Morgunblaðið - Sunnudagur - 29.05.2022, Side 14

Morgunblaðið - Sunnudagur - 29.05.2022, Side 14
VIÐTAL 14 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 29.5. 2022 Bréf og kassettur í röðum Í Herranótt Menntaskólans í Reykjavík fékk Heiða dásamlegt tækifæri til að stíga á svið, en hún lék Lýsiströtu í samnefndu verki. „Brynja Benediktsdóttir setti verkið upp en þarna í hópnum voru meðal annars Árni Pétur Guðjónsson, Geir Haarde, Guðrún Péturs- dóttir fyrrum forsetaframbjóðandi, Halldóra heitin Thoroddsen og margt fleira gott fólk.“ Í miðju menntaskólanámi fór Heiða, þá sautján ára gömul, til Bandaríkjanna á vegum AFS sem skiptinemi og var það mikið ævintýri. „Mig langaði og elsku hjartans foreldrar mínir, sem máttu ekki af mér sjá, leyfðu mér að fara. Þá var auðvitað ekki komið neitt net og rándýrt að hringja. Ég talaði bara við þau í síma á afmælinu mínu og á jólunum, en skrif- aði endalaus bréf og talaði inn á kassettur sem sendar voru fram og til baka. Ég frétti það löngu seinna að aðskilnaðurinn hefði verið for- eldrum mínum þungbær, svo mjög að pabbi varð hreinlega veikur. En þau áttuðu sig á því að ég hefði gott af þessu, sem ég hafði svo sannarlega. Gott og gaman,“ segir hún en Heiða bjó hjá prestsfjölskyldu í Minneapolis í Minnesota. „Ég komst líka inn í frábært prógramm hjá Children’s Theatre of Minneapolis, en þarna voru krakkar frá sjö til 21 árs. Ég var þar í leiklistartímum og lék með þeim og þetta gerði útslagið með hvað árið var skemmti- legt,“ segir hún og segist síðan hafa komið heim og náð að klára stúdentinn með sínum árgangi. „Við erum einmitt að verða fimmtíu ára stúdentar. Alveg furðulegt!“ Eftir að Heiða lauk stúdentsprófi var enginn starfandi leiklistarskóli á landinu. Krafan var að ríkið stofnaði slíkan skóla og voru leiklistar- skólar Þjóðleikhússins og Leikfélags Reykja- víkur því lagðir niður. „Ég skráði mig þá í háskólann í ensku og dönsku. Svo fór ég í inntökupróf í skóla í Bret- landi og komst inn í þann fyrsta, sem mig lang- aði líka mest í, The Bristol Old Vic Theatre School, en ég var fyrsti íslenski nemandinn þar. Það var dásamlegur tími.“ Hysterían lá í loftinu Þrátt fyrir að árin í Bristol hafi verið bæði skemmtileg og lærdómsrík, upplifði Heiða líka erfiðleika. „Sumarið áður en ég fór út fékk ég lithimnu- bólgu í augun sem var afskaplega slæm og háskaleg. Úlfar heitinn Þórðarson augnlæknir bjargaði sjóninni minni. Þetta hrjáði mig allt sumarið og á meðan ég var úti í Bristol en þar var ég líka í meðhöndlun á augnspítala. Ég fór líka að fá þvagfærasýkingar og vandamál í lið- um, en maður var svo ungur og vitlaus og það var svo gaman að lifa að ég áttaði mig ekki á því hvað þetta var alvarlegt. Ef lithimnubólga er ekki meðhöndluð getur maður misst sjón- ina,“ segir Heiða og segist hafa gengið á milli lækna þegar hún kom heim og farið í enda- lausar rannsóknir. „Það var alltaf verið að að leita að orsök fyrir bólgunum og allt var myndað og skoðað en ekkert fannst. Ég var farin að kynna mig hjá læknum með því að segja: „Ég heiti Ragnheiður og ég er hysterísk“. En þegar ég var búin að berjast við þetta í sjö ár var ég svo heppin að ungur læknir leit á heild- armyndina og greindi mig með Reiter- sjúkdóm, sem er sjálfsofnæmissjúkdómur,“ segir Heiða og segist hún hafa þurft ítrekað að taka mikið magn af sterum til að halda ein- kennum niðri. „Ég lagaðist svo af þessu eftir langan lyfja- kúr. Það var mikill léttir að vita hvað þetta var og að ég væri hreint ekki hysterísk,“ segir Heiða. „Ég hafði lesið að það að taka lýsi klukku- tíma fyrir máltíð væri svo gott fyrir liðina. Þannig að ég stillti alltaf klukkuna klukkutíma áður en ég þurfti að vakna, hljóp fram og tók lýsið, og svaf svo í klukkutíma í viðbót,“ segir hún og hlær. „Ég gerði þetta lengi og tók lýsisflöskuna með hvert sem ég fór. Ég hef enn tröllatrú á fiskiolíu til heilsubótar.“ Gæti orðið erfiður róður Þegar Heiða kom heim úr námi var komið haust og þegar búið að ráða í öll hlutverk í leik- húsunum. Hún skráði sig þá aftur í háskólann en örlögin gripu í taumana. „Það veiktist yndisleg leikkona sem var að æfa tvö verk hjá Leikfélaginu og ég var beðin um að hlaupa í skarðið. Það var hlutverk í Saumastofunni í Iðnó og Kjarnorku og kven- hylli í Austurbæjarbíói. Og ég hef verið að síðan,“ segir Heiða. „Pabbi reyndi að leiða mér fyrir sjónir að ég gæti orðið hvað sem ég vildi og benti mér á ýmsa spennandi starfsmöguleika. Ég vissi auðvitað sem var að leikarastarfið væri alls ekki fjölskylduvænt, gæti verið líkamlega erf- itt, taugatrekkjandi, atvinnuöryggi lítið og vonbrigðin líklega mörg. Þau mamma studdu mig samt alltaf dyggilega,“ segir hún og segist hafa verið lausráðin hjá Leikfélaginu næstu árin. „Árið 1983 bauðst mér samningur við Þjóð- leikhúsið og ég varð afskaplega glöð. En það fyrsta sem ég gerði var að fá launalaust leyfi til að fara norður og leika Elísu Doolittle í My Fair Lady og Nonni minn kom með og gerði alveg stórkostlega leikmynd“ segir Heiða, en maður hennar var Jón Þórisson, leik- myndateiknari. „My Fair Lady var alveg hrikalega skemmtileg og varð ótrúlega vinsæl. Fólk streymdi að víða af landinu,“ segir Heiða. Sýn- ingin gekk lengi fyrir fullu húsi. Spurð um önnur eftirminnileg hlutverk seg- ir Heiða þau vera orðin æði mörg. Hún nefnir að hlutverkin í Þjóðleikhúsinu sem standa upp úr séu meðal annars burðarhlutverk í söng- leikjunum Gæjum og píum, Óliver, Fiðl- aranum á þakinu og Vesalingunum. „Ég hef samt aldrei lært að syngja og hef oft orðað það þannig að ég sé ágætur „sturtu- söngvari.“ En ég hlýt að minnsta kosti að halda lagi,“ segir hún og hlær. Aðrar eftirminnilegar sýningar eru Rík- harður III þar sem hún lék Önnu prinsessu, Gaukshreiðrið þar sem hún var í hlutverki Ratched hjúkrunarkonu, Taktu lagið Lóa þar sem hún lék Siddý, hún lék Brynju í Í hvítu myrkri, Ömmu mús í Dýrunum í Hálsaskógi, Madame Merteuil í Háskalegum kynnum, Gunnhildi Borkmann í Jón Gabriel Borkmann og Sonju í Laufin í Toskana svo eitthvað sé nefnt. „Svo naut ég líka hverrar mínútu af sam- vinnunni við leikstjórann Stefan Metz í fjórum af þeim fimm verkum sem hann hefur leikstýrt í Þjóðleikhúsinu.“ Frá Iðnóárunum þykir Heiðu vænst um Skáld-Rósu eftir Birgi Sigurðsson og Abbie í Undir álminum eftir Eugene O’Neill. Að loknu þessu leikári lætur Ragnheiður af störfum sem fastráðin leikkona við Þjóðleik- húsið. „Það lá alltaf í loftinu að ég væri hysterísk, en eftir að ég var búin að berjast við þetta í sjö ár var ég svo heppin að einn ungur læknir leit á heildarmyndina og greindi mig með Reiter-sjúkdóm, sem er sjálfs- ofnæmissjúkdómur,“ segir Heiða og seg- ist nú vera heppin með heilsuna. Pálmi Gestsson og Heiða taka sig vel út á svið- inu í Háskalegum kynnum frá 1989. Ljósmynd/Þjóðleikhúsið Ljósmynd/Juliette Rowland Í söngleiknum vinsæla, Gæjum og píum frá árinu 1984, lék Heiða á móti Agli Ólafssyni. Ljósmyndir/Þjóðleikhúsið Foreldrar Heiðu, Steindór og Margrét, á góðri stundu. Vel má sjá að mæðgurnar eru líkar. Heiða leikur nú Frú Bastían í Karde- mommubænum. „Mér finnst mjög gaman að fá að missa andlitið vera breysk, eins og í Vitjunum,“ segir Heiða sem leikur Guðríði í Vitjunum. Hér sést hún leika á móti Helgu Brögu.

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.