætla heim, og hvað átti ég þá að gera? Einhvern veginn hefur þetta átt svo að fara. Ég álít það og hef alltaf haldið því fram, að það sé sama hvernig farið er að, maður forðast aldrei örlögin.

x

Feykir

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.