Fréttir - Eyjafréttir - 15.06.2015, Síða 9
9Eyjafréttir / Miðvikudagur 15. júlí 2015
sjónarvotta, konurnar tvær sem
leyndust í holu og heyrðu og sáu
allt. Einnig örlar á öðrum heim-
ildum hjá Kláusi: „Sumir segja
morðinginn Þorsteinn hafi (þetta)
sagt...“ Er það gert til að sýna að
allt hitt sé fengið frá konunum
tveim? En spurning er hve nákvæm-
lega þær gátu heyrt og séð í
skelfingu sinni. Er það komið frá
þeim að síra Jón hafi sagt við þriðja
högg: „Það er nóg! Herra Jesú,
meðtak þú minn anda?“ Eða er
þetta fært í bókmenntalegan og
trúarlegan stíl af Kláusi? Slíkt þótti
ekki tiltökumál og var jafnvel álitið
rétt að gera á þessum mælskulistar-
tímum.
Ólafur Egilsson segir ekki
píslarsöguna af síra Jóni. En hann
talar ekki beinlínis gegn henni
heldur. Kannski stóð Ólafur of
nærri starfsbróður sínum til að segja
af honum helgisögu. Auk þess
heldur hann sig jafnan við það sem
hann lifði sjálfur eða það sem hann
hafði eftir nafngreindum sjónarvott-
um. Þeir sáu lík Jóns „austur við
sjóinn, en nærri sínu heimili“.
Hann grefur undan einum
efnisþætti sem Kláus hefur í sínum
frásögnum og er útfærður lengst í
D-gerðinni af sögu hans (JS 80
8vo). Það er hlutur svikarans
Þorsteins. Á skipinu á leið í
Barbaríið er það ekkja Jóns sem
bendir Ólafi á morðingja hans sem
er að reyna að „þvo“ af sér glæpinn.
Ekki hefur hann þá verið hengdur
upp í mastur eins og JS 80 8vo gerir
ráð fyrir. Og tæplega hefur hann
verið íslenskur vegna þess að
Ólafur er vanur að segja sem
nákvæmust deili á fólki. Í nokkrum
afskriftum sögunnar (B-gerð í
útgáfu Jóns Þorkelssonar) er hann
sagður Tyrki en það getur verið
seinni breyting á sögunni. Varla
hefur hann verið fyrrum „verka-
þjónn“ Ólafs án þess að hann hefði
orð á því – nema það hafi verið svo
vandræðalegt fyrir Ólaf að hann
breiði þögnina yfir þá staðreynd.
Segja frá öllu en vera
raunsær
Birni á Skarðsá þykir líklega
fulllangt gengið að gera þennan
Íslending að tvöföldum blóraböggli.
Björn reynir að rata milliveg milli
tveggja markmiða sem hann virðist
setja sér: Að segja frá öllu og að
vera raunsær en hafa frásögnina
jafnframt trúarlega kórrétta. Þess
vegna endursegir hann tilsvör Jóns
eins og Kláus skráir þau þó að telja
megi orðrétta ræðu söguhetjanna til
málskrúðstiltækja. Og jafnframt
reynir hann að gera helgisöguna
sennilega með því að bæta við
nokkrum smáatriðum og tengingum
í lýsingunni, t.d. um Snorra
próventumann og blóð hans sem lak
inn í hellinn.
Sagan verður tæplega sannari með
því að slá saman mismunandi
frásögnum. Þetta gerir Jón Helga-
son í heimildaskáldsögunni
Tyrkjaráninu. Hann tekur söguna af
Snorra próventumanni frá Birni á
Skarðsá, frá Oddi biskupi að
hendurnar hafi verið höggnar af
Jóni, fær tvö höfuðhögg að láni frá
Kláusi, sleppir því þriðja en segir
Jón að lokum rekinn í gegn með
spjóti líkt og Oddur skrifar. Tilsvör
Jóns eru orðin tvö í stað þriggja.
Þegar kona hans vefur trafi um
höfuð hans er það „til þess að binda
um sárin“.11 Þrískipting helgi-
sögunnar verður fyrir þetta
ómarkvissari og athafnirnar verða
jarðbundnari. Nokkrum blaðsíðum
seinna víkur Jón Helgason að
Þorsteini vinnumanni sem sagður
var banamaður sr. Jóns. Þetta lætur
bókarhöfundurinn hins vegar líta út
sem hugarfóstur og óskhyggju
landsmanna, einkum viðbótina þar
sem svikarinn er hengdur í lokin.12
Helgisaga byggð á veruleika
Frásagan af píslarvætti Jóns
Þorsteinssonar í Vestmannaeyjum er
helgisaga sem byggist á atburðum
sem gerðust í veruleikanum. Engin
ástæða er til að efast um að Jón hafi
verið veginn í Vestmannaeyjum.
Ennfremur er ljóst að hann var
sanntrúaður maður og ekki ólíklegt
að hann hafi lagt trúarlegan skilning
í atburðina sem voru að gerast.
Hann hefur þá jafnvel tekið því sem
að höndum bar sem píslarvætti.
Séra Jón meðtók dauða sinn, tvær
konur horfðu og hlustuðu á, Kláus
Eyjólfsson skráði frásögnina – ef
þessir þrír aðilar hafa lifað og
hrærst í kristilegri orðræðu er ekki
að undra að afraksturinn verði hin
formfasta helgisaga. Hvað hver um
sig hefur lagt til málanna getum við
ekki vitað. Ein stutt sögn er til í
anda helgisögunnar (þó að hún falli
ekki að henni), höfð eftir konu sem
fædd var 1823.
Áður en Tyrkir drápu síra Jón,
skáru þeir úr honum tunguna í mörg
stykki. Hvar sem blóð úr henni kom
á, stóð Jesúnafn skýrum stöfum.13
Einhverjum kann að þykja nokkuð
kaþólskur blær á helgisögum sem
þessum þar sem segir frá undrum
og píslarvætti. Það er út af fyrir sig
ekki undrunarefni þar sem lúth-
erskur siður var ungur í landinu. Til
slíkra skýringa þarf þó ekki að
grípa. Undur og stórmerki birtust
lútherstrúarmönnum einnig og
mótmælendur eignuðust sömuleiðis
píslarvotta þó að þeir væru ekki
algengir.14 Það var ekki dauðdaginn
einn sem gerði þá að píslarvottum
heldur málstaðurinn og það skilyrði
hlaut Jón Þorsteinsson að uppfylla
með ágætum.
Legsteini bjargað
undan ösku
Legsteinn var gerður yfir séra Jón
eftir Tyrkjaránið og letrað á hann
OCCISUS, það er: veginn. Þessi
steinn féll í gleymsku á einhverju
stigi en fannst og var endurreistur í
byrjun 20. aldar. 15 Síðan var hann
fluttur í Þjóðminjasafnið. Í gosinu í
Heimaey var legsteini séra Ólafs
Egilssonar bjargað undan ösku og
eftir gos var steinn séra Jóns
endurgerður og felldur inn í
minnisvarða á hraunhól þar sem
kirkjugarðurinn á Kirkjubæ hafði
staðið en hann lá nú djúpt undir
nýju hrauni. Hellinn, sem Jón
píslarvottur var veginn í, þóttust
menn þekkja lengi og kallaðist
Rauðhellir. Presturinn á Ofanleiti,
Gissur Pétursson, áleit hins vegar
um 1700 að hellirinn væri brotinn
af sjávargangi. Þetta urðu síðar
margir til að rengja en könnuðust
við að hann hefði týnst um 1875 og
fundist aftur alllöngu seinna.
Áhugamenn í Eyjum lögðu mikið
upp úr þessum helli.16 Loks eyddist
hann óumdeilanlega í gosinu mikla
árið 1973.
Þó að aftökustaður píslarvottsins
væri horfinn stóð minnisvarði hans
á nýju hrauni til ábendingar og
safnaðarfólk í Vestmannaeyjum hélt
minningu hans enn frekar á lofti
þegar ný hurð var gerð á Landa-
kirkju í aldarlok. Þá þótti við hæfi
að minnast Tyrkjaránsins en nokkuð
voru skiptar skoðanir um það hvaða
myndefni hæfði best á kirkjudyrum.
Sverð yfir höfði Jóns Þorsteinssonar
má nú sjá á kirkjuhurðinni.
.........................................................
Heimildir:
1 Sjá rit Kristjáns Eldjárns,
Hundrað ár í Þjóðminjasafni, bls.
62. Úr letrinu á brotnum
steininum er lesið stafrétt: „S.
ION ÞOZSTE SO OCCISVS. 17.
IVLII 1627.“
2 Tyrkjaránið á Íslandi 1627, bls.
358.
3 Tyrkjaránið á Íslandi 1627, bls.
29, 50
4 Tyrkjaránið á Íslandi 1627, bls.
78.
5 Tyrkjaránið á Íslandi 1627, bls.
89.
6 Tyrkjaránið á Íslandi 1627, bls. 249.
7 Tyrkjaránið á Íslandi 1627, bls. 491.
8 Tyrkjaránið á Íslandi 1627, bls. 481.
9 Tyrkjaránið á Íslandi 1627, bls. 480.
10 Tyrkjaránið á Íslandi 1627, bls.
74-90.
11 Jón Helgason, Tyrkjaránið (1963),
bls. 71-72.
12 Jón Helgason, Tyrkjaránið (1963),
bls. 79-80.
13 B.K.Þ. [Björn Karel Þórólfsson?],
„Sögn um síra Jón Þorsteinsson,
píslarvott“, bls. 112.
14 Brad S. Gregory, Salvation at Stake,
bls. 139-196.
15 Jes A. Gíslason, „Merkilegur fundur.“
16 Þorsteinn Þ. Víglundsson, „Séra Jón
Þorsteinsson, prestur að Kirkjubæ“.
– Guðjón Ármann Eyjólfsson,
Vestmannaeyjar, bls. 50-53.
Mynd og texti í grein Þorsteins Þ. Víglundssonar í Bliki 1965: „Rauðhellir (Píslarhellir). Örin stefnir á
raufina á hellisþakinu. Þverskurður af hellinum, eins og hann er nú. (1965). (Teikn. Þ.Þ.V.)“
Miðmyndin á altaristöflu í kirkjunni á Krossi í Landeyjum. Í fyrirlestr-
inum verða færð rök fyrir því að þessi mynd hafi beina tengingu við víg
séra Jóns Þorsteinssonar.