Harmonikublaðið - 01.09.2017, Page 2

Harmonikublaðið - 01.09.2017, Page 2
Ávarp formanns Ágæti harmonikuunnandi Það óhætt að segja að sumarið hafi verið viðburðaríkt og skemmtilegt. Hápunktur sumarsins var Landsmót S.I.H.U. sem haldið var á Isafirði 29. júní — 2. júlí. Það var Harmonikufélag Vestfjarða sem sá um framkvæmd mótsins og verður ekki annað sagt en að þetta mót hafi verið frábærlega undirbúið og öll umgjörð til fyrirmyndar. Ekki spillti fyrir að veðurguðirnir voru okkur hagstæðir og ísafjörður skartaði sínu fegursta. Dagskrá mótsins var hin glæsilegasta, þar sem í upphafi var opnað Harmonikusafn Ásgeirs S. Sigurðssonar í Safnahúsinu á Isafirði og síðan hófust tónleikar, þar sem harmo- nikusveitir aðildarfélaganna komu fram hver af annarri og spiluðu á tónleikum í íþróttahúsinu. Hápunktur tónleikahaldsins voru tónleikar ITRÍÓ, en það tríó er skipað Helgu Kristbjörgu Guðmundsdóttur, Jónasi Ásgeiri Ásgeirssyni og Jóni Þorsteini Reynissyni. Þetta unga fólk sannaði fyrir mér að framtíðin er björt og harmonikan mun lifa um ókomin ár á íslandi. Eg vil fyrir hönd S.I.H.U. þakka Harmo- nikufélagi Vestfjarða fyrir undirbúning og framkvæmd landsmótsins sem var þeim til mikils sóma. Það verður að viðurkennast að starf stjórnar sambandsins er frekar rólegt á því ári sem landsmót er haldið. Stjórnin hélt reglulega fundi og áttu tveir stjórnarmenn sæti í undirbúningsnefnd landsmótsins, þannig að stjórn var vel upplýst um gang mála varðandi undirbúning og framkvæmd. Sjö aðildarfélög sambandsins héldu sínar árlegu harmo- nikuhátíðir víðs- vegar um landið og veit ég ekki annað en að þessar hátíðir hafi verið vel sóttar. Það vekur athygli hvað mikið er lagt í þessar hátíðir og hvað félagar leggja mikla vinnu í að gera þessar samkomur sem glæsilegastar. Aðalfundur S.f.H.U. verður haldinn að Sel Hótel við Mývatn, laugardaginn 23. september. Fundurinn er í umsjón Harmo- nikufélags Þingeyinga og vil ég koma á framfæri þakklæti til allra er leggja hönd á plóg við undirbúning fundarins. Nú fer sumri að halla og vetrarstarf félaganna að hefjast. Það er von mín að komandi vetur verði okkur öllum farsæll og að starf aðildarfélaga S.f.H.U. verði öflugt. Gunnar Kvaran, formaður SAGNABANKINN Árið 1953 var haldinn dansleikur í félagsheimilinu á Vattarnesi við Vattarfjörð í Múlasveit á Barðaströnd. Félagsheimilið á Vattarnesi var eitt af minnstu félagsheimilum landsins, aðeins 24 fermetrer að stærð. Dansleikir voru ekki daglegt brauð á þessum árum og því mættu hreppsbúar vel á samkomuna. Þetta mun hafa verið síðasti dansleikur sem haldinn var í húsinu. Til að leika fyrir dansi var fenginn Hallbjörn Bergmann Sigfússon f. 1932, úr Flatey, en hann var á þeim tíma vel þekktur um Breiðafjörð fyrir harmonikuleik og hafði jafnvel leikið fyrir dansi í Bjarkarlundi. Til að koma Hallbirni á áfangastað var fengið far með flóabátnum Konráði, sem um árabil var haldið út til þjónustu við hinar veglausu dreifðu byggðir á Barðaströnd og við Breiðafjörð. Nú hófst dansleikurinn og var ekki að spyrja að fjörinu. Hallbjörn spilaði sem mest hann mátti og Múlhreppingar dönsuðu sem aldrei fyrr. Ekki mun þetta hafa verið vímulaus skemmtun. Loftræsting var engin í húsinu og að þeirra tíma sið var reykt þar inni og myndaðist brátt ógurleg hitasvækja. Eftir margra klukkutíma dans varð spilaranum ómótt og dreif sig út til að hressa sig við og skila einhverju af síðustu máltíð. Ekki leið á löngu þar til Konráð kom til baka að sækja spilarann. Það tóku dansararnir ekki í mál og sögðu að ekki kæmi til greina að hætta dansinum, meðan hæst stæði í stönginni. Hallbjörn sagði þá að hann væri búinn að fá nóg af spilamennsku í bili. Ekki vildu samkomu- gestir sætta sig við þetta, en féllust að lokum á að hann gæti farið með Konráði, en hljóðfærið yrði eftir. Varð niðurstaðan sú, að Ólafur Finnbogason frá Vattarnesi (1921 - 2011) bóndasonur í Skálmarnesmúla snaraði út fimm hundruð krónum fyrir hljóðfærinu, en bræðurnir Ólafur og Jón í Skálmarnesmúla, sem gátu Ieikið á harmoniku, luku ballinu. Á þessum tíma kostaði karlmannafrakki kr. 450.- hjá Andrési. Trúlega hefur verið dansað fram undir mjaltir að þeirra tíma sið. Harmonikan, sem var ítölsk tveggja kóra 120 bassa af gerðinni Sivory, átti sér þá sögu að Jóhann Kristjánsson skipstjóri á Konráð hafði, þegar hann var í siglingum, keypt hana í Englandi árið 1946. Síðar keypti Sigfús Bergmann kaupmaður í Flatey nikkuna og þar með fór Hallbjörn sonur hans að læra á hana. Harmonikan Jóhannes Þórðarson úr Hergilsey rneö nikkuna góðu var síðan í Múla næstu áratugina, en ekki hefur tekist að staðfesta endalok hennar, en allar upplýsingar það varðandi væru vel þegnar. 2

x

Harmonikublaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Harmonikublaðið
https://timarit.is/publication/1088

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.