Lögmannablaðið - 2021, Blaðsíða 18

Lögmannablaðið - 2021, Blaðsíða 18
18 LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 03/21 IV. FLUTNINGUR MÁLA FYRIR DÓMI Skiptir málflutningur máli? Fyrsta spurningin var um hvort málflutningur skipti raun - veru legu máli og var henni beint til dómar anna í pallborðinu, Sigurðar Tómasar Magnússonar hæstaréttardómara og Eiríks Tómassonar, f.v. hæstaréttardómara. Dómararnir voru sammála um að málflutningur skipti alltaf máli og væri ómissandi þáttur af málsmeðferðinni en hins vegar væri sjaldgæft að málflutningur ylli kúvendingu í afstöðu dómara. Þá voru dómararnir sammála um að það væri jafnan svo að dómarar kæmu inn í málflutning með nokkuð mótaða hugmynd að niðurstöðu málsins, í það minnsta ef að dómarar mættu undirbúnir til leiks. Það væri í raun óeðlilegt að ætla dómara, sem væri búinn að fara vel yfir gögn málsins, að hann væri ekki búinn að mynda sér skoðun á málinu og mögulegri niðurstöðu þess. Það lægi í mannlegu eðli að mynda sér skoðun á þeim álitamálum sem viðkomandi væri að kynna sér. Báðir dómarar ræddu svo um dómarafundi, sem fram fara strax eftir málflutning á æðra dómstigi, sem skerpti þá enn fremur á afstöðu þeirra strax í kjölfar málflutnings og þá væri hin endanlega niðurstaða fædd. Lögmennirnir í pallborðinu, þau Sigríður Rut Júlíusdóttir hjá Rétti, Jóhannes Karl Sveinsson hjá Landslögum og Gizur Bergsteinsson hjá Lagastoð, voru á einu máli um að góður málflutningur einkenndist alls ekki af því að svara öllu sem mögulega varðar málið eða fara yfir það í heild sinni og gleyma engu. Þvert á móti ætti í góðum málflutningi að fókusera á aðalatriði málsins og „pakka þeim inn“ fyrir dómara. Þá kom fram sú spurning hvernig væri þá í raun áhrifaríkur málflutningur og sköpuðust skemmtilegar og fróðlegar umræður um það á pallborðinu. Eftirfarandi punktar komu meðal annars fram: • Vertu þú sjálf/ur, vertu eðlileg/ur í málrómi og hafðu sanngirni í framsetningu að leiðarljósi. • Það virkar ekki að vera með hörku eða stæla og hvað þá vera reiðileg/ur eða í uppnámi. • Fylgstu með málflutningi hjá lögmönnum gagnaðila og reyndu að tileinka þér það besta frá þeim. • Byrjaðu vel, komdu með sterkustu rökin fyrir þínum málstað fyrst. • Ekki byggja ræðu upp eins og stefnuna. • Færðu málið og málflutninginn á þann stað sem þú vilt hafa hann, ekki láta lögmann gagnaðila færa málið til sín. LAGADAGURINN 2021 Málstofan um flutning mála fyrir dómi fór vel af stað á Lagadaginn 2021. Fjölmennt var í salnum og einvalalið í pallborði. Hjördís Halldórsdóttir, lögmaður hjá LOGOS, kynnti þátt takendur og stjórnaði af röggsemi. Enginn var með framsögu en Hjördís varpaði fram spurn ingum sem svarað var sitt á hvað. Náðust á flug mjög góðar umræður með þátttöku allra á pallborðinu, lögmanna jafnt sem dómara. Málstofan skiptist í tvo hluta, annars vegar áttu sér stað skoðanaskipti og umræður um hvað virkar og hvað virkar ekki í málflutningi fyrir dómstólum. Hins vegar var fjallað um málarekstur fyrir yfirdeild MDE og hvað við á Íslandi gætum lært af honum.

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað: 3. tölublað (2021)
https://timarit.is/issue/423809

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.

3. tölublað (2021)

Aðgerðir: