Austurglugginn - 18.02.2021, Qupperneq 7
AUSTUR · GLUGGINN Fimmtudagur 18. febrúar „Ég var tvítugur þegar ég kláraði
vélvirkjanámið og kom aftur til
Fáskrúðsfjarðar árið 1962,“ segir
Albert. „Eftir námið hóf ég störf hjá
kaupfélaginu, í vélsmiðju þess hér í
bænum. Þar starfaði ég, með hléum,
fram til ársins 1977. Ég fór oft á
sjóinn á þessum árum því ég náði
mér einnig í vélstjórnarréttindi.“
Áður en vinnunni í vélsmiðjunni
lauk var Albert kominn í útgerð í
samvinnu við fjóra aðra menn. Þeir
keyptu saman 150 tonna bát, Önnu
SU 3, og hófu línuveiðar en einnig
netaveiðar og troll.
„Þetta var töluvert basl hjá okkur
á þessum tíma,“ segir Albert.
„Togaravæðingin var komin á fullt
og því erfitt að fá mannskap. Því
ákváðum við að selja bátinn.“
Albert segir að þeir hafi ekki riðið
feitum hesti frá sölunni á bátnum.
„Á þessum árum var verðbólgan á
fullu skriði og sló í 70%. Við seldum
Önnu á 20 milljónir og lánuðum
fyrir kaupverðinu á 10% vöxtum.
Svo fréttum við að ekki mjög löngu
síðar hefði báturinn verið seldur á
70 milljónir.“
Albert bætir því við að Anna SU
3 hafi síðan verið notuð til að veiða
lifandi höfrunga fyrir sædýrasöfn
víða um heiminn.
Eftir að útgerðarævintýrinu
lauk réð Albert sig til Siglinga-
málastofnunnar sem skipa-
eftirlitsmaður og því starfi gegndi
hann næstu 28 árin. Hann var orðinn
69 ára gamall á þeim tíma en ekki
alveg skilinn við vinnumarkaðinn.
„Ég vann sem vitavörður í nokkur
ár á eftir, að vísu í hlutastarfi,“ segir
hann.
Stórslysin minnisstæðust
Allan þennan tíma sem Albert
hefur unnið sem fréttaritari
Morgunblaðsins hefur hann sent
hundruð, ef ekki þúsundir, frétta
frá Fáskrúðsfirði. Það er orðið
auðvelt núna að senda frá sér fréttir
með tilkomu netsins. En það gat
verið flókið og erfitt í gamla daga
þegar samgöngur voru strjálar og
símasamband óöruggt.
„Það var oft meiriháttar mál að
koma myndum, eða filmum, til
blaðsins í Reykjavík, einkum þar sem
flugvöllurinn hér var oft lokaður,“
segir Albert. „Þá þurfti að koma
filmunni upp á Egilsstaðaflugvöll
og í hendur á flugmanni sem var á
leið suður. Filman var síðan sótt út
á flugvöll í Reykjavík.“
Hvað varðar minnisstæða atburði
á ferlinum og fréttir þeim tengdar
segir Albert að stórslysin standi
þar upp úr. Hann nefnir þyrluslysið
árið 1979, þótt enginn hafi slasast
í því, og þegar báturinn Hrönn frá
Eskifirði fórst með öllum um borð.
En það slys sem stendur upp úr
er eitt mannskæðasta sjóslys við
Ísland á seinni tímum, þegar enska
tankskipið Syneta fórst við Skrúð
í mynni Fáskrúðsfjarðar árið 1986
og allir um borð, tólf manns, fórust.
Syneta var að koma frá Liverpool
og ætlaði að taka lýsi um borð á
Eskifirði.
Sáum neyðarblysið um
nóttina
Albert var meðlimur í björgunar-
sveitinni á Fáskrúðsfirði þegar
allsherjarútkall barst eftir að Syneta
sendi frá sér neyðarkall skömmu fyrir
miðnætti aðfararnótt annars dags
jóla. Veður var slæmt, mikið öldurót
og straumur og éljagangur.
„Þegar við fengum útkallið var
sagt að Syneta hefði strandað við
Seley. þegar við keyrðum út með
ströndinni sáum við hinsvegar að
neyðarblysi var skotið upp í grennd
við Skrúð. Skipstjórinn hafði gefið
upp ranga staðsetningu,“ segir
Albert en greinilegt er að þetta situr
enn í honum.
Fram kemur í máli Alberts að
ef rétt staðsetning á strandinu
hefði verið vituð strax hefðu
björgunarmenn sennilega getað
verið á staðnum um hálftíma fyrr
en raunin varð.
„Það var Sæljónið frá Eskifirði
sem fann einn skipverjanna með
lífsmarki en helbláan um þrjúleytið
um nóttina. Læknir var kvaddur
til og hann komst út í Vattanes og
þaðan um borð í Sæljónið. Reynt
var að lífga hann við en skipverjinn
gaf upp öndina skömmu síðar,“ segir
Albert.
Í fréttum frá þessum tíma segir
að sennilega hafi skipstjórinn farið
fjarðavillt í óveðrinu þegar hann kom
að landinu og því gefið upp ranga
staðsetningu í upphafi.
Áhugasamur um frönsku
tengslin
Albert starfaði í hreppsnefnd
Fáskrúðsfjarðar í ein 28 ár. Honum
var, og er, sérlega annt um tengsl
bæjarins við Frakkland og þó
einkum vinabæjatengslin við
bæinn Gravelines sem er í grennd
við Dunkirk. Og ekki má gleyma
endurbyggingu franska spítalans á
Fáskrúðsfirði.
„Þegar Minjavernd tók ákvörðun
um að endurbyggja spítalann árið
2008 hafði húsið staðið í eyði í
nærri fimmtíu ár og var eiginlega
að hruni komið,“ segir Albert. „Það
var bútað niður og flutt í hlutum
frá Hafnarnesi og að hafnarsvæðinu
á Búðum áður en því var fundinn
staður við Hafnargötu.“
Albert segir að hann hafi fylgst
grannt með endurreisn spítalans á
sínum tíma og skrifað fréttir um
hana í Morgunblaðið. Hann telur
stórmerkilegt hve vel tókst til miðað
við hve húsið var illa farið.
Hvað vinabæjatengslin við
Gravelines varðar hlaut Albert
heiðursviðurkenningu frá frönskum
stjórnvöldum fyrir vinnu sína við
að koma þeim á fót og viðhalda í
gegnum árin. Á skjali sem fylgdi
með stendur Ordre National du
Merite og hangir það innrammað
á vegg við innganginn. Albert er
greinilega stoltur af þessum heiðri
og bendir á að skjalið er undirritað
af Jacques Chirac, þáverandi forseta
Frakklands.
„Það var haldin mikil veisla þegar
þetta heiðursskjal var afhent,“ segir
Albert. „Franski sendiherrann kom
hingað austur til að afhenda skjalið
og ég man að ég mátti bjóða tuttugu
manns í þessa veislu.“
Björt framtíð
Albert fylgist enn grannt með
bæjarmálunum á Fáskrúðsfirði og
hann telur framtíð bæjarins bjarta í
augnablikinu.
„Þetta breyttist allt með komu
álversins í Reyðarfjörð,“ segir Albert.
„Maður spyr sig eiginlega hvar við
værum stödd atvinnulega ef álverið
hefði ekki komið til.“
Hann nefnir einnig sem dæmi að
Loðnuvinnslan hafi á undanförnum
árum byggt mikið upp í kringum
sína starfsemi og farið í töluverða
endurbyggingu á sumum húsa sinna.
Loðnuvinnslan hefur einnig styrkt
mjög innviði sína á þessum tíma.
Fleiri fyrirtæki hafi einnig staðið í
framkvæmdum og ný komið í bæinn.
Þannig megi til dæmis benda á
fyrirtækið Responsible Foods sem
er að koma þar upp verksmiðju
til framleiðslu á heilsunasli úr
sjávarafurðum. Loðnuvinnslan hefur
fjárfest í þeirri starfsemi.
„Það má einnig nefna að margir
eru núna að hugsa sér til hreyfings
í byggingu á íbúðarhúsnæði þannig
að óhætt er að segja að framtíðin
sé björt hér á Fáskrúðsfirði,“ segir
Albert.
Skrif Alberts í gegnum tíðina lifa
áfram en hann hefur haldið saman
úrklippum úr Morgunblaðinu með
skrifum sínum og þær koma núna að
góðum notum við sagnaritun.
„Hann Smári Geirsson í
Neskaupstað er að skrifa sögu
Fjarðabyggðar og hann hafði
samband við mig af því tilefni,“ segir
Albert. „Það varð úr að hann hefur
aðgang að öllum mínum skrifum í
gegnum tíðina.“
FRI
Ásamt eiginkonu sinni Þórunni Pálsdóttur. Mynd FRI
Heiðursskjalið sem hangir upp á vegg hjá Albert. Mynd FRI