Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga - Mar 2006, Page 1

Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga - Mar 2006, Page 1
SAMTÖK LUNGNASJÚKLINGA Fréttabréf 1.tbl.9.árgangur mars 2006 Það er alltaf erfitt að fá váleg tíðindi eins og oft á sér stað þegar læknar þurfa að segja sjúklingum sínum frá alvarlegum sjúkdómum eða áhættusömum aðgerð- um þeirra vegna. Þannig getur einnig verð erfitt fyrir súrefnisþega að fá þær fréttir að hann þurfi að nota lyfjasúrefni stóran hluta sólarhringsins kannski ævilangt. Ég fékk þau tíðindi frekar mildilega þegar ég var á Reykjalundi fyrir sex árum. Í fyrstu átti ég að nota súrefni eingöngu að næturlagi, en svo bættist við að ég ætti einnig að hafa það þegar ég færi út af lungnadeildinni. Síðar var ég greindur með kæfisvefn og öll sex árin hefi ég notað 1,5 lítra á mínútu í 19 tíma á sólarhring og nota grímu og blásara á nóttunni. Frá upphafi fannst mér þetta ekki mjög erfitt vegna þess að ég var og er viss um að súrefnið hefur átt stóran þátt í bættri heilsu minni. Margir lungnasjúklingar þurfa aukasúr- efni og er ástæðan sú að lungun geta ekki séð líkamanum fyrir nægu súrefni. Súrefnisskorti fylgja margs konar óþægindi og vanlíðan svo sem mæði, þreyta, slappleiki og okkur finnst við ekki geta gert neitt nema hvíla okkur. Sem betur fer fá flest okkar hjálp úr ýmsum áttum og má nefna margs konar aðstoð frá hjúkrunarfólki og læknum og stuðning frá fjölskyldu og vinum. En til að nýta stuðninginn sem best verðum við að vera jákvæð, bjartsýn og treysta á okkur sjálf. Sjúkdómurinn leggst mis- munandi þungt á okkur, breytist með tímanum og það getur verið ósanngjarnt að ætlast til að sjúklingurinn geti alltaf verið jákvæður, bjartsýnn og að sjálfs- traustið sé í lagi. Heilsa undirritaðs hefur batnað talsvert með árunum. Ég tel mig vera mjög reglusaman og fer sem nákvæmast eftir ráðleggingum lækna og hjúkrunarfólks. Það eru ráð þeirra, lyfin, blásarinn og súrefnið sem hafa haldið í mér lífinu og aukið lífsgæðin. Ég reyni að gera flest af því sem ég gerði áður, en verð að sjálfsögðu að minnka áreynslu. Hreyfing er nauðsynleg bæði heilbrigðu fólki og sjúku, en munurinn á þessum hópum er sá að oft eru sjúkum settar miklar skorður vegna hreyfigetu. Ég vil hvetja alla súrefnisþega til þess að hreyfa sig reglulega, hver og einn eftir sinni getu. Ganga er mjög góð og holl hreyfing en við verðum að gæta þess að fara hægt og rólega af stað. Í flestum tilvikum er æskilegt að velja sér gönguleiðir þar sem landhalli er lítill því erfitt er að ganga á brattann. Sömuleiðis er kostur ef við getum notið skjóls, gengið þar sem til dæmis er skjól af trjám og runnum. Sjálfur reyni ég að ganga sem flesta daga í 20-30 mínútur sem oft er hægara sagt en gert eins umhleypingasamt og veðrið hefur verið núna í skammdeginu. Færðin hefur verið slæm með köflum, ófærð í snjó og hálku. Ég bý stutt frá Laugardalnum, þar er skemmtilegt að ganga og njóta útiverunnar. Annar uppáhaldsstaður minn er Elliðaárdalur- inn, þar er yndislegt að vera á vorin og skoða gróðurinn, fylgjast með fuglunum og ef maður er heppinn sést laxi bregða fyrir í ánum. Með hækkandi sól og lengri degi verður veðrið vonandi mildara. Höldum út í vorblíðuna á okkar gönguhraða, jákvæð og bjartsýn. Karl Ómar Jónsson Hvatning til súrefnisþega

x

Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga
https://timarit.is/publication/1564

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.