Nesfréttir - 01.04.2022, Page 20

Nesfréttir - 01.04.2022, Page 20
20 Nesfrétt ir Það er af sem áður var, þegar Seltjarnarnes þótti til fyrirmyndar þegar kom að rekstri og þjónustu við íbúa. Vissir þú til dæmis að bærinn okkar hefur verið rekinn með miklum og sívaxandi halla undanfarin ár? Skuldir á íbúa hafa aukist úr 350 þúsund kr. árið 2014 í 1,3 milljónir árið 2021. Það er afleitur árangur og ekki skrítið að hver höndin sé uppi á móti annarri í Sjálfstæðisflokknum sem farið hefur með öll völd hér á Nesinu á þessu hnignunarskeiði. Ég er nútímakona með þeim hætti að ég rek bæði eigið fyrirtæki og heimili. Þess vegna treysti ég mér vel til þess að fullyrða, að hallarekstur og skuldasöfnun verður að stöðva ef bærinn á að halda sjálfstæði sínu. Viljum við virkilega að vandinn þróist áfram og niðurstaðan verði stækkun á Vesturbæ Reykjavíkur? Kannski þarf meira af hyggjuviti okkar mæðranna sem tökumst á við margháttuð verkefni og viljum gera það vel? Ég heiti því allavega að gera mitt besta fyrir fallega bæinn minn. Hann á það skilið að komast aftur í fremstu röð. Þegar ég flutti á Seltjarnarnesið fyrir rúmum áratug leit ég þannig á að með þeirri ákvörðun væri ég að tryggja börnunum mínum góða menntun, vandað tómstundanám og öruggt samfélag að búa í. Ég var stolt og státaði mig gjarnan af því hversu góð þjónusta væri í bænum. Þá var Seltjarnarnes með hæstu tómstundastyrkina á landinu, boðið var upp á hafragraut á morgnana í grunnskólanum þar sem foreldrar, ömmur og afar gátu setið með börnunum og átt gæðastund fyrir skóla og almennt góðan mat í matartímum. Þjónustan á leikskólanum og skólum var til fyrirmyndar, þótt stundum hefði þurft meira fjármagn til viðhalds og endurbóta. Á öllum skólastigum vann fagfólk sem brennur fyrir starfið og það gaf af sér. Þess vegna er hnignun undanfarinna ára svo sár og áberandi. Sífelldur niðurskurður sem bitnar á smáu sem stóru og leiðir til lakari lífsgæða og minni stemningar meðal bæjarbúa. Margir kennarar lýsa yfir óánægju sinni með starfsumhverfið eins og það er í dag, enda erfitt að blómstra í starfi þegar aðbúnaður og umhverfi er þannig að sífellt sé verið að herða sultarólina. Það bitnar á gæðum kennslunnar og að allir fái jöfn tækifæri til menntunar. Maturinn í skólunum stendur ekki lengur undir væntingum, börn frá efnaminni heimilum fá ekki lengur afgreiðslu í skólamötuneytinu og ekki hefur tekist að standa við loforð um leikskólapláss frá tólf mánaða aldri. Það þarf að ganga í öll þessi verk til þess að endurheimta traust bæði foreldra og fagfólks. Til dæmis er tómstundastyrkurinn hinn sami og árið 2015, þótt verðlag hafi hækkað mikið. Styrkurinn ætti að vera um 65 þúsund krónur. Og þangað ætlum við. Sem rekstrarmanneskja finnst mér merkilegast, að þrátt fyrir allan niðurskurðinn og skerta þjónustu halda skuldirnar áfram að aukast. Ég held að hvert einasta heimili með börn finni fyrir þrengingunum sem sveitarfélagið er í. Það er því augljóst að dæmið gengur ekki upp. Það kostar meira að reka bæinn okkar. Við erum að borga fyrir að halda honum gangandi á þjónustustigi sem við sættum okkur ekki við. Allt tal nýrra fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um óbreytt útsvar eða lækkað er bara ávísun á frekari erfiðleika og verri þjónustu. Við viljum frekar meiri gæði og fá það sem borgað er fyrir. Ég er stoltur Seltirningur og elska bæinn minn. Ég er ekki ein um það að finnast að margt mætti betur fara í bænum okkar. Ég hef raunar heyrt í mörgum bæjarbúum sem telja undanfarin ár hafi fremur einkennst af afturför frekar en framförum. Það auðvitað gengur ekki. Þess vegna gat ég ekki skorast undan að láta til mín taka þegar Framtíðarhópurinn hóf samtal um framfaramál á Seltjarnarnesi. Að baki Framtíðinni stendur hópur Seltirninga með ólíka reynslu og bakgrunn, sem telur að með kjarki, gleði og nútímalegum stjórnunaraðferðum megi móta betra samfélag á Nesinu. Framtíðin býður fram lista til bæjarstjórnar á Seltjarnarnesi í kosningunum 14. maí 2022. Áslaug Ragnarsdóttir framkvæmdastjóri og frambjóðandi í 2. sæti á lista Framtíðarinnar. Viljum við sjálfstætt Seltjarnarnes eða stærri Vesturbæ? Áslaug Ragnarsdóttir. Um og í kringum aldamótin síðustu hafði Seltjarnarnesbær á sér sterka ímynd og var miðbænum með Eiðistorg í broddi fylkingar oft lýst af nágrönnunum í Reykjavík sem stássstofu sveitarfélagsins. Nú er öldin önnur. Á Eiðistorgi hríðlekurinnandyra í almenningi sem notaður er til samkomuhalds. Torgið sem ætti að vera iðandi verslunar­ og þjónustumiðja, minnir helst á draugabæ þar sem ljósin eru slökkt og neglt hefur verið fyrir glugga. Bókasafnið, menningarstofnun bæjarsins, er vel falið og megin inngangur þess í gegnum sérrými verslunarhúsnæðis. Austurströnd er lífvana rými og tengja fæstir hana við miðbæinn þó þar sé að finna miðstöð stjórnsýslu og framlínuþjónustu bæjarins. Aðkoman inn í miðbæinn er jafnframt aðkoman inn í bæjarfélagið. Lítill metnaður hefur verið lagður í hönnun svæðisins þ.e. að gera aðkomu og ásýnd bæjarins sem besta en grjóthleðsla við bæjarmörkin með skildi Seltjarnarness er eina atrennan til þessa. Aðdráttarafl miðbæjarsvæðisins sem viðkomustaður er lítið, hvort sem er fyrir íbúa eða gesti, og því eru forsendur fyrir hverskonar rekstri veikar og hvati verslunar­ og þjónustuaðila til að byggja upp starfsemi sína því lítill sem enginn. Áherslan er auk þess á umferð akandi umferð sem einnig gengur erfiðlega að hemja hraðann á. Því víkur mannlífið. Sterka hugmyndafræði hefur skort um langa hríð um uppbyggingu á miðbæ Seltjarnarness sem endurspeglast í því sem virðist vera tilviljanakenndar skipulagsákvarðanir og metnaðarlaus umhverfismótun. Ábyrgðin liggur víða, en þó helst hjá sveitarstjórn bæjarins sem ber ábyrgð á að skipulag sé hugsað til langs tíma og útfært með almannahag, umhverfi, og öflug rekstrarskilyrði að leiðarljósi. Grundvallargæði miðbæjar felast að miklu leyti í því að í honum fléttast saman margvíslegir þræðir í eina heild. Þræðir sem við hér á Nesinu upplifum í dag sem aðskilda. Þessu ætlar Samfylkingin og óháðir að breyta með því að leita allra leiða til að styrkja miðbæinn sem miðstöð mannlífs, verslunar og þjónustu á sama tíma og við byggjum undir markmið um sjálfbæra þróun á fjölmarga vegu. Við ætlum hefja samtal meðal annars við Haga hf., um þróun á Eiðistorgi þar sem nú eru m.a. bílastæði og/eða endurskipulagningu núverandi húsnæðis. Við viljum stuðla að uppbyggingu sem felur í sér blandaða byggð íbúða, verslunar og þjónustu ásamt stofnunum og viðeigandi atvinnustarfsemi eftir því sem kostur gefst. Við ætlum okkur að reisa nýtt kennileiti með því að gera metnaðarfulla vinningstillögu Andrúm um nýjan leikskóla að veruleika. Við hefjum strax undirbúning að byggingu fyrsta áfanga skólans, á sama tíma og við takmörkum röskun á starfseminni á sjálfum byggingartímanum. Við lítum á fjárfestingu í góðri, aðlaðandi og heilnæmri vinnuaðstöðu fyrir börn og starfsfólk leikskólans sem virðisaukandi fjárfestingu fyrir bæinn til framtíðar hvort sem litið er til umhverfis­, félags­ eða rekstrarlega þátta. Við viljum að helstu umferðarsvæðin þ.e. götuleggirnir að gatnamótum Suðurstrandar og Nesvegs, verði hannaðar sem borgargötur. Slíkt festir í sessi ákveðna framtíðarsýn um tilgang, mikilvægi og útfærslur gatna sem fjölbreytt og lifandi almenningsrými, þar sem húsin og gatan mynda eina heild og áhersla lögð á samræmda yfirborðshönnun. Við munum ásamt því tryggja vandað og öflugt samgöngukerfi fyrir alla samgöngumáta til einkanota, hefðbundið og seinna meir hágæðakerfi almenningssamgangna, þar sem öryggi allra vegfarenda er haft í fyrirrúmi í vistlegu og aðlaðandi götuumhverfi. Við viljum útvíkkað sjónarhorn á miðbæinn með því að skapa öflugar tengingar hans við önnur svæði, sem og flæði inn í og innan hans. Til suðurs með ströndinni viljum við leggja grunn að endurheimt tengsla miðbæjarins við sundlaugina, íþróttahús, Gróttuvöll og heilsugæsluna, áningastaði sem íbúar og gestir sækja til að efla líkamlegt hreysti. Niður að Norðurströnd viljum að aðlaðandi svæði tengi saman bæjarhliðið og Austurstörnd. Við viljum einnig lengja miðbæjarásinn frá Eiðistorgi og upp Nesveginn og efla tengslin við hin andlegu málefni sem felast annarsvegar í náttúrugæðum á Valhúsarðhæðar og hinsvega í kyrrðinni í Seltjarnarneskirkju. Ábyrgð sveitarstjórnarmanna er skýr. Ávinningurinn af markvissri stjórnun líka! Karen María Jónsdóttir 4. sæti á lista Samfylkingar og óháðra. Nýr og spennandi miðbær! Karen María Jónsdóttir.

x

Nesfréttir

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Nesfréttir
https://timarit.is/publication/1112

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.