Lögmannablaðið - 2016, Page 33
LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 04/16 33
Jafnvel þótt hægt sé að finna viðkomandi rekstraraðila
er samt sem áður yfirleitt ógerlegt fyrir íslenska rétthafa
að framfylgja réttlætinu gagnvart þeim annars staðar á
hnettinum. Þetta er einmitt ástæðan fyrir því að sett var
sérstakt úrræði um lögbann gegn fjarskiptafyrirtækum í
höfundalög. Það er ótrúlegt að framkvæmdastjóri ISNIC
láti eins og hann viti ekki af þessari staðreynd og að hann
haldi því blákalt fram að rétthafar geti með auðveldum
hætti leitað réttar síns gagnvart þeim brotlegu.
Hagsmunamat
Allir geta tekið undir að umferð á Internetinu eigi að
ganga sem hraðast fyrir sig. Það má þó ekki verða á
kostn að ríkari hagsmuna, réttinda rétthafa og lifibrauðs
þeirra. Þekking framkvæmdastjórans á efninu er ekki
dregin í efa en af óskiljanlegum ástæðum kýs hann að
gera úlfalda úr mýflugu. Lögbannið beinist einungis að
tveimur vefsvæðum af rúmum einum milljarði vefsvæða
sem má finna á Internetinu. Þau vefsvæði sem lögbannið
varðar stunda ólögmæta starfsemi og eru ekkert að fela
það. Enginn vill kenna sig við þessa starfsemi og aldrei
hefur verið kvartað yfir því að tölvupóstur eða aðrar þjón-
ustur tengdar síðunum hafi lokast vegna lögbannsins. Þá
hefur ekki verið bent á eitt einasta dæmi þess að öryggi
internetsins hafi verið ógnað vegna lögbannsaðgerðanna.
Í öllu falli er fráleitt að bera lögbannið saman við þær
ritskoðanir og hindranir á upplýsingaflæði sem viðgangast
í Kína og Norður-Kóreu. Staðreyndin er sú að aðgangur að
ólögmætum torrentsíðum hefur verið heftur í fjölmörgum
vest rænum ríkjum sem státa af sama tjáningarfrelsi
og hér á landi, þ.m.t. á Norðurlöndum, Frakklandi,
Bandaríkjunum, Bretlandi og verulegum fjölda annarra
landa. Rétt er að geta þess að Mannréttindadómstóll
Evrópu hefur í sambærilegum málum komist að þeirri
niðurstöðu að eignarréttindi höfundarétthafa vega þyngra
en réttindi hinna brotlegu til tjáningarfrelsis.2 Í raun er
erfitt að tala um að nokkur höft séu lögð á tjáningarfrelsi
þar sem það kvikmyndaefni og tónlist sem um ræðir er
aðgengilegt almenningi á fjölmörgum öðrum miðlum,
s.s. kvikmyndahúsum, sjónvarpi VOD og mörgum öðrum
löglegum efnisveitum.
Niðurstaða dómstóla
Það hefur ekki enn komið til kasta Hæstaréttar Íslands að
kveða á um réttmæti framangreindra lögbannsaðgerða
rétthafa hér á landi. En Héraðsdómur Reykjavíkur hefur
nú í fjórgang, tveimur dómum og tveimur úrskurðum,
staðfest með afgerandi hætti réttmæti aðgerðanna og
hafnað fullyrðingum sem eru sambærilegar þeim sem
framkvæmdarstjóri ISNIC heldur fram í grein sinni.
Undirritaður er lögmaður rétthafasamtaka sem berjast
gegn ólögmætri dreifingu höfundarréttarvarins efnis á
Internetinu.
TÓMAS JÓNSSON HRL.
2 Sjá ákvörðun ECHR nr. 40397/2012, Fredrik Neij og Peter Sunde Kolmisoppi gegn Svíþjóð.