Morgunblaðið - Sunnudagur - 11.04.2021, Side 15
Ernst, sem hjálpaði mér mikið. Við ræddum
drauminn, hugarfarið almennt og tilfinningar
mínar,“ segir Sirrý og segir hugarfarið svo
mikilvægt í batanum.
„Það smitar líka svo út frá sér. Ef mamman
er glöð, þá eru allir glaðir. Ef mamman er
grátandi eru allir brotnir. Þannig að það varð
viðsnúningur hjá fjölskyldunni þegar þetta
gerðist og allt varð léttara. Þremur mánuðum
eftir fyrstu lyfjagjöf fór ég í myndatöku og það
sást veruleg minnkun á æxlinu sem var mikið
bensín á bílinn,“ segir hún og segir þær niður-
stöður hafa gefið sér byr undir báða vængi.
Sirrý fann aftur kraftinn sinn og gamla
Sirrý kom til baka.
„Þegar maður týnir svona sjálfum sér og það
er mætt á svæðið manneskja sem maður þekkir
ekki, og hún er þú, þarf maður að ákveða hvað
maður ætli að gera,“ segir Sirrý og segist hafa
vissulega tekið nokkrar dýfur síðan.
„Það hefur alveg bólgnað upp á mér fóturinn
eða ég fengið verki, en ég er nýkomin úr skoð-
un. Allt var í lagi og læknirinn segir alveg ein-
stakt hvað þetta hefur gengið vel hjá mér. Og
þá þarf ég að trúa því og taka það inn. Vera já-
kvæð! Krabbameinið mun setja mark á líf mitt
en það er mitt að ákveða hvernig.“
Rjómatertur á miðjum degi
Hvað hefur þessi lífsreynsla kennt þér?
„Klárlega að maður á bara stundina. Ekki
geyma neitt þar til síðar. Ég geymi ekki neitt
lengur og á það líka við litla og fáránlega hluti.
Það er ekki til neitt sem heitir spariföt; ég fer
bara í það sem mig langar til. Ég nota fínu
glösin hversdags, ég held boð af engu tilefni og
baka rjómatertur á miðjum degi. Ég rækta
betur sambönd við fólk þó ég hafi alltaf verið
frændrækin. Mér finnst gaman að lifa lífinu lif-
andi og ég hef lært að taka lífið ekki of alvar-
lega. Ég er rosalega heppin að eiga þennan
dásamlega mann sem er mín jarðtenging; ég
er kannski meira fiðrildi. Ef ég kem með hug-
myndir segir hann alltaf, já, gerðu þetta bara,
því ekki það?“ segir Sirrý og segist einnig hafa
lært þakklæti.
„Það er svo auðvelt að gleyma að vera þakk-
látur. Ég veit að þetta eru klisjur, en þær eru
sannar,“ segir Sirrý en hún hefur starfað lengi
með Lífskrafti í hópi kvenna sem kalla sig
Snjódrífurnar.
Sirrý rifjar upp upphafið af góðgerðarfélag-
inu Lífskrafti.
„Þegar ég stóð á tímamótum og hafði verið
laus við krabbann í fimm ár langaði mig svo að
gera eitthvað. Mig langaði að búa til einhverja
brjálaða áskorun. Útivist hefur í raun verið
mín endurhæfing; að komast upp á fjöll og
upplifa þessa sigra, en ég komst ekki á milli
hæða fyrstu mánuðina. Ég upplifði svo mikla
valdeflingu í útivistinni. Vilborg Arna er góð
vinkona og fyrirmynd þannig að ég spurði
hana hvort hún væri til
í að þvera með mér
Vatnajökul og við feng-
um Völu vinkonu okk-
ar, mikla skíðadrottn-
ingu, með okkur. Ég sá
fyrir mér að geta safn-
að smá pening í leiðinni
og fært kannski Krafti
eða Lífi hundrað-
þúsundkall. En Vilborg vildi hugsa þetta
stærra; gera úr þessu leiðangur. Þá urðu Snjó-
drífurnar til og við fengum konur sem voru
valdeflandi í samfélaginu með í ferðina. Karlar
hafa hingað til átt þennan heim. Úr þessu varð
þessi kraftmikli hópur kvenna. Ótrúlega
skemmtileg blanda af konum og mikil orka í
hópnum. Það er fátt betra en að labba með
góðum vinkonum.“
Gengið í krafti kvenna
„Það var tvennt sem mig langaði að gera.
Annars vegar að þvera Vatnajökul og hins
vegar að fara með hundrað konur upp á
Hvannadalshnjúk, sem hafði aldrei áður verið
gert. Að ganga í krafti kvenna; lífskrafts-
göngu og skilja eitthvað eftir. Þetta varð lög-
legt góðgerðarfélag og við undirbjuggum
okkur í heilt ár áður en við fórum yfir Vatna-
jökul. Ferðin var farin í fyrra og söfnuðum við
sex milljónum króna. Nú erum við að fara upp
á Hvannadalshnjúk 1. maí og ætlum aftur að
safna fé. Hugmyndin var að styrkja Kraft og
Líf og mig langaði að búa til fjölnota herbergi
inni á kvennadeild. Það vantar einangr-
unarherbergi fyrir veikar og deyjandi konur.
Ég var sjálf mikið í einangrun sem var mjög
erfitt og mikil frelsissvipting, þannig að mig
langaði svo að bæta þessa aðstöðu. Það vantar
gott sjónvarp, þráðlaust lyklaborð, tölvu. Það
þarf að taka þessa upplifun af því að vera
sjúklingur upp á annað plan af því maður er
ekki fangi,“ segir Sirrý og segir ýmislegt
hægt að gera til að bæta aðstöðu kvenna í ein-
angrun.
„Vegna niðurskurðar á Landspítalanum er
ekki hægt að fara í þessar breytingar á kven-
lækningadeild. Nú er það þannig að allar kon-
ur sem fá kvenlíffærakrabbamein hafa ekki
aðgang að kvenlækningadeildinni heldur þurfa
að leggjast inn á aðrar deildar. Þá sá ég tæki-
færi í því að við myndum styrkja þessa sam-
einingu þannig að hægt verði að búa til eina
deild. Lífskraftur getur nú eflt þessa þjónustu,
en margt er þarna komið til ára sinna. Þessi
ganga hundrað kvenna á tindinn mun hafa
áhrif á líf margra,“ segir
Sirrý og segir það tákn-
rænt að hundrað konur
munu standa á bak við
þessa söfnun sem mun
koma konum og öðrum
krabbameinssjúkum til
góða.
„Þetta er stórt verk-
efni og gaman að upplýsa
hér og nú í hvað peningarnir sem safnast
munu fara. Kannski dugar ekki ein ganga, en
það er samt byrjun. Það væri geggjað ef við
gætum safnað nóg til að standa straum af
þessari sameiningu. Allt byrjar þetta á einu
skrefi.“
Í þrjátíu prósenta hópnum
Það styttist óðfluga í gönguna á tindinn, sem
mun taka 14-16 tíma. Konurnar hafa æft stíft
og það er spenningur í hópnum en Sirrý lætur
það ekki duga, enda er útivist hennar helsta
áhugamál.
„Ég er í góðu formi og er líka í Landvætt-
unum núna.“
Þú ert þá með fulla orku?
„Mín full orka miðast ekki við aðra. Ég er
löngu hætt að bera mig saman við aðra. Orkan
mín er misjöfn en ég er hætt að velta mér upp
úr því. Ég er þakklát fyrir hvern dag sem er
góður og þeir eru það flestir.“
Hvernig hugsar þú um framtíðina, er ótti í
þér?
„Já, ég held það væri óeðlilegt ef það væri
ekki ótti í mér og ég væri þá bara að ljúga ef ég
segði annað. En ég trúi því samt að ég sé kom-
in fyrir vind,“ segir Sirrý.
„Mér hefur liðið í mörg ár eins og það vanti í
kringum mig varnarskjöld. Ef það kemur
högg, fer það beint inn. Kannski má kalla það
heilsufarsótta. Það hefur reynt á taugakerfið
og það er viðkvæmt, en ég hef lagast. En málið
er auðvitað að ég gæti líka orðið fyrir bíl þegar
ég fer að viðra hundinn á eftir. Það er svo
margt sem gæti gerst. Líkurnar aukast alltaf
að ég deyi úr einhverju öðru en krabbameini.
Það er auðvitað það eina sem er víst í þessu lífi,
maður fæðist og maður deyr,“ segir Sirrý og
segist löngu hætt að velta sér upp úr dauð-
anum.
„Þegar ég veiktist í annað sinn las ég á net-
inu að það væru sjötíu prósent líkur á að ég
myndi deyja innan nokkurra ára. En þá voru
þrjátíu prósent líkur á að það myndi ekki ger-
ast, og ég ákvað að veðja á það. Ég ákvað að ég
ætlaði að vera í þrjátíu prósenta hópnum!“
11.4. 2021 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 15
Þann 1. maí munu Sirrý og Snjó-
drífurnar ganga í krafti ríflega
100 kvenna á Hvannadalshnúk,
eða „Kvennadalshnjúk“ eins og
þær kalla tindinn.
Göngukonurnar ganga margar
fyrir ástvin sem fengið hefur
krabbamein og jafnframt hafa
sumar þeirra sjálfar fengið
krabbamein. Hluti þátttöku-
gjalds göngukvenna rennur til
söfnunarinnar. Uppselt er í göng-
una en það er hægt að skrá sig á
biðlista á www.lifskraftur.is.
Hægt er að styðja við Lífskraft
með því að leggja inn á reikning
1161-26-9900, kt. 501219-0290,
eða með AUR-appinu í síma 789
4010.
Einnig er SMS-söfnun í gangi:
LIF1000 sms sent í 1900 = 1.000 kr.
LIF3000 sms sent í 1900 = 3.000 kr.
Allur ágóði rennur til upp-
byggingar nýrrar krabbameins-
deildar á Landspítalanum.
„Kvennadals-
hnjúkur“
„Allt byrjar á einu skrefi,“ segir
Sirrý sem sést hér á Vatnajökli
að nálgast Grímsvötn.
Fjölskyldan dreif sig á gosstöðv-
arnar um daginn. Frá vinstri má
sjá Sirrý, Unu Mattý, Bjarna Gunn-
ar, Heklu Björk, Ágúst og Jens.
’
Það er svo margt sem
gæti gerst. Líkurnar
aukast alltaf að ég deyi úr
einhverju öðru en krabba-
meini. Það er auðvitað það
eina sem er víst í þessu lífi,
maður fæðist og maður deyr.
Ljósmynd/Soffía Sigurgeirsdóttir