Morgunblaðið - 30.10.2021, Qupperneq 42
42 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 30. OKTÓBER 2021
AF BÓKMENNTUM
Silja Björk Huldudóttir
silja@mbl.is
Alls eru fjórtán bækur á átta nor-
rænum tungumálum tilnefndar til
Barna- og unglingabókmenntaverð-
launa Norðurlandaráðs í ár, en verð-
launin verða afhent við hátíðlega
athöfn í Kaupmannahöfn þriðjudag-
inn 2. nóvember í tengslum við 73.
þing Norðurlandaráðs. Í blaðinu á
fimmtudag var sjónum beint að
framlagi Álendinga, Grænlendinga,
Norðmanna, Sama og Svía. Í dag er
komið að framlagi Dana, Finna,
Færeyinga og Íslendinga. Rýnir las
tilnefndu bækurnar á frummálinu
nema annað sé tekið fram. Þess má
geta að í blaðinu í gær var fjallað um
bækurnar sem tilnefndar eru til
Bókmenntaverðlauna Norðurlanda-
ráðs þetta árið sem einnig verða af-
hent á þriðjudaginn kemur.
Eldsumbrot í sálinni
Danir tilnefna annars vegar ung-
lingabókina Vulkan (Eldfjall) eftir
Zakiyu Ajmi og hins vegar mynd-
lýstu barnabókina Ukrudt (Illgresi)
eftir Adam O.
Zakiya Ajmi skrifar af góðu
innsæi og miklu næmi um þær
áskoranir sem unglingsstúlkan
Anna stendur frammi fyrir. Þær
snúa að ástinni og fyrstu kynlífs-
reynslunni, fikti
við vímuefni,
kynferðisofbeldi
og vanda þess að
eignast vini í nýj-
um skóla. Auk
þess burðast
Anna með erfiða
fortíð í farteskinu
þar sem hún hef-
ur ásamt móður
sinni þurft að
flýja ofbeldisfullan föður út af heim-
ilinu og búið í kvennaathvarfi um
skeið áður en bókin hefst. Það er því
ekki skrýtið að Anna skuli strax á
upphafssíðum bókarinnar velta
þyngdaraflinu fyrir sér og þá sér-
staklega hvort það sé alltaf lögmál
að eplið falli nálægt eikinni eða hvort
það gæti hreinlega svifið burt.
Með frumlegum og áhrifaríkum
hætti notar höfundur orðfæri vísind-
anna um jarðhræringar og kviku-
streymi til að lýsa upplifunum og til-
finningum Önnu. Í samskiptum við
bekkjarfélagann Idris finnur Anna
fyrir ákveðnu þyngdarleysi sem
kallast á við ástarfiðringinn í mag-
anum og parkour-loftfimleikana sem
hann stundar og vill gjarnan kenna
henni. Á yfirborðinu er Vulkan
sósíalrealísk unglingasaga, en frá-
bær úrvinnsla höfundar er í senn
symbólísk og ljóðræn.
Brotajárn í menguðum heimi
Ukrudt er síðasta bókin í fram-
tíðarþríleik er nefnist Den rustne
verden (Ryðgaði heimurinn) sem
hófst með bókinni Flugten fra Dan-
mark (Flóttinn
frá Danmörku)
og fylgt var eftir
með Motorhjerte
(Vélhjarta) sem
báðar komu út
2019. Bókaflokk-
urinn gerist í
fjarlægri framtíð
þar sem jörðin er
illa leikin af áhrif-
um loftlagsbreyt-
inga af mannavöldum, en engan skal
undra að það efni brenni á mörgum
höfundum sem skrifa fyrir börn og
ungmenni, því hvers konar heimur
bíður lesenda?
Saga Adams O. hverfist um fjögur
systkini og baráttu þeirra við stór-
fyrirtækið Atlas sem sölsað hefur
undir sig völdin í samfélaginu. Þegar
síðasta bókin hefst stendur það upp
á hina sex ára gömlu Ramonu að
frelsa systkini sín og foreldra (sem
vinna bæði hjá jákvæðniráðuneyt-
inu) úr prísund Atlas. Ramona nýtur
aðstoðar vélmennisins Skrot en þau
eru í kapphlaupi við tímann þar sem
síðasta rafhlaðan hans er að klárast.
Vísanir höfundar í samtímann eru
skýrar allt frá gegndarlausri arð-
semiskröfu stórfyrirtækisins til svo-
nefndra speglabóka sem allir verða
að eignast. Framtíðarsýn höfundar
kallast á við bækur eftir Orwell og
Huxley sem og vinsælar teikni-
myndir á borð við WALL-E, The
Michaels vs. The Machines og Big
Hero 6. Hver kafli hefst á glæsilegri
myndaopnu sem gefur tóninn fyrir
það sem koma skal. Vel er hægt að
lesa Ukrudt eina og sér, en auðvitað
vantar samt ýmis púsl inn í myndina
sem fæst aðeins með því að lesa all-
an flokkinn. Það er því alltaf vanda-
samt að tilnefna einungis eina bók í
seríu og spurning hvort ekki hefði
verið betra að tilnefna heildina.
Vonarglæta á botninum
Að vanda tilnefnda Finnar eina
bók sem skrifuð er á sænsku og aðra
á finnsku. Þetta eru myndabókin
Mitt bottenliv – av en ensam axolotl
(Mitt botnlæga líf – saga einmana
tálknamöndru) eftir Lindu Bonde-
stam og unglingabókin Kesämyrsky
(Sumarstormur) eftir Siiri Enor-
anta, sem rýnir las í sænskri þýð-
ingu Mattiasar Huss.
Líkt og titillinn gefur til kynna
beinir Bondestam sjónum sínum að
raunum
einmana
tálkna-
möndru
sem í upp-
hafi bókar
er sú eina
úr 987
eggjum
sem klakist hefur út og spyr sig eðli-
lega hvort hún sé mögulega sú síð-
asta í heiminum. Meginþráðurinn
snýr að leit dýrsins að öðrum sínum
líkum, en í leiðinni nær höfundur –
ekki síst í frábærum myndum – að
miðla heilmiklum upplýsingum um
stöðu heimsins þar sem hættulegir
skógareldar brenna, mengun ógnar
lífríkinu og sjórinn er fullur af rusli.
Húmor er notaður markvisst til að
vinna á móti myrku umfjöllunarefn-
inu eins og sést skýrt í því hvernig
sjávardýrin nýta ruslið sem ratað
hefur á botninn. Sterkir litir í ásjónu
sögupersóna vinna einnig vel á móti
dökkum bakgrunni. Vonin ræður
ríkjum undir lok bókar þar sem
botnlíf tálknamöndrunnar hefur
breyst í topplíf.
Áfallasaga ungrar stúlku
Skáldsagan Kesämyrsky gerist á
einu sumri í bænum Queensbridge.
Sögutíminn er óræður þar sem
margt í þjóðfélagsumgjörðinni virð-
ist vísa aftur til iðnbyltingarinnar á
meðan annað vísar til framtíðar þar
sem farsímalaust fólk fer á milli
staða í flugvélum knúnum hinu
dularfulla indígó-efni. Beislun efnis-
ins hefur nýst fámennum hópi sam-
félagsins til velsældar en samtímis
aukið misskiptinguna. Á yfirborðinu
er frásögnin knúin áfram af dular-
fullu morði sem hin 12 ára Penelope
varð vitni að, en getur lítið tjáð sig
um. Auðugir foreldrar hennar hafa
ráðið barnageðlækni til að dvelja á
herragarði fjölskyldunnar sumar-
langt til að hjálpa
dótturinni. Með
lækninum í för er
Andrew, 13 ára
sonur hans, sem
er skólabróðir
Josh, eldri bróður
Penelope. Frá-
sögnin er ekki
línuleg og sjón-
arhornið flakkar
sífellt milli barn-
anna þriggja og því þurfa lesendur
að hafa sig alla við til að reyna að
skilja orsakasamhengið.
Hér er á ferðinni myrk saga þar
sem lygar, svik og ofbeldi í sam-
skiptum barna mynda lykilþræði í
flóknum vef. Þetta er annað árið í
röð sem Finnar tilnefna bók þar sem
skrifað er af miklu næmi um sam-
kynhneigð aðalpersóna. Enoranta
beinir sjónum líka með afar góðum
hætti að sálarkreppu stúlku sem
orðið hefur fyrir ítrekuðum áföllum.
Aðgerðaleysið vekur reiði
Yfirvofandi loftslagsbreytingar af
mannavöldum eru lykilþema í ung-
lingabókinni Sum rótskot (Eins og
rótarskot) eftir Marjun Syderbø
Kjelnæs sem er framlag Færeyinga
í ár og rýnir las í danskri þýðingu
Jennyjar Johannessen. Sögumaður
er innhverfa menntaskólastúlkan
Fríða, sem óttast það helst að líkjast
föður sínum sem drakk frá sér konu
og börn. Mikilvægasta manneskjan í
lífi hennar er æskuvinkonan Miriam
sem á ekki langt eftir þar sem hún er
smám saman að
kafna af völdum
slímseigju-
sjúkdóms (Cystic
Fibrosis). Þegar
Miriam er lögð
inn á spítala felur
hún Fríðu að
geyma dagbóka
sína og í gegnum
hana fá lesendur
innsýn í fallega vináttu þeirra og
baráttu fyrir bættum heimi. Þær eru
innblásnar af Gretu Thunberg og
reiðar yfir andvara- og aðgerðaleysi
hinna fullorðnu. Höfundur brennur
greinilega fyrir umfjöllunarefni sínu
og vonast til að geta haft áhrif til
góðs með skrifunum.
Á mörkum staðleysunnar
Framlag Íslendinga þetta árið eru
unglingabækurnar Blokkin á heims-
enda eftir Arndísi Þórarinsdóttur og
Huldu Sigrúnu Bjarnadóttur og
Grísafjörður: Ævintýri um vináttu
og fjör eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdótt-
ur sem myndlýsir eigin bók.
Blokkin á heimsenda gerist í
nálægum hliðarraunveruleika og er
á mörkum staðleysunnar. Dröfn
verður, ásamt foreldrum sínum og
eldri bróður, innlyksa á afskekktri
eyju þar sem föðuramma barnanna
ræður ríkjum og allir íbúar búa í
einu blokkinni
sem á eyjunni er.
Eyjan einangrast
á veturna vegna
loftslagsbreyt-
inga og því ljóst
að Dröfn og fjöl-
skylda hennar
þurfa að þreyja
þorrann við
þröngan kost og
erfið skilyrði.
Íbúar blokkarinnar eru skilgreindir
út frá störfum sínum og þar er ekki
pláss fyrir þá sem þiggja meira en
þeir leggja til samneyslunnar. Þegar
skemmdarverk eru unnin liggja
nýbúarnir undir grun og því brenn-
ur á Dröfn að komast að því hver það
sé sem vilji henni og fjölskyldu
hennar illt. Framvindan er grípandi
og frásögnin lifandi. Höfundar vinna
með góðum hætti úr efnivið sínum
þar sem náttúruvernd, neyslu-
hyggja, stjórnarfar, sjálfstæði og
uppreisn í víðu samhengi eru til
skoðunar.
Víkkar sjóndeildarhringinn
Grísafjörður: Ævintýri um vináttu
og fjör er hjartahlý og húmorísk bók
þar sem sjónum er beint að hamingj-
unni sem leynist í hversdeginum og
litlu hlutunum. Hér kynnumst við
tvíburunum Ingu og Baldri sem eiga
traust og dýrmætt samband þótt
þau séu skemmti-
lega ólík, hún
hvatvís og uppá-
tækjasöm en
hann kvíðinn og
mun varfærnari.
Bókin hefst í
upphafi sumars
þar sem systkinin
láta sig hlakka til
þess að geta
slappað af og horft á teiknimyndir.
Sólarlandaferð er aðeins fjarlægur
draumur þar sem fjárhagsstaða
heimilisins býður ekki upp á það á
kennaralaunum móðurinnar. Hlut-
irnir taka óvænta stefnu þegar
Albert, nágranni þeirra á efstu hæð
blokkarinnar þar sem þau búa, kem-
ur í óvænta heimsókn og deilir sorg-
um sínum. Í ljós kemur að Alma, tví-
burasystir hans, sem siglir um
heimsins höf, er horfin. Eina vís-
bendingin sem hann hefur er póst-
kort þar sem Alma sagðist á leið til
Grísafjarðar. Litla fjölskyldan getur
ekki stillt sig um að hjálpa Alberti
og við tekur ævintýralegur sögu-
þráður sem víkkar sjóndeildarhring-
inn og skapar mikilvægar tengingar
milli einstaklinga.
Í myndefni sínu einskorðar Lóa
Hlín litapallettu sína við fimm liti, en
samt virkar bókin einstaklega litrík
og lífleg. Myndirnar búa iðulega yfir
óvæntum upplýsingum sem ekki er
beint að finna í textanum og bæta
því miklu við lestrarupplifunina.
Bækur sem eiga erindi
Rétt er að geta þess hér í lok
seinni greinarinnar um tilnefndar
barna- og unglingabækur ársins að
þær eru allar, ásamt öllum vinnings-
bókunum frá upphafi, aðgengilegar
almenningi á frummálunum á bóka-
safninu í Norræna húsinu. Vonandi
mun einhver hluti þeirra rata til les-
enda hérlendis í íslenskri þýðingu,
en frá því að Barna- og unglingabók-
menntaverðlaun Norðurlandaráðs
voru fyrst veitt 2013 hafa aðeins
fjórar þeirra rúmlega hundrað bóka
sem tilnefndar hafa verið á öðrum
tungumálum en íslensku komið út í
íslenskri þýðingu. Þetta eru Öll með
tölu eftir Kristin Roskifte frá Noregi
(vann 2019), Tréð eftir Bárð Oskars-
son frá Færeyjum (vann 2018),
Brúnar eftir Håkon Øvreås frá
Noregi sem Øyvind Torseter mynd-
lýsti (vann 2014) og Flata kanínan
eftir Bárð Oskarsson (tilnefnd 2014).
Yfirlýst markmið verðlauna Norð-
urlandaráðs er að auka áhuga á nor-
rænu menningarsamfélagi með því
að vekja athygli á listaverkum sem
skarað hafa fram úr auk þess sem
umhverfisverðlaunin eru veitt fyrir
sérstakt framlag til þess að auka
sjálfbærni á Norðurlöndum. List-
verðlaununum er þannig ætlað að
vekja athygli á kvikmyndum, tónlist,
bókmenntum og tungumálum
grannþjóðanna sem og menningar-
legri samkennd þeirra. Tónlistina
má oftast nálgast á streymisveitum
og Bíó Paradís á hrós skilið fyrir að
hafa á umliðnum árum sýnt til-
nefndu kvikmyndirnar textaðar.
Bækur rata hins vegar sjaldnast til
lesenda utan síns málsvæðis nema
fyrir tilstilli vandaðra þýðinga. Því
er enn fullt tilefni til að skora á jafnt
ráðamenn og útgefendur að huga
betur að þessum málum, enda hafa á
umliðnum árum verið tilnefndar fjöl-
margar afburðabækur sem ættu
fullt erindi við íslenska lesendur.
Seinni kynningin á tilnefndum bókum til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2021
Hvað ber framtíðin í skauti sér?
Ævintýraför
Ramona og
Skrot bjarga
málum.
Hjartahlý Nágrann-
inn í heimsókn hjá
litlu fjölskyldunni.