Morgunblaðið - 15.02.2020, Blaðsíða 4

Morgunblaðið - 15.02.2020, Blaðsíða 4
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Þ orgeir var skipaður í Hæstarétt árið 2011, en hann átti þá að baki langan og farsæl- an feril í lögfræði er spannaði bæði dóm- arastörf og stjórnsýslu, auk þess sem hann var prófessor við lagadeild Háskóla Íslands í tólf ár og forseti deildarinnar frá 1995-1997. Þorgeir segir áhuga sinn á lögfræði hafa kviknað á námsárum sínum í Menntaskólanum í Reykjavík, þegar hann sótti námskeið í fé- lagsfræði sem Hjálmar W. Hannesson, síðar sendiherra, kenndi. Þar kom lögfræði töluvert við sögu, eftir það varð ekki aftur snúið og að loknu stúdentsprófi skráði hann sig í lögfræði. „Og ég hef aldrei séð eftir því.“ Þorgeir fann snemma á námsferlinum hvert hugur hans stefndi varðandi framtíðarferil innan lögfræðinnar. „Ég fór að lesa dóma eins og tíðk- aðist í náminu og einhvern veginn fannst mér það vera mest heillandi hliðin á faginu að vera dómari og geta leyst úr þeim margvíslegu málum sem geta komið upp,“ segir Þorgeir. Hann fékk snemma tækifæri til þess að dæma, því að strax eftir útskriftina réðist Þorgeir sem fulltrúi í Borgardómi Reykjavíkur, en dómara- fulltrúar höfðu þá dómstörf á hendi. „Ég fann það þá að ég vildi leggja þetta fyrir mig í lífinu,“ segir Þorgeir. Minna álag en mál tóku lengri tíma Árið 1982, skömmu eftir að hann kláraði meist- arapróf í lögfræði vestanhafs varð Þorgeir að- stoðarmaður hæstaréttardómara, sá fyrsti til að gegna því starfi. – En hvernig var að starfa í Hæstarétti á þeim tíma? „Það var allt heldur formlegra á þeim tíma, andrúmsloftið í kringum dóminn og starfsemi hans var mjög formlegt,“ segir Þorgeir. „Starfsemi réttarins er reyndar enn frekar formleg og í föstum skorðum, en þó ekki á sama hátt og áður var, enda er tíðarandinn mjög breyttur.“ Þorgeir nefnir einnig sem dæmi hversu miklu tölvutæknin hefur breytt lögfræðistörfum. „Menn sömdu dóma á ritvél hér áður fyrr, svo var textinn lesinn saman og ef þurfti að breyta einhverju, þurfti oft að vélrita allt aftur,“ rifjar hann upp. Þá segir Þorgeir það mikla búbót að dómasafn réttarins sé nú komið á netið. „Oftar en ekki var ég sem aðstoðarmaður beðinn um að finna for- dæmi í dómum Hæstaréttar og þá þurfti maður að leita sig í gegnum prentaða dómasafnið,“ segir Þorgeir, en slík vinna gat tekið langan tíma. „Álagið var kannski ekki eins mikið, en vinnan var öll tafsamari.“ Fræðistörfin gerólík dómarastörfunum Meðfram störfum sínum hóf Þorgeir stunda- kennslu við lagadeildina í Háskóla Íslands, sem þá var sú eina á landinu. Árið 1984 varð hann dós- ent, og fékk svo ráðningu sem prófessor í kröfu- rétti, eignarétti og fleiri greinum árið 1987, og var hann þar við kennslu og rannsóknir næstu tólf árin. Aðspurður segir Þorgeir þann bak- grunn hafa nýst sér vel í dómarastörfunum, en þó verði að hafa í huga að störfin séu gjörólík. „Í akademíunni ertu að rannsaka, skrifa og uppfræða, og þar hef- ur þú þitt akademíska frelsi, en í dómstörfunum er þér sniðinn þrengri stakkur. Maður vinnur þar við að leysa úr málum og þarf að finna trausta nið- urstöðu í öllum málum sem hingað koma.“ Þá sé hann ekki sérstaklega nýttur til að dæma í málum er snúa að kröfurétt, eignarétti eða öðrum þeim greinum sem hann kenndi á sínum tíma. „Dóm- arar dæma í öllum málum sem fyrir réttinn koma, það er ekki þessi sérhæfing sem margir halda.“ Þorgeir leggur áherslu á að reynsla þeirra dómara sem komi úr lögmennsku nýtist þeim einnig vel, og að mestu skipti að bakgrunnur dómaranna sé sem fjölbreyttastur og að þeir hafi mismunandi reynsluheim að baki. Landsréttur farið vel af stað Þorgeir hætti kennslu árið 1999 og varð ráðu- neytisstjóri í viðskipta- og iðnaðarráðuneytinu til 2003. Þaðan lá leið hans út til EFTA-dómstólsins, þar sem Þorgeir sat sem dómari í tæp níu ár allt þar til hann flutti aftur heim árið 2011 og tók sæti í Hæstarétti, sem þá var líkt og menn muna áfrýjunardómstóll og efra dómstigið af tveimur. Um svipað leyti tók álag á réttinn að aukast mjög, ekki síst vegna mála sem tengdust fjár- málahruninu 2008. Fyrsta árið sem Þorgeir sat í Hæstarétti féllu þar 649 dómar, en fljótlega var rétturinn farinn að taka við rúmlega 850 málum á ári og dæma í á bilinu 760-770 málum á ári. „Þetta var mikið starf og mikið vinnuálag,“ segir Þorgeir þegar hann rifjar þetta upp. Það hafi hins vegar breyst mjög til bóta þegar Landsréttur tók til starfa sem millidómsstig árið 2018, en hann tók við áfrýjunarhlutverki Hæsta- réttar. „Meginreglan er samt sem áður sú, að þó svo að dómstigin séu þrjú, fara mál almennt séð ekki nema fyrir tvö dómstig,“ segir Þorgeir. Hann bætir við að Landsréttur hafi hins vegar í raun tekið við byrðinni nær óskertri af Hæsta- rétti. Því til stuðnings nefnir hann að árið 2018 tók Landsréttur við 941 máli og dæmdi í 767 mál- um, en til samanburðar hafi Hæstiréttur árið 2016 tekið við 869 málum og dæmt í 770. „Lands- réttur hefur farið mjög vel af stað og sinnt sínu hlutverki með miklum sóma þrátt fyrir erfiðar aðstæður og axlað vel þá ábyrgð sem honum var fengin með því að vera áfrýjunardómstóll,“ segir Þorgeir. Mál sem varði fleiri en málsaðila eina Eftir tilkomu Landsréttar á Hæstiréttur að sinna því hlutverki að vera fordæmisgefandi dómstóll, sem veitir vissum málum leyfi til áfrýjunar upp á þriðja dómstigið. Aðspurður segir Þorgeir það ekki skilgreint með nákvæmum hætti í lögum og lögskýringargögnum hvaða skilyrði mál þurfi að upp- fylla til þess að það sé tekið upp á efsta dómstigið eftir að hafa fengið meðferð í héraði og fyrir Lands- rétti. Í lögunum sé það orðað svo að líta skuli til þess hvort úrslit máls hafi verulegt almennt gildi eða varði sér- staklega mikilvæga hagsmuni þess sem leitar leyfis. „Það má lesa út úr þeim viðmiðum sem þar koma fram að fyrst og fremst sé átt við mál sem hafi almenna samfélagslega skírskotun.“ Þorgeir nefnir sem dæmi þegar skera þarf úr um hvort að lög brjóti í bága við stjórnarskrá eða hvaða áhrif þjóðréttarsamningar eigi að hafa að lands- rétti. Þá geti mál Hæstaréttar varðað valdmörk og valdheimildir stjórnvalda, hvort að stjórnvöld hafi farið út fyrir þau mörk sem þeim eru sett með lögum. Þá getur á lægri dómstigum verið ósamræmi í dómaframkvæmd um tiltekið eða tiltekin atriði. „Í slíkum tilfellum er mjög brýnt að tekið sé af skarið um það hvaða regla gildir,“ segir Þorgeir. Hann nefnir einnig mál sem geti varðað mik- ilvæga þjóðfélagslega hagsmuni, eins og til dæm- is málin sem komu upp vegna neyðarlaganna svonefndu. Að lokum nefnir Þorgeir í þessu sambandi mál sem snerti hagsmuni og réttarvernd ákveðinna þjóðfélagshópa, til dæmis mál sem varða réttindi barna, eða réttindi trúarhópa eða hinsegin fólks. „Þumalputtareglan er að þegar Hæstiréttur vel- ur mál til meðferðar mun niðurstaða þess ekki bara snerta málsaðila eina, heldur hafi hún víð- tækari skírskotun, snerti samfélagið sem slíkt eða hópa innan samfélagsins.“ Helmingi fleiri mál en hjá frændþjóðunum Þorgeir segir að sér þyki sem það gæti ákveðins misskilnings varðandi þann fjölda mála sem Hæstiréttur hefur tekið til meðferðar eftir að hinu nýja kerfi var komið á. Vilji löggjafans sé hins vegar skýr hvað það varði að sem allra fæst mál eigi að fara á þrjú dómstig. Þá segist Þorgeir ekki vera viss um að málin sem Hæstiréttur hafi tekið fyrir séu svo fá, þegar horft er til nágranna- ríkjanna. Hann nefnir þar sem dæmi að í fyrra, fyrsta heila árið sem Hæstiréttur var eingöngu for- dæmisgefandi dómstóll hafi borist 174 beiðnir um áfrýjunar- eða kæruleyfi til réttarins, 162 þeirra hafi verið teknar fyrir og samþykki veitt í 41 máli, eða um fjórðungi allra mála. Svipað hafi verið upp á teningnum árið 2018 eftir að Lands- réttur tók til starfa. „Ef við berum þetta saman við frændþjóðir okkar í Noregi, Danmörku og Svíþjóð, þá er hlut- fallið okkar um helmingi hærra, um 25% á móti 12-15% sem efsta dómstig þessara ríkja tekur fyrir.“ – Eruð þið þá að hleypa of mörgum málum á þriðja dómstigið? „Í þessu sambandi þarf að líta til þess að við erum miklu fámennara samfélag en það norska, danska og sænska, svo ég haldi mig við þann samanburð, og það hefur líkurnar með sér að hlutfall samþykktra beiðna sé hærra í fá- mennara samfélagi en þeim fjölmennari,“ segir Þorgeir og bætir við að þetta hlutfall eigi eðlilega eftir að breytast eitthvað á milli ára eftir því sem meiri reynsla fæst á hið nýja kerfi. „Árið 1920 þegar Hæstiréttur var stofnaður hófst nýtt tíma- bil í réttarsögu þjóðarinnar, og með sama hætti má segja að árið 2018 hafi einnig hafist nýtt rétt- arsögutímabil, en það eru bara liðin tvö ár af því, segir Þorgeir, og segir að stofnun Landsréttar hafi verið heillaspor. „En þetta kerfi er að slíta barnsskónum, árið 1920 þurftu menn að feta sig áfram á nýjum slóðum og við erum að gera það núna.“ – Hver verða áhrifin til lengri tíma af hinni nýju skipan? „Ég held að þarna hafi verið komið á kerfi og skipulagi sem verði til staðar næstu áratugina. Það er mín trú að almenningur í land- inu vilji búa þannig að æðsta dómstól þjóðarinnar að hann hafi nægan tíma og svigrúm til þess að sinna af öryggi þeim málum sem til hans er skot- ið,“ segir Þorgeir. Það sé einfaldlega spurning um að réttaröryggi ríki í landinu og að fólk hafi trú á dómskerfinu. „Og sú trú er framar öllu,“ segir Þorgeir að lokum. Heillaði að geta leyst úr málum „Það var allt heldur formlegra á þeim tíma, andrúmsloftið í kringum dóminn og starfsemi hans var mjög formlegt.“ Þorgeir Örlygsson er núverandi forseti Hæstaréttar og hefur gegnt því embætti frá árinu 2017. Hann segir komu Lands- réttar hafa styrkt réttarfar í landinu og að nýtt tímabil í rétt- arsögunni hafi hafist árið 2018. Morgunblaðið/RAX Þorgeir Örlygsson hefur verið forseti Hæstaréttar frá árinu 2017. 4 MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 15. FEBRÚAR 2020

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.