Austurglugginn - 22.07.2021, Blaðsíða 6
6 Fimmtudagur 22. júlí AUSTUR · GLUGGINN
„Ég var með bókasafnið í
kjallaranum hjá mér en er búin
að flytja það á skrifstofuna,“ segir
Rósa Björg Jónsdóttir sem forseti
Íslands sæmdi Fálkaorðunni
nýlega. Hún bætir því við að hún
eigi rúmgóðan kjallara.
Við hittum Rósu á umræddri
skrifstofu á rólegum laugardegi.
Eitt af sjálfboðaliðastörfum Rósu
er starf aðalræðismanns Ítalíu á
Íslandi og fylgir skrifstofan starfinu.
Allir veggir skrifstofunnar eru þaktir
bókahillum með barnabókum á
erlendum tungumálum.
Rósa lætur þess getið að á
skrifstofunni sé að finna um 7.300
bækur á yfir 85 tungumálum.
Hún fékk Fálkaorðuna fyrir
sjálfboðaliðastörf í þágu Móðurmáls,
samtaka um tvítyngi, en á þeirra
vegum hefur hún skráð og miðlað
barnabókum á öðrum tungumálum
en íslensku. Rósa Björg er
varaformaður samtakanna og veitir
bókasafni þeirra forstöðu. Hún hefur
starfað í þágu samtakanna í meir en
áratug.
Flutti ung suður
Rósa Björg Jónsdóttir er
menntuð sem bókasafns- og
upplýsingafræðingur og starfar
sem sérfræðingur í skráningu á
Landsbókasafni Íslands.
Rósa er fædd árið 1972 og ólst upp
á Eskifirði en hefur frá unglingsárum
búið í Reykjavík.
„Ég var hörð á því sextán ára
gömul að ég vildi fara í nám í
Verzlunarskólanum. Ég hafði engan
áhuga á því að fara á heimavist,“
segir Rósa. „Það varð því úr að
mamma og pabbi fluttu með mér
suður sem er svolítið sérstakt en ég
er einbirni. Amma og afi áttu íbúð í
Vesturbænum og við fluttum fyrst í
hana svo ég gæti haft heimili meðan
á náminu stóð. Foreldar mínir
keyptu svo íbúð í Vesturbænum
þannig að við höfum alltaf búið þar
í Reykjavík. Þegar ég svo keypti íbúð
fyrir nokkrum árum var það í næstu
götu við þau.“
Fram kemur í máli Rósu að meðan
á dvölinni stóð í Verzlunarskólanum
hafi hún unnið með náminu á
bókasafni skólans þar til hún
útskrifaðist 1992 og raunar einnig
eftir útskriftina.
„Sú vinna varð meðal annars til
þess að ég fór í bókasafnsfræðinám
í Háskóla Íslands,“ segir Rósa en
hún útskrifaðist frá háskólanum árið
1997.
Til Ítalíu gegnum Eramus
Fyrstu kynni Rósu af Ítalíu voru sem
skiptinemi í eitt ár á háskólastigi
gegnum Erasmus. Ég tók ítölsku sem
aukafag sem ég lærði í háskólanum í
Pavia á Ítalíu.
„Ég valdi Ítalíu vegna þess að mig
langaði að prófa nýtt tungumál. Ég
lærði bæði frönsku og þýsku auk
latínu í Verslunarskólanum,“ segir
Rósa. „Ég var í þessu námi í bænum
Pavia í Lombardíhéraði og það var
mjög skemmtileg lífsreynsla. Ég
er enn í sambandi við vini sem ég
eignaðist á þessu ári.“
Rósa segir að í Pavia hafi
verið mikilvægast að ná tökum á
ítölskunni en það er mál sem ekki
er auðvelt að læra.
„Ítalir eru lítt gefnir fyrir að nota
ensku í samskiptum við útlendinga
jafnvel þótt þeir kunni hana,“ segir
Rósa. „En þetta gekk ágætlega hjá
mér.“
Rósa bætir því við að hún sé enn í
samskiptum við um tuttugu manns
frá þessum tíma. Þau mynda hóp á
netinu og eru dugleg í samskiptum
á þeim vettvangi.
„Í gegnum árin hef ég svo oft hitt
einstaklinga úr þessum hóp á ferðum
erlendis og þau hafa hitt mig ef þau
eru á ferð hérlendis,“ segir hún.
Flutti heim korteri fyrir
hrun
Eftir dvölina í Pavia kom Rósa aftur
heim til Íslands og kláraði námið við
háskóla. Eftir útskrift ákvað Rósa að
flytja aftur til Ítalíu. Hún settist að í
bænum Treviglio sem taldi þá um 25
þúsund manns en bærinn er einnig
í Lombardíhéraði. Þar bjó hún með
ítölskum sambýlismanni sínum en
þau slitu svo sambúð 2008.
Rósa segir að í upphafi hafi hún
unnið á bæjarbókasafni Treviglio
og síðan bætt við sig verkefnum
fyrir önnur bókasöfn. Síðan þegar
börnin komu til sögunnar var hún
heimavinnandi.
„Árið 2000 fæddist dóttir mín
Aurora Erika og 2002 sonur minn
Aron Flavio, svo í júní 2008 fluttum
við til Íslands.“ segir Rósa. „Ég kom
heim svona korteri fyrir hrunið en
var svo heppin að fá strax vinnu við
bókasafnið í Verzlunarskólanum. Og
ég fékk inni hjá pabba og mömmu
með börnin mín tvö.“
Allir veggir skrifstofunnar eru notaðir undir bókasafnið. Mynd FRI
Frá veitingu Fálkaorðunnar. Rósa Björg er þriðja frá hægri. Mynd aðsend
Bókasafnið úr kjallaranum og á skrifstofuna
Rósa Björg Jónsdóttir sæmd Fálkaorðunni