Austurglugginn


Austurglugginn - 18.02.2021, Blaðsíða 6

Austurglugginn - 18.02.2021, Blaðsíða 6
6 Fimmtudagur 18. febrúar AUSTUR · GLUGGINN „Ég er að verða sá síðasti af okkur fréttariturum Morgunblaðsins á Austurlandi. Ætli við séum nokkuð fleiri en fjórir talsins sem eftir erum,“ segir Albert Kemp, eldri borgari á Fáskrúðsfirði, en hann hóf að skrifa fréttir fyrir Morgunblaðið árið 1966. Hefur hann gegnt því starfi óslitið síðan eða í um 55 ár. Albert man því tímana tvenna á löngum og farsælum ferli sínum. Lengst af vann hann sem vélvirki en hann hefur einnig lagt stund á útgerð, tekið virkan þátt í sveitarstjórnarmálum, verið sjúkraflutningamaður og unnið fyrir hið opinbera sem skipaeftirlitsmaður í nær þrjá áratugi, svo fátt eitt sé nefnt. Hvað áhugamálin varðar lagði Albert stund á íþróttir á sínum yngri árum, fótbolta og spretthlaup. Slæm meiðsli í fótboltaleik bundu svo meira og minna enda á þann feril. Kirkjugarður í niðurníðslu Þegar Albert hóf störf fyrir Morgunblaðið voru þeir Matthías Johannessen, Eyjólfur Konráð Jónsson og Styrmir Gunnarsson ritstjórar blaðsins. Hann ber þeim öllum vel söguna. „Ég man að eitt sinn á síðustu öld voru kirkjan hér og kirkjugarðurinn í mikilli niðurníðslu. Ég gerði frétt um það og sýndi prestinum skrifin áður en ég sendi þau suður,“ segir Albert. „Eyjólfur Konráð hringir í mig nokkru síðar og segir að Matthías sé eitthvað ósáttur við fréttina og banni sér að birta hana. Stundum verður maður að sætta sig við slíkt í þessum bransa.“ En Matthías ákvað síðan að kanna þetta mál sjálfur, kom austur með eiginkonu sinni og öðrum sona þeirra og gistu þau hjá Albert. „Við Matthías fórum svo saman í kirkjuna og kirkjugarðinn. Garðurinn var svo illa hirtur að það var varla gangandi milli leiða sökum illgresis,“ segir Albert. „Þegar við komum heim aftur fór Matthías beint í símann og talaði við Eyjólf. Hann skipaði Eyjólfi að birta fréttina mína í blaðinu morguninn eftir og það á blaðsíðu tvö. Blaðsíða tvö var þá helsta fréttasíða blaðsins á eftir baksíðunni. Gamla Morgunblaðið var góður húsbóndi Sem fyrr segir tilheyrir Albert hverfandi stétt, fréttaritari Morgun- blaðsins á landsbyggðinni. „Við vorum hátt í 40 talsins þegar best lét,“ segir Albert. „Við vorum með okkar eigið félag sem hét Okkar menn. Okkur var boðið suður árlega til að eiga fund með helsta tengilið okkar á blaðinu. Ég er enn að senda fréttir til blaðsins en Okkar menn er löngu horfið og okkur sem eftir stöndum er hægt að telja á fingrum annarrar handar.“ Albert segir að Morgunblaðið hafi verið góður húsbóndi á sinni tíð. Þegar hann hóf störf hafi hann ekki rukkað blaðið um greiðslur fyrir skrif sín. Var raunar aldrei að hugsa um slíkt. „Ég var svo staddur í heimsókn á blaðinu einu sinni sem oftar og Þorbjörn Guðmundsson, síðar ritstjórnarfulltrúi, kallar á mig inn á skrifstofu sína. Þorbjörn sá um mál okkar fréttaritaranna á þeim tíma. „Þorbjörn segir við mig að hann hafi tekið eftir því að ég hafi aldrei fengið greitt fyrir fréttir mínar og spyr hverju það valdi,“ segir Albert. „Ég sagðist aldrei hafa farið fram á slíkt. Það þótti Þorbirni ekki gott og hann tók saman upplýsingar um skrif mín og skrifaði svo út ávísun til mín. Ég man að þetta var töluverð upphæð.“ „Það var gott að vinna fyrir Morgunblaðið hér á árum áður og er enn fyrir mig,“ segir Albert og lætur þess getið að hann kunni vel við núverandi ritstjóra Davíð Oddsson. „Ég hef oft gaman af Reykjavíkurbréfunum hans og maður veit alltaf hvenær hann hefur skrifað þau,“ segir Albert. „Og ég skil ekki þetta fár með að fólk les ekki Morgunblaðið af því að Davíð er ritstjóri þar. Það getur bara sleppt því að lesa leiðara og Staksteina og þá ertu með besta fréttablað landsins í höndunum.“ Albert segir að hann hafi þurft að fara suður í jarðarför eftir að Davíð var orðinn ritstjóri. Hann nýtti þá tækifærið til að heimsækja ritstjórnina. „Þegar ég kom þangað inn spurði ég viðstadda hvernig kallinn í brúnni hefði það í dag? Einhverjum þótti það óviðeigandi að tala svona um ritstjórann en einn blaðamannanna sagði mér bara að spyrja hann sjálfan að því og benti á hvar skrifstofa hans væri,“ segir Albert. „Ég tók hann á orðinu, bankaði upp á og gekk inn á skrifstofuna. Þar sat Davíð og sagði mig meira en velkominn. Kvaðst hann vera að skrifa Reykjavíkurbréfið og þyrfti að taka sér pásu frá því.“ Búið alla ævi á Fáskrúðsfirði Albert, sem orðinn er 83 ára gamall, er fæddur og uppalinn á Fáskrúðsfirði og hefur búið þar alla sína ævi, ef frá eru talin fjögur ár í Neskaupstað þar sem hann lærði vélvirkjun. Albert slakar á í stofunni heima eftir langan starfsferil. Mynd FRI Fréttaritari á Fáskrúðsfirði í meira en hálfa öld Albert Kemp

x

Austurglugginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Austurglugginn
https://timarit.is/publication/1687

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.