Lögmannablaðið - 2016, Blaðsíða 30
30 LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 04/16
Hún hitti föður sinn ekki aftur, þótt ekki hefði verið
sérlega langt á milli þeirra í kílómetrum talið. Hún
ræddi stundum um það hvort hún ætti að heimsækja
hann, en lét þó ekki verða af því. Svo var það orðið of
seint. Eftir andlát hans fékk hún bréfin sem hann hafði
skrifað til hennar en aldrei póstlagt. Þar baðst hann
afsökunar á viðbrögðum sínum, kvaðst vilja hitta hana
aftur og óskaði þeim alls hins besta. Það var ómögulegt
að vita hvers vegna gamli maðurinn hafði ekki sent
henni bréfin. Kannski af sömu ástæðu og hún tók aldrei
af skarið og fór í heimsókn til hans, þrjóska og stolt sem
gekk í erfðir. Eftir að bréfin loks bárust henni var þó
eins og þungu fargi væri af henni létt.
Þau höfðu komið sér upp fallegu og látlausu heimili,
en eignuðust aldrei nein börn; það var ekki í spilunum,
þótt þau hefðu óskað sér þess.
En þau höfðu fundið hamingjuna í litla kotinu sínu
í skjóli háfjallanna á Siglufirði.
Hún átti velviljaðan frænda á Siglufirði. Þannig kom þessi
litli bær við nyrsta haf inn í líf þeirra. Strax að lokinni
hjónavígslunni lögðu þau af stað þangað norður. Þetta var
óvenjulegur brúðkaupsdagur. Hún var viss um að hann tæki
þeim vel og gæti jafnvel útvegað þeim einhverja vinnu.
Þau skildu hestana eftir á Akureyri og létu senda skeyti heim
með skilaboðum um hvar þá væri að finna áður en þau lögðu af
stað til Siglufjarðar. Þau fengu far þangað með vingjarnlegum
manni sem sinnti vöruflutningum á hestum um Norðurland.
Ferðin sóttist afar seint en að lokum komust þau yfir torfært
fjallskarðið og tignarlegur fjörðurinn blasti við þeim.
Hún vildi fara ein á fund frænda síns og gera honum
grein fyrir stöðu mála.
Hann gekk um byggðarlagið á meðan, skoðaði sig um og
settist svo loks í flæðarmálið og horfði út á sjóinn. Honum leið
vel þarna, fann það strax á sér að þarna myndu þau setjast að.
Hann andaði að sér sjávarlyktinni og starði út á lygnan
haf flötinn, eins og fagurlega ofið teppi. Hafið svo friðsælt og lokk
andi, en bjó þó yfir ógnarkrafti. Fuglarnir flugu yfir höfði hans.
Hann lokaði augunum og reyndi að leggja þetta allt saman á
minnið, útsýnið, lyktina, hljóðin. Andartak sem kæmi ekki aftur.
Hann hugsaði um stúlkuna sína. Konuna sína. Hvað
það var nú sérkennileg tilfinning að vera skyndilega kvæntur
maður. Hann sá hana fyrir sér, fallegt brosið. Hlustaði á
hafið, sjávarniðurinn eins og hjartsláttur hennar. Og svo
stóð hún skyndilega við hlið hans og brosti. Hann vissi strax
hvað þetta bros þýddi.
Frændi hennar, smiður að mennt, útvegaði þeim gistingu,
vinnu, ódýra lóð til að byggja á og hjálpaði svo til við
húsbygginguna. Húsið var ekki stórt en þeim þótti vænt um
það, byggt af litlum efnum en stórum hug. Það hvarflaði aldrei
að þeim að flytja þaðan.
Þessar minningar sóttu nú á hann í kuldanum og
myrkrinu.
Bærinn hafði auðvitað tekið stakkaskiptum síðan þau
fluttu þangað. Síldin hafði fært gull í greipar bæjarbúa
og nú þurfti ekki lengur að notast við fjallskarðið; tekin
höfðu verið í notkun jarðgöng inn í bæinn. Hann hafði
þó ekki nýtt sér þau og átti aldrei eftir að gera það úr
því sem komið var.
Hann hafði aldrei sótt sjóinn af neinni alvöru, hafði
gert heiðarlega tilraun til þess en var ekki þannig gerður
að hann gæti þolað ölduganginn. Samt gat hann ekki
hugsað um neitt annað núna en sjóinn – hann sá fyrir
sér þennan fallega sumardag þegar hann sat og beið
eftir eiginkonunni, nýkvæntur. Fann sterka lyktina af
hafinu. Heyrði andardrátt þess. Hlustaði á fuglana.
Hann upplifði nú þetta andartak eins og það hefði
aldrei liðið hjá.
Hann hafði séð snjóflóðið koma þegar hann var
að fara að byrja á jólamatnum. Sat við stofuborðið,
ætlaði að fá sér fyrsta bitann af hangikjötinu, og horfði
út um gluggann, í áttina að fjallshlíðunum. Hann gat
ekkert gert. Sat stjarfur við borðið. Beið þess sem verða
vildi. Flóðið kom eins og alltumlykjandi hönd og sópaði
honum og húsinu með sér.
Hann var í rauninni undrandi á því að hann skyldi
enn vera með fullri meðvitund.
Gerði sér engar vonir um björgun. Enginn var úti
í svona stórhríð og hvað þá í nágrenni við afskekkta
kofann á ódýru lóðinni. Veðrið gengi vonandi yfir í nótt
og einhver myndi finna hann á jóladag. Hann fengi svo
að hvíla við hliðina á konunni sinni.
Hann var sáttur. Lífið hafði verið honum gott.
Hann hafði fundið ástina og náð að halda í hana – og
nú, á sinni hinstu stundu, var hann enn jafnástfanginn
og daginn sem þau hittust fyrst. Gat hann í rauninni
beðið um eitthvað meira?
Höfundur er lögmaður og rithöfundur. Smásagan hefur
áður birst á ensku og þýsku en birtist nú í fyrsta skipti
á íslensku.